Næstum var skollin á nótt þegar þeir komu yfir ána. Vindurinn greiddi í sundur grá skýin og tunglið birtist yfir hæðunum og óð milli tættra stormskýjanna. Þeir námu staðar og Þorinn tuldraði eitthvað um kvöldmat „og hvar getum við fundið þurran blett til að sofa á?“
Þá fyrst uppgötvuðu þeir að Gandalfur var horfinn. Allt fram að þessu hafði hann orðið þeim samferða, án þess að útlista fyrir þeim hvort honum þætti gaman að svona ævintýrum eða vildi bara halda félagsskap við þá um sinn. Hann hafði étið mest, talað mest og hlegið hæst. En nú var hann þar einfaldlega hvergi að finna.
„Þegar þörfin er mest, lætur vitkinn sig hverfa,“ nöldruðu þeir Dóri og Nóri (en þeir voru sammála hobbitanum, um að máltíðir ættu að vera sem tíðastar og ríkulegastar).
Loks komust þeir að þeirri niðurstöðu að best mundi vera að búa sér náttból þar sem þeir voru niður komnir. Þeir færðu sig inn undir trjáþyrpingu af því að þeir héldu að þurrara væri í skjóli þeirra, en vindurinn hristi vætuna af laufunum og dropafallið var mjög óþægilegt. Það var líka eins og einhver fjandinn hefði hlaupið í brennið. Dvergar geta kveikt upp eld næstum hvar sem er og úr hverju sem er og skiptir engu máli hvort það er vindur eða vindleysa en þessa nótt var það svo merkilegt að það vildi ekkert brenna, ekki einu sinni hjá Óni né Glóni sem þó voru sannkallaðir uppkveikjumeistarar.
Þá fældist einn jálkurinn út af engu og æddi af stað. Hann lenti úti í ólgandi ánni áður en þeim tækist að stöðva hann og þegar þeir voru að bjarga honum í land munaði minnstu að Fjalar og Kjalar drukknuðu, en allur farangurinn sem hann bar kastaðist af honum og flaut niður flauminn. Auðvitað voru það að mestu leyti matvæli svo nú var ósköp lítið afgangs til að hafa í kvöldmat, hvað þá í morgunmat.
Þar sátu þeir allir daufir í dálkinn, hundblautir og nöldrandi, meðan Óinn og Glóinn héldu áfram að reyna að kveikja upp og gátu ekki komið sér saman um hvað til þess þyrfti að gera. Bilbó var dapur að melta það með sér að ævintýri eru ekki eintómir unaðslegir útreiðartúrar í maísólinni, þegar Balinn sem alltaf var þeirra vakandi auga sagði: „Þarna yfir frá er ljós!“ Það kom frá hæð drjúgan spöl í burtu, þéttvaxinni skógi. Út úr miðjum skógarsortanum sáu þeir rofa í ljósið, rauðleitt og notalegt, gæti verið varðeldur eða blaktandi blys.
Eftir að hafa virt ljósið fyrir sér um stund upphófst deila milli þeirra. Sumir sögðu „nei“ aðrir sögðu „víst“. Sumir töldu sjálfsagt að fara og skoða ljósið, það væri þó altént betra en að sitja matarlausir bæði um kvöldið og morguninn eftir og geta ekki þurrkað af sér fötin í heila nótt.
Aðrir settu sig upp á móti því: „Við þekkjum ekkert til hér um slóðir og erum þar að auki alltof nálægt fjöllunum. Hér er fáfarið, gömlu kortin eru gagnslaus: Allt hefur þróast hér til hins verra og enginn fylgist með vegunum. Ekki hefur spurst til neins konungs hér um slóðir. Við ættum sem minnst að skipta okkur af því sem hér er á seyði, svo við lendum ekki í vandræðum.“ Hinir svöruðu þá aftur: „Við erum þó að minnsta kosti fjórtán fílefldir garpar saman.“ Við því var bara svarið: „Hvert hefur Gandalfur farið?“ Og undir það gátu allir tekið. Í því kom hellidemba og Óinn og Glóinn fóru að slást út af íkveikingunni.
Þá fannst þeim nóg komið. „Þegar allt kemur til alls höfum við innbrjót með okkur,“ sögðu þeir; og að svo mæltu lögðu þeir af stað, teymdu hestana (varlega) í áttina að ljósinu. Brátt komu þeir að hæðinni og héldu inn á milli trjánna. Áfram örkuðu þeir upp hlíðina en hvergi var að sjá neinn stíg að húsi eða bændabýli. Þeir gátu ekki komið í veg fyrir glymjandi brak og bresti undir fótum (ásamt bölvi og ragni) þar sem þeir bröltu milli trjánna í kolniðamyrkri.
Allt í einu bjarmaði af rauðu ljósinu milli trjástofna skammt framundan.
„Nú er komið að innbrjótnum,“ sögðu þeir og áttu við Bilbó. „Þú verður að laumast til og gá að ljósinu, hvernig á því stendur og hvort okkur sé óhætt að koma nær,“ sagði Þorinn við hobbitann. „Skjóstu nú af stað og komdu fljótt aftur ef öllu er óhætt. Ef ekki, komdu þá líka aftur ef þú getur! Ef þú átt í vanda skaltu væla tvisvar eins og turnugla og einu sinni eins og brandugla, og við sjáum hvað við getum gert.“
Bilbó átti sér engrar undankomu auðið og fékk ekki færi á að útskýra að hann kynni ekki fremur að væla eins og ugla, en að fljúga eins og leðurblaka. En hitt er víst að hobbitar kunna að læðast hljóðlega um skóga, svo hljóðlega að bókstaflega ekkert heyrist. Þeir eru stoltir af færni sinni í að láta lítið á sér bera og hneykslaðist Bilbó ekki lítið á leiðinni af því sem hann kallaði „dvergagauragang“. Hitt er svo annað mál, að ég get varla ímyndað mér að þú eða ég hefðum á slíkri slagveðursnóttu orðið vitund varir við, þótt allur hópurinn hefði farið rétt framhjá nefinu á okkur. En Bilbó fór svo hljóðlega í áttina að rauða ljósinu, að ég býst varla við að einu sinni skógarmús hefði rumskað við það né hreyft minnsta veiðihár. Svo það var í sjálfu sér ekki mikill vandi fyrir hann að komast alveg að eldinum – því að eldur var það – án þess að nokkur yrði hans var. Og hvað haldiði að hann hafi séð?
Þrír feiknarlegir beljakar sátu þar í kringum stórt bál úr beykikubbum. Þeir voru að steikja kindakrof á löngum trjáteini og sleiktu feitina með puttunum. Steikarilmurinn var gómsætur og þeir höfðu með sér ámu af öli og drukku úr krúsum. Þetta voru tröll. Greinilega ekkert annað en tröll. Bilbó var ekki í nokkrum vafa um það, þótt hann hefði sjaldan farið langt heiman af bæ. Hann þekkti þau af stórskornu andlitinu og líkamsstærðinni og klunnalegum löppunum og ekki síst af málfarinu, sem var ekkert hispursmeyjatal, öðru nær.
„Rollukjöt í gær, rollukjöt í dag og fjandinn hafi það, ætli það verði ekki sami rollurassinn á morgun,“ sagði eitt tröllið.
„Aldrei höfum við fengið langalengi minnsta bita af almennilegu mannakjöti ,“ sagði annar. „Hvern fjandann sjálfan var Villi að gera með að draga okkur inn á þessar slóðir, það er óskiljanlegt — og það sem verra er, það er farið að minnka um drykkinn,“ sagði hann og hnippti í olnbogann á Villa, sem var að súpa á kollunni sinni.
Villa svelgdist á. „Haldiði kjafti!“ sagði hann þegar hann náði andanum. „Þú getur nú ekki búist við því að fólk bíði hér endalaust eftir ykkur, bara til þess að láta þig og Berta éta sig. Ég veit heldur ekki betur en að þið hafið fengið heilt þorp og hálft í viðbót í svanginn, síðan við komum niður úr fjöllunum. Hvað meira getiði heimtað? Ég man nú ekki betur en þið hafið fyrst verið ánægðir og sagt „þakka þér Villi“ fyrir spikfeitar Dalarollur eins og þetta krof.“ Svo tók hann sér slummungsbita úr læri kindarinnar sem hann var að steikja og þurrkaði sér um varirnar á erminni.
Já, ég er nú hræddur um að tröll hegði sér svona, jafnvel þau sem aðeins eru einhöfða. Eftir að Bilbó hafði heyrt þetta til þeirra, þurfti hann að bregða skjótt við. Hann átti um tvo kosti að velja: Annaðhvort átti hann að snúa aftur til baka hljóðlega og vara vini sína við, að hér væru talsvert stór tröll í svo leiðu skapi, að þau væru vís til að vilja steikja dverg eða hest til að fá tilbreytingu í mataræði. Eða ætti hann kannski að sýna innbrjótshæfileika sína með því að stela einhverju frá tröllunum. Fyrsta flokks þjófur í þjóðsögunum myndi stela einhverju úr vösum tröllanna — alltaf er eitthvað upp úr því að hafa, ef vel tekst til, eða ætti hann að hnupla kjötinu af teininum, eða labba sig burt með ölið, án þess að þeir tækju eftir því. Aðrir hagsýnni og óskammfeilnari alvöruþjófar hefðu sjálfsagt stungið tröllin rýtingi á hol, án þess að þau yrðu þess vör. Þá gæti orðið glatt á hjalla hjá þeim um nóttina.