Выбрать главу

Bilbó vissi það allt af þjóðsögum. Hann hafði lesið um svo ótal margt sem hann hafði hvorki séð né upplifað. Hann var bæði dauðhræddur við tröllin og hafði ógeð á þeim. Hann vildi óska að hann væri hundrað mílur í burtu, og þó – og þó, einhvernveginn gat hann ekki fengið sig til að snúa beint aftur til Þorins og félaga tómhentur. Svo hann stóð kyrr og dokaði við í skugganum. Af þeim spurnum sem hann hafði af þjófnaðar- og hvinnskufræðum, var það auðvitað auðveldasta kúnstin að stela úr vösum trölla, svo loksins ákvað hann að laumast á bak við tréð sem Villi þessi hallaði sér upp að.

Berti og Þumbi gengu að ámunni. Villi var í miðju kafi að súpa á. Þá herti Bilbó sig upp og þreifaði með smárri hendinni í risastóran vasa Villa. Víst fann hann buddu í honum, á stærð við heila tösku að því er Bilbó fannst. „Haha!“ hugsaði hann með sér og naut þess hvað hann stóð sig vel í þessu nýja starfi um leið og hann lyfti buddunni varlega upp. „Þetta er þó altént góð byrjun!“

Já, víst var það byrjun, en gallinn er bara sá að buddur trölla eru mestu ólíkindatól og þessi var engin undantekning. „Hæ! Hver ert þú?“ skrækti buddan upp yfir sig um leið og hún kom upp úr vasanum. Og Vilhjálmur sneri sér snöggt við og þreif Bilbó hálstaki, áður en hann gæti skotist bak við tréð.

„Skrattinn sjálfur, Berti, sjáðu hvað ég klófesti!“ sagði Vilhjálmur.

„Hvað er það?“ sögðu hinir og færðu sig nær.

„Skrattinn ef ég veit það! Hvað ertu?“

„Bilbó Baggi, og ég er Innbr — hobbiti,“ sagði vesalings Bilbó skjálfandi á beinunum og velti því mest fyrir sér hvernig hann ætti að fara að því að væla eins og ugla, áður en þeir kyrktu hann.

„Hva, innbrobbiti?“ sögðu þeir undrandi. Tröll eru sein að skilja en ákaflega tortryggin á allt sem er nýtt og óþekkt.

„Hvað er innbrobbiti að flækjast oní mínum vösum,“ sagði Villi.

„Ætli sé hægt að sjóða það?“ spurði Þumbi.

„Það má reyna það,“ sagði Berti og rétti honum pott

„Þetta er nú ekki einu sinni munnfylli,“ sagði Villi, sem áður var orðinn pakksaddur af ágætum kvöldverði, „ekki þegar búið er að flá það og úrbeina.“

„En kannski eru fleiri á næstu grösum svo við getum gert úr þeim kássu,“ sagði Berti. „Heyrðu þú þarna, eruði fleiri að læðast um hér í skóginum, bölvað litla nagdýrið þitt,“ sagði hann og varð litið á loðna fætur hobbitans og þreif hann upp á tánum og hristi hann.

„Já, margir,“ slapp út úr Bilbó áður en honum hugnaðist að hann mátti ekki koma upp um vini sína, „nei, engir neinir,“ tók hann sig strax á.

„Hvað meinarðu?“ sagði Berti og hafði nú endaskipti á honum og hélt honum uppi á hárinu.

„Það sem ég segi,“ sagði Bilbó og tók andköf. „Og ekki sjóða mig, góðu herrar! Ég er sjálfur alvanur matreiðslumaður og það er betra að láta mig sjóða en að vera soðinn sjálfur, ef þið skiljið hvað ég meina. Ég skal matreiða dásamlega fyrir ykkur, gera ykkur frábæran morgunmat, ef þið bara hafið mig ekki í kvöldmat.“

„Vesalings litli ræfillinn,“ sagði Villi. Sjálfur var hann pakksaddur og hafði auk þess svolgrað bjórinn stíft. „Vesalings ræfillinn, sleppum honum bara!“

„Ekki fyrr en hann útskýrir hvað hann á við með að margir og engir neinir, séu á sveimi hér í kring,“ sagði Berti. „Ég kæri mig ekkert um að láta skera mig á háls í svefni. Stingum tánum á honum í eldinn, svo hann leysi frá skjóðunni.“

„Ég vil ekki hafa það,“ sagði Villi. „Það var nú einu sinni ég sem klófesti hann.“

„Þú ert nú bara feitur fábjáni Villi,“ sagði Berti, „eins og ég sagði áður í kvöld.“

„Og þú ert bölvaður asnakjálki!“

„Ég sætti mig nú ekki við annað eins frá þér Villi Hlunkur,“ sagði Berti og rak hnefann í augað á Vilhjálmi.

Nú upphófst stórfengleg rimma. Bilbó átti enn til nóg snarræði, þegar Berti sleppti honum til jarðar, til að krafla sig burt frá fótunum á þeim, áður en þeir fóru að slást eins og hundar og kalla hver annan hárri raust allskyns meira og minna réttum ónefnum. Brátt ultu þeir læstir í fangbrögðum næstum inn í eldinn, sparkandi og berjandi, meðan Þumbi lét höggin dynja á þeim með trjágrein til að stilla þá — sem varð auðvitað aðeins til að gera þá enn brjálaðri.

Þá hefði Bilbó kannski átt að nota tækifærið til að koma sér undan. En hann hafði kramist illa á litlu spóafótunum sínum í fastri greip Berta og gat auk þess varla náð andanum og snarsvimaði, svo hann lá þarna bara lafmóður rétt utan við eldbjarmann.

Rétt þegar áflogin stóðu sem hæst kom Balinn á vettvang. Dvergarnir höfðu heyrt einhvern hávaða í fjarska. Þeir biðu um sinn eftir því hvort Bilbó sneri aftur, eða gæfi frá sér ugluvælið, en síðan tóku þeir hver á eftir öðrum að mjaka sér nær bálinu eins hljóðlega og þeir gátu. Ekki hafði Þumbi fyrr séð Balin koma inn í birtuna en hann rak upp ógurlegt öskur. Tröll eru með þeim ósköpum gerð, að þau þola ekki að sjá dverga (ósoðna). Og eins og við tröllið mælt steinhættu Berti og Villi að slást, og „komdu með poka Þumbi, strax!“ sögðu þeir. Og Balinn, sem var aðeins að skyggnast um eftir Bilbó í öllu þessu þvargi, vissi ekki af sér fyrr en poka var steypt yfir hausinn á honum, síðan höfð endaskipti á og bundið fyrir.

„Fleiri fylgja á eftir,“ sagði Þumbi, „annars er ég illa svikinn. „Nú skil ég margir og engir neinir,“ sagði hann. „Engir fleiri svona Innbrobbitar, en margir svona dvergar. Þar hitti ég naglann á hausinn.“

„Vísast er það rétt,“ sagði Berti. „og við ættum þá að fara út úr birtunni og sitja fyrir þeim í skugganum.“

Og svo gerðu þeir. Þeir tóku nokkra poka sem þeir annars notuðu til að bera í sauði eða annan ránsfeng og lögðust í leyni. Svo þegar dvergarnir nálguðust hver á eftir öðrum, gláptu í eldinn og sáu ekkert nema bjórkollurnar sem lágu á hliðinni og hálfnagaðar hnúturnar, urðu þeir fyrir heldur en ekki óvæntri reynslu, plúmp! og daunillum myglusekk var skellt yfir þá og snúið við og bundið fyrir. Brátt lágu þeir saman Dvalinn og Balinn, Fjalar og Kjalar og Dóri og Nóri og Óri allir í einni bendu og enn bættust við Óinn og Glóinn og Bifur og Bógur og Vambi og var þeim síðustu kastað niður ónotalega nærri eldinum.

„Það er líka rétt á þá,“ sagði Tröllið Þumbi, því að Bifur og Vambi höfðu verið sérstaklega erfiðir viðureignar og barist sem brjálaðir eins og margir dvergar gera þegar þeir komast í hann krappan.

Síðastur allra kom Þorinn – og hann lét ekki koma sér í opna skjöldu heldur var viðbúinnöllu hinu versta og þurfti ekki annað en að sjá fæturna á félögum sínum standa út úr pokum til þess að gera sér grein fyrir að eitthvað væri öðruvísi en það ætti að vera. Hann stóð í skugganum álengdar og sagði með sjálfum sér: „Hvaða ósköp eru hér á seyði? Hver hefur verið að misþyrma mínu fólki?“

„Það eru tröll!“ hvíslaði Bilbó þaðan sem hann leyndist bak við tré, en tröllin voru nú alveg búin að gleyma honum. „Þau leynast í kjarrinu og hafa poka með sér,“ sagði hann.