„Ó, er það virkilega?“ sagði Þorinn og stökk í einu vetfangi að eldinum, áður en hinir gátu gómað hann. Þar tók hann upp trjágrein logandi í endann og keyrði glóðina í aðra glyrnuna á Berta, áður en hann gæti vikið sér undan, svo hann var úr leik í bili. Bilbó lét þá heldur ekki sitt eftir liggja. Hann greip í löppina á Þumba eftir því sem hann gat, en hún var gild sem trjábolur — en samstundis endasentist hann fljúgandi upp trjálimið, þegar Þumbi ætlaði að sparka logandi gneistunum í andlitið á Þorni.
Fyrir vikið fékk Þumbi trjágreinina á kjaftinn svo úr honum brotnaði ein framskeglan. Við það fór hann að væla ógurlega eins og aumingi, það segi ég satt. En í sama bili bar Vilhjálm að aftan frá og hann smeygði poka beint yfir hausinn á Þorni og alla leið niður að tám. Þannig endaði sá bardaginn. Nú lágu þeir aldeilis í súpunni, eða réttara sagt pokunum, allir rækilega bundnir með þrjú fárreið tröll (og sum áttu þeim bruna og barsmíðar að gjalda) standandi yfir sér og voru þau nú aðeins farin að deila um það hvort fremur ætti að steikja þá yfir hægum eldi, höggva þá í spað og sjóða þá eða einfaldlega að hlamma sér niður á þá hvern á fætur öðrum og kremja þá í kássu. Á meðan sat Bilbó uppi í trjáliminu rifinn á fötum og skinni og þorði sig ekki að hræra af ótta við að tröllin myndu eftir honum.
Á þeirri stundu sneri Gandalfur aftur, án þess að nokkur yrði hans var. Þá voru tröllin loksins búin að koma sér saman um að réttast væri að steikja dvergana snöggvast og éta þá seinna — það var upphaflega hugmynd Berta og eftir miklar deilur féllust hinir á það.
„Onei, það er lítið gagn í að steikja þá núna, það tekur alla nóttina,“ sagði rödd. Berti hélt að það væri Vilhjálmur.
„Farðu nú ekki aftur að rífast, Villi,“ sagði hann, „það tekur alla nóttina.“
„Hver er að rífast?“ sagði Villi, sem hélt að Berti ætti röddina.
„Það ert þú,“ sagði Berti.
„Þú lýgur því,“ sagði Villi og þannig byrjaði rifrildið upp á nýtt. Eftir mikið jag urðu þeir þó ásáttir um að höggva þá í smáspað og sjóða úr þeim súpu. Svo að þeir drógu fram stóran svartan pott og drógu fram söxin.
„Nei, það er ómögulegt að sjóða þá! Við höfum ekkert vatn og það er svo langt í brunninn og allt ómögulegt,“ sagði röddin. Berti og Villi héldu að það væri Tumbi Þumbi.
„Haltu þér saman!“ sögðu þeir, „eða við komumst aldrei að verki. Og þú getur sjálfur sótt vatnið, ef þú ert alltaf með kjaftinn upp í raftinn.“
„Haldiði sjálfir kjafti,“ sagði Þumbi sem hélt að þetta væri rödd Vilhjálms. „Hver er nú að rífast nema þú. Það þætti mér gott að vita.“
„Þú ert alger blábjáni,“ sagði Villtruntur.
„Þú ert bjáni sjálfur!“ svaraði Þumbi.
Og þannig magnaðist rifrildið stig af stigi og varð æstara en nokkru sinni, þangað til þeir komu sér saman um að hlamma sér bara á pokana hvern á fætur öðrum og kremja þá fyrst og sjóða þá einhvern tímann seinna.
„Hvern eigum við þá fyrst að setjast á?“ sagði röddin.
„Réttast væri að setjast fyrst á þann síðasta,“ sagði Berti, en Þorinn hafði einmitt sviðið hann á auganu. Hann hélt að Þumbi hefði verið að tala.
„Vertu ekki að tala við sjálfan þig!“ sagði Þumbi. „En ef þú vilt setjast á þann síðasta, blessaður gerðu það. En hver þeirra er hann?“
„Það var þessi í gulu sokkunum,“ sagði Berti.
„Vitleysa, það var sá í gráu sokkunum,“ sagði röddin og hermdi eftir Vilhjálmi.
„Nei, það er áreiðanlegt að þeir voru gulir,“ sagði Berti
„Auðvitað voru þeir gulir,“ sagði Vilhjálmur.
„Hvað varstu þá að segja að þeir væru gráir?“ spurði Berti.
„Ég gerði það aldrei. Það var Þumbi sem sagði það.“
„Ég sagði það aldrei,“ gall við í Þumba. „Það varst þú.“
„Tveir á móti einum, svo þú skalt steinhalda þér saman!“ sagði Berti.
„Hvern heldurðu að þú sért að tala við?“ sagði Villi.
„Nei, hættu nú alveg,“ sögðu Þumbi og Berti í kór. „Það er nú farið að líða á nóttina og dögunin að nálgast. Ættum við ekki að reyna að koma okkur að verki!“
„Dögun taki ykkur alla og standið og verðið að steini!“ sagði rödd sem líktist rómi Vilhjálms. En það var ekki hann. Því að á sama augnabliki gægðist dagsbirtan yfir hæðina og allt komst á ið inn á milli trjágreinanna og Villi var ekki lengur fær um að svara þeim, því að hann varð að steini þar sem sem hann laut niður og Berti og Þumbi urðu líka standandi að steini þegar þeim varð litið á hann. Og þar standa þeir allt til þessa dags, einir og út af fyrir sig, nema hvað stöku fuglar setjast á þá. Því að tröll eru með þeim eðlishætti gerð, eins og þið sjálfsagt vitið, að þau verða að skríða sér í skjól niður í jörðina fyrir sólarupprás, eða þau umbreytast aftur í það grágrýti sem þau eru upphaflega gerð af og geta sig aldrei framar hreyft. Og einmitt þetta varð að koma fram yfir þá Berta, Þumba og Villa.
„Ágætt!“ sagði Gandalfur og steig framundan trénu þar sem hann hafði leynst og hjálpaði Bilbó að klifra niður úr laufþykkninu. Þá rann allt upp fyrir Bilbó. Það var þá rödd vitkans sem hafði espað tröllin upp og fengið þau til að þrefa og þræta, þangað til dögun reis og batt enda á allt saman.
Þeir urðu nú að hafa hraðar hendur á að leysa böndin af pokunum og hleypa dvergunum út. Þeir voru nærri kafnaðir sumir hverjir og varla von að þeir væru í góðu skapi, því það hafði ekki verið nein skemmtun fyrir þá að liggja þarna og hlusta á allar ráðagerðir tröllanna um, hvernig þeir ætluðu að steikja þá eða kremja eða höggva í spað. Þeir höfðu allt á hornum sér og voru ekki ánægðir fyrr en Bilbó hafði tvisvar sinnum endurtekið lýsinguna á því, hvað komið hefði fyrir hann.
„Bjánalegt við þessar aðstæður að fara að æfa sig í vasaþjófnaði, sagði Vambi, „þegar það eina sem okkur vanhagaði um var eldur og eitthvað ætilegt.“
„En þið hefðuð heldur aldrei fengið neinn eld eða æti frá þessum tröllum bardagalaust,“ sagði Gandalfur. „Þið eruð ekki betri en tröllin að fara nú sjálfir að eyða tímanum í rifrildi. Þið ættuð þó að gera ykkur grein fyrir að einhvers staðar hér nálægt hljóta tröllin að eiga helli eða holu til að leita skjóls í fyrir sólinni. Við verðum að leita að henni.“
Þeir fóru líka að skimast um eftir holunni og ekki vantaði að nóg var um troðnar slóðir eftir steinskó tröllanna allsstaðar á milli trjánna. Þeir fylgdu slóðunum eftir upp hæðina, þar til þeir fundu á bak við þétt trjáþykkni miklar steindyr fyrir hellismunna. En þeir fengu með engu móti opnað þær hvort sem þeir beittu öllu afli, eða Gandalfur fór með allskyns töfraþulur.
„Skyldi þessi koma að nokkru gagni?“ sagði Bilbó allt í einu, þegar hinir voru bæði orðnir uppgefnir og fokillir. „Ég fann hann á jörðinni, þar sem þeir veltust um í slagsmálum.“ Hann hélt á loft heljarstórum lykli, þótt sjálfsagt hafi Vilhjálmi trölli aðeins þótt hann lítill og óásjálegur. Líkast til hafði lykillinn dottið úr vasa hans og sem betur fer áður en hann steingerðist.
„Hversvegna í ósköpunum minntistu ekki á það fyrr?“ hrópuðu hinir stórhneykslaðir. En Gandalfur þreif lykilinn, stakk í skráargatið og hann gekk undir eins að. Samstundis sveifluðust dyrnar upp á gátt í einum rykk og þeir paufuðust allir inn. Á gólfinu lágu beinin á víð og dreif og ógeðslegur þefur var í lofti. Þar voru heilmiklar matarbirgðir sem hafði verið hent kæruleysislega á hillur eða á gólfið, innan um hverskyns rusl og ránsfeng, þar voru hrúgurnar af látúnshnöppum og heilu pottarnir fullir af gullpeningum í einu horninu. Þar var líka mikið af fatnaði sem hengdur var upp á veggi — fötin voru alltof lítil fyrir tröll, svo hræddur er ég um að þau hafi verið af fórnarlömbunum — og þar innan um voru allnokkur sverð af ólíkri gerð, lögun og stærð. Tvö þeirra báru þó af, því að þau voru í svo fögrum slíðrum og með gimsteinagreyptum hjöltum.