Gandalfur og Þorinn tóku sitt hvort þeirra sér til handargagns, en Bilbó valdi sér myndarlegan hníf í leðurslíðrum. Hann hefur nú varla verið nema eins og vasahnífur fyrir tröll, en fyrir hobbitann var hann á við fullkomið sverð.
„Virðast vera ágætis sverðsblöð,“ sagði vitkinn. Hann dró þau til hálfs úr slíðrum og horfði forvitinn á þau. „Þessi hafa ekki verið smíðuð af neinu trölli, né neinum mönnum sem uppi eru hér um slóðir nú á dögum. Þegar við gefum okkur tíma til að lesa rúnirnar á þeim, fáum við meira að vita um uppruna þeirra.“
„Komum okkur út úr þessum hræðilega ódaun!“ sagði Fjalar. Svo það varð úr að þeir báru út krúsirnar með peningunum og dálitlu af matvælum sem virtust ósnert og ætileg, þar var líka öltunna sem enn var full. Þegar þeir höfðu borið þetta út, fannst þeim kominn tími til morgunverðar og þar sem þeir voru glorhungraðir, voru þeir ekkert að fúlsa við því sem kom úr búri tröllanna. Það var líka orðið lítið eftir af matnum sem þeir höfðu með sér. En nú höfðu þeir brauð og ost og nóg af öli og svínafleskju til að rista í eldsglóðinni.
Að málsverði loknum fóru þeir að sofa, þeim veitti ekki af eftir rugl og svefnleysi næturinnar og annað aðhöfðust þeir ekki fyrr en leið á daginn. Þá sóttu þeir hestana, fluttu burt á þeim gullkrukkurnar og grófu þær í jörð á laun skammt frá stígnum meðfram ánni og bundu í bann heitstrenginga, ef svo skyldi fara að þeir hefðu einhverntímann tækifæri síðar til að snúa við og ná þeim upp aftur. Að svo búnu stigu þeir aftur á bak og skokkuðu áfram eftir stígnum í austurátt.
„Hvert fórstu, þegar við söknuðum þín, ef mér leyfist að spyrja?“ mælti Þorinn við Gandalf, er þeir riðu áfram.
„Til að horfa fram um veg,“ svaraði hann.
„Og hvað fékk þig til að snúa við á síðustu stundu?“
„Til að horfa um öxl,“ svaraði hann.
„Nú, einmitt það!“ sagði Þorinn. „En gætirðu ekki talað svolítið skýrar?“
„Fyrst fór ég til að kanna hvað væri á veginum framundan. Ég veit að hann er að verða hættulegur og erfiður. Líka var ég áhyggjufullur yfir því að matarbirgðir okkar færu óðum þverrandi. En ég hafði ekki farið langt, þegar ég hitti nokkra vini mína frá Rofadal.“
„Hvar er þessi Rofadalur?“ spurði Bilbó.
„Vertu ekki alltaf að taka fram í fyrir mér!“ sagði Gandalfur. „Við eigum aðeins nokkurra daga ferð eftir þangað, ef heppnin er með okkur og þá kynnistu því öllu. En eins og ég var að segja, hitti ég tvo af mönnum Elronds. Þeir voru á hraðri ferð af ótta við tröllin. Þeir sögðu mér einmitt að þrjú tröll hefðu nýlega komið niður úr fjöllunum og sest að í skóginum rétt utan við veginn. Þau höfðu vakið slíka ógn að allir höfðu flúið burt úr héraðinu. Auk þess var sagt að þeir hefðu legið í launsátri fyrir ferðamönnum á veginum.
„Mér brá heldur en ekki í brún og óttaðist að þið mynduð þarfnast mín. Þegar ég leit til baka sá ég bjarma af báli í fjarska og stefndi þangað tafarlaust. Nú vitið þið þetta. En gerið það nú fyrir mig að sýna aðgát næst, eða við komumst aldrei á leiðarenda.“
„Þakka þér fyrir!“ sagði Þorinn.
III. KAFLI
Stundarhvíld
Þeir fengust ekki til aÐ syngja neitt það sem eftir var dagsins né segja sögur og það þótt veðrið skánaði, og ekki heldur daginn eftir né þar næsta. Þeim var órótt því að þeir fóru að gera sér grein fyrir því hvílíkar hættur vofðu yfir þeim til beggja handa. Þeir gerðu sér náttból undir stjörnum en hestarnir höfðu nóg að bíta, meðan stöðugt minnkaði matarforðinn, þótt þeir hefðu tekið sér vænan skammt af birgðum tröllanna. Einn morguninn fóru þeir á vaði yfir fljót eitt þar sem það var breitt og grunnt en þó niðaði hátt og freyddi við steina. Hinum megin var brattur og háll bakki. Þegar þeir komust upp á hann og teymdu hesta sína, fannst þeim allt í einu að voldug fjöllin hefðu tekið viðbragð og færst snöggt á móti þeim. Nú fannst þeim varla meira en svo sem ein auðveld dagleið að næstu fjallsrótum. Þau sýndust dimm og drungaleg, þó sólblettir lýstu hér og þar í brúnum hlíðunum og hátt yfir fjallsöxlunum glampaði á snævi þakta tinda.
„Er þetta Fjallið eina?“ spurði Bilbó alvarlegri röddu og horfði á þetta fyrirbæri galopnum augum. Hann hafði aldrei litið neitt svo hrikalega stórt sem þetta.
„Fráleitt!“ sagði Balinn. „Þetta er nú ekki nema byrjunin á Þokufjöllum og við verðum einhvern veginn að komast gegnum þau, yfir þau eða undir þau, áður en við komumst á Villulöndin þar fyrir handan. Þó við yfirstígum Þokufjöll, er enn geysi löng leið að Fjallinu eina í austri, þar sem Smeyginn liggur á fjársjóðnum okkar.“
„Ó!“ var það eina sem Bilbó gat stunið upp við þessu og um leið fann hann til meiri þreytu en hann hafði nokkurn tímann áður fundið. Aftur hvarflaði hugur hans til þægilega stólsins við hliðina á logandi arninum í eftirlætissetustofunni í hobbitaholunni og blístursins í katlinum. Og það var heldur ekki í síðasta sinn!
Nú fór Gandalfur fyrir þeim. „Við megum ekki tapa veginum, þá villumst við og er úti um okkur,“ sagði hann. „Við þörfnumst í fyrsta lagi matar og í öðru lagi hvíldar í viðunandi öryggi — þvínæst er líka nauðsynlegt að ráðast til atlögu við Þokufjöll eftir réttum stíg, annars myndum við villast í þeim og verða að snúa við til að byrja upp á nýtt (ef við nokkurn tímann komum aftur).“
Þeir spurðu hann þá, hvert hann væri nú að fara og hann svaraði: „Við erum á leið út úr Óbyggðunum eins og sumir ykkar sjálfsagt vitið. Hulinn framundan bíður okkar hinn fagri Rofadalur, þar sem Elrond býr í sinni Hinstuhöll. Ég sendi boð um komu okkar með þessum vinum mínum sem ég hitti og það er beðið eftir okkur.“
Þetta hljómaði svo sem nógu skemmtilega og uppörvandi, en ekki var þó bitið úr nálinni með það, því að enn voru þeir ekki komnir þangað og var heldur ekki eins auðvelt og ætla mætti að finna Hinstuhöllina vestan Fjallanna. Hér var ekki að sjá nokkurt tré né dal né upphækkun til að sérgreina neitt við landið sem beið þeirra. Framundan virtist ekkert nema einn aflíðandi slakki ofar og ofar að rótum nálægasta fjallsins, víðáttur með lyngi og urðum og hér og þar grasgrænir og mosagrænir blettir og af þeim mátti ráða hvar deiglendi væru undir.
Morgunninn leið og komið var fram á dag. En í allri þessari þöglu auðn sáust engin merki um byggð. Þeir fóru að verða áhyggjufullir því að þeir botnuðu ekkert í því hvar húsið gæti hulist milli þeirra og fjallanna. En þá komu þeir fram á brúnir óvæntra dala, þröngra og með bröttum hlíðum sem opnuðust skyndilega fyrir fótum þeirra, og þeir horfðu undrandi niður fyrir sig og sáu trjágróðurinn og streymandi árnar. Og þeir komu að gjám svo þröngum að þeim virtist næstum hægt að stökkva yfir þær en þær voru hyldjúpar með niðandi fossum. En líka komu þeir að stórum dimmum gljúfrum sem hvorki var hægt að stökkva yfir né klífa niður þverhnýpta klettana. Og þarna voru dý, sum þeirra svo fagurlega skærgræn að unun var á að horfa þakin blómgróðri björtum og hávöxnum, en ef klyfjaður hestur villtist út á þau, kæmist hann aldrei aftur upp úr þeim.