Það kom nú í ljós að landið var miklu víðara frá vaðinu og austur að fjöllunum en þeim hafði áður sýnst. Bilbó var steinhissa á því. Aðeins þessi eini vegur lá um óbyggðirnar og var markaður með hvítum steinum, en erfitt að fylgja þeim því að sumir voru mjög litlir, aðrir huldir mosa og lyngi. Því var víðast ákaflega tafsamt að fylgja veginum, jafnvel þótt Gandalfur færi fyrir þeim og hann virtist þaulkunnugur hér um slóðir.
Hann skimaði höfðinu til og frá og skeggið liðaðist og hristist til í leitinni að stikusteinunum, hinir fylgdu á eftir en þeim fannst þeir ekkert vera farnir að nálgast það sem þeir leituðu að þótt dagur væri að hníga. Komið var langt fram yfir tetímann og eins virtist ætla að fara fyrir kvöldmatartímanum. Fiðrildi flögruðu framhjá og það tók að skyggja, því að tungl var ekki enn komið upp.
Hestur Bilbós var farinn að hnjóta um rótartægjur og steinnibbur. Þeir komu fram á brún brattrar hlíðar svo skyndilega að minnstu munaði, að hestur Gandalfs ylti fram af.
„Loksins erum við komnir!“ hrópaði hann, og hinir allir hópuðust í kringum hann og gægðust fram af brúninni. Þeir sáu dalinn langt fyrir neðan sig. Þeir heyrðu niðinn frá beljandi fljóti í klettóttum farvegi, fundu trjáilm í lofti og sáu ljós í dalnum handan árinnar.
Bilbó gat aldrei síðan gleymt hvernig hestarnir runnu til og skrikuðu í hverju fótmáli um brattan stíginn í stöðugum sneiðingum niður í leyndan Rofadal. Það hlýnaði í lofti eftir því sem neðar dró og furuilmurinn var svæfandi, svo að hann dottaði við og var næstum siginn á slig, eða laut fram yfir sig og rak nefið í makka hestsins. En hinir urðu æ kátari eftir því sem þeir komu neðar og neðar. Brátt urðu beyki og eikur ráðandi í trjágróðrinum og þægileg tilfinning fór um þá í ljósaskiptunum, hálfrökkrinu. Græni liturinn var að hverfa af grasinu inn í myrkrið þegar þeir komu í opið rjóður rétt fyrir ofan árbakkann.
„Hmmm! Hér ilmar eins og frá álfum!“ hugsaði Bilbó og rétt í því varð honum litið upp til stjarnanna. Þær blikuðu á himninum bjartar og bláar. Þá kom á móti þeim söngbylgja líkust hlátri í trjánum.
Þannig var hlegið og sungið í trjánum, um einhvern furðu fagran fáránleika, býst ég við að ykkur finnist það. En það þýddi ekkert um það að tala, þeir færu bara því meira að hlæja ef maður benti þeim á það. Auðvitað voru þetta bara álfar. Brátt fór Bilbó að koma auga á þá, því betur eftir því sem skyggði. Hann dáði álfana þó þeir yrðu sjaldan á vegi hans, en hann var um leið ofurlítið smeykur við þá. Dvergum semur heldur ekki vel við álfa. Jafnvel velmetnum dvergum eins og Þorni finnst allt þeirra athæfi eitthvað kjánalegt (þó það sé í sjálfu sér kjánalegt að ímynda sér það), þeir fara í taugarnar á þeim. Sumir álfar eru líka alltaf að stríða þeim og hlæja að þeim og sérstaklega finnst þeim taðskeggin á þeim hlægileg.
„Hæhæ!“ heyrðist álfarödd segja. „Að hugsa sér! Hobbitinn Bilbó ríðandi á hesti! Hæhæ! Elskan mín, er það ekki dásamlegt!“
„Jú, furðulega frábærlegt!“
Og áfram var haldið inn í annan söng fáránlegan eitthvað í líkingu við þann sem ég skráði hérna í heild að framan. Þar kom þó að lokum að álfur einn, ungur og hávaxinn steig fram úr trjánum og hneigði sig fyrir Gandalfi og Þorni.
„Velkomnir í dalinn!“ sagði hann.
„Ég þakka fyrir!“ sagði Þorinn nokkuð þurr á manninn. En Gandalfur var þegar stiginn af baki. Hann blandaði sér í hóp álfanna og talaði kátlega við þá.
„Þið hafið aðeins vikið út af réttri leið,“ sagði álfurinn, „það er að segja ef þið ætluðuð að fylgja þjóðveginum yfir ána og áfram að höllinni handan árinnar. Við skulum vísa ykkur til vegar, en best væri að þið teymduð hestana yfir brúna.
En vilduð þið nú kannski doka aðeins við og syngja undir með okkur, eða ætlið þið að halda rakleitt áfram? Það er verið að undirbúa kvöldmáltíð handa ykkur hinum megin,“ sagði hann. „Ég finn ilminn af logandi viðarkurlinu í hlóðunum.“
Þótt Bilbó væri dauðþreyttur, hefði hann gjarnan viljað staldra við. Álfasöng vildi maður ekki missa af og allra síst á miðsumri undir blikandi stjörnum, það er að segja, ef manni fellur hann. Bilbó hefði líka viljað skiptast á orðum við þetta fólk sem virtist þekkja nafn hans og vita allt um hann, þó hann hefði aldrei séð það fyrr. Hann hefði viljað spyrja þau álits hvað þeim fyndist um allt þetta ferðalag þeirra og ævintýraleit. Álfar eru margvísir og venjulega ekki í geitarhús að fara að leita eftir fréttum frá þeim, það er eins og þeir viti um allt sem er á seyði meðal fólks í öllum löndum og fljótari að fá vitneskju um það en streymandi vatn.
En dvergarnir höfðu ekki áhuga á neinu öðru en að komast sem allra fyrst í matinn og voru því ófáanlegir til að eyða tímanum hérna. Svo áfram héldu þeir allir og teymdu hesta sína þar til þeir komu á greiðan veg sem lá loks fram á árbakkann. Fljótið streymdi fram óðfluga og með háværum klið eins og fjallaár gera á sumarkvöldi eftir mikla sólbráð á fjöllum. Brúin var örmjó án grindverks, rétt nógu breið til að einn hestur gæti farið um hana og yfir hana urðu þeir að fara hægt og varlega og teyma hver sinn hest yfir. Álfarnir komu á móti þeim með björt ljósker fram á bakkann og sungu gleðisöngva meðan ferðalangarnir voru að mjakast yfir.