Выбрать главу

„Dýfðu ekki moðskegginu í froðuna, gamli minn!“ hrópuðu þeir til Þorins sem næstum skreið á fjórum fótum yfir brúna. „Það er orðið nógu sítt, þó ekki sé verið að vökva vöxtinn.“

„Varið ykkur bara á því að Bilbó éti ekki allar kökurnar,“ kölluðu þeir næst. „Þessi innbrjótur er orðinn alltof feitur til að komast í gegnum nokkur skráargöt!“

„Suss, suss! Góða fólk! og góða nótt!“ hastaði Gandalfur á þá um leið og hann fór síðastur yfir. „Sumir dalir hafa heyrandi eyru og sumir álfar of lausar tungur. Góða nótt!“

Og þannig komust þeir loksins allir til Hinstu hallarinnar og dyrnar á henni stóðu þeim opnar upp á gátt.

Nú er það svo undarlegt að góðir atburðir og góðir og notalegir dagar eru fljótfrásagðir og óvarið í að heyra af þeim, meðan á hinn bóginn óþægileg, skelfileg og jafnvel hryllileg atvik eru ágætlega frásagnarverð og má oft spinna um þau langa sögu. Þarna dvöldust þeir í góðu yfirlæti að minnsta kosti í hálfan mánuð og vildu helst ekki fara þaðan aftur. Bilbó hefði verið fús til að dveljast þar áfram og áfram — og ekki einu sinni dottið í hug að notfæra sér ósk, þótt hann hefði átt hana, um að hverfa þegar í stað heim í hobbitaholuna sína. Þrátt fyrir það er ósköp fátt að segja af dvöl þeirra í Rofadal.

Húsráðandinn þarna var það sem kallað er álfvinur – og höfðu forfeður hans verið þátttakendur í goðsögnunum miklu frá því áður en Sögur hófust, styrjöldunum milli hinna andstyggilegu drísla og álfanna og fyrstu mannanna á Norðurslóð. Á tímum þessarar frásagnar var enn uppi margt fólk sem gat rakið ættir sínar til álfanna og hetjanna í Norðri og fremstur þeirra var Elrond húsbóndi í Hinstuhöll.

Hann var eins göfugur og bjartur yfirlitum og álfakonungur, voldugur sem herskörungur, spakur sem vitringur, virðulegur sem dvergakonungur og ljúfur eins og sjálft sumarið. Hans er getið í ótal sögnum en hlutur hans í þessu mikla ævintýri Bilbós er ekki stór, og þó mikilvægur, eins og koma mun í ljós, ef við nálgumst nokkurn tímann sögulokin. Allur aðbúnaður í húsi hans var hinn besti, hvort sem við kom mataræði eða svefni, eða vinnuaðstöðu eða sagnamennsku og söngva, eða einfaldlega hvað það var gott að mega sitja þar og hugsa, eða hæfilegt sambland af þessu öllu. Ekkert illt fékk eirt þar í dalnum.

Ég vildi óska að ég gæti sagt þér þó ekki væri nema fáeinar af öllum sögunum eða sungið einn eða tvo af öllum söngvunum sem ómuðu þar í höllinni. Allir sem þar dvöldust og þar með taldir hestarnir, hresstust og endurnýjuðust. Þar voru klæðin bætt, meiðslin grædd, skapið lyftist og vonirnar glæddust. Þar voru malpokarnir fylltir af matvælum og hverskyns birgðum, en klyfjarnar þó hafðar sem léttastar til að bera yfir fjallaskörðin. Áætlanir voru efldar með hollum ráðum og ábendingum. Og svo kom Jónsmessunótt og þeir hugðust halda förinni áfram með upprisusólinni á sjálfum miðsumarsmorgni.

Elrond virtist allt vita í fornum rúnafræðum. Þann daginn skoðaði hann sverðin sem þeir höfðu með sér úr tröllabælinu og mælti: „Víst er þetta engin Tröllasmíði. Gömul eru þau, já afar forn smíði Háálfanna í Vestri, frænda minna. Þau voru görv til forna í Gondólín í Dríslastríðunum miklu. Annaðhvort hljóta þau að hafa komið úr drekasjóði eða dríslaránsfeng, því það voru drekar og dríslar sem eyddu Gondólínsborg fyrir mörgum öldum. Á þessu sverði stendur, skal ég segja þér, Þorinn, að það heiti Orkristir, sem þýðir að það sé til þess ætlað að kljúfa dríslana í herðar niður, á hinni fornu tungu Gondólíns. Það var frægt sverð í þá daga. Og þetta, Gandalfur, er Glamdringur eða Fjandhöggur, sverðið sem sjálfur konungur Gondólíns eitt sinn bar. Varðveitið þau vel!“

„Hvernig skyldu tröllin þá hafa komist yfir þau, það hefði ég gaman af að vita,“ sagði Þorinn og horfði í eggina á sverði sínu af enn meiri áhuga en áður.

„Um það get ég ekkert vitað,“ svaraði Elrond, „en ætla mætti að tröllin ykkar hafi rænt aðra ræningja, eða fundið af tilviljun leifar annars ránsfengs í einhverri holu í fornum fjöllum. Heyrt hef ég því líka fleygt að enn leynist gleymdir fjársjóðir í yfirgefnum hellum Moríanámanna, frá því á dögum stríðsins milli dverga og drísla.“

Þorinn varð hugsi við þessi orð. „Vissulega mun ég varðveita þetta sverð af virðingu,“ sagði hann. „Megi ég brátt kljúfa drísla með því sem óðast aftur í herðar niður.“

„Eigi er ólíklegt að sú ósk þín rætist brátt, þegar þið komið upp í fjöllin!“ mælti Elrond. „En sýnið mér nú landabréfið!“

Hann tók við því og starði lengi á það, svo hristi hann höfuðið dapurlega. Því að þótt honum væri lítt um dverga gefið og fjálgleika þeirra í gull, þá hataði hann þó hálfu meira drekana og miskunnarlausa illsku þeirra. Og hann fylltist sorg í minningunni um eyðingu borgarinnar á Dal með öllum hennar skærgjallandi bjöllum og yfir sviðnum bökkum Hlaupár. Skarður silfurmáni var á lofti. Þá lyfti hann kortinu upp og hvítt tunglsljósið lýsti í gegnum það. „Hvað er nú þetta?“ sagði hann. „Hér er líka mánaletur við hliðina á hinum rúnunum, þeim sem segja: „Fimm fea háar dyrnar og þrír mega ganga hlið við hlið.“

„Hvað er mánaletur?“ spurði hobbitinn og var strax orðinn spenntur. Hann elskaði landabréf, eins og áður var á minnst, og eins þótti honum mikið varið í hverskyns rúnir og aðrar leturgerðir og snjalla handskrift, þó að hans eigin rithönd væri nókkuð grönn, í kóngulóarstíl.

„Mánaletur er í rauninni venjulegar rúnir, en sá er munurinn að það er ósýnilegt,“ sagði Elrond, „þó horft sé beint á það. Það sést aðeins ef tunglið er látið skína gegnum það, en oft þó meira en það, ef ritarinn er fær og beitir kænsku sinni verður það að vera samskonar tungl, af sömu lögun og á sömu árstíð og daginn sem það var ritað. Dvergarnir fundu þessa skrift upp og rituðu hana með silfurpennum, eins og vinir þínir ættu að geta sagt þér. Þetta letur hlýtur þá að hafa verið ritað á miðsumarnótt þegar skarður máni var á himni endur fyrir löngu.“

„Og hvað segir þar?“ spurðu þeir Gandalfur og Þorinn samtímis, hálf vandræðalegir yfir því að Elrond skyldi hafa orðið fyrstur til að uppgötva þetta, þótt enginn möguleiki hefði verið til þess áður og yrði ekki fyrr en einhvern tímann eftir ómunatíð.

„Standið við gráa steinhelluna þegar þrösturinn knýr dyra,“ las Elrond, „og hnígandi sól í hinsta ljósi Durinsdags mun skína á skráargatið.“

„Hvað segirðu, Durinn! Durinn!“ hrópaði Þorinn upp yfir sig. „Hann sem var elstur allra forfeðra elsta kynþáttar Dverganna, Langskeggjanna, og fyrsti forfaðir minn: Ég sem er réttborinn erfingi hans.“

„Veistu þá hvað er Durinsdagur?“ spurði Elrond.

„Hvort ég veit! Það er fyrsti dagur dverganna, okkar Nýársdagur,“ svaraði Þorinn, „og sá dagur er eins og allir dvergar ættu að vita, fyrsti dagur hinsta Hausttungls á mörkum Vetrarnátta. Við köllum það raunar enn Durinsdag þegar síðasta tungl haustsins og sólin eru á lofti á sama tíma. En hræddur er ég um að það komi okkur ekki að miklu liði, því að við erum ekki eins færir að spá í himintunglin og þeir gerðu í gamla daga og ráða í það, hvenær rétti tíminn er.“

„Við eigum nú eftir að sjá það,“ sagði Gandalfur. „Stendur nokkuð meira skrifað þar?“

„Ekkert sem séð verður í þennan mána,“ ansaði Elrond. Hann fékk Þorni aftur kortið og þeir gengu niður að vatninu til að horfa á Álfana stíga dans og hlýða á söng þeirra á Jónsmessunótt.