Выбрать главу

Aftur dagaði á miðsumarsmorgni, eins björtum og tærum og hugsast gat: — himinninn heiðblár og hvergi sást í skýhnoðra en sólin dansandi á vatninu. Og af stað riðu þeir undir ómandi kveðjusöngvum og árnaðaróskum um fararheill. Í brjóstinu voru þeir reiðubúnir að mæta hverjum þeim ævintýrum sem að höndum mundi bera en auk þess vissu þeir nú glöggt, hvaða veg best væri að taka yfir Þokufjöllin til hinna fjarlægu landa að baki þeim.

IV. KAFLI

Yfir holt og undir hæðir

Fjölmargar leiðir lágu upp að fjöllunum og yfir mörg fjallaskörð. En flestir stígarnir voru aðeins villuvegir til ginningar og enduðu í vegleysu eða lentu út í algerum ófærum og flest fjallaskörðin voru full af ófreskjum og hræðilegum hættum. En dvergarnir og hobbitinn, sem þeim fylgdi, þurftu engu að kvíða eftir hollráð Elronds ásamt þekkingu og minni Gandalfs. Þeir áttu að geta hitt á rétta veginn upp að rétta fjallaskarðinu.

Langalengi eftir að þeir höfðu klifið upp úr dalnum og lagt Hinstuhöllina margar mílur að baki, áttu þeir enn stöðugt á brattann að sækja. Leiðin var erfið og hættuleg, öll í krákustígum, einmanaleg og óendanleg. Því hærra sem þeir komu því betra útsýni höfðu þeir yfir landið sem þeir voru að kveðja langt fyrir neðan. Lengst, lengst í fjarska í vestrinu, þar sem allt var í blámóðu, vissi Bilbó að leyndist hans eigið land með öllum sínum lífsþægindum og öryggi í litlu hobbitaholunni hans. Hrollur fór um hann. Það var að verða svo nístandi kalt eftir því sem þeir komu hærra upp í fjöllin og vindurinn tekinn að hvína við kletta. Stundum kom líka hnullungsgrjót skoppandi niður fjallshlíðina, sólin hafði losað um það með snjóbráðinni, stundum fór grjóthrunið framhjá þeim (sem þó var betra) eða beint yfir höfðum þeirra (sem var ískyggilegra). Næturvistin var ónotaleg og hrollköld og nú þorðu þeir hvorki að syngja né tala upphátt, því að bergmálið var svo uggvænlegt, engu líkara en þögninni væri meinilla við að láta rjúfa sig — þeir máttu ekki trufla nið lækjanna, gnauð vindanna eða skruðning steinanna.

„Þarna fyrir neðan er ennþá sumar,“ hugsaði Bilbó, „þar eru menn í heyönnum eða lautarferðum. Kornuppskeran og berjatínslan verða með þessu áframhaldi sjálfsagt hafin áður en við komum niður af fjöllunum hinum megin.“ Og hinir voru sjálfsagt jafn daufir í dálkinn, þótt þeir hefðu við kveðjur Elronds talað af galsa um að skreppa yfir fjallaskörðin og þeysa ríðandi um landið handan þeirra. Þeir höfðu ímyndað sér að þeir kæmust að leyndum dyrum Fjallsins eina strax á næsta hausttungli — „Kannski einmitt á þessum Durinsdegi,“ höfðu þeir sagt. En Gandalfur hafði staðið álengdar og hrist höfuðið og þagað. Það voru nú víst orðin mörg ár síðan nokkrir dvergar höfðu farið þessa leið, en Gandalfur hafði nýlega farið hana og vissi hvernig hin illskufláu öfl og allar hætturnar höfðu aukist og þrifist í óbyggðunum, síðan drekarnir höfðu hrakið menn burt af þessum lendum og dríslarnir breiðst út á laun eftir orustuna við Moríanámurnar. Og vita máttu þeir að jafnvel góðar áætlanir vitringa eins og Gandalfs og góðra vina eins og Elronds gátu stundum farið úrskeiðis í hættulegum ævintýrum á hjara veraldar, og sjálfur var Gandalfur nógu skynsamur til að gera sér grein fyrir því.

Hann vissi að alltaf gat eitthvað óvænt gerst, og hann þorði varla að vona að þeir kæmust klakklaust yfir þessi miklu og reginháu fjöll með eyðilegum tindum og dölum sem engir konungar stýrðu, án þess að eitthvað hræðilegt hlyti að koma yfir þá. Enda átti það ekki svo að verða. Allt var þó í góðu gengi þar til dag einn að þrumuveður skall yfir þá, já meira en venjulegt þrumuveður, það var hreinasti þrumuofsi. Þið hafið kannski einhvern tímann séð mikið þrumuveður yfir sléttlendi og í árdölum, það getur orðið hrikalegt, einkum ef tvö þrumusvæði rekast á og sameinast. En ennþá miklu stórfenglegri eru þrumurnar og eldingarnar í fjöllum að næturlagi, þegar reiðarstormarnir geysast að úr austri og vestri og lendir saman í orustu. Eldingarnar smella á tindunum og klettarnir nötra og ofsafengnar sprengingar kljúfa loftið og fara þrumandi og ærandi inn í hvern helli og hverja skoru og náttmyrkrið fyllist af yfirgnæfandi öskrum og blossaleiftrum.

Bilbó hafði aldrei séð né getað ímyndað sér neitt þessu líkt. Þeir voru hátt uppi á mjórri syllu og hræðilegt hyldýpi niður í koldimman dal á aðra hönd. Þar höfðu þeir látið fyrir berast um nóttina í skjóli undir hengiklettum og Bilbó lá þar undir ábreiðu skjálfandi frá hvirfli til ilja. Þar sem hann einblíndi út í loftið í blossaleiftrunum sá hann að hinum megin í dalnum voru steintröllin komin á stjá og köstuðu klettum hvert að öðru að gamni sínu og gripu þá og létu þá svo dúndra niður í myrkrið þar sem þeir skullu niður milli trjánna langt fyrir neðan og splundruðust með smellum í ótal mola. Á eftir fylgdi slagviðri, þar sem rokið þeytti regninu og haglinu kringum sig í allar áttir, svo það varð þeim engin vörn að liggja þarna undir slútandi bjarginu. Brátt voru þeir orðnir mígandi blautir og hestarnir stóðu í höm með hausana niðri og taglið milli fótanna og sumir hvinu af ótta. Þeir heyrðu öskrin og óhljóðin í tröllunum úr öllum fjöllunum.

„Þetta gengur ekki lengur!“ sagði Þorinn. „Ef vindurinn ekki þeytir okkur, regnið ekki drekkir okkur eða elding ekki klýfur okkur, kemur vísast eitthvert tröllið, þrífur okkur og sparkar okkur hátt í loft upp eins og fótbolta.“

„Jæja, ef þú veist af einhverjum betri stað, ættirðu að vísa okkur á hann!“ sagði Gandalfur sem var orðinn heldur en ekki argur og svo sem ekkert hrifinn af þessum tröllum sjálfur.

Til þess að binda endi á þessa þrætu, voru þeir Fjalar og Kjalar sendir af stað í leit að betra skjóli. Þeir voru glöggir unglingar, allt að fimmtíu árum yngri en hinir dvergarnir, og þótti því sjálfsagt að nota þá í svona vosverk (þegar allir sáu hvort eð var að það var ekki til neins að senda Bilbó). Galdurinn er bara sá að horfa vel í kringum sig, ef maður vill finna eitthvað (eða svo sagði Þorinn við ungu dvergana). Það er nokkuð öruggt að maður finnur venjulega eitthvað ef maður hefur augun opin, en það þarf ekki að vera að maður finni alltaf einmitt það sem maður er að leita að. Og svo var heldur ekki í þetta skipti.

Ekki leið á löngu áður en Fjalar og Kjalar komu skríðandi til baka og urðu að halda sér í klettana til að fjúka ekki. „Við fundum þurran helli,“ sögðu þeir, „hérna rétt handan við næsta klettanef og við kæmumst þar allir inn og hestarnir líka.“

„Hafið þið kannað hann vandlega?“ spurði vitkinn, sem vissi að fáir hellar í fjöllunum fengu að standa ónotaðir.

„Já, já!“ svöruðu þeir undireins, þó auðvitað væri, að þeir hefðu ekki getað kannað neitt á þeim stutta tíma sem þeir voru í burtu. „En þetta er bara svolítill skúti og nær áreiðanlega ekki langt inn.“

En það er nú einmitt það hættulegasta við hella, að stundum veit maður ekki hvað langt inn þeir ná, og stundum getur líka verið inn af þeim gangur og enginn veit hvert hann liggur eða hvað þar bíður manns. En nú stóð svo á, að þeim fannst þessi uppgötvun Fjalars og Kjalars vera einmitt það sem þá vantaði svo þeir voru ekkert að tvínóna við þetta, heldur tóku sig tafarlaust upp og komu sér af stað. Vindurinn hvein og enn voru öskrandi þrumur að bresta á. Það var aðeins með herkjum að þeir kæmust áfram með hestana. En nú var þetta ekki nema spottakorn og fyrr en varði komu þeir að stórum kletti sem skagaði fram úr þvert út í stíginn. Það var ekki annað til ráða en að smeygja sér fram hjá honum og þeir komu að opinu sem var svo þröngt, að þeim tókst ekki að teyma hestana í gegn, fyrr en þeir höfðu tekið farangurinn af þeim. Þegar innfyrir kom fannst þeim heldur en ekki notalegt að heyra dyninn í storminum og regninu útifyrir en finna það ekki brotna á sjálfum sér, auk þess sem þeir fundu til öryggis fyrir tröllunum og klettakasti þeirra. En vitkinn vildi þó ekki taka neina áhættu. Hann lýsti upp veggina með stafnum sínum — með sama hætti og áður í borðstofu Bilbós, að því er nú virtist fyrir svo langalöngu, ef þið munið eftir því — og við ljósið grannskoðuðu þeir allan hellinn frá opi til enda.