Выбрать главу

Hellirinn virtist meðalstór, hvorki of stór né dularfullur. Gólfið var þurrt og þar mátti finna þægileg skot. Í öðrum endanum var næglegt rúm fyrir hestana. Þar stóðu þeir (ánægðir yfir umskiptunum) og móðaði af þeim meðan þeir rótuðu í múlpokunum sínum. Óinn og Glóinn vildu kveikja bál við hellisopið til að þurrka föt sín, en Gandalfur harðbannaði það. Þess í stað breiddu þeir úr blautum fötum sínum á gólfinu en fengu þurr föt úr farangrinum. Svo breiddu þeir teppi undir sig, drógu upp pípur sínar og byrjuðu að blása reykjarhringjum sem Gandalfur brá mismunandi litum á og lét þá dansa um hellisloftið þeim til afþreyingar. Og nú þurftu þeir heldur betur að masa og masa og snerist tal þeirra mest um það, hvað hver og einn ætlaði að gera við sinn skerf af Drekagullinu (þegar þeir kæmust yfir það, og þessa stundina fannst þeim það nú hreint ekki svo fráleitt). Síðan sofnuðu þeir út af hver af öðrum. En þetta var nú í síðasta skipti sem þeir gátu notað hestana, baggana, farangurinn, verkfærin og allt það fjölbreytilega lausadót sem þeir höfðu haft með sér.

Þá um nóttina kom í ljós, hve gagnlegt það var fyrir þá að hafa litla Bilbó með sér, þrátt fyrir allt. Einhvern veginn fór það svo að hann átti lengi erfitt með að sofna og þegar hann loksins sofnaði, kom yfir hann andstyggilegur draumur. Honum fannst sem sprunga rifnaði í sundur aftast í hellinum, stækkaði og víkkaði, og hann varð lamaður af skelfingu svo hann gat hvorki hrópað upp né aðhafst neitt nema legið hreyfingarlaus og horft á þetta. Þá var sem hellisgólfið léti undan og kæmi halli á það svo að hann fór að renna niður og niður á við og hrapa og hrapa, guð mátti vita hvert.

Þá hrökk hann upp með andfælum og komst að því að hluti draumsins var raunverulegur. Sprunga hafði virkilega opnast aftast í hellinum og var orðin að allvíðum gangi. Í því sá hann í taglið á síðasta hestinum hverfa inn í raufina. Að sjálfsögðu rak hann upp skerandi neyðaróp, eins hvellt og hátt og hobbitar geta gefið frá sér, sem er furðu hávært miðað við stærð þeirra.

Út þustu dríslarnir, stórir dríslar, voldugir hörmulega ljótir dríslar, heil hersing af dríslum áður en nokkur gæti sagt skrattinn hafi það! Þeir voru sex um hvern dverg að minnsta kosti og jafnvel tveir um Bilbó. Allir voru þeir gripnir og dregnir inn um skoruna áður en nokkur gæti sagt farðu til fjandans! Allir nema Gandalfur. Þar kom neyðaróp Bilbós að haldi. Því að Gandalfur vaknaði upp við það á broti úr sekúndu, og þegar dríslarnir komu og ætluðu að grípa hann brá fyrir blindandi leiftri eins og eldingu inni í sjálfum hellinum og gaus upp púðurlykt og margir þeirra féllu dauðir niður.

Skoran small saman og því miður voru Bilbó og dvergarnir þá öfugu megin við hana! En hvað skyldi hafa orðið að Gandalfi? Það höfðu hvorki þeir né dríslarnir minnstu hugmynd um og dríslarnir töfðu ekkert við að ganga úr skugga um það. Þeir héldu Bilbó og dvergunum heljartökum og hrintu þeim áfram. Þarna var kolniðamyrkur sem aðeins dríslar geta vanið sig við, sem búa djúpt undir í fjöllunum, og sjá í gegnum myrkrið. Gangarnir lágu þvers og kruss í allar áttir, en dríslarnir áttu í engum vanda með að rata um þá, ekki meira en ef þú ferð út á næsta pósthús. Leiðin lá neðar og neðar og loftið varð hræðilega þungt. Dríslarnir voru mjög harðhentir og skemmtu sér við að kreista fangana miskunnarlaust og flissuðu og hlógu með hræðilega rámum strigarómi. Bilbó leið nú enn verr en þegar tröllið tók hann upp á tánum. Hann óskaði sér þess aftur og aftur að hann væri kominn heim í fallegu björtu hobbitaholuna sína. Og ekki í síðasta sinn.

Nú rofaði fyrir rauðu ljósi framundan. Dríslarnir fóru að syngja eða réttara sagt að krunka í takt við slyttulegt flatfótatak sitt á steingólfinu um leið og þeir hristu fanga sína eftir hljóðfallinu.

Klappa, stappa! Kremja og lemja! karla þessa látum við emja. Berjum þá og bindum á grindum, bölvum þeim og lemjum og pyndum. Dumpum þeim í dríslavítin, drögum þá í versta skítinn. Skratta, patta, skrukka og pukka! skulum við í búkinn á þeim krukka. Pumma, lumma! potum í þá stöngum! Pínum þá og klípum með töngum! Bönkum þá og berjum með hömrum, byrgjum þá í for undir kömrum. Svissa hvissa! Hrynja og stynja! svipuhöggin látum á þeim dynja. Þrjótar þessir vel mega þræla, þýðir lítið fyrir þá að skæla. Ropa, gopa, rumpa og prumpa! ræfla þessa látum í holræsin dumpa.

Þetta hljómaði ömurlega. Og klettaveggirnir bergmáluðu svo undir tók viðlagið um að kremja og lemja og andstyggilegan hlátur þeirra sem á eftir fylgdi potum í þá stöngum! og klípum þá með töngum! Þeir fengu líka að kenna á raunverulegri merkingu orðanna, því að síðast tóku dríslarnir fram svipur sínar og létu höggin dynja á þeim sviss, hviss og ráku þá á harðahlaupum á undan sér og þá voru nú fleiri en einn af dvergunum farnir að hrína og jarma eins og ég veit ekki hvað, þegar þeir hrökkluðust undan þeim niður í víðari hellisgeim.

Salurinn var lýstur upp af rauðu báli á miðju gólfi og blysum á veggjunum og þar var allt morandi af dríslum. Þar ríkti mikil kátína. Allir hlógu þeir, stöppuðu niður fótum og klöppuðu saman höndum, þegar dvergarnir (með vesalings Bilbó aftastan og næst undir svipunum) voru reknir inn, meðan drísilrekarnir hóuðu hátt og létu svipurnar smella yfir þeim. Þarna voru hestarnir þeirra líka komnir og allar klifjarnar lágu á víð og dreif og byrjað að rífa upp bögglana, því dríslarnir voru áfjáðir í að komast í ránsfenginn, þefa af honum, káfa á honum og rífast um hann.

Hræddur er ég um að þetta hafi verið í síðasta sinn sem þeir félagar fengu að líta þessa ágætu hesta sína, þar á meðal sterkbyggða hvíta burðarhestinn sem Elrond hafði léð Gandalfi í stað fyrra fáksins sem ekki taldist hentugur í fjallaferðir. Því að Dríslar éta jafnt stóra stríðsfáka, smáhesta og asna (og margt ennþá hræðilegra) enda eru þeir alltaf glorhungraðir. En þessa stundina höfðu fangarnir meiri áhyggjur af sjálfum sér. Dríslarnir bundu hendur þeirra fyrir aftan bak, hlekkjuðu þá saman í eina lest og teymdu yfir í fjarlægari enda hellisins, en aftastur í röðinni eins og venjulega var Bilbó dreginn.