Выбрать главу

Þarna í skugganum sat beljaki mikill, höfuðstór drísill á stórri steinhellu og allt í kringum hann stóðu vopnaðir skrattar og hristu axir og skeglusverð sem þeir eru vanir að bera. Þessir drísildjöflar eru ofboðslega grimmir og þar eftir siðlausir og illfýsnir. Þeir skapa aldrei neitt fagurt en eru því snjallari í að úthugsa ýmiskonar vélabrögð. Þeir standa engum að baki í að grafa jarðgöng og námur, nema kannski færustu dvergum, en ótrúlegt er hvað þeir geta atað sig út við það. Þeir smíða sjálfir ýmiskonar gróf áhöld, svo sem hamra, axir, sverð og rýtinga, haka og tangir og allskyns pyntingartæki en fá aðra, fanga og þrælavinnuafl, til að framleiða þau í stærri stíl. Þeir fara hraksmánarlega með fanga sína, píska þá áfram og pína í neðanjarðarsmiðjum sínum uns þeir láta þar lífið unnvörpum í myrkri og kafna af loftleysi.

Eigi er ólíklegt að frá þeim hafi upphaflega komið sum af þeim hryllingstækjum sem síðan hafa hrellt heiminn, einkum hin hugvitssamlegu tæki til að drepa sem allra flesta í einu, en þeir voru svo snoknir yfir hverskyns vélum og tólum og sprengiefnum að þeir máttu varla vatni halda. Hinsvegar nenntu þeir ekki að vinna meira með höndunum en hægt var að komast af með. En í þá daga og úti á auðnum hafði tækni þeirra þó ekki þróast (sem svo er kallað) eins langt og síðar varð. Það var ekki hægt að segja að þeir hötuðu dverga umfram allt annað, nema þá helst þá sem ráðsettir voru og vel efnum búnir. Þess voru jafnvel dæmi að verstu drísildjöflarnir gerðu bandalag við dverga. Samt var þeim sérstaklega illa við Þorinsþjóð vegna styrjaldarinnar við hana sem minnst hefur verið á, en kemur annars ekki þessari sögu við. Þar fyrir utan gera dríslar engan greinarmun á hverja þeir handsama, en þeim finnst mikið varið í að framkvæma það á lævísan og snjallan hátt og án þess að fangarnir fái varið sig.

„Hvaða ræflalýður er þetta?“ spurði Stórdrísillinn.

„Dvergar og þetta eitthvað í viðbót!“ svaraði einn pískaranna og kippti í keðjuna á Bilbó svo hann skall niður á hnén. „Við komum að þeim þar sem þeir höfðu skriðið í skjól í Anddyrinu okkar.“

„Hvaða skýringu gefurðu á því?“ spurði Stórdrísillinn og sneri sér að Þorni. „Af þér er einskis góðs að vænta, ætla ég! Voruð þið kannski að njósna um einkahagi þjóðar minnar. Já ætli ekkí! Þjófar, það kæmi mér ekki á óvart! Morðingjar og álfavinir! Ekki er ólíklega til getið! Svona nú! Hverju svararðu því?“

„Ég er Þorinn dvergur, þjónustufús!“ svaraði hann – en þetta voru auðvitað einskær kurteisisorð og ekkert annað. „Við könnumst ekki hið minnsta við þær sakir sem þú berð á okkur. Við leituðum aðeins skjóls undan storminum. Okkur sýndist þetta þægilegur og ónotaður hellisskúti, ekkert var okkur fjær úr huga en að valda dríslum minnstu óþægindum með nokkrum hætti.“ Þetta var auðvitað sannleikurinn í málinu.

„Hummhumm!“ sagði Stórdrísillinn. „Þú heldur því fram! En má ég þá spyrja hvern fjandann þið voruð yfirleitt að flækjast uppi í fjöllunum, hvaðan bar ykkur að og hvert átti að fara? Ég vil einfaldlega fá að vita allt um ykkur. Ekki svo að útskýringar þínar komi ykkur að neinu gagni, Þorinn Eikinskjaldi, því að ég veit þegar nógu mikið um þína þjóð. En þú skalt leysa frá skjóðunni eða ég skal láta þig fá að reyna eitthvað alveg frámunalega óþægilegt!“

„Við vorum nú bara á leiðinni til að heimsækja skyldfólk okkar, bróðursyni og bróðurdætur og afsprengi þeirra í þriðja og fjórða lið og aðra afkomendur sameiginlegra forfeðra okkar sem búa austan þessara ógnarlegu ógestrisnu fjalla,“ sagði Þorinn en var í vandræðum með hvernig hann ætti að haga orðum sínum, því að augljóst var að hann mátti umfram allt ekki segja sannleikann.

„Hann lýgur! Skelfing er hann lyginn!“ sagði einn af drífurunum. „Margir úr okkar hópi voru slegnir eldingu í skútanum, þegar við buðum þessum skepnum að koma inn í bergið. Margir okkar manna liggja þar steindauðir. Og ætli hann geti gefið skýringu á þessu!“ Gaurinn lyfti upp sverðinu sem Þorinn hafði borið, því sem hann hafði fundið í bæli tröllanna.

Stórdrísillinn rak upp hræðilegt reiðiöskur þegar honum varð litið á sverðið og allir liðsmenn hans gnístu tönnum, börðu skildi sína og stöppuðu í gólfið. Þeir þekktu þetta sverð samstundis sem hafði orðið hundruðum drísla að bana á sínum tíma, þegar hinir kröftugu fagurálfar af Gondolín hundeltu þá um allar hæðir og réðust til atlögu undir múrum þeirra. Álfarnir höfðu kallað það Orkrist eða drísilkljúf, en dríslarnir Bít eða Bítarann. Þeir hötuðu það og enn meira hvern þann sem nokkurn tímann bar það.

„Morðingjar og álfavinir!“ öskraði stórdrísillinn og réði sér ekki lengur. „Lemjið þá! Kremjið þá! Bítið þá! Slítið þá! Farið með þá í myrkraholurnar fullar af snákum og látið þá aldrei framar sjá dagsins ljós!“ Hann var í þvílíku ofsalegu illskukasti að hann stökk sjálfur upp af sæti sínu og þusti að Þorni með galopið gin.

En á samri stundu slokknuðu öll ljósin í hellinum og stóra bálið drapst eins og blásið hefði verið á kerti. Eftir stóð aðeins svolítill hraukur hulinn bláum glóandi reyk sem liðaðist upp í hellisloftið og dreifði hvítu neistaflugi yfir alla dríslaþvöguna.

Öskrinu og veininu, urginu og ískrinu, bölvinu og ragninu, orginu og garginu sem á eftir fylgdi verður ekki með orðum lýst. Þótt mörg hundruð villikettir og úlfar væru steiktir saman lifandi yfir hægum eldi, hefði það ekki komist í hálfkvisti við alla þessa skræki. Neistarnir brenndu göt á húð dríslanna og reykurinn sem lagði niður úr loftinu var jafnvel of þéttur til þess að dríslar sæju í gegnum hann. Þeir rákust saman og skullu og féllu hver um annan þveran og ultu í hrúgum á gólfinu, bítandi, sparkandi og lemjandi allt og alla eins og þeir væru gengnir af göflunum.

Skyndilega leiftraði sverð í eigin ljóma. Bilbó sá það stingast beint í gegnum Stórdrísilinn þar sem hann stóð furðu lostinn mitt í eigin geðvonsku. Hann hneig niður dauður og drísildátarnir flýðu æpandi undan sverðinu sem sveif í myrkrinu.

Sverðið var aftur slíðrað.„Fylgið mér fljótt nú!“ sagði rödd bæði í senn æst og róleg og áður en Bilbó fengi áttað sig á, hvað væri á seyði, tók hann á rás aftur, eins hratt og fætur toguðu, eins og áður aftastur í lestinni niður fleiri dimma ganga meðan hávaðinn í drísilsalnum fjarlægðist og dofnaði. En fölt ljós fór fyrir þeim.

„Hraðar, hraðar!“ sagði röddin. „Þeir verða ekki lengi að kveikja aftur á blysunum.“

„Bíðið aðeins við!“ sagði Dóri sem var aftarlega í lestinni næst á undan Bilbó, besti náungi. Hann bauð hobbitanum að klifra upp á axlir sér eftir því sem hann gæti með báðar hendur bundnar og síðan fóru þeir á harðahlaupum fastir í glamrandi keðjunum og margir hnutu þar sem þeir höfðu ekki hendurnar til að styðja sig með. Langalengi hlupu þeir áfram án þess að nema staðar og hljóta þá að hafa verið komnir lengst inn í iður fjallsins.

Þá loksins kveikti Gandalfur á stafnum sínum. Auðvitað var þetta enginn annar en Gandalfur, en nú voru allir svo uppteknir af að komast undan, að þeir hreinlega gleymdu að spyrja hann hvernig hann hefði farið að þessu. Nú dró hann sverð sitt aftur úr slíðrum og enn leiftraði það af sjálfu sér í myrkrinu. Það logaði venjulega því bjartara sem fleiri dríslar voru í nánd en nú blossaði það upp í bláum loga af gleði yfir að hafa drepið sjálfan stórhöfðingja hellisins. Það hafði ekki mikið fyrir því að sneiða í sundur dríslakeðjurnar og leysa alla fangana í snarhasti úr fjötrum. Þetta var sverðið Glamdringur eða Fjandhöggur, ef þið munið eftir því. En dríslarnir kölluðu það einungis Höggarann og hötuðu hann enn meira en Orkristann ef hægt væri að komast hærra en það. En nú höfðu þeir líka aftur náð Orkristi, því að Gandalfur var líka með hann í fórum sínum, hafði hrifsað hann af einum dauðskelkuðum dríslinum. Það mátti því segja að Gandalfur hugsaði fyrir flestu, og þó hann gæti kannski ekki hugsað fyrir öllu, var hann vinum sínum sannkölluð hjálparhella í neyð.