Выбрать главу

„Hvað áttu eiginlega við?“ sagði hann „Ertu að bjóða mér sæld, eða bara að segja mér í óspurðum fréttum að ég sé sæll hvort sem ég vil það eða ekki; eða láta mig vita að þér finnist að ég eigi að vera sæll á þessari stundu, eða almennt að maður hljóti að vera sæll á slíkum degi?“

„Allt í senn,“ sagði Bilbó og lét sér hvergi bregða. „Og í kaupbæti með allri þessari sælu máttu fá þér í pípu með mér hér undir beru lofti. Tylltu þér og fáðu þér reyk. Ekkert liggur nú á, við höfum allan daginn fyrir okkur!“ Svo settist Bilbó sjálfur niður á svolítinn kamp við dyrnar, krosslagði fæturna og blés frá sér bráðfallegum gráum reykjarhring sem hófst upp í loftið og sveif áfram án þess að gliðna í sundur upp eftir Hólnum.

„Vel af sér vikið!“ sagði Gandalfur, „En ég má engan tíma missa í að blása reykjarhringi í dag. Ég er að leita að einhverjum sem vildi taka þátt í mikilli ævintýraferð sem ég er að undirbúa, og mér gengur ekkert að finna neinn.“

„Því gæti ég trúað að sá væri ekki auðfundinn hér um slóðir! Við hér erum ósköp venjulegt og hæglátt fólk og þörfnumst engra ævintýra. Hvað eru ævintýri líka annað en árans óþægindi og truflun! Í ævintýrum getur maður aldrei verið viss um að komast tímanlega í matinn! Mér er bara hulin ráðgáta hvað er varið í þessi ævintýri,“ sagði herra Baggi; hann smeygði öðrum þumalfingrinum undir axlabandið og blés frá sér öðrum reykjarhring.

Svo dró hann fram bréf sem hann hafði fengið með póstinum um morguninn, fór að lesa þau og lét sem gamli maðurinn væri ekki til. Honum fannst lítt áhugaverður þessi gamli gramur og vildi helst að hann hefði sig hið bráðasta á braut. En gamli maðurinn færði sig ekki um fótmál, bara stóð þarna og studdist fram á stafinn og starði á hobbitann án þess að segja nokkuð, þangað til Bilbó fór að þykja það óþægilegt og varð önugur yfir þessari truflun.

„Jæja, vertu þá sæll!“ sagði hann loks. „Hér viljum við sem sé vera laus við öll ævintýri, takk fyrir. Þú gætir leitað fyrir þér yfir Hól eða handan Ár.“ Þar með skyldi því samtali vera lokið.

„Hún kemur ykkur heldur en ekki að notum þessi himnaríkissæla,“ sagði Gandalfur. „Nú þýðir hún að þú viljir losna við mig, ég megi vera sæll ef ég bara snauti burt og þú verðir ekki sæll fyrr en þú sért orðinn laus við mig.“

„Nei, alls ekki, og engan veginn, herra minn! En hvað erum við að skeggræða þetta saman, og ég veit ekki einu sinni hvað þú heitir.“

„Jæja og jæja, góði minn — en ég veit hvað þú heitir, herra Bilbó Baggi. Og víst veistu hver ég er, þótt þú munir ekki eftir mér í þessari andrá. Ég heiti Gandalfur og Gandalfur það er ég! Að hugsa sér að mér skuli vera sælað burt af syni sjálfrar Belladonnu Tóka, eins og ég væri farandsali og hnappasmiður að bjóða látúnshnappa við dyrastaf.“

„Ó, Gandalfur, Gandalfur! Hjálpi mér! Ekki þó förukarlinn sem gaf Gamla Tóka tvöföldu demantshnappana göldróttu sem festust saman og losnuðu ekki fyrr en þeim var skipað það? Ekki þó sami gamli þulurinn sem sagði okkur öll skemmtilegu ævintýrin um drekana og drísildjöflana og tröllin og sagnirnar af því hvernig kóngsdætrum var bjargað og af öllum þeim óvæntu höppum sem féllu í skaut fátæka stráksins, sonar ekkjunnar? Ekki þó sami karlinn og var þvílíkur snillingur í að skjóta á loft flugeldum! Hvort ég man það. Gamli Tóki fékk þá og var vanur að skjóta þeim á Miðsumarnótt. Þeir voru alveg hreint frábærir. Þá sprungu út á himninum risavaxnar liljur og ljónsmunnar og logandi gullregn og svifu um í rökkrinu og langt fram á kvöld!“

Af þessum hrifningarorðum herra Bagga getur lesandinn strax ráðið að hann var ekki nærri því eins skyni skroppinn og hann vildi vera láta og auk þess var hann sýnilega mesti blómavinur. „Detta mér nú dauðar lýs,“ hélt hann áfram. „Ekki þó sá sami Gandalfur og bar ábyrgð á því að bæði strákar og stelpur fóru út í veður og vind að taka upp á allskyns skrýtnum uppátækjum, hvort sem það var að klifra upp í tré eða heimsækja álfa – eða sigla með skipum burt til fjarlægra stranda! Já, hjálpi mér, þá var lífið svei mér ske — æ, æ, æ ég á við það að þú settir allt í háaloft í þá gömlu og góðu daga. Ég verð að biðja þig afsökunar, en ég hafði ekki hugmynd um að þú værir enn í þessum bransa.“

„Hvar annars ætti ég að vera?“ sagði vitkinn. „Vænt þykir mér um að þú manst ennþá eftir mér. Ekki er annað að heyra en að þú minnist flugeldanna með söknuði, og þá er þér þó viðbjargandi. Og fyrir sakir afa þíns Tóka og vesalings Belladonnu, skal ég verða við ósk þinni.“

„Ég bið af afsaka, en ég var ekki að biðja þig um nokkurn skapaðan hlut!“

„Jæja, það er skrýtið. Nú varstu þó að biðja um það í annað skipti – um afsökun mína. Hana gef ég þér. Og það sem meira er, ég skal taka þig með mér í þessa ævintýraferð. Það verður gaman fyrir mig, ágætt fyrir þig — og þú getur hagnast vel á því, það er að segja ef við þraukum hana af.“

„Nei, takk! Ég kæri mig ekki um nein ævintýri. Að minnsta kosti ekki í dag. Nú var ég búinn að segja vertu sæll við þig og svo ekki meira með það! En þér er velkomið að líta inn einhvern tímann seinna – og fá þér tesopa. Já, hvenær sem þú vilt! Hvernig stendur á hjá þér á morgun! Já, komdu þá! En vertu nú bara sæll og blessaður.“ Og með það sneri hobbitinn sér á hæli og smeygði sér inn um kringlóttar grænar dyrnar og skellti þeim í lás svo snöggt sem hann þorði, án þess að sýnast of dónalegur. Því að vitkar voru nú einu sinni vitkar og best að fara varlega að þeim.

„Hví í ósköpunum fór ég að bjóða honum í te!“ sagði hann önuglega við sjálfan sig um leið og hann beygði inn í matarbúrið. Bilbó var að vísu nýbúinn að snæða morgunverð, en fannst sér þó ekki veita af svo sem einni smáköku eða tveimur og einhverjum sopa eftir alla þessa áreynslu.

En eftir stóð Gandalfur utan dyra og sauð lengi niðri í honum hláturinn. Að vörmu spori gekk hann nær dyrunum, brá staf sínum og krotaði með honum á fallegar grænlakkaðar dyr hobbitans eitthvert tákn. Svo skundaði hann á braut í sama mund og Bilbó var að innbyrða aðra kökuna og farinn að vona að hann væri laus við öll ævintýri.

Daginn eftir var hann steinbúinn að gleyma Gandalfi. Hann var ósköp gleyminn á stefnumót nema hann skrifaði þau niður á stundatöflu sína t.d. Miðvikudagur – Gandalfur í te. En í gær hafði hann verið svo flaumósa að hann gleymdi að púnkta það niður.

Rétt þegar kominn var tetími, var dyrabjöllunni hringt svo hátt að allt ætlaði um koll að keyra og þá mundi hann það! Hann rauk til og setti ketilinn á og bætti við einum bolla og diski og einni aukaköku eða tveimur og hljóp til dyra.

„Ég bið afsökunar að láta þig bíða!“ ætlaði hann að segja, en þá sá hann að úti fyrir stóð enginn Gandalfur, heldur dvergur með blátt síðskegg sem reyrt var niður undir mittisólina. Hann var sérkennilega skæreygur undir dökkgrænni topphettu. Ekki hafði Bilbó fyrr opnað dyrnar en hann ruddist inn og lét eins og búist hefði verið við honum.

Hann hengdi hettu sína á næsta snaga. „Dvalinn heiti ég, þjónustufús,“ sagði hann og hneigði sig djúpt.

„Bilbó Baggi, sömuleiðis!“ svaraði hobbitinn til baka, svo yfirkominn af undrun að honum datt ekki einu sinni í hug að spyrja dverginn hvað honum væri á höndum. En þegar þögnin var orðin vandræðaleg bætti hann við. „Ég ætlaði rétt að fara að fá mér te, má bjóða þér sopa með mér?“ Hann var víst dálítið stífur í fasi, en í rómnum mátti greina meðfædda gestrisnina. En hvernig á maður líka að bregðast við, ef óboðinn dvergur treður sér inn úr dyrunum og fer úr yfirhöfninni án nokkurra skýringa.