„Á ég þá að snúa við?“ hugsaði hann. „Nei, það er ómögulegt! Til hliðanna! Ófært! Áfram? Það er víst eina leiðin! Áfram skal halda!“ Svo hann reis á fætur og trítlaði af stað, bar litla sverðið fyrir sér en þreifaði með hinni hendinni á veggnum meðan hjartað hamaðist í brjósti hans.
Nú mátti með sanni segja að Bilbó væri í ógöngum. En höfum samt í huga, að þrengingarnar voru ekki alveg eins miklar fyrir hann og þær hefðu verið fyrir mig eða þig. Hobbitar eru nefnilega ekki alveg eins og venjulegt fólk. Þótt hobbitaholur séu ágætar og upplífgandi og vel loftræstar og þannig gjörólíkar neðanjarðargöngum dríslanna, þá eru þeir þó alla daga vanari gangagreftri en við, og þeir tapa ekki svo auðveldlega áttum neðanjarðar — enda þótt þeir séu að ná sér eftir að hafa fengið högg í hausinn. Auk þess eru þeir frægir fyrir það hvað þeir eru snöggir í hreyfingum, eiga auðvelt með að fela sig og fljótir að ná sér eftir fall og skrámur. Þeir eiga sér auk þess mikinn sjóð spakmæla og heilræða sem mennirnir ýmist hafa aldrei heyrt eða eru búnir að gleyma endur fyrir löngu.
Allt að einu hefði mig ekki langað til að vera í sporum herra Bagga. Þessi göng virtust endalaus. Hann hafði ekki hugmynd um hvert þau lágu nema þau virtust stefna stöðugt niður á við og nokkurnveginn í sömu áttina þrátt fyrir einstaka sveigjur og beygjur. Við og við kom hann að gangaopum sem lágu til hliðanna, ýmist sá hann þau við glitið frá sverðinu eða þreifaði fyrir þeim á veggjunum. En hann hirti ekkert um neinar hliðarálmur, hraðaði sér framhjá þeim af ótta við að einhverjir drísilskrattar eða ímyndaðar myrkraverur gætu skotist út úr þeim. Hann hélt áfram og áfram, neðar og neðar og heyrði ekkert hljóð nema einstaka sinnum vængjagust í leðurblöku sem fór framhjá eyrum hans. Fyrst í stað brá honum við það, en svo vandist hann því og hirti ekkert um það. Ég veit ekki hve lengi hann hélt þannig áfram, en nógu lengi til þess að honum varð um og ó en þorði samt ekki að nema staðar. Áfram hélt hann þangað til hann var orðinn útþreyttari en allt útþreytt. Honum fannst að það hlyti að vera kominn morgundagurinn eða þar næsti dagur.
Skyndilega og mjög svo óvænt steig hann splass! í vatn! Úff! Það var ískalt. Þá snarstöðvaðist hann. Hann vissi ekki hvort þetta væri aðeins smápollur á veginum eða vatnsrás sem lægi þvert yfir göngin eða kannski eyri við djúpt stöðuvatn neðanjarðar. Þá lýsti varla neitt af sverðinu að heitið gæti. Þar sem hann stóð kyrr og lagði við hlustir, heyrði hann dropahljóð eins og vatn seitlaði niður úr óséðu lofti fyrir ofan og dreitlaði niður á vatnsborð, en hann varð ekki var við neinn straumnið.
„Þetta hlýtur þá að vera tjörn eða stöðuvatn en ekki neitt neðanjarðarfljót,“ hugsaði hann með sér. Hann þorði þó ekki að vaða út í það í myrkrinu. Hann var ósyndur og sá líka fyrir hugskotssjónum allskyns ógeðsleg slímug dýr iðandi í vatninu með stór búlgandi blind augu. Og víst er um það að margar skrýtnar skepnur hrærast í tjörnum og vötnum neðanjarðar, djúpt undir fjallsrótum. Einhverjir forfeður sumra fiskanna syntu þangað niður fyrir ótölulegum fjölda ára og komust aldrei út aftur. Augu þeirra fóru smámsaman að stækka og þenjast út í viðleitni náttúrunnar til að sjá eitthvað í myrkri. Þar eru líka slímugri skepnur en fiskar. Jafnvel í göngunum og hellunum sem dríslarnir hafa holað út, er ýmislegt á ferli, sem þeir hafa ekki einu sinni hugmynd um að hafi laumast inn til að fá að leynast þar í myrkrinu. Sumir hellanna eru líka frá því mörgum öldum fyrir komu dríslanna, sem þá hafa aðeins víkkað út holur upprunalegu eigendanna sem enn eru þar að laumast í afkimum og snuðra.
Þarna dýpst undir fjallsrótum við koldimmt vatn hafðist Gollrir gamli við. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan hann kom, hver hann var, né heldur hverskonar kvikindi hann eiginlega var. Ég veit bara að hann var Gollrir — allur biksvartur eins og myrkrið — nema stórar kringlóttar og fölvar glyrnurnar. Hann hafði yfir svolitlum eintrjáningi að ráða og spyrnti sér áfram næstum hljóðlaust um tjörnina, nokkuð breiða, djúpa og nákalda. Hann rétt damlaði sér áfram með flötum fótunum út fyrir borðstokkinn, svo varlega að vatnið gáraðist ekki né bifaðist minnstu vitund. Þar skimaði hann fölvum augum eftir blindum hellafiskum og þreif þá leiftursnöggt með löngum kjúkunum. Hann var líka sólginn í drísla og fannst þeir ágætir til átu, ef hann gæti komist yfir þá. En hann var mjög varkár og gætti þess að láta ekki komast upp um sig. Hann var vanur að ráðast aftan að þeim og kyrkja þá, ef einhver þeirra var einn á ferð í námunda við vatnið. En þeir komu þangað sjaldan því að þeim stóð ógn af því að eitthvað óskemmtilegt væri þar í leynum, neðst undir rótum fjallsins. Þeir höfðu komið niður að vatninu endur fyrir löngu þegar þeir voru að bora göng en komust ekki lengra. Svo að þar endaði stígur þeirra í þessa áttina og síðan höfðu þeir enga þörf fyrir að koma þangað — nema hvað Stórdrísillinn sendi þá þangað af og til, því að stundum langaði hann í fisk úr vatninu. En þá kom það fyrir, að drísillinn sem sendur var sneri ekki við og enginn fiskur heldur.
Í rauninni bjó Gollrir á slímugum hólma í miðju vatninu. Hann fylgdist strax með Bilbó úr fjarlægð og beindi að honum fölvum glyrnunum sem voru eins og kíkjar, en Bilbó gat ekki séð hann. Gollrir var strax mjög undrandi yfir þessu aðskotadýri, því að hann sá strax að þetta var enginn drísill.
Gollrir fór nú út í bátinn sinn og ýtti sér frá hólmanum á meðan Bilbó sat þar á bakkanum alveg ráðalaus við endalok vegar og vits. Skyndilega kom Gollrir að honum og hvíslaði eða hvæsti:
„Hjálpi oss og skvetti oss, minn dýri! Hyggsum vera veislumat, bragðgóður biti handa oss gollrum!“ Og hvenær sem hann sagði gollrum kom hræðilegt kokhljóð úr honum. Af því hafði hann hlotið nafn, þó að hann annars venjulega kallaði sjálfan sig „minn dýri“.
Hobbitinn hoppaði næstum út úr eigin húð, svo mjög brá honum, þegar hann heyrði hvæsið og sá samstundis fölar glyrnurnar glápa á sig.
„Hver ert þú?“ spurði hann og otaði bitvopninu fram fyrir sig.
„Hvað skyldi þetta vera, minn dýri?“ hvíslaði Gollrir, (en það var hans háttur að tala ætíð þannig við sjálfan sig, þar sem hann hafði engan annan til að tala við). En hann var einmitt kominn til að kanna hvað þetta væri, hann var ekki reglulega svangur þá, aðeins forvitinn. Að öðrum kosti hefði hann gripið bráðina fyrst og hvíslað á eftir.
„Ég er Bilbó Baggi og er búinn að týna dvergunum mínum og vitkanum og hef ekki hugmynd hvar ég er staddur, en stendur á sama um það, bara ef ég kemst burt.“
„Kva e’ann me í krummulunni?“ sagði Gollrir og góndi á sverðið sem honum var ekkert um gefið.
„Sverð úr hulduborginni Gondólín!“
„Shississu svei,“ hvæsti Gollrir en mátti strax sjá á framkomu hans að betra væri að fara varlega. „Skyldi hann þá vilja sestast niður og rabba saman, ljúfinn! Vill hann koma og geta gátur?“ Hann gerði sig blíðan á manninn, vildi vita meira um gestinn og hvort líklegt væri að hann bragðaðist vel. „Kannki setjast niður og rabba smálegt við minn dýra. Kannki hann hafa gaman af gátum, kvur veit?“ Hann lagði sig fram um að vera altillegur, að minnsta kosti í bili þangað til hann vissi meira um sverðið og hobbitann og hvort hann væri virkilega aleinn á ferð, hvort hann skyldi vera ætilegur og hvort Gollrir sjálfur væri nógu svangur til að hafa lyst á honum. Gátur voru það eina sem honum datt í hug. Að spyrja gátna og stundum ráða þær, var eini leikurinn sem hann mundi og hafði viðhaft við ýmis undarleg dýr í holum sínum endur fyrir löngu, áður en hann glataði öllum sínum vinum og var hrakinn burt og skreið niður og niður í myrkrið undir fjöllunum.