Выбрать главу

„Úff!“ sagði hann, „hvað hann getur verið kaldur og slepjugur!“ og þar með hafði hann svarið. „Fiskur! auðvitað fiskur!“ hrópaði hann. „Það er fiskur!“

Gollrir varð fyrir hræðilegum vonbrigðum. Og Bilbó var fljótur með nýja gátu svo Gollrir varð að skreiðast aftur upp í bátinn til að hugsa.

Enginn fótur lá á einum fæti, tvífótur sat hjá á þrífæti, en ferfótur fékk sinn skammt.

Hann gat nú varla komið með þessa gátu á óheppilegri tíma, en Bilbó vildi bara vera nógu fljótur til. Kannski var gátan svo flókin, að Gollrir hefði átt í vandræðum með hana á öðrum tíma. En eftir að svarið við síðustu gátunni var fiskur, þá lá nú beint við hver „enginn fótur“ var og eftir það rakti gátan sig sjálf. „Fiskur á einfættu borði og maður sat við borðið á þrífættum stól og ferfættur köttur fékk fiskbita.“ Það var auðvitað svarið og Gollrir var ekki lengi að koma með það. Og nú fannst honum kominn tími til að leggja fram einhverja svakalega erfiða og hryllilega gátu. Og hún var þessi:

Ferlíki þetta étur allt, blóm og tré, fugla og fé, nagar járn, japlar stálið kalt, sverfur harðan stein í mél, rífur fjöll í ryk og salla, rústar borgir, kóngar falla.

Vesalings Bilbó sat þarna í myrkrinu og byrjaði á því að rifja upp heiti allra risa og skrímsla sem hann hafði heyrt sagnir af, en engin þeirra komust nokkuð í hálfkvisti við þetta. Hann fann það á sér að svarið lægi allt annars staðar og að hann ætti að vita það, en hann gat ekki komið sér niður á neina hugsun. Svo fór hann að verða dauðhræddur um sjálfan sig og það kann ekki vel að verka á hugarstarfið. Aftur byrjaði Gollrir að mjaka sér út úr bátnum. Hann teygði löppina í vatnið og spyrnti sér upp að bakkanum, en Bilbó gat ekki einu sinni séð glyrnur hans nálgast sig. Hann var algerlega miður sín, tungan límdist við góm og hann ætlaði að veina upp yfir sig: „Meiri tíma! Meiri tíma!“ en í niðurbældum skræk heyrðist ekkert annað en

„Tíma! Tíma!“

Þannig bjargaðist Bilbó af einskærri heppni. Því að auðvitað var gátan um „Tímann.“

Enn einu sinni varð Gollrir fyrir nístandi sárum vonbrigðum svo nú fór hann að verða bálreiður og á sama tíma hundleiður á þessum leik. Og um leið var hann orðinn svo glorhungraður að hann gat ekki beðið lengur. Í þetta skipti fór hann ekki aftur út í bátinn, heldur settist í myrkrinu við hliðina á Bilbó tilbúinn til atlögu. Það var svo hræðilega óþægilegt fyrir hobbitann að hann hætti að geta haft nokkuð vald á hugsunum sínum.

„Það verður að spyrja oss spurninga, dýri minn, jamm, jamm og já. Bara eina gátu enn jamm, jamm,“ sagði Gollrir.

En Bilbó var fyrirmunað að velta upp fyrir sér nokkurri gátu meðan þetta fúla blauta kvikindi sat þarna hjá honum og var meira að segja byrjaður að brýna klærnar og pota í hann.

Hann klóraði sér í höfðinu, hann reyndi að klípa sig, en ekkert dugði, honum kom ekkert í hug.

„Spyrja oss! Spyrja ossumið!“ sagði Gollrir.

Bilbó kleip sig aftur, lamdi sig í hausinn. Hann greip um litla sverðið sitt, þreifaði jafnvel vasa sinn Þar fann hann hringinn sem hann hafði tekið upp af slóð sinni og var búinn að gleyma.

„Hvað er ég með í vasanum?“ sagði hann upphátt. Eiginlega var hann bara að tauta þetta við sjálfan sig, en Gollrir var svo æstur að hann tók það sem gátu og varð hræðilega uppnæmur!

„Ógilt! Ógilt!“ hvæsti hann. „Ekki rétt, minn dýri, má ekki spyrja hvað það hafi í vasanum?“

Bilbó varð þá allt í einu ljóst að hinn hefði tekið þessu sem gátu og þar sem hann fann enga betri gátu til að bera fram, hélt hann fast við spurninguna.

„Hvað er ég með í vasanum?“ spurði hann og brýndi róminn.

„Sjississ,“ hvæsti Gollrir alveg brjálaður. „Ég má þá geta þrisvar, minn dýri, allt þá þrennt er.“

„Jæja, segjum það! Gettu þá!“ sagði Bilbó.

„Höndsina!“ sagði Gollrir.

„Rangt,“ svaraði Bilbó og sem betur fer hafði hann rétt mátulega tekið hendina úr vasa sér. „Gettu aftur!“

„Sjississ,“ hvein í Gollri og var hann nú orðinn æstari en nokkru sinni. Hann fór að telja upp fyrir sér allt sem hann gæti sjálfur haft í vösunum, fiskibein, drísiltennur, blautar skeljar, tjásu úr leðurblökuvæng, skerpistein til að brýna vígtennurnar og allskyns andstyggðarhluti. Og hann reyndi að ímynda sér, hvað annað fólk hefði í vösum sér.

„Hnífur!“ sagði hann loksins.

„Rangt!“ svaraði Bilbó en hann hafði líka sem betur fer fyrir nokkru týnt vasahnífnum sínum. „Síðasta spurningin!“

Nú var Gollrir miklu verr á sig kominn en þegar Bilbó áður lagði fyrir hann gátuna um eggið. Hann hvæsti og puðraði og reri sér fram og aftur í gráðið, stappaði niður fótunum og iðaði og skriðaði. En hann þorði ekki að eyða síðustu spurningunni.

„Komdu með það!“ sagði Bilbó. „Ég bíð!“ Hann lét sem hann væri svo sterkur og óhræddur, en þó sýndist honum enn með öllu óvíst hvernig gátuleiknum myndi ljúka, hvort Gollrir hefði upp á rétta hlutnum eða ekki.

„Tíminn útrunninn!“ sagði hann.

„Snæri, — eða ekkert!“ æpti Gollrir, en það mátti heldur ekki — að koma með tvö svör í einu.

„Bæði vitlaust,“ hrópaði Bilbó og létti ákaflega við. Hann stökk strax á fætur, sneri baki í næsta klettavegg og otaði fram litla sverðinu sínu. Hann vissi að sjálfsögðu að gátuleikur var órofa heilagur og afar forn hefð fyrir honum svo að jafnvel verstu kvikindi þorðu ekki að rjúfa þann eið, ef þau léku hann. En þó fannst honum vissara að treysta ekki þessum slímuga ódámi, svo kynni að fara að hann sviki loforð sín þegar hann ætti úr vöndu að ráða. Hann myndi beita hverskyns undanbrögðum til að losa sig út úr því. Og Bilbó varð líka að viðurkenna að síðasta spurningin hafði ekki verið ósvikin gáta samkvæmt hinum fornu lögum.

Samt réðst Gollrir ekki strax á Bilbó, sá líka sverðið í hendi hans. Hann hreyfði sig ekki, heldur sat eftir skjálfandi og skrollandi. Loks gat Bilbó ekki beðið lengur.

„Jæja, þá,“ sagði hann. „Þá er að því komið að þú efnir loforð þitt. Ég vil komast út. Þú verður að vísa mér leiðina.“

„Sögðusstum við það, minn dýri? Vísa litla andstyggilega Baggsins út, já, já. En kva hefur það í vössanum sínum. Ekksi snæri, minn dýri, og ekksi ekkert. Ó, nei, gollrum!“

„Það skiptir ekki máli lengur,“ sagði Bilbó. „En loforð er loforð.“

„Vondur er það, óþolsinsmóður, minn dýri,“ hvæsti Gollrir. „En það verða bíðsa sig, já það verða. Oss kemst ekki svo straxaralega upp göngin. Oss fyrst sækja sumsaralega hluti sem hjálpa oss, já sækjasta.“

„Jæja, flýttu þér þá!“ sagði Bilbó og þótti í öðru gott að losna við Gollri. Hann grunaði annars að hann væri bara að finna sér tylliástæðu og myndi ekkert snúa við. Hvað var Gollrir líka að tala um? Hvaða gagnlega hluti gat hann svo sem geymt hérna niðri í myrkrinu? En þar hafði hann rangt fyrir sér. Gollrir hugðist raunverulega snúa við. Hann var nú orðinn öskuvondur og ofan í kaupið glorhungraður. Og hann var óttalega ómerkilegt og illt kvikindi og var nú þegar farinn að leggja niður fyrir sér slungin svikabrögð.