Выбрать главу

Skammt undan landi var hólminn hans, án þess að Bilbó hefði nokkra hugmynd um það og þar geymdi hann í felustað sínum nokkra vesæla draslmuni en þó einn mjög svo dýrmætan hlut, mjög fallegan og mjög furðulegan. Hann átti hring, gullhring, dýrmætt djásn.

„Ammælisgjöfin mín!“ hvíslaði hann að sjálfum sér eins og hann hafði oft gert í þessu myrkri. „Það þarf ég að sækja nú, oss viljum það!“

Hann vildi ná í hringinn því að það var máttarbaugur og hver sem setti hann upp varð ósýnilegur með öllu. Þó mátti greina skuggann af handhafa hans í skjannabjörtu sólskini, en jafnvel þá aðeins titrandi og dauft.

„Ammælisgjöfin mín! Ég fékk hana á ammælisdaginn, minn dýri.“ Þetta var hann vanur að segja við sjálfan sig. En hver gat um það vitað, hvernig Gollrir hefði komist yfir þá gjöf endur fyrir löngu, þegar slíkir hringir enn gátu legið á glámbekk í heiminum. Það var meira að segja alls óvíst að sjálfur sköpuður og dróttinn hringanna sem yfir þeim réði hafi haft hugmynd um það. Fyrst eftir að Gollrir komst yfir hringinn bar hann þennan dýrgrip næstum stöðugt á fingri sér, þangað til honum fór að leiðast það, lét hann síðan í poka sem hann bar innan á sér þangað til hann fór að erta hann í húðinni og nú var hann vanur að fela hann í holu í kletti úti í hólma sínum, og alltaf þurfti hann að vera að skreppa út í hólmann til að skoða hann. En stundum setti hann hringinn líka upp, þegar honum fannst hann ekki lengur geta án hans verið eða ef hann var orðinn mjög, mjög svangur og leiður á því að éta tóman fisk. Þá laumaðist hann upp eftir dimmum göngunum í leit að frávillingsdríslum. Þá leyfði hann sér jafnvel stundum að fara upp í staði þar sem kyndlar loguðu svo að skar í augun, en sjálfur var hann öruggur. Ójá, alveg öruggur. Enginn myndi sjá hann, enginn tæki neitt eftir honum fyrr en hann hefði náð kyrkingstaki á hálsinum á honum. Aðeins nokkrum stundum áður hafði hann einmitt verið með hringinn og veitt lítinn drísilskratta. Hvað ræfillinn hafði veinað og vælt. Hann átti enn eftir eitt eða tvö bein af honum til að naga, en nú langaði hann í eitthvað mýkra undir tönn.

„Alveg öruggur, jahá,“ hvíslaði hann að sjálfum sér. „Það sér oss ekki, eða gerir það nokkuð, minn dýri? Ónei, það gerir það ekki og þessvegna verður asstyggilega sverðið því gagnslaust, já með öllu.“

Þannig voru illyrmislegar ráðagerðir hans, þegar hann hvarf skyndilega frá Bilbó og slabbaði sig aftur út í bátinn og spyrnti sér á honum út á vatnið. Bilbó hélt að hann sæi ekki kvikindið meira. Samt beið hann enn um sinn, því að hann hafði enga hugmynd um, hvernig hann ætti sjálfur að finna sér leið út úr þessum ógöngum.

Skyndilega heyrði hann ægilegan skræk. svo honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Gollrir var þar bölvandi og veinandi í myrkrinu ekki ýkja langt frá eftir hljóðunum að dæma. Hann var þá úti í eyjunni sinni að róta hér og þar, leitandi og snuðrandi árangurslaust.

„Kvars ers þa? Kvass ers þa,“ heyrði Bilbó hann væla. „Týnt ers þa, týnt, tjónað! Bölvi oss og mölvi oss, djásnið oss er týnt.“

„Hvað gengur eiginlega á ?“ hrópaði Bilbó. „Hefurðu tapað einhverju.“

„Það mákki spyrja oss,“ skrækti Gollrir. „Kemur því onki við, nei, gollrum! Það er týnt, gollrum, gollrum, gollrum!“

„Ég er líka týndur hérna,“ hrópaði Bilbó, „og vildi gjarnan ótýnast aftur. Og það var nú einu sinni ég sem vann gátuleikinn og mundu hverju þú lofaðir. Komdu þessvegna. Komdu og vísaðu mér fyrst leiðina út og svo geturðu haldið áfram að leita að því sem þú týndir. Þó Gollrir væri óendanlega niðurbrotinn og aumur af hljóðunum að dæma, fann Bilbó ekki til mikillar samúðar með honum. Hann grunaði þvert á móti að það sem Gollrir var að bralla gæti varla verið af hinu góða. „Fylgdu mér þá út!“ hrópaði hann!

„Nei, ekki strax, minn dýri!“ svaraði Gollrir. „Oss verð að leita að því týnda, gollrum.“

„En þú fannst aldrei svarið við síðustu spurningunni og ert því bundinn af loforðinu,“ sagði Bilbó.

„Fann ekki svarið!“ sagði Gollrir. Allt í einu heyrðist hann hvæsa út úr myrkrinu. „Jæja, hvað hefur það í vössonum? Oss vill fá að vita það. Það verður að segja oss það fyrst!“

Bilbó sá að vísu í sjálfu sér ekkert á móti því að segja honum til um svarið. Nú hafði Gollrir víst skyndilega dottið á rétta tilgátu einfaldlega af því að hugur hans hafði stöðugt snúist um þennan eina hlut í aldir og hann alltaf verið hræddur um að honum yrði stolið frá sér. En Bilbó var orðinn leiður á allri þessari töf og hamagangi. Þegar allt kom til alls hafði hann unnið leikinn á sæmilega heiðarlegan hátt og undir mikilli áhættu. „Upp á svörum skal geta en ekki gefa,“ sagði hann.

„En þessast var onki réttmæt spurning,“ hvein í Gollri. „Það var onki gáta, minn dýri, ónei.“

Jæja þá, ef þú ert þá bara að tala um venjulegar spurningar,“ hélt Bilbó áfram, „þá varð ég einmitt fyrri til að spyrja þig. Hverju hefurðu týnt? Svaraðu mér því!“

„Hvað heffurða í vössasanum!“ Hvæsið varð nú háværara og hvassara en nokkru sinni fyrr og þegar Bilbó varð litið í áttina þangað sem það kom, brá honum við að sjá tvo litla ljósdepla mæna á sig. Eftir því sem grunsemdirnar fóru að magnast í huga Gollris, fóru eldglyrnur hans að loga fölvum loga.

„Hverju hefurðu týnt?“ endurtók Bilbó spurningu sína.

En nú breyttist glampinn í glyrnum Gollris í grænan logablossa sem nálgaðist óðum. Gollrir var aftur kominn út í bátinn og spyrnti sér æsilega aftur upp að dimmri ströndinni og hann var orðinn svo óður af söknuði og grunsemdum í bringu, að hann bar ekki lengur neinn ótta fyrir sverðinu.

Bilbó gat ekki ímyndað sér hvað hefði reitt þetta vesæla kvikindi svo til reiði, en þóttist sjá að öllu væri lokið og Gollrir ætlaði sér ekkert minna en að myrða hann. Hann varð því fljótari til, sneri sér við og hljóp blindandi aftur upp í dimma ganginn sem hann hafði komið út um en þreifaði sig eftir veggnum með vinstri hendinni.

„Hvað hefurða í vössasanum?“ heyrði hann hvæst fyrir aftan sig og svo skvampið þegar Gollrir stökk úr bátnum. „Já, hvað skyldi ég hafa í vasanum?“ sagði Bilbó við sjálfan sig þar sem hann lafmóður stautaði sig áfram. Hann stakk vinstri hendinni í vasann. Hringurinn var kaldur og það var eins og hann rynni sjálfkrafa upp á leitandi vísifingurinn.

Hvæsið var rétt fyrir aftan hann. Hann sneri sér við og sá í glyrnurnar í Gollri eins og litla græna lampa sem komu þjótandi upp brattann. Viti sínu fjær af hræðslu reyndi Bilbó allt hvað hann gat að herða á sér, en rak skyndilega tána í ójöfnu á gólfinu og féll flatur með sverðið undir sér.

Í einu vetfangi hafði Gollrir náð honum. En áður en Bilbó fengi nokkuð að gert, hvorki náð andanum, risið upp né sveiflað sverðinu, þaut Gollrir framhjá honum, án þess að veita honum minnstu athygli heldur hélt áfram að bölva og hvísla á hlaupunum.

Hvað var hér á seyði? Gollrir sá ágætlega í myrkri. Bilbó gat jafnvel séð aftan frá, hvernig blikið í fölvum augum hans lýsti leiðina framundan. Nú reis hann upp með erfiðismunum og slíðraði sverðið sem farið var að blika dauflega, og svo fylgdi hann varlega á eftir kvikindinu. Það var ekki um annað að ræða. Enga þýðingu hafði að skríða aftur niður að tjörn Gollris. Ef hann hinsvegar elti hann, var hugsanlegt að hann gæti látið kvikindið, þó ómeðvitað væri, vísa sér leiðina út.