Выбрать главу

„Bölvað sé það! bölvað sé það, bölvað sé það!“ hvæsti Gollrir. „Bölvað sé þetta Bagga! Það er farið. Kva er það með í vössunum? Ó, oss geta, oss geta, minn dýri. Hann hefur fundið það, já hann hlýtur að hafa það. Ammælisgjöfina mín.“

Bilbó sperrti eyrun. Nú var hann fyrst farinn að átta sig á því hvað væri á seyði. Hann herti á sér, kom eins nærri og hann þorði aftan að Gollri sem enn var á harðahlaupum, leit aldrei aftur fyrir sig en skimaði höfði til beggja hliða og sá Bilbó bjarmann af daufu glyrnuljósi hans sveiflast til á veggjunum í göngunum.

„Ammælisgjöfin mín! Bölvað verið það! Hvernig misstum oss það, minn dýri? Jú þannig var það vísst. Á leiðinni hérna niður eftir að við hálsundum þennan ljóta litla skræk. Þannig var það. Bölvað veri það. Það slapp frá oss eftir aldir og ævir. Það er týnt og tapað, gollrum.“

Skyndilega settist Gollrir niður og fór að skæla með blístrandi og skrækjandi kverkhljóðum svo hræðilegt var á að hlýða. Bilbó stansaði líka og þrýsti sér inn að gangaveggnum. Eftir nokkra stund hætti Gollrir að gráta og fór að tala. Hann virtist vera að rökræða við sjálfan sig.

„Það þýðir ekkert að snúa aftur til að leita. Munum ekki alla staðina sem oss komum á. Líka tilgangslaust. Baggið með það í vassasnum sínum. Andstyggilegi snuðrinn hefur fundið það segjum oss.

En við barrasta ímynda oss það barrasta, minn dýri, helber ímyndun. Getum ekki verið vissir fyrr en við grípum andstyggilegu skepnið og vindum það og kreisstum. En það veit ekkert hvað ammælisgjöfin getur gert, ætli það nokkuð? Geymir það bara í vassusunum. Það veit það ekki og kemst ekki langt. Það er villt í myrkrinu, þessi ljóti snuðri. Það veit ekki hvernig það á að komast út. Það sagði það sjálft.

Já, það sagði það, en það er brögðótt. Það segir ekki það sem það veit. Það vildi ekki segja hvað það væri með vassasanum. En það veit það. Það fann leiðina inn, svo það hlýtur að finna leiðina út, jamm. Það er auðvitað á leiðinni að bakkdyrunum. Já að bakkdyrunum, þarna kom það.

En ef dríslarnir grípa það. Þá kemst það ekki langt út, minn dýri.

Sjississ, sjússúss, gollrum! Dríslar! Já, en ef hann er með ammælisgjöfina, dýrmæta Djásnið okkar, þá ná þeir því og finna hvað það getur. Þá er úti allur friður og öryggi, úti um allt, gollrum! Einhver drísillinn setur það upp og enginn sér hann. Hann verður þar en enginn sér hann. Ekki einu sinni skörpustu augu osussar munu taka eftir honum og hann kemur skríðandi brögðóttur og grípur ossið, gollrum, gollrum.

Hættum þá þessu masi, minn dýri og það í hasti. Ef Bagginn hefur farið þá leið verðustum við að vera fljótir og fara að gá. Af stað. Ekki svo langt. Flýtustum oss!“

Og Gollrir stökk upp og lagði af stað í æðibunu. Bilbó hraðaði sér á eftir honum, varlega, en var þó hræddastur við að reka tána í aðra misfellu og skella niður með skarki. Í huga hans þyrlaðist von og undrun. Svo virtist sem hringurinn væri einhverskonar töfrahringur sem gerði hann ósýnilegan! Víst hafði hann heyrt af slíkum hlutum í gömlum sögnum, en hann gat varla trúað því að hann hefði raunverulega fundið slíkan hring af einskærri tilviljun. Samt var það alveg víst. Gollrir hafði með sínum glóandi glyrnum farið framhjá honum, án þess að sjá hann, aðeins metra til hliðar við hann.

Áfram héldu þeir. Gollrir stautandi á undan, hvæsandi og bölvandi. Bilbó á eftir og fór eins hljóðlega og hobbiti framast getur. Brátt komu þeir þangað sem Bilbó hafði einmitt á niðurleiðinni tekið eftir, að margir hliðargangar opnuðust hingað og þangað. Þá heyrði hann að Gollrir byrjaði að telja þá.

„Einn til vinstri, jamm. Einn til hægri, júmm. Tveir til hægri, júmm, júmm. Tveir til vinstri, jamm, jamm.“ Og svona hélt hann áfram og áfram.

Eftir því sem göngunum fjölgaði hægði á honum, og hann fór að skjálfa og skæla. Þegar hann fjarlægðist tjörnina sína hann að verða hræddur og óöruggur með sig. Hér gátu dríslar hvar sem er verið á ferð og nú hafði hann ekki hringinn lengur til að skýla sér. Hann staðnæmdist við lágt hliðarop, vinstra megin við ganginn sem lá upp á við.

„Sjö til hægri, júmm. Sex til vinstri jamm!“ hvíslaði hann. „Hér er það. Hér er leiðin að bakkdyrunum, jamm. Hér eru útgöngin!“

Hann gægðist út en dró sig strax til baka. „Ekki dirfstum oss fara þangað inn, minn dýri, ónei við dirfstums ekki. Dríslar eru þarna niðri. Fullt af dríslum. Oss finnstum lyktina. Sjisssjiss!

Hvað skal ossið þá gera? Bölvist þeir og mölvist! Við verðum bíðast hér, minn dýri, bíða soltinn ögn og sjá til.“

Þeir voru komnir alla leið. Gollrir hafði í raun vísað leiðina, en samt komst Bilbó ekki út! Þarna sat Gollrir í hnipri í miðju opinu og glyrnurnar glömpuðu kaldar í höfði hans sem hann sletti fram og aftur milli hnjánna.

Bilbó þokaði sér aðeins frá veggnum hljóðlegar en mús, en strax virtist Gollrir stífna upp og fara að hnusa og augun urðu græn. Hann hvæsti lágt en ógnandi. Hann gat ekki séð Hobbitann, en nú var hann á verði og gat beitt þeim skilningarvitum sem hann hafði hvesst í myrkrinu, heyrn og lykt. Hann kraup niður á fjóra fætur með flata lófa að gólfinu, þrýsti höfðinu fram með nefið hnusandi næstum niður við steingólfið. Þó aðeins mótaði fyrir honum sem svörtum skugga í bjarmanum frá eigin glyrnum, gat Bilbó séð, eða réttara sagt fundið, að hann var spenntur eins og bogastrengur, tilbúinn að stökkva.

Bilbó hætti næstum að anda og stífnaði sjálfur upp. Hann var örvæntingarfullur. Hann varð að komast burt, út úr þessu hræðilega myrkri, meðan nokkrir kraftar væru eftir. Hann yrði að berjast. Hann yrði að stinga þetta andstyggilega kvikindi, slökkva á glyrnum hans, drepa hann. Kvikindið ætlaði að drepa hann. — Nei, það var ekki drengilegur bardagi. Sjálfur var hann ósýnilegur og Gollrir hafði ekkert sverð. Gollrir hafði í rauninni ekki hótað að drepa hann né gert tilraun til þess enn. Og hann var svo aumkvunarverður, aleinn og glataður. Skyndilegur skilningur, vorkunnsemi þó blandin hryllingi, kom upp í brjósti Bilbós, hann líkt og sá fyrir sér í anda tilveru endalausra tilbreytingarlausra daga án ljóss eða vonar um betra líf, ekkert nema harðan stein, kaldan fisk, sífellt snuðr og tuðr. Allar þessar hugsanir þutu á sekúndubroti um hug hans. En á einu leifturaugnabliki, eins og hann hefði hrifist af nýju afli og einbeitni, stökk hann.

Það var svo sem ekki langt stökk fyrir hvern sem var, en stökk í myrkri, beint yfir hausinn á Gollri tók hann, tvo metra áfram og metra upp á við, án þess að hann vissi það, munaði minnstu að hann höfuðkúpubryti sig á lágu lofti gangsins.

Gollrir reis upp, sperrti sig aftur á bak og þreifaði út í loftið um leið og hobbitinn flaug yfir hann, en of seint, hendurnar gripu í tómt og Bilbó sem kom örugglega niður á styrka fæturna, hljóp á fullri ferð niður nýju göngin. Hann sneri sér ekki einu sinni við til að fylgjast með hvað Gollrir aðhefðist. Í fyrstu fannst honum hann heyra hvæs og bölv rétt fyrir aftan sig, en svo hætti það. En allt í einu kvað við hræðilegur nístandi skrækur fullur af hatri og örvæntingu. Gollrir var búinn að vera. Hann þorði ekki lengra. Hann hafði tapað, misst bráð sína og líka misst eina hlutinn sem honum þótti vænt um, Djásnið sitt góða. Við þetta skelfingarvein var sem hjartað ætlaði að hrökkva úr brjósti Bilbós, en hann lét ekkert lát verða á hlaupunum. Nú heyrði hann dauft eins og af bergmáli en ógnandi, til raddarinnar í fjarska fyrir aftan sig.