„Þjófari, þjófari, þjófari! Bagginsið! Við höturum það, við höturum, við höturum það alla tíð!“
Síðan varð þögn. En hún var eins ógnvænleg fyrir Bilbó. „Úr því að dríslarnir voru svo nálægt að Gollrir fann lyktina af þeim,“ hugsaði hann, „þá hljóta þeir að hafa heyrt skrækina og formælingarnar í honum. Svo ég verð ekki síður nú að fara varlega eða ég get lent í einhverju enn verra.“
Þessi göng voru mjög lág undir loft og aðeins gróft tilhöggin. Ekki var þó erfitt fyrir lágvaxinn hobbita að fara um þau, en verra var að þrátt fyrir alla aðgæslu var hann sífellt að reka vesalings tærnar á sér í andstyggilega nibbótta steina í gólfinu. „Ætli þetta sé nú ekki í það lægsta undir loft fyrir drísla£, að minnsta kosti þá stærri?“ hugsaði Bilbó, en hann vissi ekki að jafnvel þeir stóru, Orkarnir úr fjöllunum, komast ótrúlega hratt eftir lágum göngum, þeir lúta fram og þjóta áfram með lúkurnar næstum niður með jörð.
Göngin höfðu í fyrstu hallað undan fæti en brátt sneru þau upp á við og urðu síðast æði brött. Við það hægði á Bilbó. En loks var brekkan á enda og göngin urðu nokkuð jafnslétt, beygðu fyrir horn og urðu aftur íhöll niður á við, og þegar hann kom neðst í hallann, sá hann bjarma handan við næsta horn af svolítilli birtu. Ekki rautt ljós eins og af báli eða ljóskeri, heldur föl dagsbirta. Þá tók Bilbó aftur á rás.
Hann skaust áfram svo hratt sem fætur toguðu fyrir síðasta hornið og kom skyndilega út í opinn geim, þar sem ljósið virtist, eftir allan þennan tíma í myrkrinu, vera blindandi bjart. Í rauninni var þetta þó aðeins lítil dagskíma sem kom inn um dyragætt, en mikil steinhurð hafði verið dregin frá hliði.
Bilbó deplaði augum í ofbirtunni, og svo skyndilega sá hann dríslana. Þarna var allt morandi af dríslum í fullum herklæðum með brugðin sverð, sem sátu rétt innan við dyrnar og fylgdust með stóreygðir og ganginum fyrir innan. Þeir voru í viðbragðsstöðu, vakandi, viðbúnir öllu.
Þeir sáu hann meira að segja áður en hann sá þá. Já, þeir sáu hann! Hvort það var fyrir slys, eða síðasta bragð hringsins áður en hann tók sér nýjan húsbónda, þá var hann ekki lengur á fingri hans. Dríslarnir ráku upp ánægjulegt bardagaöskur og þustu að honum úr öllum áttum.
Ógn og úrræðaleysi skall yfir Bilbó, næstum eins og bergmál af eymd Gollris. Hann gleymdi alveg að grípa til sverðsins heldur stakk höndum í vasa. Og þarna fann hann hringinn ennþá í vinstri vasa sínum og smeygði honum upp á fingurinn. Dríslarnir snarstönsuðu. Þeir sáu ekki tangur né tetur af honum. Hann var horfinn. Þeir öskruðu helmingi hærra en áður en ekki með sama ánægjuhreimnum.
„Hvar er þetta?“ hrópuðu þeir.
„Förum upp í göngin!“ kölluðu sumir.
„Hingað!“ æptu sumir. „Þangað!“ öskruðu aðrir.
„Gætið dyranna,“ beljaði foringinn.
Blásið var í blístrur, það glamraði í brynjum, gall við í sverðum. Allsstaðar voru dríslar bölvandi og ragnandi, hlaupandi til og frá. Í öllum glundroðanum rákust þeir hver á annan þveran, duttu um koll og urðu bandbrjálaðir. Upp hófst hræðilegur skarkali, írafár og læti.
Bilbó var skelfingu lostinn, en hann hafði vit á að gera sér grein fyrir, hvernig hann ætti að bregðast við þessu. Hann laumaðist bak við stóra ámu, undir drykk handa varðliðinu og tókst þannig að víkja sér undan öllum hamaganginum, sleppa við að lenda í árekstrum, verða troðinn undir til dauðs, eða vera gripinn við áþreifingu.
„Ég verð að komast að dyrunum, verð að komast að dyrunum!“ sagði hann hvað eftir annað við sjálfan sig, en þó leið langur tími áður en hann þorði nokkuð að reyna til við það. En svo herti hann upp hugann og óð af stað út í hræðilegan blindingsleik. Allt var morandi af dríslum hlaupandi til og frá og vesalings litli Hobbitinn varð alltaf að vera að víkja sér undan hingað og þangað, eða honum var velt um koll af drísli sem botnaði ekkert í, hvað hann hefði rekist á. Þá skreið hann í snatri burt á fjórum fótum, og skrapp milli fóta foringjans svo engu mátti muna, stóð upp og hljóp að dyrunum.
Enn var gátt á, en of þröng því að einhver drísillinn hafði ýtt við steinhellunni. Bilbó þreif í af öllu afli, en tókst ekki að hnika henni. Þá ætlaði hann að troða sér út um rifuna. Hann þrýsti sér, en stóð fastur. Þetta var hræðilegt. Hnapparnir á fötum hans höfðu líkt og krækst á steinkantinn við dyrastafinn. Hann gat séð út undir beran himininn. Fyrir utan lágu þrep niður í þrönga dalskoru milli hárra fjalla. Sólin kom framundan skýi og skein björt utan á steinhurðina — en hann komst ekki út.
Allt í einu hrópaði einn drísillinn að innan. „Það er skuggi við dyrnar. Eitthvað á ferli fyrir utan.“
Hjarta Bilbós tók kipp í brjósti hans. Nú þrýsti hann á af öllu afli. Hnapparnir slitnuðu og tættust af í allar áttir. En í gegn komst hann í rifnum frakka og vesti og hentist niður þrepin, tindilfættur eins og geit, meðan kolruglaðir dríslarnir héldu áfram að tína saman alla fallegu látúnshnappana hans sem lágu á víð og dreif á dyraþrepinu.
Auðvitað komu þeir brátt á eftir honum, hóandi og hrópandi og leituðu innan um trén. En dríslum er lítt um það gefið að vera úti í sólinni. Hún gerir þá óstöðuga á fótunum og óskýra í höfðinu. Þeir gátu ekki séð Bilbó meðan hann hafði hringinn á sér og gætti þess að halda sig í skugga trjánna, en hljóðlega. Brátt sneru dríslarnir við nöldrandi og bölvandi til að gæta dyranna. Bilbó var sloppinn.
VI. KAFLI
Af pönunni í eldinn
Nú var Bilbó sloppinn frá dríslunum en hafði ekki hugmynd um hvar hann var niður kominn. Hann hafði týnt hettu sinni, úlpu, mat, hesti, látúnshnöppum og öllum vinum sínum. Hann rölti áfram og áfram, þangað til sólin fór að hníga í vestrinu – nú að baki fjöllunum. Skugginn af þeim var að færast yfir leið Bilbós og nú horfði hann um öxl til þeirra. En þegar hann horfði fram fyrir sig, sá hann aðeins ása og hlíðar sem fóru lækkandi í múlum og bölum niður á láglendi sem hann gat einstaka sinnum greint framundan sér milli trjánna.
„Guð hjálpi mér!“ hrópaði hann. „Ég virðist vera kominn hinum megin út úr Þokufjöllum og standa hér á jaðri Handanlanda þeirra! En hvað í Óinu skyldi hafa orðið af Gandalfi og dvergunum? Ég vona bara og bið að þeir séu ekki enn undir fjöllunum á valdi dríslanna.
Hann þrammaði enn góðan spöl áfram út úr litla fjalladalnum og fram af stalli hans og niður hlíðarnar, en smámsaman læddi óþægilegri hugsun að honum. Hann var að velta því fyrir sér, hvort hann ætti ekki, nú þegar hann hafði ráð á töfrahringnum að snúa aftur við inn í þessi hræðilegu hryllingsgöng og leita að vinum sínum og reyna að frelsa þá. Hann hafði rétt tekið einbeitta ákvörðun um að það væri skylda sín að snúa aftur — og það þó hann væri mjög aumur yfir því — þegar hann heyrði raddir.
Hann nam staðar og hlustaði. Ekki líktist það neinu dríslatali. Svo hann læddist áfram mjög varlega á hljóðið. Hann var á grýttum fjallavegi sem liðaðist niður í hlykkjum undir klettabelti á vinstri hönd, en hinum megin fyrir neðan stíginn hlíðarbrekka með lautum hér og þar, að nokkru leyti huldum kjarri og lágum trjám. Og það var einmitt upp úr einni af þessum lautum undan kjarrinu sem barst mannamál.