Hann læddist enn nær og skyndilega kom hann auga á haus með rauðri hettu sem gægðist út á milli tveggja kletta. Það var Balinn sem stóð þar á verði. Bilbó langaði mest til að klappa saman lófum og hrópa af gleði, en hann gerði það ekki. Hann var enn með hringinn á fingrinum, af ótta við að mæta einhverju óvæntu og óskemmtilegu og hann tók eftir því að Balinn horfði beint á hann án þess að sjá hann.
„Nú skal ég þó koma þeim á óvart,“ hugsaði hann og skreið inn í kjarrið við endann á lautinni. Hann heyrði að Gandalfur var eitthvað að rífast við dvergana.
Þeir voru að ræða um öll þau ósköp sem yfir þá höfðu dunið í göngunum og að velta því fyrir sér og deila um hvað þeir ættu nú að gera. Auðséð var að dvergarnir voru með einhvern uppsteyt en Gandalfur sagði þá að það kæmi ekki til greina að þeir héldu áfram og skildu herra Bagga eftir á valdi dríslanna. Þeir yrðu að snúa við og finna út hvort hann væri lífs eða liðinn og reyna að bjarga honum.
„Hann er nú einu sinni vinur minn,“ sagði vitkinn, „og mesti gæðapiltur. Mér finnst að ég beri vissa ábyrgð á honum. Þið hefðuð ekki átt að missa svona hendina af honum.“
Dvergarnir spurðu þá aftur á móti hvers vegna í ósköpunum þessi aumingi, sem aldrei gæti einu sinni haldið hópinn en drægist sífellt aftur úr, hefði verið tekinn með í leiðangurinn, og hvers vegna í ósköpunum vitkinn hefði ekki getað valið einhvern með meira vit í kollinum. „Fram að þessu hefur hann orðið okkur til meiri vandræða en gagns,“ sagði einn þeirra. „Ef við eigum nú að fara að snúa við inn í þessi andstyggilegu göng til að leita að honum, þá svei honum.“
Gandalfur svaraði reiðilega: „Það var mín ákvörðun að taka hann með og ég er ekki vanur að taka með mér neitt sem ekki getur orðið að einhverju gagni. Annaðhvort hjálpið þið mér að finna hann eða ég fer einn og skil ykkur hér eftir og þið skuluð þá, það sem eftir, er komast af án minnar hjálpar. Ef við aðeins gætum fundið hann aftur, veit ég fyrir víst að þið yrðuð mér ævarandi þakklátir. En hvað átti það líka að þýða, Dóri, að kasta honum niður.“
„Þú hefðir sjálfur sleppt honum,“ svaraði Dóri, „ef drísildjöfull hefði verið að kippa í fæturna á þér aftanfrá í myrkrinu, troðið á fótunum á þér og sparkað í bakið á þér.“
„Jæja, en hvers vegna tókstu hann þá ekki upp aftur?“
„Hjálpi mér! Það er nú hægara um að tala en í að komast! Fullt af dríslum að berjast og bítast í myrkrinu, allir að hnjóta um hvers annarra dauða skrokka og rekast á! Það munaði nú minnstu að þú hyggir af mér hausinn með Glamdringi, og Þorinn var að stinga og leggja hér og þar með Orkristi. Þú smelltir aftur á einu af þessum blindandi leiftrum þínum og við sáum dríslana hlaupa burt eins og ýlfrandi hvolpa. Þá hrópaðir þú „fylgið mér allir!“ og þá hefðu auðvitað allir átt að fylgja þér. Við héldum líka að við værum allir. Það gafst ekkert ráðrúm til að telja eins og þú ættir sjálfur best að vita, þangað til við brutumst út framhjá hliðvörðunum, út um þetta neðra hlið og endasentumst hingað niður. Og hér stöndum við svo eftir innbrjótslausir — fari hann kolaður!“
„Og hér er innbrjóturinn!“ sagði Bilbó og stökk mitt á meðal þeirra og tók hringinn af fingrinum.
Hver ósköpin! þeim brá svo við að þeir hentust í háa loft! Svo hrópuðu þeir hver í kapp við annan af undrun og ánægju. Gandalfur var sá hissasti af þeim öllum, en um leið líklega sá ánægðasti. En hann kallaði Balin til sín og sagði honum álit sitt á varðmanni sem hleypir allskonar aðvífandi fólki framhjá án nokkurrar viðvörunar. Óneitanlega hækkaði Bilbó mjög í áliti meðal dverganna eftir þetta. Áður efuðust þeir um, þrátt fyrir orð Gandalfs, að hann kynni nokkuð til verka sem innbrjótur. Balinn var þó ekki ánægður en hinum fannst að það hefði líka verið meistaralegt hjá Bilbó að sleppa framhjá honum.
Bilbó varð nú svo glaður yfir öllu hrósinu sem hann fékk fyrir frábæra innbrjótshæfileika að hann klúkkaði bara innra með sér og hætti alveg við að minnast nokkuð á hringinn. Og þegar þeir spurðu hann, hvernig hann hefði farið að þessu, sagði hann: „Nú bara svona, laumaðist áfram ósköp varlega og hljóðlega.“
„Ja, ég er svo aldeilis hlessa,“ sagði Balinn, „þetta er í fyrsta skipti sem nokkurri mús tekst að læðast varlega og hljóðlega framan við nefið á mér, án þess að ég taki eftir henni.“ Svo bætti hann við: „Ég tek húfuna ofan fyrir þér.“ Og það gerði hann líka, hneigði sig og sagði kurteislega.
„Balinn, þjónustufús.“
„Baggi, þjónustufús,“ svaraði Bilbó.
Svo vildu þeir fá að vita allt sem á daga hans hefði drifið, eftir að þeir misstu af honum og hann settist niður og leysti frá skjóðunni um allt — nema um hringinn sem hann fann (ég segi þeim það „ekki alveg strax,“ hugsaði hann með sér). Sérstaklega hrifust þeir af gátukeppninni. Þeir urðu gagnteknir af frásögninni og fór hrollur um þá, þegar hann lýsti Gollri.
„Og mér einfaldlega kom ekki í hug nokkur ný gáta, því að það truflaði mig hvað hann sat þarna nálægt mér,“ lauk Bilbó frásögninni. „Svo að ég sagði barasta: „Hvað er ég með í vasanum?“ og hann gat ekki getið upp á því, þó hann fengi þrisvar að reyna. Og þá sagði ég við hann. „Nú er komið að loforði þínu. Vísaðu mér leiðina út!“ En þá kom hann að mér og ætlaði að drepa mig, en ég tók á rás, og svo datt ég um koll, en hann fór framhjá mér í myrkrinu. Þá fylgdi ég honum eftir og heyrði hann alltaf vera að tauta við sjálfan sig. Af því gat ég ráðið, að hann hélt að ég vissi um útgönguleiðina og því ætlaði hann að fara þangað í veg fyrir mig. Svo settist hann niður í útganginum svo að ég kæmist ekki framhjá honum. En þá stökk ég bara yfir hann og slapp, og hljóp að útgönguhliðinu.“
„En hvað um verðina?“ spurðu þeir. „Voru engir verðir þar?“
„Ójú! ekki vantaði það. Ég lék bara á þá. En ég festist í dyrunum af því að það var aðeins opin smárifa á þeim og þar slitnuðu af mér allir hnapparnir,“ sagði hann leiður og sýndi rifin fötin. „En ég kreisti mig og kramdi í gegn — og hér er ég.“
Dvergarnir horfðu næstum lotningarfullir á hann, þegar hann talaði um að leika á verði, hoppa yfir Gollri og kreista sig í gegnum dyragætt og það með yfirlætissvip eins og þetta hefði sosum ekki verið neitt.
„Hvað sagði ég ykkur?“ mælti Gandalfur hlæjandi. „Það er meira í herra Bagga spunnið en þið getið ímyndað ykkur.“ En sjálfur horfði hann undarlega á Bilbó undan kafloðnum augnabrúnum um leið og hann sagði þetta, svo að hobbitinn varð hræddastur um að hann grunaði að einhverju væri sleppt úr sögunni.
En nú var komið að hobbitanum að spyrja, því að þótt Gandalfur væri búinn að útskýra það allt fyrir dvergunum, hafði Bilbó ekkert heyrt. Sérstaklega vildi hann fá að vita, hvernig vitkinn hefði aftur getað komið á vettvang, og hvernig þeir hefðu síðan allir sloppið út.
En Gandalfur var nú þannig gerður sem vitki, að hann var tregur til að útskýra snilli sína oftar en einu sinni. Þess í stað sagði hann Bilbó að þeir Elrond hefðu raunar vitað um það að hinir vondu dríslar hefðust við í þessum hluta fjallgarðsins. En aðalhlið þeirra hefði verið í öðru fjallaskarði þar sem umferð væri meiri og því auknar líkur á bráð. En nú virtist það hafa komið í ljós að fólk hefði verið farið að forðast það skarð vegna hættunnar og því hefðu dríslarnir nýlega gert sér nýtt hlið í öðru skarði, sem dvergunum hafði verið ráðlagt að fara um, af því að það væri öruggara en önnur skörð, en svo hefði ekki reynst.