Выбрать главу

„Ég þarf að aðgæta, hvort ég get ekki fengið eitthvert sæmilega siðað tröll í fjöllunum til að loka þessu hliði þeirra aftur,“ sagði Gandalfur, „því að annars verður engin leið yfir fjöllin örugg.“

Áfram hélt Gandalfur frásögninni, þegar Bilbó rak upp ópið í skútanum, þá gerði hann sér í hvelli grein fyrir hvað var á seyði. Og í sama leiftrinu og drap dríslana, sem ætluðu að handsama hann, tókst honum að skjótast inn um sprunguna rétt áður en hún skall saman. Svo fylgdi þrælrekunum og föngunum eftir alveg að útjaðri stóra hásætissalarins og þar settist hann niður í skugganum og úthugsaði kröftugustu galdrana sem hann gat fundið.

„Það var hræðilega vandasamt verk,“ sagði hann, „þar mátti ekkert út af bera!“

En að sjálfsögðu var Gandalfur sérfræðingur í göldrum með eldum og ljósum (hobbitinn hafði aldrei getað gleymt göldróttum flugeldasýningum hans á miðsumarhátíð Gamla Tóka, eins og við munum). Það sem á eftir fylgdi vitum við öll – nema það að Gandalfur vissi allt um bakdyrnar, eins og dríslarnir kölluðu lægra hliðið þar sem Bilbó hafði misst hnappana. Um það vissu allir sem nokkuð þekktu til þessa hluta fjallgarðsins. En víst var betra að hafa vitka í fararbroddi til að halda ró sinni í göngunum og rata í rétta átt.

„Þetta hlið gerðu þeir fyrir mörgum öldum,“ sagði hann, „ætluðu það sem neyðarútgang, ef á þyrfti að halda, en einnig sem útrásarhlið til héraðanna fyrir handan, en þangað halda þeir enn í ránsferðir og valda oft miklu tjóni. Um það standa þeir stöðugan vörð og hefur engum tekist að skemma það fyrir þeim. Héðan í frá munu þeir vafalaust hafa tvöföld varðhöld á því,“ sagði Gandalfur og hló við.

Öllum hinum var líka hlátur í huga. Að vísu höfðu þeir orðið fyrir töluverðu tjóni, en þeir höfðu aftur á móti unnið það afrek að drepa sjálfan Stórdrísilinn og fjölda annarra drísla og það var þó fyrir mestu, að allir höfðu sloppið á lífi, svo að segja mátti að þeir hefðu haft betur í þessari lotu.

En vitkinn kallaði þá aftur til alvörunnar á ný. „Við verðum tafarlaust að halda ferðinni áfram, megum ekki slaka á, nú höfum við fengið svolitla hvíld,“ sagði hann. „Þeir munu koma á eftir okkur í hundraðatali þegar nóttin skellur á. Það getið þið verið vissir um. Og skuggana er þegar tekið að lengja. Þeir finna þefinn af fótsporum okkar klukkustundum saman eftir að við erum farnir hjá. Við verðum að koma okkur sem allra flestar mílur á braut fyrir náttmál. Það lítur út fyrir tunglskin ef veðrið helst gott og það kæmi sér vel fyrir okkur. Ekki af því að tunglið trufli þá mikið, en það verður miklu auðveldara fyrir okkur að ráða ferðinni í tunglsbirtu.“

„Ójá,“ sagði hann og svaraði enn einni spurningu Hobbitans. „Vissulega missir maður tímaskynið í neðanjarðargöngum dríslanna. Nú er kominn fimmtudagur, en það var á mánudagskvöldið eða réttara sagt aðfaranótt þriðjudagsins sem þeir réðust á okkur. Síðan höfum við farið óraleiðir vegar beint í gegnum iður fjallgarðsins og erum nú á hinni hlið hans — vissulega höfum við stytt okkur leið. En þó er sá galli á, að við komum ekki út á þeim stað sem liggur niður af hinu fjallaskarðinu. Við komum niður alltof norðarlega og eigum því fyrir höndum langa leið yfir fjandsamlegt land til að komast á rétta braut. Og enn erum við æði hátt uppi í fjöllunum. Svona, komum okkur nú af stað!“

„En ég er svo hræðilega svangur,“ stundi Bilbó, sem skyndilega hafði gert sér grein fyrir að hann hefði ekki fengið að bragða á matarbita síðan kvöldið fyrir kvöldið fyrir síðasta kvöld. Það var varla hægt fyrir hobbita að hugsa þá hugsun til enda. Hann hafði það á tilfinningunni að maginn væri allur eitt tóm sem væri ekki til og fæturnir svo máttlausir undir sér að hann lyppaðist niður, nú þegar mesta spennan var hjá liðin.

„Við því er ekkert að gera,“ sagði Gandalfur, „nema þú viljir snúa við og biðja dríslana kurteislega um að skila þér aftur hestinum þínum og farangrinum.“

„Nei, takk fyrir!“ sagði Bilbó.

„Nú jæja, úr því að svo er, þá er ekki um annað að gera fyrir okkur en að herða sultarólina og þramma áfram — eða við verðum sjálfir hafðir fyrir kvöldmat, sem er þó sýnu verra en að fá engan kvöldmat.“

Þegar þeir voru komnir af stað aftur, var Bilbó alltaf að skima til beggja handa eftir einhverju ætilegu. Brómberin voru enn aðeins í blóma, hvergi var neinar hnetur að finna, ekki einu sinni hvítþyrnisber. Hann tuggði nokkrar súrur, saup úr lófa við dálítinn fjallalæk sem varð á vegi þeirra og gleypti þrjú hrútaber sem hann fann þar á lækjarbakkanum, en ekki var nú mikill matur í þeim.

Áfram og áfram héldu þeir. Malarborni stígurinn hvarf. Leiðin lá um kjarr og puntgresi milli kletta, kanínukroppaðan grassvörð, um blóðberg og salvíu og mæru og gular sólrósir. Svo komu þeir fram á fjallsbrún en fyrir neðan var brött hlíð alþakin urðum sem voru leifar af jarðskriðum. Þegar þeir byrjuðu að feta sig niður eftir urðinni fór sandur og fíngerð möl að renna burt undan fótum þeirra, næst fóru stórar sprungnar hellur að hrynja niður með skarkala og ýta við öðru horngrýti fyrir neðan sem tók að renna og síðan að velta niður. Við það kom rask á stóra kletta og þeir ultu af stað og skullu niður í ryki og braki. Áður en við var litið virtist öll hlíðin jafnt fyrir ofan og neðan þá fara á skrið og þeir runnu niður með henni, allir í einum hnapp í óskaplegum hrærigraut af skríðandi, hrapandi stórgrýti og steinum.

En trjágróður fyrir neðan skriðuna varð þeim helst til bjargar. Þannig runnu þeir inn í reinar kræklóttrar fjallafuru sem teygði sig hátt upp eftir fjallshlíðinni frá dimmum skógi í dalnum þar fyrir neðan. Sumir náðu taki á trjábolum og sveifluðu sér upp á lægri greinarnar, aðrir (eins og litli hobbitinn) skýldu sér bak við tré gegn grjóthríðinni. En brátt var hættan hjá liðin, grjóthrunið hafði stöðvast og aðeins heyrðust daufir brotskellir þegar stærstu klettarnir héldu áfram að skoppa og hringsnúast meðal burknanna og fururótanna fyrir neðan.

„Jæja, fyrir bragðið miðaði okkur þó nokkuð vel áfram,“ sagði Gandalfur, „og jafnvel dríslarnir sem eru á hælum okkar munu eiga erfitt með að komast hljóðlega hingað niður.“

„Einmitt það,“ nöldraði Vambi „en þeir verða þá heldur í engum vandræðum með að senda grjótflugið skoppandi yfir hausana á okkur.“ Dvergarnir (og Bilbó) voru ekkert upprifnir yfir þessu. Þeir höfðu nóg að gera við að nudda skrámur og meiðsli á leggjum og fótum.

„Hvaða vitleysa! Nú sveigjum við hér til hliðar og verðum ekki lengur undir jarðskriðunni. En við verðum áfram að hafa okkur alla við! Sjáið hvað birtunni líður.“

Sólin var löngu horfin á bak við fjöllin. Skuggarnir dýpkuðu allt í kringum þá, þótt þeir sæju í fjarska inn á milli trjánna og yfir skóginn neðar í hlíðinni hvar kvöldljósið sleikti enn sléttuna fyrir handan. Þeir skakklöppuðust áfram eins hratt og þeir komust niður aflíðandi hlíðar furuskógarins eftir krákustígum til suðurs. Stundum urðu þeir að olnboga sig í gegnum heilu burknabreiðurnar þar sem laufið reis hátt yfir höfuð hobbitans, þess á milli skálmuðu þeir hljóðlaust um skógarbotninn eftir þykkum barrvoðum og stöðugt varð skógarmyrkrið þyngra og skógarþögnin dýpri. Enginn blær gat þetta kvöld borið nein andvörp fjarlægs sjávarniðs inn á milli greina trjánna.

„Þurfum við nú nokkuð að fara lengra?“ spurði Bilbó, þegar orðið var svo dimmt að hann gat naumast séð skegg Þorins sveiflast til og frá við hliðina á sér — og svo hljótt að hann gat heyrt andardrátt dverganna og fannst hann næstum glymjandi. „Tærnar á mér eru allar rispaðar og bognar, mig verkjar í fótleggina og maginn í mér slettist til eins og tómur poki.“