Выбрать главу

„Örlítið lengra,“ sagði Gandalfur.

Enn leið nokkur tími, á við ár og aldir, þangað til þeir komu skyndilega út á vítt trjálaust svæði. Tunglið var á lofti og skein niður í rjóðrið. Einhvern veginn fannst þeim öllum að þetta væri ömurlegur staður, þótt ekkert annarlegt væri svo sem við hann að sjá.

Skyndilega heyrðu þeir ýlfur úr fjarska neðar úr hlíðinni, langdregið skerandi væl. Því var svarað með öðru góli til hægri og töluvert nær þeim, síðan hvert af öðru ekki langt til vinstri. Úlfar gólu að tunglinu og voru að safnast saman í stóð!

Ekki lifðu neinir úlfar neins staðar nálægt heimaholu herra Bagga undir Hólnum, samt þekkti hann þessi hljóð. Þeim hafði svo oft verið lýst fyrir honum í sögnum. Einn af eldri frændum hans (af Tókaættinni) hafði verið mikill ferðalangur og gerði sér að leik að líkja eftir úlfaþyt til að hræða hann. Þó fannst Bilbó nú miklu verra að heyra hljóðin úti í skógi undir tunglinu. Ekki einu sinni töfrahringir koma að neinu gagni gegn úlfum — allra síst gegn þeim illvígu úlfastóðum sem hér voru á ferli í skjóli drísildjöflanna, við þennan jaðar óbyggðanna á hjara veraldar. Svona úlfar voru miklu lyktnæmari en dríslar og þurftu ekki að sjá neinn til að ná honum!

„Hvað á ég að gera, hvað á ég að gera“ æpti hann. „Sloppinn frá dríslum, rifinn af úlfum!“ sagði hann, svo úr því varð máltæki. En líka er sagt að „detta út af steikarpönnunni og lenda í eldinum“, sem þýða mætti einfaldlega „úr öskunni í eldinn“. Allt lýsir þetta sömu óþægilegu aðstöðunni.

„Fljótt upp í trén!“ æpti Gandalfur og þeir hlupu að trjánum í jaðri rjóðursins og leituðu helst eftir trjám með lággreinum eða nógu grönnum bol svo auðveldara væri að klifra upp í þau. Það tók nokkurn tíma að finna þau eins og von var og síðan klifruðu þeir eins hátt upp í þau og greinarnar gátu borið þá. Ykkur hefði þótt það hlægilegt (úr öruggri fjarlægð) að sjá dvergana sitja hátt uppi í trjátoppum með skeggin lafandi niður, eins og gamlir bændur gengnir í barndóm og farnir að klifra upp í tré. Fjalar og Kjalar sátu efst í háu lerkitré sem leit út eins og risavaxið jólatré. Betur fór um Dóra, Nóra, Óra, Óin og Glóin í hávaxinni furu með reglulegum greinum sem stóðu út eins og fínustu gangrimlar upp með bolnum. Bifur, Bógur, Vambi og Þorinn voru allir í sama trénu. Dvalinn og Balinn höfðu klifrað upp eftir stofni hárrar og mjóvaxinnar furu með fáum greinum og reyndu að koma sér fyrir í liminu í toppnum. Gandalfur, sem var hávaxnari en allir hinir, hafði fundið tré sem hinir gátu ekki klifrað upp í, stóra og baðmmikla furu sem stóð rétt í jaðri rjóðursins. Sjálfur var hann alveg hulinn í liminu en glórði í augu hans í tunglsskininu þegar hann gægðist niður.

Og hvað um Bilbó? Hann komst auðvitað ekki upp í neitt tré en hringsólaði til og frá milli trjábola eins og kanína með hunda á hælunum, sem finnur ekki holu sína.

„Enn einu sinni hefurðu skilið innbrjótinn okkar eftir!“ sagði Nóri við Dóra þegar honum varð litið niður.

„Alltaf á ég að vera að burðast með þennan innbrjót á bakinu,“ sagði Dóri, „hvort sem er niður í jarðgöng eða upp í tré. Hvað heldurðu eiginlega að ég sé? Eitthvert burðardýr?“

„Hann verður étinn af úlfunum, nema við bregðumst skjótt við,“ sagði Þorinn, því að nú heyrðu þeir ýlfrin allt í kringum sig koma óðfluga nær. „Dóri!“ kallaði hann, því að hann sat einmitt lægst niðri í auðveldasta trénu, „flýttu þér og leggðu herra Bagga lið!“

Dóri þessi var í rauninni besti náungi þó hann væri sínöldrandi. En jafnvel þó hann klifraði niður á neðstu greinina, gat vesalings Bilbó ekki teygt sig upp til að ná til hans og það þó hinn teygði krumluna eins langt niður og honum var mögulegt. Svo að Dóri varð að klifra alveg niður úr trénu og láta Bilbó klöngrast upp á bak á sér og teygja sig þaðan í neðstu greinina.

Rétt í sama mund komu úlfarnir skokkandi inn í rjóðrið. Skyndilega fylgdust hundruð glyrna með þeim. En Dóri brást ekki Bilbó. Hann beið þangað til hann hafði híft sig upp af herðum hans upp í greinarnar og síðan hoppaði hann sjálfur upp og náði taki á greinunum. Það mátti ekki seinna vera. Úlfur kom og glefsaði í kápu hans um leið og hann sveiflaði sér upp og munaði minnstu að hann næði honum. Á næsta augnabliki var allt úlfastóðið komið þar að, geltandi kringum tréð og stökkvandi upp með trjábolnum, með logandi glyrnur og tungurnar lafandi út úr sér.

En ekki einu sinni hinir villtu Vargar (en svo voru hinir illu Úlfar í jaðri Villulanda kallaðir) geta klifrað upp í tré, svo nú var þeim félögum óhætt í bili. Sem betur fer var logn og fremur hlýtt. Það er mjög óþægilegt að sitja lengi samfleytt uppi í trjám. En sérstaklega verður það hræðilegur dvalarstaður ef það er kalt og hvasst, að ekki sé talað um ef úlfar eru allt í kringum tréð sem bíða eftir þeim sem uppi sitja.

Rjóðrið milli trjánna var augljóslega einskonar fundarstaður úlfanna. Þeim fjölgaði óðum. Þeir skildu verði eftir undir trénu þar sem Dóri og Bilbó sátu. Síðan fóru þeir hnusandi um þangað til þeir höfðu snuðrað uppi hvert tré sem einhver sat uppi í. Þá settu þeir einnig verði við þau, meðan hinir úlfarnir (sem nú skiptu hundruðum, að því er virtist), fóru og settust í stóran hring í rjóðrinu. En í miðjum hringnum stóð stór grár úlfur. Hann mælti til þeirra á hræðilegu hrognamáli Varganna. Gandalfur gat skilið það. Bilbó skildi það ekki, en það hljómaði ömurlega í eyrum hans, eins og þeir gætu ekki fjallað um annað en grimmd og illsku, eins og reyndar var. Við og við svöruðu úlfarnir í hringnum höfðingja sínum í einum kór og varð af því svo mikill gaulandi að hobbitinn hrökk við og minnstu munaði að hann dytti niður af furugreininni sinni.

Ég skal rekja hvað Gandalfur heyrði, þó Bilbó skildi það ekki. Vargarnir og dríslarnir höfðu oft átt samstarf að illvirkjum. Dríslar eru ekki vanir að fara langt frá fjöllunum, nema þeir séu hraktir þaðan og þurfi þá að leita sér að nýjum bústöðum, eða ef þeir heyja reglulega styrjöld (en sem betur fer hefur það ekki gerst um langan aldur). En þegar hér var komið fóru þeir stundum í ránsferðir lengra frá fjöllunum, einkum til að afla sér ætis og þrælavinnuafls. Þá fengu þeir oft Vargana til liðs við sig gegn hlutdeild í ránsfengnum. Þá gerðust dríslarnir stundum úlfriðar, þeir riðu á Vörgunum eins og menn gera á hestum. Nú var það að koma í ljós að dríslarnir höfðu einmitt undirbúið mikla ránsferð um nóttina. Vargarnir voru komnir til að hitta dríslana, sem hafði seinkað mjög. Ástæðan fyrir því var vafalaust dauði Stórdrísilsins ásamt með allri ringulreiðinni sem dvergarnir og Bilbó og Gandalfur höfðu valdið og var þeirra sjálfsagt enn leitað.

Þrátt fyrir allar hætturnar í þessu fjarlæga landi höfðu djarfir menn upp á síðkastið verið að snúa aftur þangað úr Suðrinu, til að höggva við og reisa sér bú í fögrum skógum í dölunum og á árbökkunum. Þeir voru fjölmennir og bæði hugrakkir og vel vopnum búnir, svo ef þeir voru margir saman, eða á björtum degi, þorðu Vargarnir ekki að ráðast á þá. En nú höfðu þeir undirbúið, með hjálp dríslanna, að herja að næturlagi á nokkur þorp sem næst stóðu fjöllunum. Ef áætlanir þeirra hefðu staðist hefði enginn staðið eftir lifandi í þorpunum morguninn eftir, allir væru þeir drepnir nema fáeinir sem dríslarnir fengju að halda fyrir úlfunum og yrðu fluttir sem fangar í hella þeirra.