Það var hræðilegt að hlusta á þetta tal Varganna, ekki aðeins með tilliti til hinna dáðríku skógarmanna, eiginkvenna þeirra og barna, heldur líka vegna þeirrar miklu hættu sem nú ógnaði Gandalfi og vinum hans. Vargarnir voru bálreiðir og undrandi yfir að koma hér að þeim á sjálfum þingstað sínum. Þeir héldu líka að þetta væru vinir skógarmannanna sem væru komnir til að snuðra um þá og myndu bera njósn um fyrirætlanir þeirra niður í dalina en þá myndu dríslarnir og Vargarnir eiga mótspyrnu að mæta í hörðum bardaga í stað þess að taka fanga og rífa í sig fólk sem vaknaði upp af værum svefni. Því vildu Vargarnir umfram allt ekki fara burt og láta fólkið uppi í trjánum sleppa a.m.k. ekki fyrr en kominn væri morgunn. En þeir þóttust líka vissir um að löngu fyrr myndu herflokkar dríslanna koma niður úr fjöllunum og þeir gætu, hvort sem þeir vildu, klifrað upp í tré eða höggvið þau niður.
Af þessu getið þið ráðið hversvegna Gandalfur, sem hlustaði á allt þeirra gjamm og gelt, fór að verða mjög svo uggandi um sinn hag, enda þótt hann væri vitki og gerði sér grein fyrir, að þeir félagar hefðu varla getað lent á verri stað og ekkert útlit fyrir að þeir gætu sloppið burt. Þó hann væri fastur uppi í háu tré með úlfa allt í kringum sig niðri á jörðinni, ætlaði hann þó engan veginn að gefast upp mótspyrnulaust. Hann safnaði saman risavöxnum furusprotunum af trjágreinunum. Svo kveikti hann í einum þeirra með björtum bláum eldi og þeytti honum hvínandi niður í úlfahringinn. Logandi sprotinn kom á hrygginn á einum þeirra og strax kviknaði í loðnum feldi hans, hann rauk af stað, æddi til og frá og ýlfraði hræðilega. Svo kom annar logandi sproti og fleiri hver á fætur öðrum, einn í bláum blossa, annar í rauðum og sá þriðji í grænum. Þeir skullu á jörðinni þegar þeir komu niður í miðjum hringnum og sprungu í marglitum gneistum og reyk. Einn sérlega stór logasproti lenti á nefi sjálfs úlfahöfðingjans og hann stökk margfalda hæð sína í loft upp og fór síðan æðandi fram og aftur í hringnum og beit og glefsaði jafnvel í aðra úlfa í reiði sinni og hryllingi.
Dvergarnir og Bilbó gerðu hróp að úlfunum og fögnuðu óspart hrakförum þeirra. Það var hræðilegt að sjá ofsareiði þeirra og hamagang, æðandi um allan skóginn. Úlfar eru ætíð logandi hræddir við eld, en þetta voru þeir hræðilegustu og óviðráðanlegustu eldar sem þeir höfðu kynnst. Ef gneisti kom á feld þeirra var hann fastur og brenndi þá inn úr skinni. Þeir urðu að kasta sér niður á bakið og velta sér aftur og aftur, annars stóðu þeir í ljósum logum. Brátt voru úlfar æðandi um allt rjóðrið og veltandi sér til að drepa í neistunum á hryggnum, meðan hinir sem voru teknir að loga, hlupu um ýlfrandi og kveiktu í öðrum, þangað til þeirra eigin vinir hröktu þá burt og þeir hrökkluðust niður hlíðarnar, vælandi og emjandi í leit að vatni.
„Hvaða læti eru þetta í skóginum í nótt?“ sagði Arnarkonungurinn. Hann sat þar svartur í tunglskininu á toppnum á klettanál í austurbrún fjallanna. „Ég heyri úlfagól! Skyldu dríslarnir nú vera að vinna einhver illvirki í skóginum.“
Hann sveiflaði sér á flug hátt í loft upp og strax hófu tveir af vörðum hans sig upp af klettunum til að fylgja honum. Þeir hnituðu hringa í loftinu og horfðu niður yfir úlfahringinn sem þó var ekki nema lítill depill langt fyrir neðan. En ernir hafa skarpa sjón og geta séð örsmáa hluti úr mikilli fjarlægð. Arnarkonungur Þokufjalla gat horft fránum sjónum sínum í sjálfa sólina án þess að blikna eða séð kanínu hreyfa sig á jörðinni úr mílu hæð og það jafnvel í tunglskini. Þó hann gæti ekki greint fólkið sem faldi sig í trjáliminu, gat hann fylgst með öllu uppnáminu meðal úlfanna, séð litlu eldblossana og heyrt ýlfrið og gjammið berast dauft af jörðinni langt fyrir neðan hann. Líka gat hann greint glampa í tunglsljósinu af spjótum og hjálmum dríslanna, en þessi illyrmi voru komnir á skrið í löngum röðum niður hlíðarnar frá neðra hliðinu og áleiðis til skógarins.
Ernir eru ekki sérlega blíðir á manninn. Sumir eru bæði ragir og grimmir. En í hinum forna stofni í norðurhluta fjallanna voru stærstu ernirnir. Þeir voru allt í senn stoltir og sterkir og göfuglyndir. Þeir voru engir vinir drísla þó þeir þyrftu ekki að óttast þá. Ef þeir skiptu sér nokkuð af þeim (sem var sjaldan, því að þeir höfðu ekki lyst á að éta slík kvikindi), þá steyptu þeir sér yfir þá og hröktu þá skrækjandi inn í hella sína til þess að fyrirbyggja illvirki sem þeir voru að vinna. Dríslarnir hötuðu ernina og óttuðust þá, en komust með engu móti upp í hályft hreiður þeirra og gátu því ekki hrakið þá burt úr fjöllunum.
Arnarkonungur hafði nú fengið forvitni á því hvað hér væri á seyði. Svo hann kvaddi fjölda annarra arna til liðs við sig og þeir flugu burt ofan úr fjöllunum og hægt og rólega hnituðu þeir marga hringa niður og niður, þar til þeir komu niður yfir hring úlfanna þar sem þeir höfðu mælt sér mót við dríslana.
Það kom sér líka ákaflega vel! Hér voru hræðilegir hlutir að gerast. Úlfarnir sem eldurinn hafði náð að festast í flýðu inn í skóginn og kveiktu í honum á mörgum stöðum. Nú var hásumar og hér austan í fjöllunum hafði lítið sem ekkert rignt um skeið. Visnaðir burknar, fallnar greinar, bunkar af barrnálum og visin og fúnuð tré stóðu brátt hér og þar í björtu báli. Allt í kringum rjóðrið með Vörgunum var eldur að breiðast út. En úlfaverðirnir yfirgáfu ekki trén sem þeir áttu að gæta. Æstir og reiðir hringsóluðu þeir ýlfrandi kringum stofnana og bölvuðu dvergunum með sínu hræðilega orðbragði, með tunguna lafandi út úr skoltinum og augun rauðblóðug og logandi sem bálið.
Þá komu dríslarnir skyndilega hlaupandi og öskrandi. Þeir héldu í fyrstu, að hér hefði lostið í bardaga við skógarmennina en þeir fréttu fljótt hvað væri á seyði. Það fannst dríslunum svo hlægilegt að sumir þeirra settust niður og kútveltust af hlátri. Aðrir veifuðu spjótum eða lömdu sköftunum á skildi sína. Dríslar eru ekki vitund hræddir við elda og brátt hófu þeir að hleypa í framkvæmd stórskemmtilegri ráðagerð, að þeim sjálfum fannst.
Sumir fengu alla úlfana til að sitja rólegir. Sumir hlóðu burknum og hrísi kringum trjástofnana. Aðrir dreifðu sér um skóginn til að stappa og berja og berja og stappa, þangað til flestir logar voru slökktir — en þeir hirtu ekki um að slökkva logana næst trjánum þar sem dvergarnir biðu. Þvert á móti bættu þeir þar á laufi og öðrum eldsmat. Brátt var hringur loga og reyks kominn kringum öll tré dverganna. Dríslarnir hindruðu að hann breiddist utar en létu hann færast nær trjánum þangað til hann komst í brennihrúgurnar við trjábolina. Augu Bilbós fylltust af reyk og hann fann jafnvel hitann frá logunum og í gegnum eimyrjuna sá hann dríslana dansa hringinn í kring eins og fólk dansar kringum miðsumarsbál. Utan við hring þessara dansandi stríðskappa með spjót og axir, stóðu úlfarnir í virðulegri fjarlægð, fylgdust með og biðu.
Hann heyrði dríslana hefja upp raust sína og syngja hryllingssöng.