Ekki höfðu þeir lengi setið að borði, varla byrjaðir á þriðju köku, þegar enn háværari hringing hristi húsið.
„Afsakaðu, ég verð að fara fram!“ sagði hobbitinn og hljóp til dyra.
„Það var mikið að þú lést sjá þig!“ ætlaði Bilbó að segja við Gandalf. En það var ekki heldur Gandalfur í það skipti. Þar stóð annar dvergur á þrepskildinum nokkru eldri með hvítt síðskegg og skarlatsrauða hettu. Hann ruddist inn um leið og dyrnar opnuðust líkt og honum hefði verið boðið.
„Ég sé að þeir eru byrjaðir að tínast hingað,“ mælti hann þegar hann sá græna hettu Dvalins hangandi á snaganum. Hann hengdi rauðu hettuna sína þar við hliðina og mælti „Ég er Balinn, þjónustufús,“ og hneigði sig með hönd á brjóst.
„Takk fyrir!“ sagði Bilbó gapandi af undrun. Það var að vísu ekki hans að þakka fyrir neitt, en það að þeir væru farnir að tínast hingað kom alveg flatt upp á hann. Honum fannst gaman að fá gesti en helst vildi hann vita einhver deili á þeim eða spyrja þá út úr við komuna. En nú fór honum að líða illa af tilhugsuninni um að hann ætti ekki nógar kökur, og þá yrði það auðvitað skylda hans sem gestgjafa, að setja sjálfan sig hjá.
„Gakktu í bæinn og fáðu þeir tesopa,“ hafði hann sig til að segja eftir nokkur andköf.
„Ég vildi nú heldur fá bjór, ef þér væri sama, herra,“ sagði Balinn hinn hvítskeggjaði. „En kökur vil ég – helst þríkornakökur, ef þú ættir þær til.“
„Nóg af þeim!“ svaraði Bilbó og botnaði ekkert í sér, og áður en hann vissi sjálfur af var hann þotinn af stað niður í kjallara að fylla pottkollu af bjór og síðan í búrið að sækja tvær ljómandi fallegar þríkornakökur, sem hann var nýbúinn að baka og ætlaði sjálfum sér til kvöldnæringar.
Þegar hann kom til baka sátu Balinn og Dvalinn saman við borðið og töluðu saman eins og þeir væru gamlir vinir (og ekki að furða þar sem þeir voru líka bræður). Bilbó lét bjórinn og frækökurnar smella á borðið, rétt í því að dyrabjallan hringdi, og enn aftur.
„Nú hlýtur það að vera Gandalfur,“ hugsaði hann másandi á hlaupunum. En það var ekki að heldur. Nú birtust tveir dvergar í viðbót báðir með bláar hettur, silfrað belti og ljósgul síðskegg. Og báðir voru með verkfærapoka og skóflu. Inn hoppuðu þeir samstundis og rifa kom á gættina. En nú gat ekkert lengur komið Bilbó á óvart.
„Hvað get ég gert fyrir ykkur, dvergar mínir?“ sagði hann.
„Kjalar, þjónustufús!“ sagði annar, „Og Fjalar,“ bætti hinn við og báðir sveifluðu bláum hettunum kringum sig og hneigðu sig djúpt.
„Sömuleiðis ykkur og fjölskyldum ykkar!“ svaraði Bilbó og var nú farinn að kunna sig betur en áður.
„Ég sé að Dvalinn og Balinn eru mættir,“ sagði Kjalar. „Komum okkur þá inn í kösina!“
„Kösina!“ hugsaði herra Baggi. „Mér hættir nú alveg að lítast á blikuna. Ég verð víst aðeins að tylla mér hér niður til að ná áttum og fá mér smásopa. Hann hafði aðeins getað dreypt á glasinu sínu – úti í horni, meðan dvergarnir fjórir sem komnir voru röðuðu sér í kringum borðið og voru farnir að spjalla saman um námur og gull og vandræðin með dríslana, og hörmungina með drekann og ótal aðra hluti sem hann botnaði ekkert í og langaði heldur ekki til að vita neitt um, því að það var alltof ævintýralegt – þegar dinglara-dingl-ding-dong dyrabjallan gall við enn einu sinni eins og einhver hobbískur óþekktarormur væri að hamast við að rífa strenginn niður.
„Það er víst einhver fyrir utan!“ sagði hann og drap tittlinga.
„Segðu heldur fjórir, ég heyri ekki betur,“ sagði Fjalar. „Auk þess sáum við til þeirra skammt á eftir okkur.“
Vesalings litli hobbitinn vissi nú ekki sitt rjúkandi ráð, svo að þegar hann kom fram í forstofuna, féll honum allur ketill í eld og hann grúfði andlitið í höndum sér og botnaði ekkert í því, hvað væri eiginlega á seyði og hvort allir þessir gestir sem dembdust yfir hann ætluðu að vera þar í kvöldmat. Þá glumdi bjallan aftur við, svo ærandi og óþolinmóð að hann komst ekki hjá því að fara til dyra. Úti fyrir birtust ekki aðeins fjórir, heldur voru þeir orðnir FIMM. Enn einn dvergur hafði bæst í hópinn, meðan hann var að íhuga málin í forstofunni. Varla hafði hann hreyft við lokunni fyrr en þeir skullu yfir hann eins og flóðalda, ryðjandist sig inn og hneigjandist sig og segjandist sig hver í kapp við annan: „þjónustufús“, — Dóri, Nóri, Óri, Óinn og Glóinn hétu þeir og áður en við var litið höfðu þeir hengt upp á snagana tvær rauðar hettur, eina gráa, aðra brúna og loks eina hvíta á lit og örkuðu inn í stofu, héldu potthlemmsbreiðum lúkum í gyllt og silfruð belti sín og bættust í hóp hinna sem fyrir voru. Nú mátti þó næstum fara að segja að komin væri kös. Sumir dverganna vildu öl, aðrir heimtuðu létt vín og einn kaffi, en allir steyttu þeir sig út af kökum, svo nú var nóg að gera hjá hobbitanum um sinn.
Hann hafði sett stóra kaffikönnu yfir eldinn, þríkornakökurnar voru búnar og dvergarnir byrjaðir að naga heilan umgang af skonroki með smjöri — þá var barið fast að dyrum, nú voru það ekki bjölluhringingar, heldur hvell högg á fallegu grænu útidyr hobbitans. Einhver að berja á þær með staf.
Bilbó kom þjótandi fram ganginn, allt í senn reiður, ruglaður og ráðalaus – þetta var sá alversti miðvikudagur sem hann hafði nokkurn tímann upplifað. Hann rykkti upp dyrunum og inn þeyttust í einni bendu hver ofan á annan, enn fleiri dvergar, raunar bættust þeir fjórir við. Og að baki þeim stóð Gandalfur, hallaði sér fram á staf sinn skellihlæjandi. Hann hafði gert töluverða dæld í fallegu dyrnar með stafnum og þó samtímis máð út leynimerkið sem hann hafði rist í þær daginn áður.
„Varlega! Varlega!“ sagði hann. „Það er ólíkt þér, Bilbó, að láta vini þína bíða svona lengi á dyramottunni og opna svo dyrnar eins og í byssuhvelli. Má ég kynna, hér er Bifur og Bógur, Vambi og síðast en ekki síst sjálfur Þorinn.“
„Þjónustufús!“ sögðu þeir Bifur, Bógur og Vambi hver á fætur öðrum. Þeir tóku af sér hetturnar og hengdu þær upp á snaga, tvær gular, eina fölgræna og loks eina himinbláa með löngum silfurskúf. Sú síðasta var hetta Þorins, þess fræga og meiriháttar dvergs, sem var í rauninni enginn annar en sjálfur Þorinn Eikinskjaldi, og var það fyrir neðan virðingu hans að skella þannig niður á gólfið í forstofu Bilbós með þá Bifur, Bóg og Vamba í hrúgu ofan á sér, og verst af öllu, hvað Vambi var óskaplega feitur og þungur. Þorinn var því í meira lagi fýldur svo hann nefndi ekki einu sinni á nafn neina þjónustu. En vesalings Baggi klifaði í sífellu á því hvað sér þætti þetta leitt, svo að Þorinn varð hundleiður á þeirri þvælu og tuldraði „blessaður minnstu ekki á það,“ og létti brúnum.
„Þá erum við allir saman komnir!“ mælti Gandalfur og taldi á snögunum þrettán hetturnar hangandi í röð – bestu lausu sparihetturnar sem þeir áttu – og loks sinn eigin topphatt. „Hér er aldeilis hátíð! Vonandi er eitthvað eftir handa okkur þeim síðbúnu að éta og drekka! Hvað er nú þetta? Te! Nei takk fyrir. En litla lögg af rauðvíni þægi ég.