Выбрать главу

Svo gerðu þeir hlé á söngnum en hrópuðu háðslega „Fljúgið burt litlu fuglar! Fljúgið burt ef þið getið! Komið niður smávinir fagrir eða þið verðið steiktir í hreiðrunum! Syngið syngið smáfuglar! Hversvegna er söngur ykkar þagnaður?“

„Snautið burt! Pottormar!“ hrópaði Gandalfur til að láta ekki standa upp á sig svarið. „Nú er enginn hreiðurtími. En óþæg hrekkjusvín sem leika sér að eldi fá sína refsingu.“ Hann gerði þetta til að æsa þá upp og sýna þeim að hann væri ekki vitund hræddur við þá — þó hann væri það nú óneitanlega, og það jafnvel þó hann væri vitki. En þeir önsuðu honum engu og héldu áfram að syngja:

Brenni brenni barrið og burknakjarrið. Hæhó! Grillum þessa dvergadindla, drepum þá sem brennandi kyndla. Hæhó Sverfa skal að stæltu stáli, steikjum þá í logandi báli. Hæhó! Hitnar þeim af böggunum hrísa, hræin skulu nóttina lýsa. Hæhó!

Og með þessu síðasta háglymjandi Hæhó! bárust logarnir undir tré Gandalfs. Og strax á eftir breiddust þeir út til allra hinna. Eldurinn læsti sig í trjábörkinn og brátt snarkaði í neðstu greinunum.

Þá kleif Gandalfur upp í efsta trjátoppinn. Skyndilega spratt stórglæsileg ljósasýning upp frá staf hans og leiftraði sem elding, meðan hann bjó sig undir að stökkva úr upphæðum niður á spjótsodda dríslanna. Það hefðu víst orðið hans endalok, þó vafalaust hefði hann líka dregið marga þeirra með sér í dauðann, þegar hann varpaði sér yfir þá eins og þrumufleygur. En hann stökk aldrei.

Rétt á sama augnabliki steypti Konungur arnanna sér niður úr lofti, greip hann í klærnar og hvarf á braut með hann.

Við kvað heljarglymur reiði og undrunar frá dríslunum. En hærra hlakkaði Konungur arnanna sem Gandalfur hafði nú talast við. Nú sveimuðu að hinir stóru ernirnir sem fylgt höfðu honum og þeir steyptu sér niður eins og voldugir svartir skuggar. Úlfarnir gjömmuðu og gnístu tönnum. Dríslarnir öskruðu og steyptu stömpum af illsku og þeyttu þungum spjótum sínum hátt í loft en árangurslaust. Og ernirnir lustu þá til jarðar eða hröktu þá með svipuhöggum svartra vængja, klóruðu með klónum í andlit dríslanna. Aðrir ernir flugu að trjátoppunum og þrifu dvergana sem voru að klöngrast eins hátt upp í trén og þeir komust eða þorðu að fara.

Og enn var vesalings litli Bilbó næstum skilinn einn eftir. En honum tókst með herkjum að grípa í fót Dóra um leið og hann var borinn burt síðastur allra og þeir hófust báðir saman hátt yfir allan hamaganginn og eldana, Bilbó sveiflaðist í lausu lofti og fannst handleggirnir á sér vera að slitna í sundur.

Langt fyrir neðan tvístruðust dríslar og úlfar vítt og breitt um skógana. Fáeinir ernir hringsóluðu enn og steyptu sér niður yfir orustuvellinum. Logarnir frá trjánum gusu skyndilega hátt upp fyrir efstu greinar og þau brunnu í brakandi báli. Skyndilega stóðu þau öll í gneistaflugi og kolsvörtum reyk. Bilbó hafði sloppið á síðustu stundu.

Brátt sáu þeir eldana aðeins í daufum bjarma langt fyrir neðan, rautt blik á svörtu gólfi. Þeir voru komnir hátt í loft og hækkuðu sífellt flugið í kröppum sveiflandi hringjum. Bilbó gat aldrei síðan gleymt þeirri tilfinningu, þar sem hann hékk á öklum Dóra stynjandi: „Ó, handleggirnir á mér! Ó, handleggirnir!“ en Dóri stundi á móti „Ó, vesalings fæturnir á mér! Ó, fæturnir!“

Bilbó var í eðli sínu svo lofthræddur að hann þurfti ekki að fara hátt upp til að sundla. Hann varð eitthvað svo utan við sig og annarlegur ef hann gægðist þó ekki væri nema út fyrir brúnina á svolitlum kletti. Honum var aldrei vel við að fara upp í stiga, hvað þá upp í tré (en hann hafði heldur aldrei áður þurft að flýja undan úlfum). Svo það má rétt ímynda sér, hvernig hann svimaði nú þegar honum varð litið niður gegnum dinglandi tærnar á sér og sá myrkvað landið gína við fyrir neðan sig, með tunglskinsblettum hér og þar á hamranúpum og bliki af ám sléttunnar.

Þeir nálguðist föla hályfta fjallatinda, tunglbjarta klettastanda sem risu hátt upp úr svörtum skugganum. Þó sumar væri virtist honum nístandi kalt. Hann lokaði augunum og velti því fyrir sér, hvort hann gæti þraukað af. Svo fór hann að ímynda sér hvernig færi, ef hann gæfist upp. Honum varð illt.

Fluginu lauk rétt í tæka tíð, áður en hann gafst upp í höndunum. Nú gat hann sleppt takinu á öklum Dóra, en þó með andköfum og féll niður á grýttan botn arnarhreiðurs. Þar lá hann mállaus og í huga hans hrærðist saman undrunin yfir að hafa bjargast úr eldinum og samfelldur óttinn við að falla af þessari þröngu syllu niður í myrkrið á báðar hendur. Honum leið satt að segja furðulega í höfðinu eftir öll þau hræðilegu ævintýr sem hann hafði ratað í síðustu þrjá daga og enn hafði hann næstum ekkert fengið að éta og hann heyrði sig tauta við sjálfan sig: „Nú veit ég hvernig svínafleskju líður þegar henni er bjargað á síðustu stundu með forki upp af steikjandi pönnunni og kastað upp á hillu!“

„Nei, þú hefur enga hugmynd um það!“ heyrði hann Dóra svara, „því að svínafleskjan veit að henni verður aftur kastað á pönnuna fyrr eða síðar, en vonandi verður okkur það ekki. Auk þess eru ernir ekkert líkir forkum!“

„Ónei! ekkert líkir storkum — æ ég á við forkum,“ sagði Bilbó um leið og hann settist upp og starði áhyggjufullur á örninn sem sat þar rétt hjá. Hann spurði sig, hvaða aðrar endileysur hann kynni að hafa sagt og hvort hann hefði kannski móðgað örninn. Sá á ekki að móðga örn sem ekki er stærri en hobbiti og situr þar að auki uppi í hreiðrinu hans að næturlagi!

En örninn brýndi aðeins gogginn á steini, snyrti fjarðrirnar og veitti honum enga minnstu athygli.

Rétt á eftir flaug yfir annar örn. „Konungur arnanna biður þig að flytja fangana yfir á Stórusyllu,“ hrópaði hann og hvarf á braut. Hinn greip þá Dóra í klærnar og flaug burt með hann út í nóttina en skildi Bilbó einan eftir. En Bilbó var ekki upp á marga fiska, hann hafði krafta aðeins til að velta fyrir sér, hvað hann hefði átt við með „fangar“ og fór strax að ímynda sér að hann yrði víst slægður og hafður í kvöldverð líkt og kanína, þegar að honum kæmi.

En örninn sneri aftur, læsti klónum aftan í frakkann hans og sveif á brott með hann. Ekki flaug hann þó ýkja langt. Mjög fljótlega lagði hann Bilbó niður, skjálfandi af ótta, á breiða syllu í fjallshlíðinni. Enginn vegur lá þaðan niður nema sá hinn fljúgandi vegur og enginn stígur nema sá hinn kastandi sér fram af hengiflugi. Og þarna hitti hann fyrir alla félaga sína. Þeir sátu og studdu baki að klettaveggnum. Konungur arnanna var þar líka á tali við Gandalf.

Svo ekki leit út fyrir að Bilbó yrði étinn í þetta skiptið. Vitkinn og arnarhöfðinginn virtust vera kunningjar og jafnvel kært á milli þeirra. Staðreyndin var sú að Gandalfur, sem oft var á ferð á fjöllum, hafði eitt sinni gert örnunum greiða og læknað höfðingja þeirra af örvasári. Þá fékkst skýring á orðinu „fangar“, að þar var aðeins átt við „fanga sem bjargað hefði verið frá dríslunum,“ en alls ekki að þeir væru fangar arnanna. Þegar Bilbó heyrði á tal Gandalfs komst hann á snoðir um það, að líklega myndu þeir alveg sleppa við hin hræðilegu fjöll. Gandalfur var að ráðgast við stóra örninn um að bera alla dvergana, Gandalf sjálfan og Bilbó, langt í burtu og stytta þeim veg yfir sléttuna fyrir neðan.