En Konungur arnanna aftók að bera þá á nokkurn þann stað þar sem menn bjuggu. „Þeir myndu skjóta á okkur af stórbogum sínum úr ýviði,“ sagði hann „og halda að við værum að sækjast eftir kindum þeirra. Og vissulega væri það rétt hjá þeim á öðrum stundum. En ekki nú, í þetta skiptið erum við bara ánægðir yfir að svipta dríslana afþreyingu sinni og mega um leið endurgjalda með þakklæti það sem okkur var vel gert, en við viljum ekki leggja okkur í áhættu fyrir dvergana með því að flytja þá niður á suðurhluta sléttunnar.
„Ágætt,“ sagði Gandalfur. „Flyttu okkur bara hvert sem þú vilt og eins langt og þú getur! Við erum innilega þakklátir ykkur. En á meðan erum við að farast úr næringarskorti.“
„Já, ég er næstum dauður úr hungri,“ bætti Bilbó við svo mjóróma að enginn heyrði.“
„Kannski mætti úr því bæta,“ sagði Konungur arnanna.
Síðar um nóttina sást bregða fyrir björtu báli á klettasyllunni og skuggunum af dvergunum í kring, sjóðandi og steikjandi svo frá þeim barst indælis steikarilmur. Ernirnir höfðu borið upp til þeirra þurra brennibúta og drógu að kanínur, héra og einn gemling. Dvergarnir sáu um allan matartilbúning. Bilbó var of máttfarinn til að geta nokkuð hjálpað þeim, auk þess sem hann kunni lítt til verka við að flá kanínur eða skera kjöt í bita, vanastur því að slátrarinn kæmi með allt matarkyns til hans tilbúið á pönnuna. Gandalfur hallaði sér einnig eftir að hafa lagt sitt af mörkum við að kveikja upp eldinn því að Óinn og Glóinn höfðu víst týnt tundurkössunum sínum. (Dvergar hafa aldrei lært að nota eldspýtur).
Þannig lauk ævintýrunum í Þokufjöllum. Brátt fann magi Bilbós til saðningar og honum leið svo vel að hann gat aftur sofnað ánægður, þó fremur hefði hann fyrir sína parta kosið að fá brauð og smjör en þessa kjötbita sem steiktir voru á teini. Svo sofnaði hann í hnipri á hörðum kletti, fastar en hann hafði nokkurn tímann gert á fjaðradýnu í litlu holunni sinni heima. En alla nóttina dreymdi hann húsið sitt heima og fannst hann í svefninum ganga um öll herbergin í leit að einhverju en gat hvorki fundið né munað að hverju hann var að leita.
VII. KAFLI
Undarleg gisting
Morguninn eftir vaknaði Bilbó með sólina í augunum. Hann stökk á fætur til að gá hvað tímanum liði og til að setja ketilinn á — en hann var þá ekki heima hjá sér. Svo hann gat ekki annað gert en að setjast niður og lifa í óskhyggjunni um þvottaskál og bursta. En hann fékk hvorugt og hvorki te né ristað brauð né svínafleskju í morgunverð, aðeins kalt kindakjöt og kanínu. Og strax á eftir skyldi lagt af stað á ný.
Nú var hann látinn klífa upp á bakið á erni og bæla sig niður milli vængjanna. Svo fann hann vindinn hvína um sig og lokaði augunum. Hann heyrði dvergana kalla kveðjuorðum en þeir lofuðu að þeir skyldu endurgjalda Arnarkonunginum einhverju einhvern tímann, ef þeir gætu. Og svo hófu allir þessir fimmtán voldugu fuglar sig á loft upp af klettunum. Sólin var enn lágt á himni í austri og náttsvalinn ríkjandi með þéttri þoku í dölum og dældum en sumsstaðar teygðist hún líka upp um núpa og tinda. Bilbó opnaði annað augað varlega og sá að fuglarnir flugu svimandi hátt, heimurinn var langt fyrir neðan og fjöllin þegar langt að baki. Hann sá það ráð vænst að loka aftur augunum og ríghalda sér.
„Ekki klípa mig!“ sagði örninn, „þú þarft ekki að vera svona hræddur eins og kanína, þó þú helst líkist henni. Nú er fegursti morgunn með litlum andblæ. Hvað er líka til betra en að fljúga?“
Bilbó hefði viljað svara honum: „Heitt bað og síðbúinn morgunverður á grasflötinni á eftir,“ en kaus að þegja og slakaði aðeins á takinu.
Eftir góða stund virtust ernirnir hafa fundið staðinn sem þeir stefndu að, úr þessari svimandi hæð, því að þeir byrjuðu að hringsóla í sísveigum niður á við. Þannig sveimuðu þeir lengi og loks opnaði hobbitinn augun aftur. Hann sá jörðina miklu nær og fyrir neðan uxu tré líkust eikum eða álmi og þar voru víðar gresjur með rennandi fljóti. En í miðjum bugðóttum straumi gnæfði klettur svo heljarstór að hann hefði mátt kallast fell, útvörður hinna fjarlægu fjalla og hægt var að ímynda sér að einhver ferlegur risi meðal allra risa hefði varpað honum margar mílur út á sléttuna.
Skyndilega steyptu ernirnir sér niður og settust hver á eftir öðrum á klettahöfðann og skiluðu farþegum sínum af sér.
„Fararheill!“ hrópuðu þeir, „hvert sem leið ykkar liggur þar til þið snúið aftur heim í hreiður ykkar í ferðalok.“ En þetta þykja hinar bestu árnaðaróskir meðal arna.
„Megi vindur undir vængjum bera ykkur hátt þangað sem sólin siglir og tunglið töltir,“ svaraði Gandalfur og lét ekki standa upp á sig um kurteisleg andsvör.
Þar skildust leiðir. Og þótt Konungur arnanna yrði síðar Konungur allra fugla og bæri gullna kórónu og fimmtán ráðgjafar hans fengju gullin hálsbönd (sem dvergarnir gáfu þeim), þá sá Bilbó þá ekki framar — nema svífandi hátt og í fjarska yfir Fimmherjaorustunni. En frá henni verður skýrt nánar í sögulok og ástæðulaust að fara út í þá sálma að sinni.
Slétt flöt var efst á þessum mikla klettahamri og niður frá henni lá vel troðinn stígur með mörgum þrepum niður á árbakkann en vel varðað vað með stórum stikusteinum lá yfir ána að graslendinu austan fljótskvíslarinnar. Svolítill hellir (hreinlegur með smámöl í botninum) var fyrir neðan þrepin nálægt hinu stikaða vaði. Hér kom nú allur hópurinn saman og ráðgaðist um hvað gera skyldi.
„Það vakti fyrir mér að koma ykkur heilum (ef mögulegt væri) yfir fjöllin,“ sagði vitkinn, „og nú hefur mér tekist það með góðri stjórn og heppni. Við erum raunar komnir austar en ég ætlaði að fylgja ykkur, því að þegar allt kemur til alls, er þetta ekki mitt ævintýri. Má vera að ég líti til ykkar áður en lýkur, en nú þarf ég að sinna öðrum brýnum erindum.“
Dvergarnir byrjuðu strax að mögla og urðu mjög áhyggjufullir en Bilbó grét fögrum tárum. Þeir voru farnir að halda að Gandalfur ætlaði að fylgja þeim alla leið og vera ætíð viðbúinn að koma þeim til hjálpar ef eitthvað á bjátaði. „Jæja, ég skal þá ekki hverfa burt á stundinni,“ sagði hann. „Ég get gefið ykkur einn eða tvo daga í viðbót. Sjálfsagt er að hjálpa ykkur út úr þeim ógöngum sem þið eruð nú í og um leið þarf ég raunar að bjarga sjálfum mér. Við höfum nefnilega engan mat, engan farangur og enga hesta til reiðar. Auk þess hafið þið ekki hugmynd um hvar þið eruð nú staddir. Ég skal nú greina ykkur frá því. Þið eruð enn alllangt norðan vegarins sem við hefðum átt að fylgja, ef okkur hefði ekki verið kippt svo snögglega út af rétta fjallaskarðinu. Hér býr fátt fólk nema því hafi fjölgað síðan ég var hér síðast á ferð, en það var fyrir mörgum árum. Þó veit ég um einn sem býr hér skammt frá. Það var einmitt hann sem hjó niðurgönguþrepin í stóra klettinn — Karkaklettur held ég að hann kalli hann. Hann kemur ekki oft hingað, allra síst að degi til og þýðir ekkert að bíða hans hérna. Þvert á móti væri það mjög hættulegt. Við verðum að fara og leita hann uppi og ef vel fer á með okkur, held ég að mér yrði óhætt að fara og óska ykkur „fararheillar hvert sem leið ykkar liggur“ eins og ernirnir orða það!“