Выбрать главу

Þeir sárbáðu hann um að yfirgefa sig ekki. Þeir buðu honum drekagull og silfur og dýrgripi, en hann lét ekki undan. „Við sjáum nú til, sjáum til!“ sagði hann, „ég held nú líka að ég hafi þegar unnið fyrir einhverjum hlut í drekagulli ykkar – þegar þið hafið náð því.“

Við það hættu þeir að kvabba á honum. Þeir fóru úr og böðuðu sig í árkvíslinni sem var þar grunn og tær, með möl í botninn á vaðinu. Eftir að hafa þerrað sig í sólinni sem nú var orðin sterk og hlý voru þeir orðnir miklu hressari, þó þeir væru enn sárfættir og nokkuð svangir. Brátt óðu þeir yfir vaðið (báru hobbitann) og héldu svo áfram að vaða hávaxinn graspuntinn innan um raðir af baðmstórum eikum og hávöxnum álmum.

„Hví er hann kallaður Karki?“ spurði Bilbó sem gekk við hlið vitkans.

„Hann kallaði hann víst Karka, af því að karki er á hans máli notað yfir svona kletta. En þetta er Karkinn hans af því að hann er sá eini sem stendur nálægt bústað hans og hann þekkir hann vel.

„Hver kallar hann það? Hver þekkir hann?“

„Nú, það er þessi einhver sem ég talaði um – mikill maður. Þið verðið allir að gæta fyllstu kurteisi þegar ég kynni ykkur fyrir honum. Ég verð að fara mjög gætilega í það og aðeins kynna ykkur hægt og hægt, tvo og tvo saman, held ég, og þið verðið að gæta þess að espa hann ekki upp, því hver veit hvað af því gæti leitt. Hann getur orðið hræðilegur, ef hann reiðist, en ósköp góðlátlegur ef hann kemst í gott skap. Samt vara ég þig við því að hann er mjög uppstökkur.“

Dvergarnir þyrptust nú kringum vitkann til að heyra á tal hans við Bilbó. „Er það þá þessi hræðilegi náungi sem þú ert að leiða okkur til?“ spurðu þeir. „Væri ekki hægt að finna einhvern góðlyndari? Vildirðu ekki útskýra þetta svolítið nánar fyrir okkur?“ — o.s.frv.

„Já, þetta er hann! Nei, ég get ekki fundið neinn annan betri. Og ég var að útskýra það mjög svo vandlega,“ svaraði vitkinn hálf afundinn. „Ef þið viljið fá að vita meira, þá heitir hann Björn Birningur. Hann er hamrammur að kröftum og er það sem kallað er skinn-skiptingur.“

„Hvað segirðu! Þú átt þá við skinnaveiðimann af þeirri gerð sem kallar kanínur feldínur, ef hann ekki heldur því fram að skinnið af þeim sé af íkornum?“ spurði Bilbó.

„Nei, hjálpi mér, nei, nei, NEI, NEI!“ sagði Gandalfur. „Vertu nú ekki að heimska þig eins og kjáni, herra Baggi, þú ert ekki svo skyni skroppinn og í guðanna bænum í nafni allrar óbrjálaðrar skynsemi minnstu ekki framar á skinnaveiðimenn meðan þú ert innan hundrað mílna hringferils frá húsi hans, minnstu heldur ekki á feld eða loðskinn, herðaskjól né handskjól eða loðdúsk, né nokkra slíka hættulega hluti við hann! Hann er eins og ég sagði skinn-skiptingur, sem þýðir að hann getur breytt um ham, stundum er hann voldugur svartbjörn, en þess á milli svarthærður maður en óskaplegur beljaki með flennistórar lúkur og mikið skegg. Ég get ekki sagt þér mikið meira, en þetta ætti líka að vera nóg. Sumir halda að hann sé í rauninni skógarbjörn, kominn af hinum voldugu og fornu fjallabjörnum sem lifðu hér áður en tröllin komu fram á sviðið. Aðrir halda að hann sé maður kominn af fyrstu mönnum sem uppi voru löngu fyrir daga Smeygins og annarra dreka í þessum hluta heims og áður en dríslarnir komu úr norðri og settust að í fjöllunum. Ég veit ekkert af þessu með vissu, en hef ímyndað mér að seinni útgáfan sé rétt. En hann er ekki þannig, að maður komist upp með að spyrja hann margra spurninga.

Svo mikið er þó víst að hann hlítir engum álögum nema sínum eigin. Hann býr í eikiskógi í stóru timburhúsi og hefur sem maður bæði kýr og hesta, engu síður furðuleg dýr en hann sjálfur. Þau vinna fyrir hann og tala við hann. Hann hefur þau ekki sér til matar og ekki veiðir hann heldur né étur nein villt dýr. En hann á fjölda býflugnabúa með stórum og vígalegum býflugum og lifir mest á rjóma og hunangi. Í líki bjarnarins æðir hann vítt og breitt um landið. Eitt sinn sá ég hann sitjandi að næturlagi einan uppi á toppi Karkans og hann horfði í tunglið þegar það var að síga niður að Þokufjöllum og ég heyrði hann urra á tungumáli bjarna og segja: „Sá dagur kemur að þeir munu tortímast og ég get snúið aftur!“ En af þeim ummælum þykist ég mega ráða að hann hafi sjálfur upphaflega komið ofan úr fjöllunum.“

Bilbó og Dvergarnir höfðu nú fengið nóg til að hugsa um, svo þeir sáu ekki ástæðu til að spyrja fleiri spurninga. Enn áttu þeir drjúga leið eftir. Áfram örkuðu þeir upp brekkur og niður í lægðir. Það var orðið steikjandi heitt. Stundum hvíldu þeir sig undir eikitrjánum og Bilbó var orðinn svo svangur að hann hefði getað hámað í sig akörnin, ef þau bara hefðu verið orðin nógu þroskuð til að falla til jarðar.

Það var komið fram um miðjan dag áður en þeir tóku eftir því að stórir flákar af blómum voru farnir að spretta upp, allt sömu tegundar í skipulegum hvirfingum eins og þeim hefði verið sáð. Sérstaklega gilti það um smárann, bylgjandi breiðurnar af refasmára og rauðsmára og líka breiðir flákar af lágvaxnari hvítum sætilmandi hunangssmára. Og þeir heyrðu suð og hvin og drunur í lofti. Allsstaðar voru býflugur önnum kafnar. Og hvílíkar býflugur! Bilbó hafði aldrei áður séð neinar þvílíkar hlussur.

„Ef einhver þeirra mundi stinga mig,“ hugsaði hann, „er ég hræddur um að ég mundi allur bólgna upp tvöfaldur.

Þær voru stærri en geitungar, druntarnir sverir sem þumalfingur og á gular rendur á kolsvörtum bol glampaði eins og glóandi gull.

„Nú förum við að nálgast,“ sagði Gandalfur. „Við erum hér í útjaðri býflugnabeitar hans.“

Eftir nokkra stund komu þeir að heilli röð afar stórra og fornra eikitrjáa og að baki þeirra var hátt þyrnigerði sem hvorki varð séð í gegn né skrönglast yfir.

„Nú er best að þið bíðið hérna,“ sagði vitkinn við Dvergana. „Og þegar ég kalla eða blístra, eigið þið að koma á eftir mér — og takið nú eftir hvaða leið ég fer — en komið aðeins tveir og tveir saman, munið það, og látið líða svo sem fimm mínútur á milli ykkar. Vambi er feitastur og á við tvo, svo það er best að hann komi einn og sér síðastur. En fylgdu mér nú fyrstur herra Baggi. Einhvers staðar hérna ætti hliðið að vera.“ Og þar með hélt hann af stað áleiðis meðfram gerðinu og tók dauðskelfdan hobbitann með sér.

Brátt komu þeir að tréhliði, afar háu og breiðu, og á bak við það komu þeir auga á garða og þyrpingu lágra timburhúsa, sum voru með þekju og mæni og hlaðin úr óhöggnum viðarbolum: þar voru hlöður, útihús, skúrar og langbygging lág, öll úr timbri gjör. Sunnan megin í gerðinu voru endalausar raðir af býflugnabúum með bjöllulaga toppum gerðum úr hálmi. Dynurinn frá risabýflugunum glumdi í loftinu, þar sem þær flugu til og frá og skriðu inn og út um búin.

Vitkinn og hobbitinn ýttu við og opnuðu þungt marrandi hliðið og héldu áfram eftir breiðum stíg í átt að húsinu. Nokkrir hestar sérlega spengilegir og vel kembdir komu töltandi á móti þeim eftir grasflötinni og horfðu greindarlega á þá, en tóku síðan á rás heim að húsunum.

„Þeir gera honum viðvart um heimsókn ókunnugra,“ sagði Gandalfur.

Brátt komu þeir inn í húsagarð og myndaði miðbyggingin ásamt tveimur framstæðum álmum umgjörð á þrjá vegu. Á miðju hlaðinu lá digur eikarstofn með mörgum afhöggnum greinum sitt hvorum megin. Þar hjá stóð fílefldur karlmaður, svarthærður og svartskeggjaður, áberandi vöðvastæltur á handleggjum og fótum. Hann var klæddur hnésíðum vaðmálskufli og hallaði sér fram á gríðarmikla viðaröxi. Hestarnir stóðu hjá honum og lögðu múlana á axlir honum.