Выбрать главу

„Huhu! Já, hér eru þeir komnir!“ sagði hann við hrossin. „Þeir virðast nú ekkert vera hættulegir. Þið megið fara.“ Svo rak hann upp glymjandi hrossahlátur, lagði frá sér öxina og gekk til móts við þá.

„Hverjir eruð þið og hvað viljið þið?“ spurði hann illyrmislega, stillti sér upp fyrir framan þá og gnæfði yfir Gandalf. Bilbó hefði auðveldlega getað trítlað í gegnum klofið á honum og ekki einu sinni þurft að beygja sig til að rekast ekki á fald kuflsins.

„Ég er Gandalfur,“ sagði vitkinn.

„Aldrei heyrt þig nefndan,“ urgaði í manninum. „Og hver er þessi litli kútur?“ spurði hann og laut niður til að gretta sig framan í hobbitann og ygla loðnar og kolsvartar brýnnar.

„Þetta er herra Baggi, hann er Hobbiti af góðum ættum og með flekklaust mannorð,“ sagði Gandalfur. Bilbó hneigði sig kurteislega en verst þótti honum að hafa engan hatt til að taka ofan og var sér mjög meðvitaður um alla hnappana sem hann vantaði. „Sjálfur er ég vitki,“ hélt Gandalfur áfram. „Ég hef heyrt af þér, þó að þú hafir ekkert frétt af mér. En kannski þekkirðu eitthvað til ágæts frænda míns Ráðagests sem býr víst hér rétt fyrir sunnan Myrkvið?“

„Já, rétt er það, ekki sem verstur náungi af vitka að vera, að ég held. Áður var ég vanur að hitta hann við og við,“ sagði Björn. „Nújæja, þá veit ég hverjir þið eruð, eða hverjir þið segist vera. En hvað viljiði mér?“

„Ef satt skal segja höfum við misst allan okkar farangur og villst, svo við hefðum fremur þörf fyrir hjálp, að minnsta kosti ráðleggingar. Ég verð að viðurkenna að við lentum illa í því með dríslana í fjöllunum.“

„Dríslana?“ sagði beljakinn og varð hann nú strax mildari á manninn. „Ohohoho! Svo þið lentuð illa í þeim? En hvað voruð þið líka að abbast upp á þá?“

„Það var alls ekki ætlun okkar. Þeir komu óvænt yfir okkur í fjallaskarði sem við áttum leið um. Við vorum á leiðinni úr Landinu að vestan og hingað — en það væri löng saga að segja frá því öllu.“

„Þá er best fyrir ykkur að koma inn fyrir og segja mér undan og ofan af því sem gerðist, þó það þurfi ekki að taka allan daginn,“ sagði stóri maðurinn og fór á undan þeim inn um dökkar dyrnar á húsinu.

Þeir fylgdu honum eftir og komu inn í mikinn skála með eldstæði á miðju gólfi. Þótt nú væri hásumar logaði viðareldur í stónni og reykinn lagði upp að sótugum röftunum og út um op á þakinu. Þeir gengu í gegnum þennan skuggaríka skála sem var aðeins lýstur upp af eldinum og gatinu í rjáfrinu og um aðrar minni dyr út á einskonar verönd með skyggni sem haldið var uppi af viðarsúlum úr heilum trjábolum. Veröndin sneri móti suðri og var enn hlý og full af geislum vesturhallandi sólar sem féllu skáhallt niður á hana og báru birtu yfir garðinn sem var fullur af blómum og náði allt upp að þrepunum.

Hér settust þeir á trébekki meðan Gandalfur hóf frásögn sína, en Bilbó dinglaði fótum og barði fótastokkinn og virti fyrir sér blómin í garðinum og velti fyrir sér hvað þau skyldu heita, en hann hafði aldrei séð helming tegundanna áður.

„Sem sagt, ég var þarna á leiðinni yfir fjöllin með einum eða tveimur vinum . . .“ sagði vitkinn.

„Hvað meinarðu með — tveimur? Ég sé nú ekki nema einn og hann er mesta písl,“ sagði Björn.

„Jæja, ef ég á að segja eins og satt er, þá vildi ég ekki trufla þig með okkur öllum, fyrr en ég sæi hvort þú værir mjög önnum kafinn. Má ég þá gefa hinum merki um að koma.“

„Endilega, kallaðu þá á hann!“

Svo að Gandalfur blístraði hvellt og lengi og samstundis komu Þorinn og Dóri í ljós fyrir húshornið eftir garðstígnum og stóðu þar og hneigðu sig djúpt fyrir hinum.

„Ég sé að þú áttir við einn eða þrír!“ sagði Björn. „En þetta eru þó ekki hobbitar, heldur dvergar!“

„Þorinn Eikinskjaldi, þjónustufús! Dóri, þjónustufús!“ sögðu dvergarnir hver á eftir öðrum og hneigðu sig aftur.

„Ég þarfnast nú engrar þjónustu ykkar, takk fyrir,“ sagði Björn, „hitt væri heldur að þið þarfnist minnar. Ég er nú ekkert sérlega hrifinn af dvergum, en sé það rétt skilið að þú sért Þorinn (sonur Þráins, sonar Þrórs að því er mig grunar), og ef félagar þínir eru virðingarverðir og þið eruð ekki að brugga nein vandræði á mínu landi – ja, hvað ætlist þið eiginlega fyrir?“

„Þeir eru á leiðinni að heimsækja land feðra sinna fjærst í austri handan Myrkviðar,“ tók Gandalfur fram í, áður en þeir fengju nokkru svarað, „og það er tilviljun ein að við komum inn á þitt land. Við vorum á leiðinni yfir Háskarðið og hefðum átt að koma niður sunnar, ef fjandans dríslarnir hefðu ekki ráðist á okkur — eins og ég ætlaði að fara að segja þér.“

„Jæja, haltu þá áfram frásögninni!“ sagði Björn, sem var ekki vanur að viðhafa nein kurteisislæti.

„Hræðilegur stormur skall á okkur. Steintröllin voru allsstaðar á ferðinni að kasta klettum og í háskarðinu leituðum við hælis í hellisskúta, ég ásamt hobbitanum og hópi dverga . . .“

„Kva? Kallarðu tvo hóp?“

„Ó, nei, það er rétt. Ef satt skal segja voru þeir fleiri en tveir.“

„Hvað varð af þeim? Voru þeir drepnir, étnir eða sneru þeir við aftur?“

„Ó, neinei. En ég skil ekkert í þessu. Þeir virðast ekki allir hafa komið, þegar ég blístraði. Feimnir, líkast til. Og afsakaðu, við erum svo hræddir um að við séum of margir að trufla þig.“

„Hvað er þetta, blístraðu þá bara aftur! Það er ekki annað að sjá en að efnt sé til veislu, og einn eða tveir til viðbótar breyta engu,“ urraði Björn.

Gandalfur blístraði aftur en Nóri og Óri komu inn jafnvel áður en blístrinu lauk, því eins og þið munið kannski, hafði Gandalfur sagt þeim að koma inn tveir og tveir með fimm mínútna millibili.

„Hæ, hvað var þetta!“ sagði Björn. „Þið voruð ótrúlega fljótir — hvar földuð þið ykkur? Komið inn sprelligosar.“

„Nóri, þjónustufús, Óri, þjón . . .“ byrjuðu þeir. En Björn tók fram í fyrir þeim.

„Þakka ykkur fyrir! Ég skal gera ykkur viðvart ef ég þarfnast nokkuð þjónustu ykkar. Setjist heldur niður og reynum að halda áfram sögunni eða henni verður ekki lokið fyrir kvöldmat.“

„Þar lágum við steinsofandi,“ hélt Gandalfur áfram, „þegar sprunga opnaðist í bergið aftan til í skútanum. Út um hana flykktust dríslarnir og gripu hobbitann og dvergana og allan hestahópinn okkar —“

„Allan hestahópinn ykkar? Hvað eruð þið — kannski farandleikhús? Eða höfðuð þið svona mikinn farangur með ykkur. Þið kallið þó varla sex klára allan hestahópinn ykkar!“

„Ó nei! Ef satt skal segja, voru hestarnir nokkru fleiri en sex — jú, og einmitt, hérna koma tveir í viðbót.“ Á sama augnabliki birtust þeir Balinn og Dvalinn fyrir hornið og hneigðu sig svo djúpt að þeir hreinlega sópuðu steinstéttina með hökuskegginu. Stóri maðurinn gretti sig fyrst í stað, en þeir gerðu allt sem þeir gátu til að vera yfirmáta kurteisir og héldu áfram að kinka kolli og beygja sig og hneigja og veifa húfum sínum í sveiflum neðan fyrir hnjánum (að réttum dvergasið), þangað til hann hætti að gretta sig en veltist um af hlátri. Þeir voru svo skringilegir.