„Allur hestahópurinn er þá rétt,“ sagði hann. „Þeir eru skemmtilega kúnstugir þessir. Komið þá bara inn kátu karlar og segið mér hvað þið heitið. Ég hef ekkert með þjónustu ykkar að gera, ef þið vilduð aðeins segja mér hvað þið heitið, setjast svo niður og hætta að dilla ykkur!“
„Balinn og Dvalinn,“ sögðu þeir og gættu þess að láta ekki á sjá að þeir tækju þetta nokkuð illa upp, heldur settust flötum beinum á gólfið, dálítið hissa.
„Jæja, ætlarðu ekki að koma þér aftur að sögunni!“ sagði Björn óþolinmóður við vitkann.
„Æ, hvar var ég? Ó, já — Þeir náðu mér ekki. Ég drap þar einn eða tvo drísla með töfraleiftri —“
„Ágætt!“ rumdi í Birni. „Þá er eitthvað gagn í svona vitkum.“
„— og tókst að smeygja mér inn um rifuna, áður en hún lokaðist. Ég fylgdi svo á eftir þeim niður í aðalsalinn sem var fullur af Dríslum. Þar sat sjálfur Stórdrísillinn með þrjátíu eða fjörutíu vopnaða verði. Ég hugsaði með mér „hvað gætu vinir mínir svo sem gert jafnvel þó þeir væru ekki hlekkjaðir svona saman? Hvað getur ein tylft gert á móti svona mörgum andstæðingum?“
„Tylft! Þetta er nú í fyrsta skipti sem ég heyri átta kallaða tylft! Eða ertu kannski með fleiri gosa í spilinu sem enn eru ekki komnir út?“
„Jæja, jú, líklega, mér sýnast koma þarna tveir í viðbót — Fjalar og Kjalar, held ég,“ sagði Gandalfur um leið og þeir komu fyrir hornið brosandi og buktandi.
„Þetta er nóg!“ sagði Björn. „Setjist niður og hafið hljótt um ykkur. Og haltu nú áfram sögunni Gandalfur!“
Og Gandalfur hélt áfram að rekja söguna, þangað til hann kom að orustunni í myrkrinu, og hvernig þeir komust út um neðra hliðið og skelfingu þeirra þegar þeir komust að því að herra Baggi hafði eitthvað misfarist. „Við töldum okkur alla og í ljós kom að þar vantaði hobbitann. Við vorum þá aðeins fjórtán okkar eftir!“
„Nei, heyrðu mig nú, fjórtán! Þetta er nú í fyrsta skipti sem ég veit til þess að tíu mínus einn séu fjórtán. Þú hlýtur að eiga við níu, nema þú hafir ekki enn sagt mér nöfn allra þátttakendanna!“
„Já, æ, auðvitað, þú hefur ekki enn séð Óin og Glóin. Og detta mér nú allar . . . , þarna koma þeir, ég vona að þú afsakir þá, ef þeir trufla þig.“
„O, ho, ho, láttu þá alla koma! En flýtið ykkur! Komið inn þið tveir og tyllið ykkur! En heyrðu mig Gandalfur, ég fer nú að ruglast í þessu, en ég held að við höfum enn aðeins fengið þig og tíu dverga og þennan hobbita sem týndist. Það gerir nú aðeins ellefu (plús þennan sem misfórst) en ekki fjórtán, nema vitkar telji öðru vísi en annað fólk. En hvað um það, reyndu nú að koma þér áfram með söguna.“ Björn reyndi að láta ekki á því bera, en í rauninni var hann orðinn ólmur í söguna. Sko, sjáiði til, í gamla daga hafði hann einmitt þekkt ákaflega vel þann hluta fjallanna sem Gandalfur var að lýsa. Hann kinkaði og jánkaði, þegar hann heyrði hvernig hobbitinn hefði aftur komið í ljós og þegar þeir klöngruðust niður urðina og komu í úlfahringinn í skóginum.
Þegar kom að því í lýsingu Gandalfs að þeir urðu að klifra upp í trén undan úlfunum, rauk hann á fætur og stikaði fram og aftur urrandi: „Ég vildi að ég hefði verið þar! Ég skyldi hafa látið þá hafa eitthvað annað og meira en flugeldasýningu!“
„Jæja,“ sagði Gandalfur og var hinn ánægðasti þegar hann sá hvað saga hans hafði góð áhrif. „En ég gerði hvað ég gat. Þarna sátum við uppi í trjánum og úlfarnir óðir og uppvægir fyrir neðan okkur og skógurinn farinn að brenna á blettum, þegar dríslarnir komu niður úr fjallshlíðinni og uppgötvuðu okkur. Þeir grenjuðu af grimmdargleði og kættust með kaldhæðnum kersknivísum eins og Smávinir fagrir fimmtán í trjánum.
„Hver ósköpin!“ hrökk upp úr Birni. „Þið ætlið þó ekki að segja mér að dríslar kunni ekki að telja. Ég veit að þeir kunna vel að fara með tölur. Og tólf er ekki sama og fimmtán, það vita þeir mæta vel.“
„Ég kann líka að telja. Þarna voru þeir Bifur og Bógur. Mér hafði bara ekki unnist tími til að kynna þá fyrir þér. Hér koma þeir blessaðir.“
Inn komu Bifur og Bógur. „Og ég líka!“ hrópaði Vambi másandi fyrir aftan þá. Hann var akfeitur og bálreiður yfir því að vera skilinn einn eftir síðastur og ófáanlegur til að bíða fimm mínútur í viðbót.
„Nú, jæja,“ sagði Björn Birningur. „Ég sé nú að þið eruð komnir upp í fimmtán og þar sem ég þykist vita að dríslarnir kunni að telja, býst ég við að komin sé full tala allra sem sátu uppi í trjánum. Vonandi fáum við nú að heyra söguna án frekari truflana og frátafa.“
Bilbó gerði sér grein fyrir hvað snillingurinn Gandalfur hafði verið að fara. Við öll þessi innískot hafði Björn orðið æ æstari í frásögnina um leið og þau komu í veg fyrir að hann sendi alla dvergana burt sem tortryggilegt sníkjulið. Hann var ekki vanur að bjóða neinum inn í hús sitt, ef hann fengi því ráðið. Hann átti fáa vini og þeir bjuggu langt í burtu og var varla að þeir kæmu nema svo sem tveir til hans í einu. Og nú sátu hvorki meira né minna en fimmtán aðkomugestir á veröndinni hjá honum!
Þegar vitkinn lauk frásögn sinni með björgunaraðgerð arnanna og hvernig þeir hefðu síðan borið þá til Karkakletts, var sólin horfin á bak við tinda Þokufjalla og skuggarnir orðnir langir og mjóir í garði Bjarnar.
„Ágætis saga!“ sagði hann. „Sú besta sem ég hef heyrt um langan aldur. Ef allir flækingar kynnu að segja svona góðar sögur, yrði ég mýkri á manninn við þá. Það má vera að þið séuð að skálda þetta allt upp, en þó eigið þið skilið vænan kvöldverð. Fáum okkur eitthvað að borða!“
„Já, gerum það!“ hrópuðu þeir allir í kór. „Þökk sé þér margfaldlega!“
Næstum aldimmt var orðið inni í skálanum. Björn Birningur lét smella í lófa og inn brokkuðu fjórir undurfagrir hvítir gæðingar og hópur háfættra hunda sem Björn ávarpaði á einhverju furðulegu máli. Það var eins og dýramál fært í reglulega setningaskipan. Þeir fóru aftur út úr salnum en komu að vörmu spori til baka með blysvendi í kjaftinum, kveiktu í þeim við eldinn og stungu þeim síðan í lágar höldur á súlunum allt í kringum miðeldstæðið. Hundarnir gátu gengið á tveim fótum, hvenær sem þá lysti og borið allskyns hluti í framfótunum. Þeir voru snöggir að taka fram borð og búkka frá hliðarveggjunum og raða þeim upp nálægt eldinum.
Þá kvað við jarmur mikill me–me–me og inn trítlaði hópur drifhvítra kinda, en á undan þeim fór þó stór svartur hrútur. Ein ærin hafði meðferðis hvítan borðdúk með útsaumuðum dýramyndum. Hinar báru bakka á bakinu með allskyns skálum og diskum, hnífum og tréspónum. Hundarnir tóku jafnóðum við þessum borðbúnaði og lögðu hann umsvifalaust á borðið, sem var svo lágt að það var jafnvel þægilegt fyrir Bilbó að sitja við það. Einn hesturinn ýtti fram tveimur lágum bekkjum með riðnum tágasetum og lágum og digrum fótum handa Gandalfi og Þorni en hinum megin var stillt svörtu sæti Birnings sömu gerðar, en miklu stærra. (Þar settist hann og gengu ferlegar bífur hans langt inn undir borðið). Þetta voru allir stólar hans í salnum og þeir voru hafðir lágir eins og borðin til þæginda fyrir öll hin ágætu dýr sem þjónuðu honum. En á hverju fengu þau að sitja? Þeim var heldur ekki gleymt. Hestarnir komu og renndu inn sívölum viðarbútum hefluðum og fáðum og voru þeir nógu lágir jafnvel fyrir Bilbó. Brátt voru allir sestir að borðum Bjarnar Birnings og var það meiri veisla en þar hafði sést árum saman.