Выбрать главу

Og aðra eins máltíð höfðu þeir ekki fengið síðan þeir kvöddu Elrond í „Hinstuhöllinni í Vestri“, eins og þeir kölluðu Rofadal. Ljósið frá kyndlunum flökti um þá og á borðinu stóðu tvö stór kerti úr býflugnavaxi. Þeir héldu áfram að háma í sig góðgætið og Björn sagði þeim með dimmri og hrjúfri rödd ýmislegt af því sem var að gerast í óbyggðunum hérna megin við fjöllin. Einkum þó úr hinum dimma og hættulega skógi sem teygðist langar leiðir bæði til norðurs og suðurs, en var nú aðeins um dagleið á hesti framundan og mikil hindrun á leiðinni austur eftir. Það var hinn hræðilegi Myrkviður.

Dvergarnir hlustuðu grannt og hristu skeggin, því að þeir vissu að brátt yrðu þeir að hætta sér inn í skóginn. Hann var mesta hættusvæðið, næst á eftir Þokufjöllum sem þeir urðu að fara í gegnum, áður en þeir kæmust að höfuðvirki drekans. Að kvöldverði loknum fóru dvergarnir líka að segja sínar sögur, en þá var Björn farinn að dotta og hafði lítinn áhuga á þeim. Þeir töluðu líka varla um annað en gull og silfur og gimsteina og hvernig gera mætti allskonar skartgripi úr þeim með smíðalistinni, en Björn virtist ekki hafa neinn áhuga á slíku. Engir hlutir úr gulli né silfri voru sjáanlegir í skála hans og raunar voru sárafáir hlutir gerðir úr málmi, nema helst hnífarnir.

Þarna sátu þeir lengi yfir borðum með drykkjarmál sín sem gerð voru úr tré og full af ljúffengasta miði. Úti fyrir var komin myrk nótt. Bætt var nýjum lurkum á eldana í miðjum salnum, en slökkt á blysunum, þótt þau sætu áfram í höldunum í flöktandi bjarma frá dansandi bálinu upp um súlurnar sem teygðust upp í rjáfrið eins og skógartrén upp í limið. Hvort sem einhverjir voru þar að verki eða ekki, þá fannst Bilbó eins og hann heyrði vindgnauð blása um rafta eða fjarlægt væl í uglum. Höfuð hans hneig niður á bringuna og honum fannst hann heyra raddir úr fjarlægð, þar til hann hrökk allt í einu upp.

Það hafði marrað í stóru dyrunum og þær skollið aftur. Björn var horfinn úr hópnum. Dvergarnir sátu með krosslagða fætur á gólfinu kringum eldinn, og tóku nú til við að syngja hástöfum. Hér koma nokkur erindi, en þau voru miklu fleiri og söngurinn ætlaði aldrei að þagna.

Þó vindur rísi á Visnuheiðum varla bærist í skóginum grein. Í skjólinu felast skepnur latar og skuggabaldrar liggja við stein. En ef hann upp rýkur á rangala fjalla og rokinu kastar frá háfjallageim, úti er friður og fururnar stynja og fölnandi laufin þjóta á sveim. Ef aftur fer vindur úr vestri í austur, þá varlega kyrrist greinanna fálm. Í stað þess hann reiðist með rjúkandi blístri og rífur af akri upp flaksandi hálm. Í grasinu hvín hann og hviðurnar þeytast, um hvanngróna velli fer hann á ið. Á mýrum og fenjum hann ránshendi reytir reyrstangaþykknin árbakka við. Illviðragnýr fer um Einafellsstindinn, undir þar dreki í holinu býr. Vindur frá klettum svörtum af sóti og sviðnum hlíðum hið bráðasta flýr. Svo kveður hann fold og fýkur í burtu um fjarlægt næturhiminsins haf. En máninn hann grípur og setur í seglin og siglir á braut undir stjarnanna traf.

Aftur seig Bilbó blundur á brá. Skyndilega reis Gandalfur á fætur.

„Það er kominn tími til að fara í háttinn,“ sagði hann, „já fyrir okkur, en víst ekki fyrir Björn bónda. Hér í skála hans getum við hafst við í hvíld og öryggi, en ég vara ykkur við að gleyma ekki því sem Björn sagði áður en hann yfirgaf okkur. — Þið megið ekki undir neinum kringumstæðum fara út úr húsinu fyrr en sólin er risin. Þá er það á ykkar ábyrgð.“

Bilbó sá að búið hafði verið um þá til hliðar í skálanum á upphækkuðum pöllum milli súlnanna og ytra veggbyrðis. Honum var fengin svolítil dýna úr hálmi og ullarvoð. Hann smeygði sér glaður undir voðina þótt nú væri sumar. Eldurinn var að kulna út og hann sofnaði strax. Samt vaknaði hann upp einu sinni um nóttina — þá var eldurinn aðeins orðinn að fáeinum daufum glæðum, dvergarnir og Gandalfur steinsofandi eftir andardrætti þeirra að dæma. Hvítur ljósflekkur féll á gólfið frá fullu tungli sem gægðist niður um reykopið í þekjunni.

Þá heyrði hann fyrir utan einhver urrandi hljóð og síðan eins og stórt dýr væri að þruska við dyrnar. Bilbó velti því fyrir sér hvað það gæti væri, kannski Björn í álagaham og hvort hann kæmi inn í bjarnarlíki og dræpi þá alla. Þá sökkti hann sér undir teppið og huldi höfuðið og sofnaði aftur þrátt fyrir hræðsluna.

Það var kominn bjartur dagur þegar hann vaknaði. Einn dverganna hnaut um hann í skugganum, þar sem hann lá og hafði oltið með dynk fram úr rúminu og niður á gólfið. Það var Bógur og var hann eitthvað að tauta yfir honum, þegar Bilbó opnaði augun.

„Á fætur með þig purka,“ sagði hann, „eða það verður enginn morgunmatur eftir handa þér.“

Upp rauk Bilbó. „Morgunmatur!“ hrópaði hann. „Hvar er morgunmaturinn?“

„Mest af honum er nú komið niður í magann á okkur,“ svöruðu dvergarnir sem voru á rölti í skálanum, „en leifarnar eru úti á veröndinni. Við höfum annars verið á ferli frá því sólin kom upp, að leita að Birni bónda, því hann er hvergi að finna, en okkur mætti dúkað morgunverðarborð á veröndinni, þegar við komum þangað út.“

„Hvar er þá Gandalfur?“ spurði Bilbó um leið og hann rölti af stað til að gá sem fyrst að, hvað eftir væri ætilegt.

„Ó, Gandalfur! Hann hefur farið eitthvað út í góða veðrið,“ sögðu þeir. En svo urðu þeir ekkert varir við vitkann allan þann dag fram á kvöld. Rétt fyrir sólarlag labbaði hann sig inn í skálann, eins og ekkert hefði ískorist þar sem hobbitinn og dvergarnir sátu að kvöldmat og blessuð dásamlegu dýrin hans Bjarnar þjónuðu þeim eins og þau raunar höfðu gert allan daginn. Til Bjarnar höfðu þeir hvorki séð né heyrt neitt frá kvöldinu áður og fannst það meira en lítið skrýtið.

„Hvar skyldi gestgjafi okkar vera og hvar hefurðu sjálfur alið manninn allan daginn?“ hrópuðu þeir hver um annan þveran.

„Ein spurning í einu er nóg – og engin svör fyrr en eftir kvöldmat. Ég hef ekki fengið ætan bita síðan í morgun.“

Loks hafði Gandalfur lokið sér af og ýtti frá sér diski og kollu — hann hafði þá hámað í sig tvo heila brauðhleifa (með helling af smjöri og hunangi og kekkjuðum rjóma) og drukkið að minnsta kosti kvartil af miði — og nú tók hann fram pípu sína.

„Ég ætla þá að svara seinni spurningunni fyrst,“ sagði hann, „en hjálpi mér, þetta er frábær staður til að blása reykjarhringi.“ Og því leið enn langur tími, áður en þeir gátu togað nokkuð upp úr honum nema reykjarhringi, sem hann sendi frá sér til að hringsóla um allar súlurnar í salnum og lét þá taka á sig allskyns form og liti, þangað til þeir ultu síðast í eltingarleik hver á eftir öðrum út um reykopið á þekjunni. Það hlýtur að hafa verið kyndug sjón að sjá utan frá, þegar þeir smullu upp í loftið hver á fætur öðrum, grænir, bláir, rauðir, silfurgráir, gulir, hvítir, stórir og litlir. Þeir litlu hringsóluðu í gegnum þá stóru eða þeir sameinuðust og mynduðu áttatöluna og allir svifu þeir síðan eins og fuglahópar langt burt í fjarlægð.