„Ég var að rekja bjarnaspor,“ tók hann loks til máls. „Hér fyrir utan hlýtur að hafa verið haldið sannkallað bjarnaþing í nótt. Ég sá brátt að það var útilokað að allt væru þetta spor eftir Björn bónda: til þess voru þau alltof mörg og auk þess af ýmsum stærðum. Ég sá ekki betur en þar hefðu verið á ferðinni litlir birnir, stórir birnir, venjulegir birnir og risavaxnir birnir og var engu líkara en þeir hefðu dansað þar frá myrkri og næstum fram í dögun. Þeir sýndust hafa safnast þangað saman úr öllum áttum, nema þó ekki vestan yfir ána frá Fjöllunum. En þangað í áttina lágu aftur á móti aðeins ein spor — engin til baka, það voru þau einu sem ég sá þar. Ég fylgdi þeim alla leið að Karkakletti. Þau hurfu í fljótið, en þar var flaumurinn of djúpur og þungur til að ég kæmist yfir kvíslina handan við klettinn. Það er auðvelt eins og þið munið að komast á vaðinu yfir eystri kvíslina frá bakkanum hérna megin að Karkakletti, en hinum megin stendur kletturinn upp úr ógurlegum flaumi.
Ég varð að sveima margar mílur meðfram ánni áður en hún breiddi úr sér og varð nógu grunn til þess að ég gæti vaðið eða svamlað yfir hana og síðan aftur margar mílur til baka til að komast aftur á slóðina. En þá var orðið of áliðið til þess að ég gæti fylgt þeim mikið lengra eftir. Sporin héldu áfram beint upp í furuskógana í austurhlíðum Þokufjalla, þangað sem við áður áttum svo skemmtilega samfundi við Vargana í fyrrinótt. Og þá held ég að ég hafi um leið svarað fyrri spurningu ykkar um ferðir mínar,“ sagði Gandalfur að lokum og sat lengi þögull sem gröfin.
Bilbó þóttist skilja hvað vitkinn ætti við. „Hvað eigum við þá að gera,“ hrópaði hann, „ef Björn sækir alla Vargana og dríslana og leiðir þá hingað? Við verðum allir gripnir og drepnir. Ég hélt að þú hefðir sagt að hann væri enginn vinur þeirra.“
„Já, víst sagði ég það. Og láttu ekki eins og bjáni! Þá væri betra fyrir þig að fara í háttinn. Það er orðið freðið fyrir vit þitt af syfjum.“
Bilbó var alveg settur út af laginu með þessu og vissi ekkert hvað hann ætti af sér að gera, svo hann fór bara að hátta. Og meðan dvergarnir kyrjuðu söngvasyrpur hástöfum var hann í svefnrofunum enn að brjóta heilann um Björn og hvað hann hefði verið að gera, þangað til hann fór að dreyma að hundruð svartbjarna dönsuðu hring eftir hring í húsagarðinum í tunglskininu. Svo vaknaði hann upp um miðja nótt, meðan aðrir sváfu, og heyrði sama skrapið, þruskið, hnusið og urrið og nóttina áður.
Morguninn eftir vakti sjálfur Björn Birningur þá. „Svo þið eruð hér allir enn!“ sagði hann. Hann lyfti litla hobbitanum upp á arm sér og hló: „Jæja, ekki hefurðu enn verið étinn af Vörgum, dríslum eða vondum björnum að mér sýnist.“ Hann potaði af fullkomnu virðingarleysi í magann á herra Bagga. „Litli kútur er farinn að líta betur út og fitna aftur á brauði og hunangi,“ klúkkaði í honum. „Komið og fáið ykkur ábót!“
Allir settust nú með honum að morgunmatnum. Áberandi breyting hafði orðið á Birni bónda, hann var orðinn léttur og kátur. Hann lék sem sagt á alls oddi og þeir fóru allir að skellihlæja þegar hann byrjaði að reyta af sér brandara og grínsögur. Þeir þurftu nú heldur ekki að velkjast lengi í vafa um, hvar hann hefði verið, því að hann sagði þeim það sjálfur. Hann hafði farið yfir fljótið og áfram viðstöðulaust upp í fjöllin – og mátti af því ráða að hann hlyti að hafa farið hratt yfir og þá líklega í bjarnarlíki. Þegar hann kom í kolbrunnið úlfarjóðrið sá hann strax að hluti sögu þeirra studdist við staðreyndir. En hann gerði betur, hann klófesti einn Varg og annan drísil sem voru þar á ferð í skóginum og af þeim fræddist hann um þá atburði sem gerst höfðu. Þeir ljóstruðu því upp að herflokkar drísla væru ásamt Vörgunum enn út um allt að leita að dvergunum. Þeir væru þeim bálreiðir fyrir að drepa Stórdrísillinn, en líka fyrir að skaðbrenna höfðingja úlfanna á snoppunni og gera út af við marga af helstu þjónum hans. Þetta fékk hann upp úr þeim með því að ganga á þá en hann grunaði, að eitthvað verra væri í bígerð, þeir væru líkast til að undirbúa heljarmikla atlögu dríslaliðsins og úlfastóðsins á allt héraðið austan undan fjöllunum og þannig gætu þeir um leið fundið dvergana og hefnt sín á þeim mönnum og dýrum sem hefðu skotið skjólshúsi yfir þá.
„Víst var sagan ykkar góð,“ mælti Björn, „en þó finnst mér hún helmingi betri þegar ég hef komist að því að hún er sönn. Þið verðið að afsaka mig, að ég skyldi ekki taka ykkur trúanlega í fyrstu. En ef þið byggjuð í næsta nágrenni við Myrkvið, mynduð þið heldur ekki treysta orðum neins, sem þið ekki tryðuð sem bróður ykkar eða betur. En eitt er víst að þegar ég frétti af þessu, hraðaði ég mér heim aftur sem mest ég mátti til að ganga úr skugga um hvort þið væruð enn heilir á húfi og bjóða fram alla þá aðstoð sem ég get veitt. Já, það segi ég satt, að héðan í frá skal ég hugsa betur til dverga. Drápuð sjálfan Stórdrísilinn, drápuð Stórdrísilinn! Stórkostlegt!“ klúkkaði hann í hrifningarglennu við sjálfan sig.
„En hvað gerðirðu við drísilinn og Varginn sem þú handsamaðir?“ spurði Bilbó allt í einu.
„Komdu og sjáðu það sjálfur!“ sagði Björn og þeir fylgdu honum í kringum húsið. Þar komu þeir að afhöggnum drísilhaus sem var stungið upp á spík utan við hliðið og úlfshúð var spýtt á trjábol þar fyrir aftan. Víst gat Björn verið óvæginn óvinur. En nú var ljóst að hann var skeleggur vinur þeirra og því taldi Gandalfur óhætt að segja honum alla söguna og tilganginn með ferðinni, svo að þeir gætu allir gert sér betur grein fyrir, hvernig hann gæti best orðið þeim að liði.
Og hér er það sem hann hét að gera fyrir þá:
Hann ætlaði að útvega þeim öllum hæfilega smáhesta, nema Gandalfur fengi fák, til ferðalagsins til skógarins og hestarnir yrðu klyfjaðir farangri, mestmegnis matvælum, sem myndu endast þeim í margar vikur, ef þeir héldu spart á og búið yrði þannig um þessar vistir að sem auðveldast væri að bera þær á bakinu — hnetur, mjöl, innsiglaðar dósir af þurrkuðum ávöxtum, hunang í rauðum leirkrukkum og tvíbakað skonrok sem gat geymst lengi og á þeirri næringu myndu þeir geta komist langt. Það var hans einkaleyndarmál, hvernig hann fór að því að baka kökurnar, en hunang var í þeim eins og í flestu sem þar var á borðum. Skonrokið var gott til átu, þótt þeir yrðu nokkuð þyrstir af því. Vatn kvað hann þá ekki þurfa að flytja með sér hérna megin skógarins, því að allsstaðar væru lækir og uppsprettur meðfram veginum.
„En leið ykkar um Myrkvið verður sannarlega myrk, hættuleg og ákaflega erfið,“ sagði hann. „Ekki er auðvelt að finna þar drykkjarhæft vatn né heilnæma fæðu. Nú er ekki enn kominn hnotskógur (þó honum gæti eins verið lokið áður en þið komist út úr skóginum hinum megin), en hnetur eru eiginlega það eina sem þar finnst ætilegt. Í skóginum er allt hið villta svo myrkt, annarlegt og grimmúðlegt. Ég fæ ykkur létta skinnbelgi til að taka með ykkur vatnsbirgðir inn í skóginn og þið fáið líka boga og örvar. En ég efast stórlega um að þið finnið þar nokkra bráð eða drykkjarvatn hæft til neyslu. Hitt veit ég að það rennur ein á um skóginn, svört og kröftug og fer yfir stíg ykkar. En þið ættuð umfram allt ekki að drekka af henni, né heldur baða ykkur í henni, því að ég hef heyrt að hún búi yfir álögum og slái menn deyfð og gleymsku. Og ég er hræddur um að þið skjótið ekkert kvikt, hvorki til hollustu né óhollustu, án þess að ráfa út af stígnum. Og það megið þið ekki FYRIR NOKKURN MUN gera.