Выбрать главу

Þetta eru þau helstu ráð sem ég get gefið ykkur. En eftir að þið eruð komnir inn í skóginn, get ég ekki margt gert ykkur til hjálpar. Þá verðið þið að treysta á gæfuna og hugrekki ykkar og þær matarbirgðir sem ég fæ ykkur. Við innganginn að skóginum verð ég að biðja ykkur um að skila mér aftur öllum hestunum. Ég óska ykkur góðrar ferðar og hús mitt mun ætíð standa ykkur opið, ef þið eigið hér leið um.“

Þeir þökkuðu honum að sjálfsögðu fyrir með ótal hneigingum og hattsveiflum og „þjónustufúsum Ó, þú mikli höfðingi hátimbraðra sala.“ Þó hætti þeim að lítast á blikuna við alvörufengin viðvörunarorð hans og þóttust nú mega skilja að ævintýrið væri miklu hættulegra en þeir höfðu áður haldið og síðast myndi sjálfur drekinn bíða þeirra við leiðarenda þótt þeir næðu að yfirstíga allar ógnir þangað til.

Þeir voru allan morguninn að undirbúa brottför sína. Upp úr hádegi mötuðust þeir í síðasta sinn með Birni og að því búnu stigu þeir á bak hestunum sem hann lánaði þeim, báðu hann að vera margfaldlega blessaðan og riðu af stað út um hliðið á góðu skokki.

Þegar þeir voru komnir út fyrir háa limgerðið á austurhlið hins girta lands hans, sveigðu þeir til vinstri í stefnu norðvest. Að ráðum Bjarnar hættu þeir nú við að fara aðalþjóðveginn syðra um skóginn. Ef þeir hefðu áður getað haldið áfram för sinni yfir Háfjallaskarðið, hefði leið þeirra í fyrstu legið meðfram fjallaá sem sameinaðist hinu mikla fljóti langt fyrir sunnan Karkaklett. Þar hefðu þeir komið að djúpu vaði, sem þeir hefðu þó átt auðvelt með að komast yfir, ef þeir hefðu þá enn haft hestana sína. Þegar yfir fljótið mikla væri komið, lá þaðan vegur að skógarjaðrinum og inngangshliði gamla skógarvegarins. En Björn varaði þá við að einmitt þar væru dríslarnir nú mjög á ferli á höttunum eftir þeim. Auk þess væri gamli skógarvegurinn nú orðinn yfirvaxinn og úr brúki austantil þar sem hann lægi út í ófær kviksyndi og allir stígar löngu afmáðir. Austurútgangur hans hefði líka alltaf verið langt fyrir sunnan Fjallið eina, sem þýddi að þeir yrðu enn að þæfa óraleið til norðurs þegar þeir kæmu út úr skóginum hinum megin. Hinsvegar benti hann þeim á að fyrir norðan Karkaklett mjókkaði bilið frá Miklafljóti að jaðri Myrkviðar og þó þeir væru þá að vísu aftur farnir að nálgast fjöllin ískyggilega, ráðlagði Björn þeim að fara þennan veg, því aðeins fáeinar dagleiðir fyrir norðan Karkaklett opnaðist annar lítt þekktur stígur gegnum Myrkvið og hagstætt væri að hann kæmi einmitt norðarlega út úr skóginum að austanverðu, rétt andspænis Fjallinu eina.

„Dríslarnir,“ hafði Björn sagt, „þora ekki að fara yfir Miklafljót meira en hundrað mílur fyrir norðan Karka, né heldur koma nálægt húsi mínu — það er vel varið að næturlagi! — en ég myndi þó í ykkar sporum hraða för sem mest má verða, því ef þeir skyldu nú ráðast til atlögu, munu þeir vafalaust fara sunnar yfir fljótið, en síðan fínkemba allt norður með skógarjaðrinum til að útiloka allar undankomuleiðir ykkar. Varið ykkur líka á því að Vargarnir hlaupa miklu hraðar en smáhestar ykkar. Ég tel öruggara fyrir ykkur að fara þessa nyrðri leið, þó svo hún sýnist nálgast ískyggilega virki þeirra, og byggi ég það á því að þeir munu síst búast við ykkur þar en einnig af því að þá þurfa þeir að ríða lengra til að ná ykkur. Farið hið fyrsta af stað. Hafið hraðann á!“

Því riðu þeir nú áfram í þegjandi þögninni en hleyptu hestunum hvenær sem landið var grösugt og gróðurmjúkt. Þeir höfðu dimm fjöllin á vinstri hönd og í fjarska sáu þeir móta fyrir gróðurrönd Miklafljóts með skógarreinum sínum og nálguðust það æ meir eftir því sem norðar dró. Sólin var rétt að ganga til vesturs þegar þeir lögðu af stað en undir kvöld brá hún gullgliti um himin og hauður. Þá var erfitt að ímynda sér að nokkrir Dríslar gætu verið á hælum þeirra og þegar þeir höfðu svo riðið langt frá húsi Bjarnar, fóru þeir aftur að masa saman og syngja gleðisöngva til að gleyma hinum myrka skógarstíg sem beið þeirra. En um kvöldið þegar rökkrið seig yfir en tindar fjallanna glóðu þó enn í sólarlaginu tóku þeir sér náttból og settu á vörð, en flestir sváfu þeir illa og áttu erfiðar draumfarir með ýlfri veiðiúlfanna og öskri dríslanna.

En morguninn eftir rann þó upp bjartur og fagur. Hvít dalalæða sveipaði landið líkt og á hausti, það var svalt í lofti en brátt reis sólin eldrauð í austri og þokan hvarf. Undir löngum skuggum lögðu þeir enn af stað og þannig riðu þeir áfram tvo daga enn til viðbótar og aldrei urðu þeir varir við annað á vegi sínum en gras og blóm, fugla og stöku tré. Einstaka sinnum brá þó fyrir smáhjörðum hjartardýra, ýmist á beit eða liggjandi í hádegissólinni í forsælu trjánna. Fyrst þegar Bilbó varð var við hjartarhornin standandi upp úr hávöxnu puntgresinu hélt hann að þau væru visnar trjákræklur. Þriðja kvöldið urðu þeir að halda vel á spöðunum, því að Björn hafði sagt að þeir ættu að koma að skógarhliðinu snemma á fjórða degi. Þeir riðu því áfram í kvöldrökkrinu og jafnvel fram á nótt í skini tunglsins. Í ljósaskiptunum þóttist Bilbó sjá, fyrst nokkuð til hægri og síðan til vinstri, skuggann af stórum birni sem fylgdi þeim eftir í sömu átt. En þegar hann safnaði í sig kjarki og minntist á það við Gandalf, svaraði gamli vitkinn: „Suss! Hafðu ekki hátt um það!“

Daginn eftir tóku þeir sig upp fyrir dögun, þótt nætursvefninn hefði ekki orðið langur. Og strax og fór að birta sáu þeir skóginn líkt og koma á móti sér, eða þeim fannst hann bíða eftir þeim eins og svartur og úfinn veggur. Jafnframt fór landið að hækka, þeir áttu upp í móti að sækja og hobbitanum fannst eins og þögnin væri að umkringja þá. Það dró úr fuglakvaki, hvergi sáust hirtir á ferð, ekki einu sinni kanínur. Síðdegis komu þeir undir upsir Myrkviðar og hvíldust þar í skjóli magnaðra slútandi greina ystu trjánna. Trjástofnarnir voru voldugir og hlykkjóttir, greinarnar undnar, laufið dökkt og ílangt. †viður óx á þeim og hengdi slóðann niður að jörð.

„Jæja, þá erum við komnir að Myrkviði!“ sagði Gandalfur. „Mestum allra skóga á Norðurhveli. Ég vona að ykkur lítist vel á hann. En nú verðið þið að skila aftur öllum þessum ágætu smáhestum sem þið fenguð lánaða.“

Dvergarnir byrjuðu strax að nöldra yfir því og vildu ekki sjá af hestunum, en vitkinn sagði þeim að láta ekki eins og bjánar. „Björn er ekki eins langt undan og þið haldið og ykkur er nær að halda loforð ykkar við hann, því að hann gæti orðið ykkur þungur óvinur í skauti. Herra Baggi virðist skarpskyggnari en þið, ef þið hafið ekki á hverju kvöldi eftir náttmál tekið eftir miklum birni sem eltir okkur eða situr álengdar í tunglsljósinu og fylgist með náttbóli okkar. Hann er ekki aðeins að vernda ykkur og leiða á rétta braut, heldur engu síður að fylgjast vel með hestunum sínum. Björn er að vísu orðinn vinur ykkar núna, en hann elskar húsdýrin eins og börnin sín. Þið gerið ykkur enga grein fyrir því hve ótrúlega vinsemd hann sýnir ykkur með því að leyfa dvergum að ríða hestunum sínum og það svona hratt og langt, né heldur hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir ykkur ef þið reynduð að taka þá með ykkur inn í skóginn.“