Выбрать главу

„En hvað þá um fákinn sem þú ríður?“ spurði Þorinn. „Þú minnist ekki á hvort þú ætlir að senda hann frá þér.“

„Nei, því að ég ætla ekki að sleppa honum.“

„Hvað þá um þitt loforð.“

„Það er mitt mál. Ég skila ekki hestinum, heldur ríð honum áfram!“

Þá varð þeim ljóst að Gandalfur var staðráðinn í að yfirgefa þá þarna í sjálfum jaðri Myrkviðar og þeir urðu felmtri slegnir. En nú varð ákvörðun hans ekki haggað.

„Förum nú ekki að byrja aftur á því sama og þegar við lentum á Karkakletti. Það er til einskis að þrefa um þetta. Ég þarf eins og ég sagði ykkur áður, að sinna áríðandi erindum hér fyrir sunnan og er þegar orðinn of seinn af því að snúast í kringum ykkur. Vel má vera að við hittumst aftur áður en lýkur, en svo þarf þó alls ekki að vera. Það er komið undir heppni ykkar, hugrekki og skynsemi. Og ég sendi herra Bagga með ykkur. Ég hef áður sagt ykkur að hann hefur meira til brunns að bera en þið ímyndið ykkur og þið munuð brátt komast að því. Hresstu þig því upp Bilbó og vertu ekki svona dauðyflislegur. Vertu kátur Þorinn og allir þínir félagar! Þetta er nú einu sinni ykkar leiðangur. Hugsið um fjársjóðinn mikla á leiðarenda, en verið ekki of mikið að velta ykkur upp úr hættum skógarins og drekanum, að minnsta kosti ekki fyrr en í fyrramálið.“

Um morguninn var hann enn sama sinnis. Svo nú var ekki um annað að ræða fyrir þá en að fylla skinnbelgina af vatni úr tærri lind sem þeir fundu rétt við skógarhliðið og taka klyfjarnar af hestunum. Þeir skiptu farangrinum milli sín eins réttlátlega og þeir gátu, þó Bilbó þætti sinn hlutur meira en lítið þungur og litist ekkert á að eiga að þramma óendanlegar vegalengdir með annað eins hlass á bakinu.

„En hafðu engar áhyggjur!“ sagði Þorinn. „Þetta á eftir að léttast alltof snemma. Áður en við er litið, þegar fer að grynnka á birgðunum, myndum við allir kjósa að þær hefðu verið meiri.“

Þá var loks að því komið að þeir segðu skilið við smáhestana og sendu þá heim til sín. Þeir brokkuðu glaðlega af stað, engu líkara en þeir væru því fegnastir að snúa taglinu að skuggum Myrkviðar. Þegar þeir lögðu af stað þóttist Bilbó viss um að eitthvað sem líktist birni hyrfi úr skugga trjánna og skokkaði hratt á eftir hestunum.

Þá var að kveðja Gandalf. Bilbó sat ósköp vansæll á jörðinni og hefði viljað fá að fara með vitkanum á stóra hestinum. Eftir morgunverðinn (heldur lélegan) hafði Bilbó rétt skroppið fáein skref inn í skóginn til að litast þar um og virst hann jafn drungalegur um morguninn og kvöldið áður og eitthvað svo laumulegur. „Það er eins og hann sé að gægjast og gæta að öllu,“ sagði hann við sjálfan sig.

„Farðu vel!“ sagði Gandalfur við Þorin. „Og gangi ykkur öllum vel. Leið ykkar liggur rakleitt í gegnum skóginn. Munið mig bara um að fara aldrei út af stígnum! — ef þið gerið það eru þúsund möguleikar á móti einum að þið finnið hann aldrei aftur og þá komist þið heldur aldrei út úr Myrkviði. Og þá er ég hræddur um að hvorki ég né neinir aðrir muni nokkru sinni hitta ykkur aftur.“

„Er virkilega óhjákvæmilegt að við förum inn í hann?“ stundi hobbitinn.

„Já, það er engin önnur leið!“ sagði vitkinn, „ ef þið viljið komast út hinum megin. Annaðhvort verðið þið að fara í gegnum skóginn eða gefast alveg upp á leit ykkar. Og mér dettur ekki í hug að leyfa þér að draga þig út úr því núna, herra Baggi. Ég skil ekki að þú skulir leyfa þér að hugsa þannig. Og ég sem fékk þig til að hafa hönd í bagga með öllum dvergunum fyrir mig,“ sagði hann kíminn.

„Nei! nei!“ sagði Bilbó. „Ég átti ekki við að ég ætlaði að gefast upp. Ég vildi bara fá að vita, hvort ekki væri fær önnur leið í kringum skóginn?“

„Jú, hún er auðvitað til, ef þig langar til að ferðast fyrst tvö hundruð mílur eða svo í norður og síðan helmingi lengra í suður. En hún er síst öruggari. Það fyrirfinnast engar öruggar leiðir í þessum heimshluta. Mundu að hér erum við á hjara veraldar og getum átt von á margvíslegum óvæntum uppákomum hvert sem við förum. Leiðin norður fyrir Myrkvið liggur næstum undir hlíðum Gráufjalla og þær eru svo að segja morandi af dríslum, skröttum og orkum af verstu gerð. Ef þú hinsvegar hyggðist fara suður fyrir skóginn myndirðu lenda í landi Násugunnar og ég þarf víst ekki að fara mörgum orðum um þann kolsvarta seiðskratta. Ég myndi ekki ráðleggja ykkur að vera neins staðar á ferð í sjónmáli frá svörtum turni hans! Nei, haldið ykkur við skógarstíginn, verið kátir og reifir og vonið það besta og með einstakri hundaheppni gæti verið að þið kæmust út hinum megin og fengjuð að líta fyrir neðan ykkur Löngufen og handan þeirra hátt í austri Fjallið eina, þar sem elsku litli Smeyginn býr, þó ég voni að hann sé ekki að bíða eftir ykkur.“

„Þú ætlar svei mér að stappa í okkur stálinu,“ tautaði Þorinn. „Jæja, vertu þá sæll! Úr því að þú vilt ekki koma með okkur, er best að vera laus við þig án frekari málalenginga!“

„Góða ferð þá, já, ég meina reglulega góða ferð!“ sagði Gandalfur og svo sneri hann við hestinum og reið til vesturs. En alltaf mátti hann þó til með að hafa síðasta orðið. Áður en hann var kominn alveg úr kallfæri sneri hann sér við, gerði lúður úr lófunum og hrópaði til þeirra. Þeir heyrðu rödd hans dauft úr fjarska: „Verið sælir. Gangi ykkur vel, gætið vel að ykkur og VÍKIÐ ALDREI ÚT AF SKÓGARSTÍGNUM!“

Svo hleypti hann á braut og var brátt horfinn úr augsýn. „Já, vertu sæll og komdu þér burt!“ tuldruðu dvergarnir — aldrei reiðari, því að þeim þótti svo fyrir því að hann skyldi yfirgefa þá. Nú voru þeir einmitt að leggja út í hættulegasta áfanga ferðarinnar. Þeir hófu upp á herðarnar þunga bakpokana og vatnsbelgina, hver sinn skerf, sneru baki við birtunni sem lá yfir landinu og létu sig dumpa inn í dimman skóginn.

VIII. KAFLI

Flugur og kóngulær

Þeir gengu inn eftir skógarstígnum í einfaldri röð. Yfir innganginum var einskonar bogahlið sem vissi inn í myrk göng og var samsett af tveimur voldugum trjám sem hölluðust saman, of gömul og of kaffærð af ývið og þakin skófum til þess að geta sjálf borið nema slitring af svörtu laufi. Stígurinn var þröngur og hlykkjaðist fram og aftur milli trjástofna. Brátt sáu þeir ljósið frá hliðinu aðeins sem litla bjarta holu langt að baki og hljóðin svo bæld, að það var eins og fótatak þeirra væri á dúnpúðum meðan öll trén lutu niður til að hlusta.

Eftir því sem augu þeirra vöndust myrkrinu gátu þeir farið að greina sitthvað til beggja handa í einskonar grænglituðu myrkri. Einstaka sinnum tókst örmjóum sólargeisla að smjúga niður um rof í laufþykknið langt fyrir ofan og jafnvel komast fyrir algera tilviljun hjá því að lokast inni í hnýttum stofnun og greinaflækjum, heldur stingast oddhvass og bjartur niður hjá þeim. Það var þó sjaldan og brátt hætti það alveg.

Í skóginum voru kolsvartir íkornar á kviki. Þegar skarpskyggn og íhugul augu Bilbó vöndust því að sjá hluti, gat hann greint þá skjótast burt af stígnum og fela sig á bak við trjástofna. Þar mátti líka heyra undarleg hljóð, rýt, snögga rykki og flökt í lággróðrinum og undir laufinu sem lá í óendanlega þykkum hrúgum hér og þar á skógarbotninum, en hann gat ekki gert sér grein fyrir frá hverju hljóðin stöfuðu. Það ógeðslegasta sem bar fyrir augu þeirra voru þó kóngulóarvefir: svartir þéttir kóngulvefir með óeðlilega sverum þráðum strengdum milli trjánna, eða í bendu í lægri greinunum beggja vegna. Þó teygðust þræðirnir hvergi þvert yfir stíginn, en þeir félagar gátu ekki gert sér grein fyrir, hvort það var fyrir einhvern galdur eða af einhverri sérstakri ástæðu, að stígurinn hélst hreinn af þessu.