Выбрать главу

Brátt varð þeim eins hjartanlega illa við skóginn eins og þeir áður höfðu ógeð á jarðgöngum dríslanna. Skógurinn virtist enn ömurlegri af því að á honum virtist engan endi að finna. En þeir áttu engra kosta völ, þeir urðu að halda ferðinni áfram og áfram — sama þó þeir væru orðnir veikir af löngun að sjá sól og himin og þráðu að finna ferskan vindblæ í andlitinu. Hér var engin hreyfing á loftinu undir skógarþekjunni, hér var óendanlega kyrrt, dimmt og loftþungt. Jafnvel dvergarnir fundu fyrir því sem þó voru vanir námugreftri og geta því lifað langalengi án sólarljóss. En þótt hobbitinn vildi gjarnan búa í jarðholu, hefði hann aldrei viljað vera þar innikraminn heilu sumardagana og fannst hér eins og hann væri smámsaman að kafna.

Verstar voru næturnar. Þær voru bik-svartar — og ekki nóg með að þær væru kallaðar bik-svartar heldur voru þær það í raun og veru, svartasta bik. Svo svartar að ekkert varð í rauninni séð. Bilbó reyndi að veifa hendinni framan við nefið á sér en gat ekki séð hana. Þó gátu þeir grillt í einhver augu. Þeir sváfu allir í einni hrúgu þétt saman og skiptust á um að vaka. Þegar Bilbó átti vaktina sá hann glitta í eitthvað í myrkrinu umhverfis og þá fóru stundum að koma í ljós tvö augu, ýmist gul eða rauð eða græn, — sem störðu á hann úr lítilli fjarlægð, en síðan dofnuðu þau og hurfu og tóku að lýsa á öðrum stað. Stundum glitti í þau af greinunum rétt fyrir ofan hann og það fannst honum skelfilegt. En verst var honum þó við hræðileg föl, búlgandi augu. „Skordýraaugu,“ hugsaði hann, „ekki venjuleg dýraaugu, en þó miklu stærri.“

Þó enn væri ekki orðið sérlega kalt, reyndu þeir að kveikja varðeld að næturlagi, en gáfust brátt upp á því. Svo virtist að með því söfnuðu þeir að sér hundruðum og þúsundum augna allt í kringum sig, þó svo að þessi kvikindi, hver sem þau voru, létu þá aldrei sjá bolinn á sér í flikri bálsins. Og það sem var enn verra, að í bjarmanum söfnuðust þúsundir dökkgrárra og svartra fiðrilda saman, á stærð við hendina á þeim, með vængjaslætti og suði fyrir eyrum þeirra. Það gátu þeir ekki þolað og heldur ekki risavaxnar leðurblökur, kolsvartar eins og stromphattar sem drógust að birtunni. Þessvegna gáfust þeir upp á að kynda eldana að næturlagi en sváfu bara í þessu botnlausa og óhugnanlega myrkri.

Á þessu gekk að því er hobbitanum fannst í ár og daga. Og alltaf var hann sársvangur, því að haldið var ákaflega spart á matarbirgðunum. Þannig gekk þetta dag eftir dag og þegar aldrei sá neinn enda á skóginum, vöknuðu áhyggjurnar. Vistirnar myndu ekki endast í það óendanlega, meira að segja voru þær farnar að minnka verulega. Þeir reyndu að skjóta sér íkorna og eyddu mörgum örvum áður en þeim tókst að drepa einn á brautinni. En þegar þeir höfðu steikt hann, reyndist hann hræðilegur á bragðið og þeir skutu ekki fleiri.

Þeir voru líka stöðugt þyrstir því vatnsbirgðirnar voru knappar og allan tímann sem þeir höfðu verið í skóginum urðu þeir ekki varir við neina uppsprettu né læk.

Þangað til dag einn að leiðin lokaðist af rennandi vatni. Þetta var á, nokkuð straumhörð og ekki mjög breið en rann þvert yfir veginn. Hún virtist kolsvört í myrkrinu. Sem betur fer hafði Björn stranglega varað þá við þessari álagaá, annars hefðu þeir vísast drukkið úr henni, af hvaða lit sem hún var og fyllt hálftóma vatnsbelgi sína með vatni úr henni. Áður hafði sýnilega staðið þar trébrú yfir, en hún fúnað og hrunið niður og aðeins stóðu eftir brúarstólpar við bakkann.

Bilbó kraup niður og rýndi fram fyrir sig í myrkrið. Allt í einu hrópaði hann: „Það er bátur við hinn bakkann! Æ, að hann skyldi ekki heldur vera hérna megin!“

„Hvað heldurðu að sé langt í hann?“ spurði Þorinn, því að hann vissi að Bilbó hafði þeirra skarpasta sjón.

„Ekki svo mjög langt. Ég gæti trúað svo sem tólf metrar.“

„Tólf metrar! Ég hefði nú haldið að það væru minnst þrjátíu metrar, en ég sé ekki eins vel og fyrir hundrað árum. En tólf metrar eru í sjálfu sér engu betri en míla. Við getum ekki stokkið yfir þá og við þorum hvorki að vaða strauminn né synda hann.“

„Kann nokkur ykkar að kasta línu?“

„Að hvaða gagni kæmi það? Báturinn er sjálfsagt bundinn, þótt okkur tækist að kasta krækju í hann, sem ég efast um.“

„Ég held ekki að hann sé bundinn,“ sagði Bilbó, „þó ég geti auðvitað ekki verið viss um neitt í dimmunni. En mér virðist að hann hafi aðeins verið dreginn upp í halla á hinum bakkanum, þar sem stígurinn liggur að vatninu.“

„Dóri er sterkastur, en Fjalar yngstur og hefur besta sjón af okkur,“ sagði Þorinn. „Komdu Fjalar og segðu okkur, hvort þú sérð bátinn sem herra Baggi er að tala um.“

Jú, Fjalar þóttist sjá hann og eftir að hann hafði starað lengi á hann til að fá hugmynd um áttina, létu hinir hann fá kaðalstreng. Þeir höfðu raunar margar hankir með sér, en á lengsta spottann festu þeir stóra járnkrækju sem þeir notuðu annars til að festa bakpokaböndin um axlirnar. Fjalar tók við hönkinni, hnitaði henni lengi og vandlega og kastaði yfir ána.

Splass hún lenti í vatninu! „Ekki alveg nógu langt!“ sagði Bilbó og rýndi út í myrkrið. „Tveimur fetum lengra hefði hún lent á bátnum. Reyndu aftur. Ég held að álögin frá vatninu séu ekki nógu sterk til að skaða þig, þó þú snertir blautt reipið.“

Fjalar dró strenginn aftur til sín og tók upp krókinn, en handlék allt varlega. Svo þeytti hann kaðlinum af meiri krafti.

„Varlega nú!“ sagði Bilbó, „það lenti á milli trjánna á bak við bátinn. Dragðu það nú gætilega til þín.“ Fjalar fór sér að engu óðslega, en brátt sagði Bilbó: „Gættu nú að þér! Nú liggur það í bátnum. Við skulum bara vona að krækjan festist.“

Og hún gerði það. Nú stríkkaði á kaðlinum. En það kom ekki að haldi, báturinn haggaðist ekki. Þá kom Kjalar honum til hjálpar og síðan bættust við Óinn og Glóinn. Þeir toguðu og toguðu, og skyndilega hrukku þeir allir við og skullu aftur fyrir sig. En Bilbó var vel á verði, náði taki á reipinu og með trjárenglu tókst honum að hamla gegn litla svarta bátnum þar sem hann skutlaðist yfir ána. „Hjálp!“ hrópaði hann og Balinn kom á rétta augnablikinu til að ná taki á bátnum áður en árstraumurinn reif hann.

„Hann var þá bundinn eftir allt saman,“ sagði hann og horfði á sundurslitna landfesti sem lafði niður af honum hinum megin. „Þetta var vel dregið, piltar mínir og vel kom það sér að okkar kaðall var sterkari en festin.“

„Hver á að fara fyrst yfir?“ spurði Bilbó.

„Ég geri það,“ sagði Þorinn, „og þú kemur með mér og þeir Fjalar og Balinn. Báturinn ber ekki fleiri. Þá koma Kjalar og Óinn og Glóinn og Dóri. Þar næst Óri og Nóri, Bifur og Bógur og síðastir Dvalinn og Vambi.“

„Alltaf er ég látinn ganga af, og mér er ekkert um það,“ sagði Vambi. „Nú er komið að einhverjum öðrum að reka lestina.“

„Þú ættir þá að reyna að megra þig. Svona þungur eins og þú ert, hlýturðu alltaf að verða síðastur þegar farmurinn er minnstur. Vertu ekki alltaf að sífra á móti öllum fyrirmælum, eða þú getur lent illa í því.“