Выбрать главу

„Ég sömuleiðis,“ sagði Þorinn.

„Hindberjasultu og eplaköku handa mér,“ sagði Bifur.

„Hakkabuff og ost,“ sagði Bógur.

„Svínasultu og salat,“ sagði Vambi

„Og okkur vantar meiri kökur – og öl – og kaffi, ef þú vildir vera svo vænn,“ kölluðu hinir dvergarnir innan úr stofunni.

„Ef þú vildir spæla nokkur egg til viðbótar, þá værirðu góður strákur!“ kallaði Gandalfur á eftir hobbitanum þar sem hann var á leið fram í búr. „Og komdu svo líka með kalda kjúklinginn og súrsuðu gúrkurnar.“

„Það er engu líkara en hann viti betur en ég sjálfur, hvað ég á til í búrinu!“ hugsaði Baggi, og var orðinn herfilega flaumósa því það var engu líkara en að þetta fjárans ævintýri væri strax byrjað þarna inni á gafli hjá honum. Og þegar hann var búinn að hrúga flöskum og diskum og hnífum og göfflum og glösum og djúpum diskum og skeiðum á heljarstóra bakka, var hann orðinn bullsveittur og kófrauður í framan af illsku.

„Fari þeir norður og niður þessir dvergar!“ sagði hann upphátt við sjálfan sig. „Og svo nenna þeir ekki einu sinni að ljá manni minnstu hjálparhönd.“ En það var eins og við manninn mælt bara! Þarna stóðu þeir Balinn og Dvalinn í eldhúsdyrunum og á eftir þeim komu Fjalar og Kjalar og áður en nokkur gæti sagt lús eða mús, höfðu þeir þrifið alla bakkana og tekið með sér nokkur smáborð og farið með inn í stofuna og lagt á borð sem haganlegast.

Gandalfur sat fyrir borðsenda líkt og í forsæti fyrir dvergunum þrettán, en Bilbó settist á koll við arininn og nartaði í kex (hann var búinn að missa alla matarlyst) og reyndi að láta líta út fyrir að allt væri í stakasta lagi eins og það ætti að vera og ekkert ævintýri á döfinni. Dvergarnir hámuðu í sig góðgætið og samkjöftuðu varla. Tíminn var fljótur að líða. Loks ýttu þeir stólum frá borði og Bilbó bjóst til að fara að taka saman diskana og glösin.

„Ég gæti ímyndað mér að þið ætlið að vera frameftir og fá kvöldmat?“ sagði hann í kurteisasta og undirgefnasta tón sem hann átti til.

„Að sjálfsögðu!“ sagði Þorinn. „Og við komumst víst ekki fyrr en seint til að ræða málin og þá þurfum við að fá einhverja tónlist til að hressa sálina. Svona, takið nú til!“

Og tólf Dvergar, allir að Þorni undanskildum sem var yfir það hafinn að sinna húsverkum, stukku á fætur og hlóðu öllu upp í hrúgur. Og svo báru þeir það út, biðu ekki eftir bökkunum, stilltu upp með jafnvægislist heilu súlunum af diskum og undirskálum og með flösku ofan á, og báru það út einhendis, meðan hobbitinn var allsstaðar að þvælast fyrir þeim, veinandi af hræðslu „æ, fariði nú varlega!“ eða „verið nú ekki að hafa fyrir þessu, ég skal sjá um það allt saman.“ En dvergarnir svöruðu honum aðeins með því að kyrja gamansöngva á hlaupunum:

Glös og bolla og botél öll brjótum við og brömlum, skvettum út um víðan völl víni af belgjum gömlum. En húsbóndinn, helst er hann til tálma hvaða læti, hvaða læti, hvað er hann að mjálma Beygla gaffla, brenna göt í borðdúkana fína, best er að láta fljúga föt og feiti í kodda klína. Og húsbóndinn, hvað er hann að skæla hvaða læti, hvaða læti, hvað er hann að væla. Á leirtauinu í ljótum pott lurkahöggin dynja og látum þennan leiða þvott loks um gólfin hrynja. Og húsbóndinn, hringsnýst um sig sjálfur hvaða læti, hvaða læti, hann er eins og kálfur

Engum dettur auðvitað í hug að þeir hafi gert neitt af þessum óskunda og skammarstrikum. Áður en við var litið var allt orðið fínt og fágað og búið að koma öllu fyrir á sínum stað. En hobbitinn gerði lítið annað en hringsnúast um sjálfan sig á miðju eldhúsgólfinu til að fylgjast með því sem hinir voru að gera. Að því búnu sneru þeir aftur inn í stofuna. Þar sat Þorinn og teygði úr sér með lappirnar á aringrindinni og var að reykja pípu. Svo blés hann út úr sér þeim alstærstu reykjarhringjum sem Bilbó hafði séð og þeir stefndu rakleitt hvert svo sem hann beindi þeim, upp um strompinn, bak við klukkuna á arinhillunni, undir borðið eða hann gat látið þá hringsóla uppi undir loftinu. En hvert sem hringarnir hans fóru komust þeir ekki undan Gandalfi. Því — plúpp-plúpp — sendi hann óteljandi minni reykjarhringi úr lítilli leirpípu sinni og lét þá skjótast og vefjast í gegnum hvern og einn af hringum Þorins. Og hringir þessa gamla galdrakarls urðu grænir og sneru við og hnituðu marga hringa um höfuð vitkans. Komið var heilt ský af hringum allt í kringum höfuðið á honum og í daufri birtunni var hann orðinn æði undarlegur svo minnti á særingamann. Bilbó stóð hjá og starði furðu lostinn á listir þeirra – hann var mjög hrifinn af reykjarhringum – nú fyrirvarð hann sig við tilhugsunina um, hvað hann hafði verið montinn í gærmorgun af reykjarhringunum sem hann sendi á skrið yfir Hólinn.

Þá er komið mál að heyra söng og fagra tóna! sagði Þorinn. „Takið upp hljóðfærin!“

Kjalar og Fjalar hlupu að pokum sínum og drógu upp úr þeim litlar fiðlur: Dóri og Nóri og Óri göldruðu fram úr innanávösum sínum svolitlar flautur, Vambi kom vagandi með stóra trumbu framan úr anddyrinu, Bifur og Bógur skruppu fram með honum og sóttu klárínspípur sem þeir höfðu skilið eftir frammi í forstofu ásamt göngustöfum sínum. En Dvalinn og Balinn sögðu: „Afsakið, við skildum okkar eftir úti á þrepunum.“ „Komiði þá líka inn með mína!“ sagði Þorinn. Og svo sneru þeir til baka með víólur á stærð við sig sjálfa og hörpu Þorins vafða í grænan dúk. Það var afburða falleg gullharpa og ekki hafði Þorinn slegið fyrsta strenginn fyrr en tónlistin ómaði um allt, svo skyndilega og yndislega að áður en Bilbó vissi af hafði hann gleymt öllu öðru og sveif með tónunum inn í myrkurlönd undir furðutunglum langt, langt handan Ár og í fjarska burtu frá hobbitaholunni hans undir Hólnum.

Húmið læddist inn í stofuna um litla gluggann sem opnaðist út undir Hólnum, logarnir á arninum flöktu til og frá — það var apríl — og áfram héldu dvergarnir að spila af list meðan skugginn af skeggi Gandalfs dinglaði til og frá á veggnum.

Náttmyrkrið fyllti stofuna, eldurinn kulnaði og skuggarnir hurfu og áfram léku þeir. Skyndilega byrjaði einn þeirra að syngja og svo tók annar við og þeir léku undir á hljóðfærin og sungu dimmrödduðum hreimi, líkt og dvergar eru vanir að gera í jarðdjúpum sinna fornu heimkynna og hér kemur svolítið brot af söngvum þeirra, þó að vísu sé varla hægt að lýsa þeim án tóna.

Um Þokufjöll við förum köld með forynjum og hellafjöld. Við horfum upp til hájökuls og hugur leitar roðagulls. Þar dvergar unnu dag og nótt og dundu hamrar títt og ótt, mörg var þeirra meistarasmíð í myrkum sölum undir hlíð. Fyrir aldna kónga og álfaþjóð þeir unnu margan dýran sjóð, með demant létu ljósið fölt lýsa inn í sverðahjölt. Á silfurhálsbands streng var stráð stjörnubliki um blómaláð, í drekaeldsins víraverk þeir vófu tungls og sólarserk. Um Þokufjöll við förum köld með forynjum og hellafjöld. Við höldum aftur heim til ranns og heimtum okkar gull og glans. Þeir ristu klára kristallsstaup og knúðu fagran hörpu laup. Þeir milda söngva mærðu fram sem mannlegt eyra ei nam. Þá var sem stormur færi um fjall, feigðar var það ógnarkall, rauður blossi barst um hlíð, og brunnu trén í neistahríð. Saman klingdu klukkurnar en kom þó ei að liði par, því yfir dundi drekafár sem drap og brenndi allt sem stár. Fjallið allt í ösku og sút, ætluðu dvergar að flýja út, en ófreskjan þá undir tróð, úti var um þeirra þjóð. Um Þokufjöll við förum köld með forynjum og hellafjöld. Við heimtum okkar hörpugull, vor harmaskál er barmafull.