Выбрать главу

„En báturinn er áralaus. Hvernig getum við þá róið honum yfir að hinum bakkanum?“ spurði hobbitinn.

„Réttið mér aðra kaðalhönk og krók,“ sagði Fjalar og þegar þeir voru búnir að hnýta, kastaði hann því út í myrkrið framundan en miðaði eins hátt og hann gat. Þar sem kaðallinn kom ekki niður til jarðar ályktuðu þeir að hann hefði náð að festast í greinum. „Stígið nú út í bátinn,“ sagði Fjalar, „einn af ykkur ætti að að handstyrkja sig á kaðlinum sem er fastur á trjágrein á hinum bakkanum. Einhver hinna ætti að gæta króksins sem við notuðum fyrst og þegar við erum komnir heilu og höldnu yfir getur hann krækt honum á og þið getið dregið bátinn til baka.“

Með þessu voru allir brátt komnir yfir Álagaána og yfir á hinn bakkann. Síðastir komu Dvalinn sem var þegar búinn að skröltast upp á bakkann með uppgerðan kaðalinn á handleggnum — og Vambi (sínöldrandi) að stíga í land á eftir honum, þegar mikið óhapp kom fyrir. Þeir heyrðu æðandi hófatak nálgast á stígnum framundan. Og út úr rökkrinu birtist skyndilega ímynd fljúgandi hjartardýrs. Það ruddist gegnum dvergahópinn og þeyttist yfir þá. Hátt stökk það og yfir ána í einu stökki. En það komst þó ekki heilt á húfi yfir á hinn bakkann. Þorinn var sá eini sem hafði staðið stöðugur og haldið stillingu sinni. Strax og hann var kominn yfir ána, hafði hann dregið upp boga sinn og lagt ör á streng ef ske kynni að einhver hulinn vörður bátsins birtist. Nú var hann öllu viðbúinn og sendi örskjótt og öruggt skot á hlaupandi dýrið. Þegar það kom niður á hinn bakkann hnaut það við fallið. Myrkrið gleypti það, en þeir heyrðu hófatakið skjótlega hægjast og síðan þagna.

En áður en þeim gæfist tími til að reka upp fagnaðaróp til að hylla skotveiðimanninn, gaf Bilbó frá sér svo hræðilegt vein, að allar vonir um gómsæta bráð gufuðu upp. „Vambi datt í ána! Vambi er að drukkna!“ æpti hann. Því miður var alltof mikið til í því. Vambi hafði aðeins verið búinn að stíga öðrum fæti upp á bakkann, þegar hjörturinn rauk að honum og yfir hann. Hann hafði misst jafnvægið og við það stjakað bátnum frá bakkanum og síðan oltið um koll milli borðstokks og bakka ofan í myrkt vatnið, þar sem hann náði ekki taki á slímugum rótum undan bakkanum. Á meðan sveif báturinn hægt frá og hvarf með straumnum.

Það grillti enn í hettu hans á yfirborði vatnsins þegar þeir hlupu fram á bakkann. Í flýti köstuðu þeir til hans kaðli með krók á. Hann greip um hann og þeir gátu dregið hann upp á bakkann. Hann var að sjálfsögðu holdvotur frá toppi til táar, en það var þó ekki allra verst. Þegar þeir lögðu hann á bakkann var hann steinsofandi og hélt svo föstum höndum um reipið að þeir gátu ekki náð því úr greip hans. Og hann vaknaði ekki, hvað sem þeir gerðu til að vekja hann.

Þar stóðu þeir yfir honum, bölvuðu óheppni sinni og klunnaskap Vamba og hörmuðu missi bátsins, því að nú höfðu þeir engin ráð með að komast til baka yfir ána til að sækja veiðibráðina. Þá heyrðu þeir eins og djúpan lúðrablástur í skóginum og hundgá eins og af veiðihundum í fjarska. Þeir þögnuðu allir og þar sem þeir sátu hljóðir fannst þeim þeir heyra undirgang eins og af mikilli veiðiferð nokkru fyrir norðan stíginn, þótt ekki sæju þeir neitt.

Nú sátu þeir lengi þarna og þorðu sig ekki að hræra. Vambi svaf áfram með bros á rennblautu andlitinu, eins og hann væri nú laus við allar áhyggjur sem áður höfðu kvalið hann. Skyndilega birtust á stígnum fyrir framan þá, nokkur hvít hjartardýr, hind með nokkrum kálfum eins mjallahvít og hjörturinn hafði áður verið svartur. Það lýsti af þeim í skuggunum. Áður en Þorinn gæti hrópað viðvörun höfðu þrír Dverganna stokkið á fætur og skotið örvum sínum af bogunum. Engin þeirra hæfði. Hjartardýrin sneru við og hurfu milli trjánna eins hljóðlátlega og þau höfðu komið og Dvergarnir höfðu skotið örvum sínum til einskis á eftir þeim.

„Hættið! Hættið!“ hrópaði Þorinn. En það var of seint. Upptendraðir Dvergarnir höfðu eytt síðustu örvum sínum og þar með voru bogarnir sem Björn hafði gefið þeim orðnir einskisnýtir.

Hópurinn var ósköp niðurdreginn um kvöldið og drunginn gróf dýpra um sig næstu daga. Þeir voru nú komnir yfir álagastrauminn, en hinum megin við hann hélt stígurinn áfram að hlykkjast sem fyrr og þeir sáu engan mun á skóginum. En ef þeir aðeins hefðu þekkt betur til aðstæðna og dregið réttar ályktanir af veiðihljóðunum og hvítu hjartarhindinni á vegi sínum, þá hefðu þeir mátt skilja að þeir voru loks farnir að nálgast austurjaðarinn, og myndu brátt koma, ef þeir aðeins varðveittu þor sitt og von, í gisnari skóg þar sem sólskinið lýsti aftur.

En þeir höfðu ekki hugmynd um það og á sama tíma voru þeir að sligast undir fargi Vamba, sem þeir urðu að dröslast með eftir því sem þeir best gátu, og skiptast á um það fjórir í einu, meðan hinir deildu farangrinum milli sín. Ef birgðirnar hefðu ekki verið orðnar miklu rýrari nú en í byrjun, hefði þeim líklega aldrei tekist þetta. En lítið gagn var að sofandi og síbroandi Vamba í staðinn fyrir klyfjar af matarbirgðum, hvað þungar sem þær væru. Og eftir nokkra daga var svo komið að allt var uppurið, hreinlega ekkert eftir til að éta eða drekka. Ekkert heilnæmt gátu þeir heldur fundið í skóginum, ekkert nema sveppi og undarleg grös með fölu laufi og heldur óskemmtilegum daun.

Eftir fjögurra daga gang frá álagaánni komu þeir í einhvern hluta skógarins sem var að mestu vaxinn beykitrjám. Í fyrstu líkaði þeim vel við þessa breytingu því að hér var enginn undirgróður og dimman því ekki eins djúp. Í glýjunni var sem kviknaði grænleit ljósmóða í kringum þá og sumsstaðar gátu þeir nú séð talsvert út frá stígnum til beggja hliða. En í þessari skímu sáu þeir svo sem ekkert nema endalausar raðir af gráum trjábolum líkastar súlum í voldugum rökkursal. Hér gætti svolítils andblæs með hvin sem þó var dapurlegur. Fáein laufblöð svifu skrjáfandi niður og minntu á, að utan skógarins væri farið að hausta. Þeir óðu og sukku í þykka bunka af visnu laufi óteljandi fyrri hausta sem slæddist yfir vegarkantinn frá dumbrauðri ábreiðu skógarins.

Áfram hélt Vambi að sofa og þeir þreyttust mjög af að bera hann. Öðru hvoru heyrðu þeir órólegan hlátur, stundum söng í fjarsknuum. Það var hlátur fagurmildra radda en ekki grófur hlátur drísla, söngurinn unaðslegur en hljómaði þó draugalega og annarlega og hann hressti þá ekki við. Þeir vildu bara hraða sér burt frá þessum stað með öllum þeim kröftum sem þeir enn áttu eftir.

Tveimur dögum síðar fór að halla undan fæti og þeir komu niður í dal sem var næstum barmafullur af voldugum eikum.

„Er enginn endir á þessum bölvaða skógi?“ sagði Þorinn. „Einhver ætti að klifra upp í tré og sjá hvort hann getur ekki stungið höfðinu upp úr laufþekjunni og fengið útsýn yfir skóginn. Best er að velja hæsta tréð sem slútir yfir veginn.“

Auðvitað þýddi „einhver“ ekkert nema Bilbó. Hann var sjálfkjörinn, því að tréklifrarinn yrði að stinga höfðinu upp úr hæstu laufþekjunni og þá yrði hann að vera nógu léttur svo að efstu og grennstu greinarnar gætu borið hann. Vesalings herra Baggi hafði nú aldrei fengið mikla þjálfun í trjáklifri, en dvergarnir hófu hann fyrst upp á lægstu greinar voldugrar eikar sem óx beint upp af vegarkantinum og síðan varð hann að bjarga sér sjálfur eftir bestu getu. Hann klöngraðist upp gegnum flækta sprota, fékk hvað eftir annað á ann og varð grænn og grómtekinn af gömlum berki á gildum stofnum. Oftar en einu sinni rann hann til en tókst að verjast falli á síðustu stundu. Loksins eftir mikla hrellingu á erfiðum stað, þar sem hann fékk ekki handfesti í neinar þægilegar greinar, nálgaðist hann toppinn. En alltaf hafði hann áhyggjur af því, hvort kannski væru kóngulær í trénu og því næst hvernig hann ætti að komast niður aftur (nema með því að hrapa).