Выбрать главу

Að lokum tókst honum að stinga hausnum upp úr laufþekjunni og fann þar í raun og veru nokkrar kóngulær. En þær voru aðeins litlar og venjulegar og auðséð að þær voru á höttunum eftir ákveðnum fiðrildum. Bilbó næstum blindaðist af birtunni. Hann heyrði til dverganna sem hrópuðu til hans langt að neðan, en gat engu svarað, aðeins ríghaldið sér og deplað augunum. Sólin skein svo skær að hann fékk ofbirtu í augun. Þegar hann hafði jafnað sig á því, sá hann allt í kringum sig heilt haf af grænu laufi sem vindurinn gáraði líkast haföldu og allsstaðar voru hundruð fiðrilda á sveimi. Ég býst nú við að þetta hafi þá verið „purpurakeisarinn,“ sem sækir í toppinn á eikartrjám, nema sá var munurinn að þessi fiðrildi voru alls ekki purpuralit, heldur dökk dökk flauelssvört, alveg einlit.

Hann fylgdist lengi með „svörtu keisurunum“ og naut þess að finna goluna í hárinu og á andlitinu, en að lokum minntu hróp dverganna, sem allir voru eins og á nálum, hann á raunverulegt hlutverk hans. En árangur af þeirri könnunarferð varð ekki mikill. Hann gat gónt svo mikið sem hann vildi, en hann sá hvergi út yfir trjábreiðuna og laufþakið í allar áttir. Hjarta hans sem hafði fagnað því að sjá sólina og finna vindinn, seig aftur niður í buxurnar. Hann fengi engan mat þegar hann sneri aftur niður.

Í rauninni voru þeir, eins og ég áður minntist á, ekki svo ýkja langt frá jaðri skógarins. Ef Bilbó hefði bara gert sér grein fyrir því, þá stóð þetta tré sem hann hafði klifið og var í sjálfu sér mjög hátt, neðst í djúpum katli, svo að þaðan sem hann sat í toppnum á því, virtust ennþá stærri tré þenjast út allt um kring, eins og upp að barminum á stórri skál og því var ekki við því að búast að hann gæti séð út yfir skóginn. Þannig lét hann blekkjast og klifraði örvæntingarfullur aftur niður úr trénu. Hann kom niður á jörðina allur rispaður, núinn og aumur og varð aftur næstum blindur í myrkrinu. Og við lýsingu hans á aðstæðum urðu hinir brátt jafn vonlausir.

„Skógurinn teygist endalaust áfram og áfram og áfram í allar áttir! Hvað eigum við nú til bragðs að taka? Og hvaða gagn var líka að því að senda hobbita upp!“ hrópuðu þeir eins og þetta væri allt Bilbó að kenna. Þeir hirtu ekki grænan túskilding um fiðrildin, og brugðust aldrei að verri við en þegar hann sagði þeim frá dásamlega vindblástrinum uppi á himninum. Sjálfir voru þeir alltof þungir til að geta klifrað upp og notið hans.

Þá um kvöldið kroppuðu þeir síðustu bita og brauðmola sem þeir áttu. Og morguninn eftir var það fyrsta sem þeir tóku eftir, að þeir voru glorhungraðir og þarnæst að það var farið að rigna og hér og þar duttu dropasletturnar þungt á skógarbotninum. En það var aðeins til að minna þá á að þeir voru líka skrælþyrstir, án þess að fá nokkuð úr því bætt. Maður getur ekki svalað hræðilegum þorsta með því að standa undir risavaxinni eik og bíða eftir því að dropi af laufi hennar falli af tilviljun á tunguna. Eini ljósi punkturinn í tilverunni kom óvænt frá Vamba.

Hann vaknaði skyndilega upp af dásvefninum, settist upp og klóraði sér í kollinum. Þegar hann kom til sjálfs sín, hafði hann ekki hugmynd um hvar hann var niður kominn, né hvers vegna hann var svona svangur. Hann hafði steingleymt öllu sem borið hafði við síðan þeir lögðu upp í leiðangurinn á einum maímorgni fyrir löngu. Það síðasta sem hann mundi var veislan í húsi hobbitans, og þeir áttu í hreinustu vandræðum með að fá hann til að trúa öllum þeim ævintýrum sem þeir höfðu síðan ratað í.

En þegar hann heyrði að ekkert væri eftir matarkyns, settist hann niður og fór að skæla, en hann var ósköp linur og óstöðugur á fótunum. „Til hvers í ósköpunum var ég þá að vakna!“ veinaði hann. „Og mig sem dreymdi svo fagurlega. Mér þótti sem ég væri á gangi í skógi, sem var raunar líkur þessum skógi, nema hvað hann var allur upplýstur af kyndlum á trjánum, lömpum sem sveifluðust á greinum og bálköstum á jörðinni. Þar stóð yfir mikil veisla sem skyldi vara að eilífu. Í öndvegi sat skógarkonungur með laufkórónu og var sungið glaðlega og ég gæti ekki talið upp né lýst öllu því góðgæti sem þar var á boðstólum til matar og drykkjar.“

„Það er mesti óþarfi,“ sagði Þorinn. „Ég skal bara segja þér að ef þú getur ekki um annað talað en mat, væri þér betra að þegja. Við höfum fengið meira en nóg af þér eins og þú ert. Ef þú hefðir ekki vaknað upp, hefðum við bara skilið þig eftir í skóginum í þínum bjánalegu draumum. Það er ekkert gaman að þurfa að burðast með svona flykki eins og þig, þó við höfum vikum saman verið vannærðir.“

Þeir áttu nú einskis annars úrkosta en herða ólina um tóman kvið, axla galtóma vatnsbelgi og birgðaílát og staulast áfram eftir veginum, án þess að eygja nokkra von um að komast á leiðarenda áður en þeir einfaldlega legðust niður og dæju úr hungri. Þannig reikuðu þeir áfram allan daginn, siluðust áfram kraftlitlir, en Vambi hélt áfram að vola og væla um það að fæturnir gætu ekki borið hann og hann vildi bara leggjast niður og halda áfram að sofa.

„Nei, þú átt ekkert með að gera það!“ sögðu hinir. „Nú verða bífurnar á þér að bera sinn búk, við erum búnir að bera þig nógu lengi.“

Samt þverneitaði hann skyndilega að fara fetinu lengra og fleygði sér til jarðar. „Haldiði sjálfir áfram, ef þið viljið,“ sagði hann. „Ég ætla bara að sofna og láta mig dreyma um mat, úr því ég fæ hann ekki öðru vísi. Ég vona að ég vakni aldrei aftur.“

En þá gerðist það að Balinn, sem hafði farið fremstur, hrópaði upp yfir sig: „Hvað var nú þetta? Mér sýndist ég sjá blika á ljós í skóginum.“

Allir fóru að gá og þeim virtist sem þeir sæju í nokkurri fjarlægð rautt glit af stöku ljósi og síðan var eins og kviknaði út frá því á fleiri ljósum. Nú reis jafnvel Vambi á fætur og þeir hröðuðu sér áfram eins og þeim stæði alveg á sama þó þarna væru tröll eða dríslar á ferð. Ljósið var framundan þeim, eilítið vinstra megin við stíginn og þegar þeir komu til móts við það sáu þeir greinilegar að blys og eldar loguðu þar undir trjánum, góðan spöl utan við stíginn.

„Það er engu líkara en draumar mínir séu að rætast,“ stundi Vambi upp þar sem hann skakklappaðist lafmóður fyrir aftan þá. Hann vildi helst æða beint inn í skóginn að ljósunum. En hinir voru ekki búnir að gleyma aðvörunum vitkans og Bjarnar.

„Slík veisla væri nú til lítils, ef við kæmumst aldrei lifandi til baka,“ sagði Þorinn.

„En án veislufanga tórum við ekki mikið lengur,“ sagði Vambi og Bilbó var hjartanlega sammála honum. Svo þrefuðu þeir lengi fram og aftur um þetta, þangað til þeir urðu að lokum ásáttir um að senda tvo njósnara saman til að laumast nær eldunum og kanna þá nánar. En svo gátu þeir heldur ekki komið sér saman um það, hverjir ættu að fara. Engan langaði til að taka þá áhættu að týnast og finna vini sína ekki aftur. Loks ákváðu þeir, þvert ofan í allar viðvaranir að láta sultinn taka völdin, ásamt sælukenndum lýsingum Vamba á öllu því lostæti sem þar væri að finna samkvæmt draumi hans af skógarveislunni. Svo þeir viku allir saman út af stígnum og dembdu sér inn í skóginn.