Eftir að þeir höfðu skreiðst og skjökt heillengi í áttina að ljósinu, gægðust þeir skyndilega milli trjábola og sáu inn í rjóður þar sem allmörg tré höfðu verið rudd og völlur sléttaður. Fjöldi fólks var þar á ferli, og virtust það vera álfar í grænum og brúnum búningum er sátu í hring á bekkjum sem gerðir voru úr aflimuðum trjábolum. Í miðjunni var heilmikið bál og blys voru fest á nokkur tré allt í kring. En það dásamlegasta af öllu: Þeir voru allir að éta og drekka, hlæjandi af hjartans lyst.
Steikarilmurinn af kjötinu var svo heillandi, að þeir réðu ekki við sig, — án þess að ráðfæra sig frekar hver við annan, ruddust þeir allir fram í einu með það eitt að leiðarljósi að sníkja sér einhvern mat. En ekki var sá fyrsti fyrr kominn fram í rjóðrið en öll ljósin slokknuðu eins og fyrir galdur. Einhver sparkaði í bálköstinn og eldurinn rauk upp líkt og flugeldur í glitrandi gneistaflugi og hvarf. Þar með voru þeir algjörlega villtir í ljósvana myrkri og gátu ekki einu sinni fundið hver annan, að minnsta kosti ekki fyrst í stað. Þannig ráfuðu þeir ráðlausir í myrkrinu, duttu um trjáboli, skullu beint á tré, hrópandi og kallandi svo að þeir hlutu að hafa vakið allt lifandi í skóginum í margra mílna fjarlægð. Loks tókst þeim að hóa sig saman, draga sig í hóp og telja með handsnertingu. En þá höfðu þeir auðvitað algjörlega tapað áttum og höfðu ekki hugmynd um hvar stígurinn ætti að vera. Þar með voru þeir rammvilltir, að minnsta kosti til næsta morguns.
Þeir áttu því einskis annars úrkosta en að búa um sig til næturinnar þar sem þeir voru niður komnir. Þeir þorðu ekki einu sinni að reyna að leita að matarafgöngum af ótta við að skiljast aftur að. En ekki höfðu þeir lengi legið, þó Bilbó væri um það bil að lognast út af, þegar Dóri sem var á vakt, sagði í háværu hvísli:
„Ljósin eru aftur að kvikna þarna yfirfrá og miklu fleiri en áður.“
Upp ruku þeir allir. Og mikið rétt, þarna sáu þeir, ekki langt undan, tugi blikandi ljósa og þeir heyrðu greinilega raddir og hlátrasköll. Nú skriðu þeir hægt í áttina þangað og í halarófu þar sem hver hélt snertingu við þann næsta á undan. Þegar þeir nálguðust sagði Þorinn: „Nú megum við ekki flana fram í fljótræði! Enginn má hreyfa sig né koma úr felum, fyrr en ég segi. Ég ætla fyrst að senda herra Bagga einan fram til að tala við þá. Þeir ættu ekki að verða hræddir við hann — („En hvað, ef ég er hræddur við þá?“ hugsaði Bilbó) — ég vona að minnsta kosti að þeir fari ekkert að misþyrma honum.“
Þegar þeir komu í bjarmann, otuðu þeir Bilbó skyndilega fram. Áður en hann hefði tíma til að setja á sig hringinn, rambaði hann inn í skerandi birtu eldsins og blysanna. En það kom ekki að haldi. Öll ljósin voru samstundis slökkt og við tók algjört myrkur.
Hafi áður verið erfitt fyrir þá að finna hvern annan, var það helmingi verra nú. Og nú fór svo illa að þeir gátu með engu móti fundið hobbitann. Þeir héldu fyrst að hann væri þar en við talningu komust þeir aldrei hærra en í þrettán. Þeir hrópuðu og kölluðu: Bilbó Baggi! Hobbiti! Bölvaður hobbitinn þinn! Hæ, hobbiti, farðu fjandans til, hvar ertu?“ og annað í þeim dúr, en þeir fengu ekkert svar.
Þegar þeir voru alveg að því komnir að gefast upp, hnaut Dóri af algjörri tilviljun um hann. Hann datt um koll yfir eitthvað sem hann hélt að væri trjábútur en komst að því að þar lá hobbitinn í hnipri og steinsvaf. Það þurfti að skekja hann til að vekja hann, og hann var hreint ekkert ánægður yfir því að mega ekki fá að sofa í friði.
„Mig dreymdi svo undursamlegan draum,“ muldraði hann, „ég var að háma í mig svo dásamlegan veislukost.“
„Skelfing er að vita þetta! Hann er þá orðinn eins og Vambi,“ sögðu þeir. „Blessaður vertu ekki að þvæla þetta um drauma þína. Draumaveislur koma ekki að neinu gagni og við getum ekki tekið þátt í þeim.“
„Þær eru þó það besta sem fáanlegt er á þessum andstyggðar stað,“ muldraði hann um leið og hann lagðist niður hjá dvergunum og reyndi að sofna á ný og komast aftur í draumaveisluna sína.
Ekki var þó ljósaganginum í skóginum enn lokið. Síðar þegar skammt lifði nætur, kom Kjalar, sem þá var á vakt til þeirra og sagði:
„Það er hreinasta ljósadýrð skammt hér frá, hundruð blysa og ótal útibál sem virtust kvikna skyndilega eins og fyrir galdur. Og heyrið bara sönginn og hörpusláttinn!“
Þeir lágu og hlýddu á um sinn, svo gátu þeir ekki lengur staðist freistinguna að færa sig nær og reyna enn einu sinni að fá hjálp. Þeir risu enn á fætur og í þetta skipti varð árangurinn lang verstur. Veislan sem nú blasti við augum þeirra var langtum stærri og glæsilegri en hinar sem þeir höfðu áður séð. Og hátt í öndvegi yfir veisluborðum sat skógarkonungur með laufkórónu á gullnu hári, áþekkur því sem Vambi hafði lýst úr draumi sínum. Álfafólkið lét skálar ganga á milli sín og rétti þær yfir eldana, sumir léku á hörpu, margir sungu við raust. Gljáandi hár þeirra var fléttað blómum, grænir og hvítir gimsteinar glitruðu í hálskrögum þeirra og mittisbeltum. Andlit þeirra og söngvar voru þrungin gáska og gleði. Hátt sungu þeir, skært og fagurlega og þá steig Þorinn allt í einu fram mitt á meðal þeirra.
Dauðaþögn skall á í miðju orði. Það slokknaði á öllum ljósum, eldarnir ruku upp í svörtum reyk. Aska og glóð kom í augu dverganna og skógurinn glumdi aftur við af gauragangi þeirra og ópum.
Bilbó fannst hann hlaupa hring eftir hring (þó var hann ekki alveg viss um það) og kalla og hrópa: „Dóri, Nóri, Óri, Óinn, Glóinn, Fjalar Kjalar, Vambi, Bifur, Bógur, Dvalinn, Balinn, Þorinn Eikinskjaldi,“ en allir voru þeir jafn sjónlausir og skynlausir og héldu uppi sömu hrópunum (nema einstaka sinnum hrópuðu þeir líka „Bilbó!“ inn á milli). En hróp hinna urðu æ fjarlægari og daufari, og þó að honum fyndist í bili að hljóð þeirra breyttust í vein og skerandi neyðaróp í fjarska, dóu þau að lokum öll út og hann var skilinn eftir einn í algjörri þögn og myrkri.
Þetta var nú það alversta sem Bilbó hafði nokkurn tímann komist í. En brátt gerði hann sér grein fyrir, að tilgangslaust væri að aðhafast nokkuð fyrr en dagaði með örlítilli skímu. Það hefði ekkert upp á sig að vera alltaf að ana þetta hingað og þangað út í myrkrið og þreyta sig án minnstu vonar um að fá nokkuð í svanginn til morgunmatar að hressa sig á. Svo hann settist bara niður og studdi baki við trjábol og fór — og það ekki í síðasta sinn — að hugsa til sinnar órafjarlægu hobbitaholu með unaðslega matarbúrinu sínu. Hann féll í djúpa hugleiðslu um svínafleskju og egg og ristað brauð með smjöri, þegar honum fannst eitthvað snerta sig. Einhverskonar sterkt og slímugt band kom við vinstri hönd hans og þegar hann ætlaði að rísa upp, varð hann þess var að þessu sama efni hafði verið undið utan um fætur hans, svo að í stað þess að standa upp, féll hann um koll.
Stór kónguló sem hafði verið sem óðast að færa hann í fjötra meðan hann svaf, kom nú aftan að honum og greip hann. Hann sá aðeins glyrnurnar í ófreskjunni, en fann fyrir loðnum löppunum þegar hún var að bisa við að sívinda ógeðslegum spunaþræðinum um hann. Sem betur fer hafði hann komist til vitundar í tæka tíð. En tæpara mátti það ekki standa. Brátt hefði hann ekki getað hreyft legg né lið. Þar með hófst örvæntingarfull barátta hans við að reyna að losa sig. Fyrst lamdi hann skelluna með berum hnúunum — hún ætlaði víst að spúa í hann eitri til að róa hann, líkt og venjulegar kóngulær gera við flugur — en þá mundi hann allt í einu eftir sverði sínu og brá því á loft. Við það hörfaði kóngulóin sem snöggvast undan, og það gaf honum í skyndi tækifæri til að skera böndin af fótunum. Þá var komið að honum að ráðast til atlögu. Kónglan var því ekki vön, að fórnarlömb hennar bæru slík varnartæki sér við síðu, því að annars hefði hún líklega dregið sig skjótar í hlé. En Bilbó réðst tafarlaust á hana, áður en hún gæti skroppið í hvarf og stakk hana með sverðinu beint í glyrnurnar. Hún varð þá sem óð og hljóp og dansaði hátt í loft upp og glennti út fæturna í hræðilegum rykkjum, þar til hann gerði út af við hana með öðru sverðalagi. Þá valt hann sjálfur um koll og vissi ekki meira í þennan heim né annan.