Выбрать главу

Vissulega umlukti rökkurgrámi skógarins hann sem áður, þegar hann kom til sjálfs sín. Kóngurvofan lá dauð við hlið hans og sverðsblað hans var atað svörtu kámi. Einhvern veginn hafði dráp risakóngulóarinnar ákaflega mikil áhrif á herra Bagga. Þarna hafði hann upp á eigin spýtur, án hjálpar vitkans eða dverganna eða fyrir nokkurs annars atbeina, ráðið niðurlögum þessa ferlíkis. Honum fannst hann vera orðinn gjörbreyttur, miklu kröftugri og djarfari en áður og það þó hann væri á fastandi maga, og svo þerraði hann sverð sitt á grasinu og stakk því aftur í slíðrin.

„Ég vil nú gefa þér nafn,“ sagði hann við sverðið, „ég nefni þig Sting.“

Að því búnu fór hann að kanna aðstæður. Skógurinn var ískyggilegur og þögull, en hann varð umfram allt að leita að vinum sínum, og það var ólíklegt að þeir hefðu farið langt, nema álfarnir hefðu tekið þá höndum (eða eitthvað verra). Nú fannst Bilbó varasamt að vera með hróp og háreysti, heldur stóð hann lengi og velti því fyrir sér í hvaða átt vegurinn væri og í hvaða átt hann ætti að leita að dvergunum.

„Ó, að við skyldum ekki hlíta ráðum Bjarnar og Gandalfs!“ kveinaði hann með sjálfum sér. Það eru meiri vandræðin sem við höfum komið okkur í! Sagði ég við? Ég vildi óska að ég gæti sagt við, það er svo ömurlegt að vera svona aleinn.“

Að lokum giskaði hann eftir bestu getu á, hvaðan neyðarópin hefðu komið fyrr um nóttina — og af einskærri heppni (sem hann hafði vænan skammt af), rambaði hann næstum rétt á það, eins og þið munuð sjá. Eftir að hafa tekið af skarið læddist hann af stað eins hljóðlega og hann gat. Hobbitar eru meistarar í að hafa lágt um sig, einkum í skógum, eins og ég hef áður sagt ykkur. En þar að auki setti Bilbó hringinn á sig, áður en hann lagði af stað. Því gátu kóngulærnar hvorki heyrt hann né séð, þegar hann nálgaðist þær.

Hann hafði laumast hljóðlega áfram dágóðan spöl, þegar hann varð var við svo þéttan og svartan skugga fyrir framan sig, að hann sýndist jafnvel svartur í myrkri skógarins, eins og gleymst hefði að þurrka upp svolitla klessu af sjálfu miðnættinu. Þegar nær kom, sá hann að þetta voru spunahnútar kóngulóar þar sem einum þræðinum var brugðið yfir hinn og þeir flæktir saman fyrir neðan. Skyndilega sá hann einnig að þar sátu kóngulær, risavaxnar og hryllilegar, í greinum fyrir ofan hann og þó hann hefði hringinn skalf hann af ótta við að þær yrðu sín varar. Hann staðnæmdist bak við tré og fylgdist með um stund, og þá allt í einu í þögninni og kyrrðinni í skóginum varð hann þess áskynja að þessar ógeðslegu skepnur voru að tala saman. Raddir þeirra voru lítið meira en marr og hvæs, en þó gat hann skilið margt sem þær sögðu. Þær voru að tala um dvergana.

„Þetta var hörð hrina, en vel þess virði,“ sagði ein. „Ég skil ekki hvað þeir hafa þykka húð, en samt skal ég veðja að þeir eru safaríkir að innan.“

„Jahá, það verður góð máltíð úr þeim, en þeir þurfa fyrst að hanga svolítið,“ sagði önnur.

„Ekki láta þá samt hanga of lengi,“ sagði sú þriðja. „Þeir eru ekki eins feitir og þeir ættu að vera. Þeir hafa víst ekki fengið mikið í svanginn að undanförnu, býst ég við.“

„Drepum þá,“ sagði sú fjórða. „Drepum þá strax og látum þá svo hanga um stund.“

„O, þeir eru sjálfsagt dauðir nú, býst ég við,“ sagði sú fyrsta.

„Ónei, það eru þeir ekki. Ég sá einn vera að bylta sér rétt í þessu. Ætli hann hafi ekki verið að rumska, skyldi ég ætla, eftir sinn flugusvefn. Ég skal bara sýna ykkur.“

Að svo mæltu hljóp ein af feitari kóngulónum af stað eftir einum kaðlinum, þar til hún kom þangað sem um tylft vöndla hafði verið hengd í röð uppi á hárri grein. Bilbó var hryllingi lostinn, fyrst þegar hann sá þá hangandi í skugganum og dvergafætur stóðu út úr botni sumra vöndlanna, en annarsstaðar sá í nefbrodd eða skegg eða hettu.

Kóngulóin hélt að feitasta bögglinum. — „Vesalings gamli Vambi, sýnist mér,“ hugsaði Bilbó — og skepnan kleip fast í nefið sem stóð út úr. Niðurbælt gól heyrðist innan úr vöndlinum og táin skaust upp og sparkaði beint og fast í kóngulóna. Einhver líftóra var þá eftir í Vamba. Það heyrðist eins og sparkað hefði verið í linan fótbolta og kóngulóin skall út af greininni og tókst aðeins að ná taki í eigin þráð tímanlega.

Hinar hlógu. „Þú hafðir þá rétt fyrir þér,“ sögðu þær, „fleskið er bráðlifandi og sparkar!“

„Ég skal nú ekki vera lengi að binda endi á það.“ hvæsti vofan bálreiða og klifraði aftur upp í tréð.

Nú sá Bilbó að tími væri kominn til að skerast í leikinn. Hann gat ekki náð til ófreskjanna uppi á greinunum og hafði engin skeyti til að skjóta á þær. En þegar hann litaðist um sá hann stórgrýtta möl í einhverju sem líktist uppþornuðum lækjarfarvegi. Bilbó var ágætlega hittinn steinkastari og var ekki lengi að finna sér góða ávala völu sem fór vel í lófa. Sem drengur hafði hann æft sig í að kasta steinum og hæfa hvað sem var, þangað til kanínur og íkornar og jafnvel fuglar, forðuðu sér hið bráðasta, ef þau sáu hann beygja sig niður. Og jafnvel eftir að hann varð uppkominn hafði hann töluvert ástundað allskyns kastleiki eins og hælakast, pílukast, skeifukast, keiluspil, níupinna og aðrar nákvæmnisgreinar í miðun og köstum. Satt að segja var hann nokkuð fjölhæfur, hann kunni ekki aðeins að blása reykjarhringum út úr sér, ráða gátur og elda mat og ég hef ekki enn getað rakið það allt fyrir ykkur. Og það er heldur enginn tími til að fara út í þá sálma núna. Meðan hann var að taka upp steininn náði kóngulóin til Vamba og á næsta augnabliki hefði hann verið dauður. En einmitt á þeirri sömu stundu lét Bilbó steininn vaða. Hann hæfði kóngulóna, plúnk, beint í hausinn, hún valt rotuð niður úr trénu, plúmp, beint á jörðina og lá þar með allar lappir upp í loft í bendu.

Næsti steinn hvein gegnum stóran kóngulóarvef, reif í sundur þræði og lenti á breddunni sem sat í honum miðjum, púmm, og hún var dauð. Eftir það varð algert uppnám í þessari kóngulóarnýlendu svo að þær gleymdu í bili dvergunum í vöndlunum, skal ég segja ykkur. Þær gátu ekki séð Bilbó en þær gátu nokkuð miðað út, úr hvaða átt steinkastið kom. Snöggar sem elding komu þær hlaupandi og sveiflandi sér í átt til hobbitans og þeyttu út löngum þráðum sínum í allar áttir, þar til loftið virtist allt fullt af dinglandi snörum.

En þá hafði Bilbó þegar læðst á annan stað. Við þetta fékk hann þá hugmynd að kannski gæti hann ginnt brjálaðar kóngulærnar til að elta sig lengra og lengra burt frá dvergunum, ef mögulegt væri, með því að gera þær forvitnar, æstar og reiðar í senn. Þegar um fimmtíu þeirra höfðu safnast saman þar sem hann áður stóð, kastaði hann fleiri steinum að þeim og öðrum sem eftir höfðu orðið. Svo dansaði hann inn á milli trjánna og tók að kyrja söng til að espa þær og fá þær allar til að elta sig, en líka hafði hann í huga, að dvergarnir gætu heyrt til hans.