Og þetta söng hann:
Ekki var þetta svo sem merkilegur kveðskapur, en þá verður að hafa í huga, að Bilbó varð að yrkja þetta sjálfur, svo að segja af vörum fram, og það við heldur en ekki erfiðar aðstæður. En það kom samt að því gagni sem til var ætlast. Samtímis söngnum hélt hann áfram grjótkastinu og stappaði í jörðina. Svo að segja allar kóngulærnar á staðnum komu á eftir honum. Nokkrar skelltu sér til jarðar, aðrar æddu eftir greinunum, sveifluðu sér frá einu trénu í annað og spunnu nýja þræði í dimmar eyður. Þær voru miklu fljótari að renna á hljóðið en hann hafði búist við. Þær voru ofsareiðar. Að grjótkastinu slepptu þoldu þær ekki að láta kalla sig Ljótukussu og Tuddapadda væri nú enda móðgandi fyrir hvern sem er.
Bilbó ætlaði aftur að koma sér undan. En þá höfðu kóngulærnar dreift sér hingað og þangað á svæðinu þar sem þær bjuggu og voru á fullri ferð að spinna vefi í allar eyður milli trjábola. Þá leit helst út fyrir að hobbitinn yrði brátt innikróaður í þétta girðingu kóngulóarvefa allt í kringum sig – að minnsta kosti var það ætlun kóngulónna. En þó Bilbó stæði mitt á milli allra þessara leitandi og spinnandi skordýra, herti hann sig upp og hóf að syngja nýjan brag.
Síðan sneri hann sér við og sá að síðasta bilinu milli tveggja hávaxinna trjáa hafði verið lokað með þráðum — en sem betur fer ekki með raunverulegum vef heldur losaralegri flækju úr stórgerðum þráðum af tvöfaldri þykkt, sem hafði verið rimpað í skyndingu fram og aftur milli trjábolana. Hann reiddi upp sverð sitt, hjó þræðina í tætlur og hélt burt syngjandi.
Kóngulærnar sáu sverðið sveiflast, þó mér þyki ólíklegt að þær hafi nokkuð botnað í hvað það væri, og á samri stundu æddi allur skarinn á eftir hobbitanum, bæði á jafnsléttu og eftir greinunum. Þær stikuðu og veifuðu kafloðnum löppunum, smelltu bitkrókum og spunahólkum, augun útbólgin af froðu og reiði. Þær héldu áfram á eftir honum lengra og lengra inn í skóginn, þar til Bilbó þótti ekki ráðlegra að fara lengra. Síðan læddist hann til baka hæglátari en nokkur mús.
Hann vissi að hann hefði ekki mikið ráðrúm, áður en kóngulærnar hefðu fengið nóg og sneru til baka til trjánna, þar sem dvergarnir héngu. Á meðan varð hann að bjarga félögum sínum. Í fyrstu var erfiðast fyrir hann að komast upp á löngu greinina þar sem vöndlarnir héngu dinglandi. Ég býst varla við að honum hefði tekist það, nema af því að ein kóngulóin hafði skilið eftir lafandi þráð og upp eftir honum gat hann handfetað sig, þó þráðurinn vildi límast í lófa hans og særa hann — en þegar upp kom, tók á móti honum gömul þungfær, illvíg og spikfeit skella sem hafði orðið eftir til að gæta fanganna og hafði raunar hvað eftir annað verið að pota í þá til að smakka hver þeirra væri safaríkastur. Hún var jafnvel að hugsa um að fara að byrja veisluna meðan hinar voru í burtu, en herra Baggi var ekkert að tvínóna við hlutina og áður en paddan vissi af, fann hún fyrir stungunni og valt dauð út af greininni.
Næst þurfti Bilbó að byrja á því að losa fyrsta dverginn. En hvernig átti hann að fara að því? Ef hann hyggi á strenginn sem hélt vöndlinum uppi, myndi sá vesalings dvergur bara hrapa og skella til jarðar sem var mikið fall. Hann færði sig út eftir greininni (og á meðan dönsuðu og dingluðu allir vesalings dvergarnir til og frá eins og fullþroskaðir ávextir) og nú kom hann að fyrsta vöndlinum.
„Annað hvort Fjalar eða Kjalar,“ ályktaði hann af blárri hettunni sem stóð út af í toppinn. „Líklega fremur Fjalar,“ hugsaði hann og markaði það af löngu nefinu sem stóð út um vafningana. Með því að teygja sig niður og höggva á nokkra af sterku og klínugu þráðunum sem héldu vöndlinum saman, tókst honum að gera op á, og víst kom enginn annar en Fjalar í ljós með spörkum og látum. Það verður víst að viðurkennast að Bilbó fór hreinlega að skellihlæja þegar hann sá Fjalar baða út stirðum handleggjunum og hrista fæturna dansandi á spunastrengjum undir handarkrikunum, svo minnti á leikföngin skemmtilegu með fimleikakörlum sem snúast á vírum.
Með einhverjum hætti klifraðist Fjalar upp á greinina til hans og gerði sitt besta til að hjálpa hobbitanum, þótt hann væri miður sín og fárveikur af kóngulóareitrinu, auk þess sem hann hafði hangið alla nóttina og langt fram á næsta dag, þétt vafinn þráðum, aðeins nefið stóð út úr, og svo aðþrengdur að hann gat varla andað. Hann var líka óratíma að ná þessu ógeðslega lími úr augum og augabrúnum og skeggið varð að skera mestallt af honum. Jæja, síðan hjálpuðust þeir að við að tosa hinum dvergunum út og skera þá úr böndum. Enginn þeirra var neitt betur á sig kominn en Fjalar og sumir verr. Sumir höfðu jafnvel ekkert getað andað að ráði (og þar af sjáiði, að stundum getur komið sér vel að vera með langt nef) og sumir höfðu fengið í sig meira eitur en aðrir.
Næst björguðu þeir Kjalari, Bifri, Bógi, Dóra og Nóra. Vesalings Vambi var svo illa farinn — enda feitastur og hafði sífellt mátt þola stungur og smakk — að hann hreinlega valt út af greininni og hrapaði til jarðar en sem betur fer kom hann niður á þykka og mjúka laufhrúgu og lá þar afvelta. Enn héngu fimm dvergar utarlega á greininni þegar fyrstu kóngulærnar komu aftur á vettvang fárreiðari en nokkru sinni.
Bilbó stillti sér fyrst upp innst á greininni við trjábolinn og stóð í vegi fyrir að kvikindin kæmust út á hana. Hann hafði tekið hringinn af sér þegar hann var að bjarga Fjalari og gleymt að setja hann aftur á sig, og fóru kóngurvofurnar að spýta og hvæsa á hann.
„Nú sjáum við þig, litla ófétið þitt. Við skulum éta þig og skilja haminn og beinin af þér eftir hangandi í tré. En úff! Er hann með sting, eða hvað? Gildir einu, við skulum samt ná honum og síðan hengja hann á haus í nokkra daga.“