Á meðan þessu fór fram voru dvergarnir sem lausir voru, sem óðast að hjálpast að við að frelsa þá sem eftir voru og notuðu hnífa sína til að skera á þræðina. Brátt yrðu þeir allir lausir, en hitt var nokkuð á huldu hvað þá tæki við. Kóngulærnar höfðu átt auðveldan leik að færa þá í fjötra um nóttina, en þá höfðu þeir verið óviðbúnir og í kolniðamyrkri. Nú yrði ekki komist hjá hrikalegum bardaga upp á líf og dauða.
Þá tók Bilbó eftir því að nokkrar kóngulær höfðu safnast að gamla Vamba á skógarbotninum, þær höfðu aftur bundið hann og voru að drösla honum burtu. Hann rak upp óp og lét höggin dynja á kóngulónum sem voru fyrir honum uppi á greininni. Þær hörfuðu strax undan og hann klöngraðist og lét sig renna niður trjástofninn niður í miðjan hópinn á jörðinni. Litla sverðið hans var óvenjulegur stingbroddur sem þær höfðu ekki áður kynnst. Hvernig það líka sveiflaðist til og frá! Það blikaði af gleði þegar það stakkst í ófreskjurnar. Hann drap einar fimm eða sex áður en hinar lögðu á flótta og skildu Vamba eftir hjá honum.
„Komið niður! Komið niður!“ hrópaði hann til dverganna uppi á greininni. „Standið ekki þarna aðgerðalausir og látið þær aftur spinna net sín um ykkur!“ Því að hann sá heilt ger kóngulóa sverma upp eftir öllum trjám þar í grennd og klifra út á allar greinar fyrir ofan dvergana.
Allir dvergarnir klöngruðust niður, stukku eða létu sig detta í eina kássu, en þeir voru ósköp máttfarnir og fæturnir varla gangfærir. En þarna voru þeir loksins tólf saman ef vesalings Vambi var talinn með en frændi hans Bifur og bróðir hans Bógur urðu að styðja hann til beggja handa. En allt í kringum þá var Bilbó á ferli dansandi í kringum þá og sveiflaði Sting meðan hundruð óðra kóngulóa gláptu á þá úr öllum áttum og ofan úr trjánum. Aðstaða þeirra félaga virtist skelfing vonlaus.
Svo hófst bardaginn. Sumir dverganna höfðu hnífa, aðrir lurka og allir komust þeir í grjótið og loks hafði Bilbó álfasverðið sitt. Hvað eftir annað hröktu þeir kóngulærnar burt og drápu margar þeirra. En þeir gætu ekki haldið það út til lengdar. Bilbó var að niðurlotum kominn og aðeins fjórir dverganna gátu kallast færir. Brátt myndi að því koma að þeir yrðu allir yfirbugaðir eins og vesælar flugur. Kóngulærnar voru þegar farnar að spinna mikla vefi allt í kringum þá frá einu tré til annars.
Að lokum sá Bilbó engin önnur ráð en að opinbera leyndardóm hringsins fyrir félögum sínum. Honum þótti það lakara, en hjá því varð ekki komist.
„Ég ætla nú að láta mig hverfa,“ sagði hann. „Ég geri það til að ginna kóngulærnar burt frá ykkur, ef ég get. Þið verðið að halda ykkur þétt saman í hóp og fara í hina áttina, þarna til vinstri, það er nokkurn veginn í áttina þangað sem við síðast sáum álfaeldana.“
Það var erfitt að fá þá til að meðtaka þennan undarlega boðskap svo þungt sem þeim var yfir höfðinu, auk þess sem hrópin og höggin af lurkunum og steinkastinu glumdu við um allt. En loks gat Bilbó ekki lengur beðið boðanna — kóngulærnar þrengdu æ meira að þeim. Skyndilega setti hann upp hringinn og dvergunum til mikillar furðu hvarf hann þeim sjónum.
Brátt kváðu aftur við söngvarnir um Æðarkobbu og Letilobbu inn á milli trjánna til hægri. Við það kom fát á kóngulærnar. Þær stöðvuðu framsókn sína, sumar æddu þegar af stað og gengu á hljóðið. Þegar þær heyrðu sig kallaðar Tuddapöddur urðu þær svo fokreiðar að þær misstu stjórn á sér. Og þá snerist Balinn, sem hafði skilið fyrirætlun Bilbós betur en hinir, til atlögu. Dvergarnir mynduðu þétta fylkingu og sendu grjóthríðina yfir kóngulærnar vinstra megin og brutust út úr hringnum. En hinum megin, langt fyrir aftan þá, þögnuðu hrópin og söngurinn skyndilega.
Dvergarnir vonuðu heitt og innilega að það táknaði ekki að Bilbó hefði verið yfirbugaður, en þeir urðu samt að halda áfram. En því miður komust þeir ekki nógu hratt. Þeir voru veikir og þreyttir og þeir gátu ekki annað en skakklappast áfram og margar kóngulærnar fylgdu þeim fast á eftir. Aftur og aftur þurftu þeir að snúa sér við og eiga í höggi við ófreskjurnar sem voru á hælum þeirra. Og nú þegar voru sumar kóngulærnar á ferð í trjáliminu fyrir ofan þá og renndu niður löngum klínugum þráðum.
Útlitið var orðið heldur svart aftur, þegar Bilbó birtist skyndilega aftur hjá þeim og réðist óvænt á furðu lostnar kóngulærnar frá hliðinni.
„Haldið áfram! Haldið áfram!“ skipaði hann. „Ég skal sjá um stungurnar!“
Og það gerði hann líka ósvikið. Hann þaut fram og aftur, sneiddi í sundur kóngurlóarþræði, hjó á lappirnar og rak sverðið í fituhlussurnar ef þær komu of nærri. Kóngulærnar tútnuðu út af vonsku og spýttu og froðufelldu og hvæstu óskaplegum fáryrðum. En þær voru nú orðnar dauðhræddar við Sting og þorðu ekki að nálgast, nú þegar hann var kominn aftur í bardagann. Svo það var sama hvað þær bölvuðu, bráð þeirra fjarlægðist þótt hægt færi en örugglega. Allt var þetta samt skelfileg íkoma og virtist taka margar klukkustundir. En að lokum þegar Bilbó fannst vart að hann gæti lyft hendi til fleiri sverðalaga, gáfust kóngulærnar upp á þessu, hættu að elta þá en sneru við vonsviknar til myrkra bústaða sinna.
Þá urðu dvergarnir þess varir að þeir voru komnir í jaðar rjóðurhrings þar sem álfabál höfðu logað. Þeir gátu ekki vitað, hvort það væri sami hringurinn og þeir höfðu komið að um nóttina. En svo virtist sem einhverjir varnartöfrar leyndust yfir staðnum sem kóngulærnar forðuðust. Hér varð dagsskíman grænleitari, greinalimið ekki eins þétt og ógnandi og hér gátu þeir hvílst og kastað mæðinni.
Þeir lágu hér um stund, móðir og másandi. Svo fóru þeir að spyrja áleitinna spurninga. Þeir vildu fá einhverjar skýringar á hvarfi Bilbós og þegar hann fór að segja þeim frá fundi hringsins, urðu þeir svo spenntir að þeir steingleymdu um stund eigin vandræðum og eymd. Sérstaklega var Balinn áfjáður í að heyra þetta og lét Bilbó segja sér alla söguna um Gollri með gátuleiknum og öllu og jafnvel að endurtaka sumt í frásögninni hvað eftir annað og ekki draga neitt undan um hringinn. En þar kom að birtan fór aftur að dofna og þá komu upp aðrar spurningar. Hvar skyldu þeir vera, hvar var skógarstígurinn, hvar gætu þeir fengið einhverja næringu og hvað áttu þeir næst til bragðs að taka? Þeir spurðu þessara spurninga aftur og aftur og það var eins og þeir byggjust við því að Bilbó hefði ráð undir rifjum við öllu. Af því megið þið ráða hvað álit þeirra á herra Bagga hafði hækkað. Þeir voru nú farnir að bera mestu virðingu fyrir honum (eins og Gandalfur hafði líka spáð). Nú hreinlega væntu þeir þess af honum að hann fyndi einhverja undraaðferð til að bjarga þeim og í því var meiri tilætlunarsemi en í venjulegu nöldri. Þeim var nú dagljóst, að þeir væru dauðir nema fyrir tilverknað hobbitans og gátu ekki nógsamlega þakkað honum fyrir björgunina. Sumir máttu til með að standa á fætur til að geta hneigt sig niður að jörðinni fyrir honum, þó þeir misstu við það jafnvægið og yltu um koll og gætu ekki reist sig við fyrr en eftir góða stund. Og þó þeir hefðu nú fengið að vita sannleikann um hvarf Bilbós, dró það ekki úr áliti þeirra á honum, því að þeir höfðu orðið vitni að því að hann hafði til að bera vit og áræði, ekki síður en heppni og töfrahring — og allt voru það mikilvægir eiginleikar. Satt að segja fóru þeir svo hástemmdum orðum um Bilbó að hann fór jafnvel sjálfur að trúa því að hann væri djarfur ævintýramaður, þó sjálfsagt hefði hann orðið enn borubrattari, ef þeir hefðu átt eitthvað til að éta.