Выбрать главу

En um það tjóaði ekki að tala. Þeir áttu hreint engan mat, ekki nokkurn skapaðan hlut, og enginn þeirra var heldur fær um að fara og reyna að afla neinna matfanga, né heldur höfðu þeir þrek til að leita uppi Skógarstíginn, týnda stíginn. Það var alveg fyrir það skorið að Bilbó gæti fengið nokkra nýja hugmynd í sitt þreytta höfuð. Hann sat bara og starði fram fyrir sig á endalaus trén og brátt sló þögn á þá alla. Alla nema Balin. Löngu eftir að hinir voru þagnaðir og höfðu látið aftur augun hélt hann áfram að muldra og klúkka við sjálfan sig:

„Gollrir! Ja, ég er aldeilis hlessa. Þannig fór hann þá að því að laumast framhjá mér, eða skyldi ekkí? Jú, nú veit ég það! Hann laumaðist hljóðlega hann herra Baggi? Og hnapparnir hrutu yfir öll þrepin! Góði gamli Bilbó – Bilbó – Bilbó – bó – bó –“ Svo datt hann út af og varð alger þögn um hríð.

En skyndilega rumskaði Dvalinn við, glennti upp glyrnurnar og gægðist í kringum sig. „Hvar er Þorinn?“ spurði hann.

Þetta var hræðilegt áfall. Að hugsa sér, nú voru þeir bara þrettán, tólf dvergar og hobbitinn sá þrettándi. Hvar í ósköpunum skyldi Þorinn vera? Þeir veltu því fyrir sér, í hvaða voða hann hefði lent, göldrum eða kolsvörtum skrímslum og það fór skelfingarhrollur um þá, þar sem þeir lágu villtir og vegalausir í skóginum. En þeir voru svo úrvinda að þeir duttu aftur út af hver á fætur öðrum inn í óþægilegan svefn fullan af hryllingsdraumum, meðan kvöldið hneig inn í nýja kolanótt og þar verðum við að yfirgefa þá í bili, of lasburða og þreytta til að hafa einu sinni framtak í sér til að setja á varðgát eða skiptast á um vaktir.

Þorinn hafði verið gripinn miklu fyrr en þeir. Þið munið kannski að fyrst þegar Bilbó steig inn í birtuhringinn kom yfir hann svefn og hann datt niður eins og dauður? Næst hafði Þorinn stigið fram og um leið og ljósin slokknuðu datt hann líka niður eins og steinn fyrir einhverjum töfrum. Allur hávaðinn frá dvergunum þegar þeir villtust í myrkrinu, neyðaróp þeirra, þegar kóngulærnar gripu þá og bundu, allur bardagahvinur næsta dags hafði farið framhjá honum án þess að hann hefði hugmynd um það. Síðan höfðu Skógarálfarnir komið að honum, bundið hann og borið burtu.

Veislufólkið var að sjálfsögðu Skógarálfar. Þeir eru ekki vondir í sjálfu sér, en galli er, hvað þeir eru tortryggnir við ókunnuga. Og þó þeir byggju yfir mögnuðum töfrum, voru þeir enn í þá daga mjög á verði. Þeir voru ólíkir Háálfunum í Vestri, hættulegri og ekki eins djúpvitrir. Því að þeir voru flestir (ásamt dreifðum frændflokkum í hæðum og fjöllum) komnir af þeim fornu ættflokkum sem aldrei höfðu farið til Fagurheima í Vestri. En þangað héldu aftur á móti Ljósálfar og Djúpálfar og Sæálfar og lifðu þar öldum saman og urðu æ fegurri, vitrari og fróðari og fundu upp fullkomnari töfra og þá miklu list að búa til fallega og þarflega hluti, áður en sumir þeirra sneru aftur til Víðheims. Þar höfðu Skógarálfarnir hins vegar hafst við allan tímann í ljósaskiptum okkar sólar og tungls en vænst þótti þeim um stjörnurnar. Þeir breiddust út um stóru skógana sem voru þá svo víðfeðmir í nú löngu týndum löndum. Mest héldu þeir sig þó í skógarjöðrunum, til að eiga greiða leið til útrása, stundum til veiða eða einfaldlega til að fara í útreiðartúra eða hlaupa um víðavang í tunglskini eða stjörnubirtu. En eftir tilkomu Manna drógu þeir sig æ meira í hlé inn í drungann og dimmuna. En þeir voru allt að einu álfar og þar með gott fólk.

Í stórum helli, nokkrum mílum innan marka Myrkviðar að austanverðu bjó á þessum tíma voldugasti konungur þeirra. Rétt við risavaxnar steindyr hans rann á ein niður úr skógivöxnum fjöllunum og streymdi áfram út á láglendið og mýrarnar fyrir neðan háskógana. Út frá þessum stóra helli greindust óteljandi gangar og smáskútar í allar áttir, þeir hlykkjuðust langar leiðir neðanjarðar og mátti finna þar mörg herbergi og víða sali. En þessi húsakynni voru á allan hátt bjartari og heilnæmari en nokkrir drísilbústaðir og heldur ekki eins djúp og hættuleg. Í rauninni bjuggu líka flestir þegnar konungsins og stunduðu veiðar í opnum skóginum og gerðu sér hús og kofa á jörðinni eða uppi í greinunum. Beykitrén voru þeirra eftirlætisbústaðir. Konungshellirinn var einskonar höll þeirra, geymslustaður fjársjóðanna og virki álfaþjóðarinnar gegn utanaðkomandi árásum.

En þar djúpt niðri var líka að finna dyflissur fyrir fanga. Og það var einmitt niður í þessar holur sem þeir drógu Þorin — og fóru engum silkihönskum um hann, því að þeim var lítt um dverga gefið og litu jafnvel á þá sem óvini. Forðum daga höfðu skógarálfarnir jafnvel háð stríð við dvergana og sökuðu þá um að hafa dregið sér af fjársjóðum þeirra. Hitt er ekki nema réttlátt að taka fram að dvergar höfðu aðra sögu að segja og kváðust aðeins hafa tekið það sem þeim bar, því að þáverandi álfakóngur hafði samið við þá um að smíða skrautmuni úr hrágulli sínu og silfri, en eftir á ætlaði hann að svíkja þá um laun sín. Eini veikleiki álfakóngsins var hve hann var áfjáður í fjársjóði, einkum var hann æstur í silfur og hvíta gimsteina og þó hann ætti ærna fjársjóði, ágirntist hann æ meira og meira, af því að hann fann til þess að jafnast ekki í þessu á við aðra álfahöfðingja til forna. Þó stunduðu þegnar hans hvorki námugröft né smíðuðu málma eða gimsteina og höfðu engan áhuga á verslun eða jarðyrkju. Öllum dvergum var fullkunnugt um þessa óvild, þó ætt Þorins hefði hvergi komið nærri þeirri gömlu deilu sem ég var að lýsa. En Þorinn reiddist mjög þeirri illu meðferð sem hann mátti þola eftir að þeir léttu álögunum af honum svo hann kæmist til meðvitundar og hann var staðráðinn í því að ekkert orð um gull eða dýrgripi skyldi verða dregið upp úr sér.

Konungurinn leit þungum svip á Þorin þegar hann var færður fyrir hann og spurði hann spjörunum úr. En Þorinn vildi aðeins segja að hann væri sveltandi.

„Hvers vegna reyndir þú og þínir menn þrisvar sinnum að ráðast á þjóð mína við hátíðarhöld?“ spurði kóngurinn.

„Við réðumst ekkert á þá,“ svaraði Þorinn. „Við komum aðeins til að beiðast matarbita, því að við vorum sveltandi.“

„Hvar eru vinir þínir núna og hvað eru þeir að hafast að?“

„Ég hef ekki hugmynd um það, en ég býst við að þeir séu sveltandi í skóginum.“

„Hvað voruð þið að gera í skóginum?“

„Leita að mat og drykk því að við vorum að deyja úr hungri og þorsta.“

„En hvað voruð þið yfirhöfuð að flækjast í skóginum?“ spurði kóngurinn reiðilega.

En þá lokaði Þorinn sínum hvofti og fékkst ekki lengur orð upp úr honum.

„Gott og vel!“ sagði kóngurinn. „Takið hann þá burt og hafið hann í haldi þangað til hann fæst til að segja okkur sannleikann, sama þó það verði í heila öld.“

Þá bundu álfarnir Þorin og lokuðu hann niðri í einum af neðstu skútunum sem læst var með styrktum dyrum, og skildu hann þar eftir. En þeir færðu honum mat og drykk, meira en nóg, þó ekki væri hann sérlega bragðgóður. Því að Skógarálfar voru engir dríslar, þeir komu sæmilega vel fram jafnvel við sína verstu óvini, ef þeir handsömuðu þá. Risakóngulærnar voru einu lifandi verurnar sem þeir sýndu enga miskunn.

Og þarna lá nú vesalings Þorinn í dyflissu konungs. Þrátt fyrir allt mátti hann vissulega vera þakklátur fyrir brauðið, kjötið og vatnið sem honum var borið. En þegar hann komst yfir þakklætið, fór hann að velta því fyrir sér hvað orðið hefði af sínum vesalings ógæfusömu vinum. Hann átti nú brátt eftir að komast að því, en frá því verður hermt í næsta kafla,. Þar upphefst enn nýtt ævintýri, og þar mun hobbitanum enn einu sinni gefast tækifæri til að sýna og sanna að nokkur dugur sé í sér.