Выбрать главу

IX. KAFLI

Tollfrjálsar tunnur

Daginn eftir bardagann við kóngulærnar gerðu Bilbó og dvergarnir síðustu örvæntingarfullu tilraunina til að finna sér leið út úr skóginum, áður en þeir dæju úr hungri og þorsta. Þeir rifu sig upp og stauluðust þangað sem átta af þeim þrettán töldu með handauppréttingu vera réttu leiðina í áttina upp á stíginn. En þeir komust aldrei að því, hvorir höfðu rétt fyrir sér. Það sem ætla mátti að væri dagur í skóginum var farið að dofa niður í myrkur nætur, þegar skyndilega birti upp af ótal kyndlum allt umhverfis þá eins og af hundruðum rauðra stjarna. Og fram hlupu Skógarálfar vopnaðir bogum og spjótum og skipuðu dvergunum að staðnæmast.

Um viðnám var ekki að ræða. Dvergarnir voru svo illa á sig komnir að þeir voru því fegnastir að láta handtaka sig, og auk þess hefðu litlir kutar þeirra, einu vopnin sem þeir höfðu, komið að litlu haldi gegn örvaskeytum álfanna sem voru svo markvissir að þeir hefðu getað hæft fuglsauga í kolamyrkri. Þeir félagarnir námu því einfaldlega staðar, settust niður og biðu þess sem verða vildi — allir nema Bilbó sem smeygði hringnum á fingur sér og laumaðist ósýnilegur útundan. Því var það að meðan álfarnir bundu dvergana í langa lest hvern aftan í annan og töldu þá, fundu þeir hvergi hobbitann né gátu talið hann með.

Ekki gátu þeir heldur heyrt til Bilbós né orðið hans á neinn hátt varir, þegar hann trítlaði áfram góðan spöl fyrir aftan logandi blys þeirra, þar sem þeir leiddu fangana gegnum skóginn. Þeir bundu fyrir augu allra dverganna, sem skipti þó litlu máli, því að ekki einu sinni Bilbó með sínum opnu augum, gat gert sér neina grein hvert þeir voru að fara. Fyrir nú utan það líka að hvorki hann né hinir höfðu hugmynd um, hvaðan þeir voru að koma. Bilbó mátti hafa sig allan við að halda í við blysferðina, því að álfarnir ráku dvergana áfram eins hratt og þeir komust, veika og uppgefna eins og þeir voru. Konungurinn hafði skipað þeim að hraða sér. Skyndilega stöðvaðist flokkurinn og hobbitinn náði þeim áður en þeir fóru yfir brúna. Hún lá yfir ána að hliðum konungs. Áin streymdi fram dimm og stríð og þegar yfir brúna var komið, blöstu voldug hliðin við fyrir framan stóran hellismunna sem gekk inn í bratta brekku, klædda trjágróðri. Hérna teygðist hinn mikli beykiskógur allt niður á árbakkann og sum trén stóðu jafnvel með ræturnar úti í ánni.

Álfarnir ráku nú fanga sína yfir brúna, en Bilbó hikaði við fyrir aftan. Honum leist ekki allskostar á útlit hellismunnans, og loks ákvað hann þó á síðustu stundu að skiljast ekki við vini sína, heldur skjótast yfir brúna á hæla síðustu álfanna, áður en hinar miklu hliðgrindur konungsins lokuðust aftan við þá með þungu glamri.

Fyrir innan tóku við gangar upplýstir af röðum rauðra kyndilljósa og álfaverðirnir tóku að kyrja göngulög þar sem þeir þrömmuðu áfram eftir sveigðum, krókóttum og bergmálandi göngum. Þau voru allt öðruvísi en í dríslabyggðinni, lágu grynnra niður í jörðina og um þau lék nóg af fersku lofti. Komið var í stórsal sem súlurnar voru höggnar út úr lifandi berginu og þar sat álfakóngurinn á hásæti úr útskornum við. Á höfði sér bar hann kórónu með berjum og roðnuðu laufi, því nú var farið að svífa að hausti. Á vorin bar hann aftur á móti kórónu úr skógarblómum. Í hendi sér hafði hann útskorinn eikarstaf.

Fangarnir voru leiddir fram fyrir hásætið og þó hann horfði illúðlega á þá, sagði hann mönnum sínum að leysa þá úr böndum, því að þeir væru svo illa til reika og þreyttir. „Við þurfum heldur engin bönd á þá hérna,“ sagði hann. „Það sleppur enginn út um töfradyr mínar, sem einu sinni er kominn inn fyrir þær.“

Hann yfirheyrði dvergana lengi og lævíslega um erindi þeirra, hvert þeir hefðu verið að fara og hvaðan þeir kæmu. En hann fékk lítið meira upp úr þeim en Þorni áður. Þeir voru þurrir á manninn og beiskir yfir því hvernig komið var fram við þá og reyndu ekki einu sinni að sýna kurteisi.

„Hvað höfum gert af okkur, herra konungur?“ spurði Balinn sem nú var elstur fyrir hópnum. „Er það eitthvert afbrot að villast í skógi, verða svangur og þyrstur og lenda í kasti við risakóngulær? Eru þessar kóngulær kannski tamin húsdýr ykkar eða gæludýr, úr því að þið reiðist okkur svo fyrir að við drápum þær í hrönnum.“

Við slíkum málflutningi brást konungurinn hinn versti og svaraði: „Það er alvarlegt brot að ryðjast án leyfis inn í mitt ríki. Gleymið ekki að þið voruð í konungsríki mínu og þið notuðuð þann veg sem þjóð mín lagði? Þrisvar sinnum eltuð þið og réðust á þjóð mína í skóginum og ærðuð upp kóngulærnar með uppnámi ykkar og gauragangi: Eftir alla þá röskun sem þið hafið valdið á ég kröfu á að fá að vita hvað þið eruð að flækjast hér, og ef þið segið mér ekki allt af létta, verð ég að halda ykkur öllum í fangelsi, þangað til þið hafið lært að sýna meiri skilning og mannasiði!“

Síðan gaf hann vörðunum fyrirmæli um að hver dvergur um sig skyldi innilokaður í sínum einangrunarklefa, þeir skyldu njóta matar og drykkjar, en fengju ekki að fara út úr holu sinni, fyrr en einhver þeirra að minnsta kosti fengist til að leysa frá skjóðunni um allt sem hann vildi vita. En hann leyndi þá því að Þorinn væri líka fangi hans. Það varð hlutverk Bilbós að komast að því.

Það tók líka á taugarnar fyrir vesalings herra Bagga að búa þarna aleinn í hellinum, langalengi og alltaf í felum. Hann þorði aldrei að taka af sér hringinn og varla að festa svefn, jafnvel þó hann træði sér inn í dimmustu og fjarlægustu skotin sem hann gat fundið. Til þess að hafa eitthvað fyrir stafni byrjaði hann að ráfa ósýnilegur fram og aftur um höll Álfakonungsins. Hliðunum var lokað með töfrum, en stundum slapp hann út ef hann var snöggur þegar tækifæri gafst. Flokkar Skógarálfa, stundum með konunginn í fararbroddi, riðu við og við út til veiða eða til að sinna einhverjum verkum í skógunum eða í landinu þar fyrir austan. Þá gat Bilbó, ef hann var nógu liðugur, rétt sloppið út fyrir aftan þá, þó það gæti verið hættulegt. Nokkrum sinnum var hann næstum orðinn undir í hliðinu þegar grindurnar skullu niður á eftir síðasta álfinum. Hinsvegar þorði hann ekki að blanda sér inn í hópinn ef ske kynni að skuggi hans sæist (þó hann væri ósköp mjósleginn og þokukenndur í ljósinu frá kyndlunum) eða af ótta við að einhver rækist á hann svo hann uppgötvaðist. Og þegar hann fór út um hliðið, sem ekki var mjög oft, var það til lítils. Hann vildi ekki yfirgefa dvergana og satt að segja vissi hann ekki hvert í heiminum hann ætti að fara án þeirra. Hann gat ekki haft við álfunum ríðandi á veiðum allan tímann sem þeir voru burtu, svo að hann komst aldrei að því hvaða leið lægi út úr skóginum heldur ráfaði bara eymdarlega um skóginn, lafhræddur við að villast áður en hann fengi tækifæri til að snúa aftur inn. Þá sótti líka svengdin að honum, ef hann fór út, því hann var enginn veiðimaður, en inni í hellunum tókst honum alltaf að finna sér eitthvað til viðurværis með því að stela mat úr búri eða af borði, þegar enginn sá til.

„Ég er eins og innilokaður innbrjótur sem kemst ekki burt, en verð stöðugt að halda áfram að stela úr sama húsinu dag eftir dag,“ hugsaði hann. „Þetta er ömurlegasti og leiðinlegasti hluti alls þessa andstyggilega, þreytandi og óþægilega ævintýris! Ég vildi óska að ég væri aftur kominn heim í hobbitaholuna mína og sæti þar við hlýjan arininn og lampaljósið!“ Oft óskaði hann þess líka að hann gæti komið orðsendingu með hjálparkalli til vitkans, en að sjálfsögðu var það gjörsamlega útilokað. Brátt gerði hann sér grein fyrir að ef koma ætti einhverri hreyfingu á málin, þá yrði hann sjálfur að gera það einn og óstuddur.