Loksins eftir eina eða tvær vikur af þessu felulífi, þar sem hann fylgdist með og elti varðmennina út um allar trissur, komst hann að því hvar hinum einstöku dvergum var haldið í prísund . Hann fann alla tólf klefa þeirra sitt í hvorum hluta hallarinnar og bráðlega var hann farinn að rata prýðilega um gangana. Þá kom það honum mjög á óvart eitt sinn er hann hlýddi á tal varðanna, að enn einn dvergur myndi auk þess vera í fangelsi, en hafður í haldi í sérstaklega djúpu og dimmu svartholi. Hann gat sér þess að sjálfsögðu strax til að þar myndi vera Þorinn og bráðlega fékk hann staðfestingu á því. Og eftir margbrotna erfiðleika tókst honum líka að finna dyflissu hans og jafnvel að skiptast á orðum við þennan fyrirliða dverganna, þegar enginn var þar á ferli.
Þorinn var orðinn svo niðurbrotinn að honum var næstum runnin reiðin yfir eigin ógæfu. Hann var jafnvel farinn að gera því skóna að segja kónginum allt af létta um fjársjóðinn mikla, tilgang leiðangursins (og fátt sýnir nú betur hve djúpt hann var sokkinn). En þá heyrði hann allt í einu mjóróma rödd Bilbós gegnum skráargatið. Hann gat varla trúað sínum eigin eyrum. Brátt gerði hann það þó upp við sig að ekki væri um að villast og þrýsti sér að dyrunum og átti langt hvísl við hobbitann hinum megin við hurðina.
Þannig vildi það til að Bilbó gat leynilega borið orð Þorins til allra hinna innilokuðu dverganna, sagt þeim að foringi þeirra væri líka í haldi skammt undan og að enginn þeirra mætti upplýsa konunginn um tilgang ferðarinnar, nema því aðeins að Þorinn gæfi þeim merki um það. Því að hann hafði aftur hert upp hugann, þegar hann frétti hvernig hobbitinn hefði bjargað félögum sínum frá kóngulónum og þar með varð hann jafn staðfastur og áður í að leysa sig ekki úr haldi með loforðum við konunginn um hlutdeild í fjársjóðunum, fyrr en allar vonir um að sleppa burt með einhverjum hætti væru brostnar. Það er að segja þangað til hinn merkilegi herra Ósýnn Baggi (sem hann hafði nú fengið mikið álit á) hefði algjörlega gefist upp á því að finna nokkra útleið.
Hinir dvergarnir voru allir fullkomlega sáttir við orðsendinguna. Öllum fannst þeim að eigin hlutdeild í fjársjóðnum (sem þeir voru þegar farnir að telja sína eign, þrátt fyrir vandræði sín og drekann ósigraðan) myndi rýrna ákaflega ef Skógarálfarnir fengju líka part af honum, og treystu því alveg á handleiðslu Bilbós. Og takið eftir — alveg eins og Gandalfur hafði spáð! Kannski var þetta líka ástæðan fyrir því að vitkinn hafði yfirgefið þá, að hann vildi láta á þetta reyna.
Bilbó var aftur á móti ekki nærri eins bjartsýnn og þeir. Sérstaklega var honum meinilla við að hinir allir skyldu þannig á hann treysta. Hann vildi ekki taka á sig slíka ábyrgð. Þá óskaði hann sér þess innilega að vitkinn væri einhvers staðar liðtækur. En slíkt var náttúrulega út í hött. Sjálfsagt var Gandalfur langt í burtu handan við skuggalegar fjarlægðir Myrkviðar. Og Bilbó sat og braut og braut heilann í þúsund stykki, þangað til höfuðið á honum var að því komið að springa, en aldrei kviknaði á perunni. Svona ósýnilegur töfrahringur var að vísu þarfaþing en hann gat ómögulega gagnast til að frelsa þá alla fjórtán. En auðvitað, eins og þið hafið sjálfsagt getað ímyndað ykkur, bjargaði hann vinum sínum að lokum og nú segir frá því hvernig það gerðist.
Dag nokkurn þegar Bilbó var á ferli og snuðrandi um allt, komst hann á snoðir um merkilegan hlut. Stórhliðið var ekki eini inngangurinn að hellunum. Vatnsrás rann undir neðsta hluta hallarinnar og sameinaðist Skógánni nokkru austar, fyrir neðan bröttu hlíðina við aðalmunna hellanna. Þar sem hún kom út úr fjallinu var vatnshlið. Þar náði klettaloftið næstum niður að yfirborði vatnsins og mátti fella hliðgrind alveg niður á botn rásarinnar til að hindra að nokkur kæmist þar í gegn. En oft var grindin höfð opin því að töluverðir aðdrættir og flutningar fóru fram um þetta vatnshlið. Ef einhver kæmi inn um opið hefði blasað við honum dimm grófhöggin neðanjarðarrás djúpt inn í bergið. En á einum stað þar sem rásin rann undir hellana hafði gat verið höggvið í loftið og þar komið fyrir stórum fellihlerum úr eik. Þeir opnuðust upp á við inn í vínkjallara konungsins. Þar stóðu tunnur í löngum röðum, því að Skógarálfar og sérstaklega konungur þeirra, voru sólgnir í vín, þótt enginn vínviður yxi í skóginum. Því varð að flytja vínið og ýmsan annan varning inn langt, frá frændliði þeirra í Suðri eða frá vínekrum Manna í fjarlægum löndum.
Úr felum bak við eina stærstu ámuna uppgötvaði Bilbó fellihurðirnar og hvernig þær verkuðu og þar lá hann á hleri og heyrði á mál þjónustumanna konungsins og komst þannig að því, hvernig vínið og annar varningur var fluttur upp árnar eða landleiðis til og frá Langavatni. Svo virtist sem þar stæði enn Mannaborg, sem væri reist á brúm eða stólpaundirstöðum langt úti í stöðuvatninu til varnar gegn hverskyns óvinum og sérstaklega drekanum í Fjallinu. Frá Vatnaborginni eins og hún var kölluð, voru tunnurnar fluttar upp eftir Skógá. Stundum voru þær aðeins bundnar saman í stóra sjálffljótandi flota sem stjakað var eða róið upp eftir ánni, stundum hlaðið á flatbytnur.
Þegar tunnurnar höfðu hinsvegar verið tæmdar, köstuðu álfarnir þeim niður um fellidyrnar, opnuðu vatnshliðið og þær flutu með vatnsrásinni og skoppuðu áfram með henni þangað til straumurinn bar þær niður ána að stað þar sem nes myndaðist í bakkann, nálægt austurjaðri Myrkviðar. Þar var þeim safnað saman, bundnar í flota og fleytt áfram áleiðis til Vatnaborgar sem stóð nálægt ósi Skógár í Langavatn.
Um stund sat Bilbó kyrr og velti fyrir sér þessu vatnshliði og hvort hægt væri að skipuleggja undankomu vina hans um það og smámsaman fór að kvikna örvæntingarfullur neisti að flóttaáætlun.
Búið var að færa föngunum kvöldmatinn. Verðirnir fóru um gangana og tóku niður blysin svo allt var í svarta myrkri. Bilbó heyrði þá til ráðsmanns konungs sem bauð foringja varðliðanna góða nótt.
„En skrepptu nú með mér,“ sagði hann „og smakkaðu nýja vínið sem var að koma inn. Ég á heilmikið verk fyrir höndum í nótt að koma frá mér tómum tunnum, svo við skulum fá okkur sopa til þess að verkið gangi betur.“
„Ágætt,“ sagði varðliðsforinginn. „Ég skal smakka á víninu með þér til að sjá hvort það hæfir konungsborði. Það á að vera mikil veisla í kvöld og það gengur ekki að senda þangað lélegt vín!“
Þegar Bilbó heyrði þetta varð hann óður og uppvægur, því að þetta var ótrúleg heppni. Óvænt sá hann allt í einu opnast möguleika á að reyna fífldjarfa flóttaáætlun. Hann fylgdi álfaforingjunum tveimur eftir er þeir fóru inn í lítinn kjallaraklefa og settust við borð en á því stóðu tvær stóreflis drykkjarkönnur. Brátt fóru þeir að drekka, urðu háværir og hlógu mikinn. Aftur var Bilbó merkilega heppinn. Helst þyrfti vínið að vera sterkt svo að svefninn sækti á skógarálfana. Og þetta vín reyndist einmitt vera sérlega höfug uppskera úr stórum vínekrum Dúrvinju, sem ekki var ætlað óbreyttum hermönnum eða þjónustufólki, heldur aðeins veislum konungsins og þar skyldi það sopið úr litlum staupum en ekki úr stórum vínkönnum ráðsmannsins.