Brátt fór aðalvarðforinginn að dotta og draga ýsur, svo laut hann fram á borðið og steinsofnaði. Matráðsmaðurinn hélt þó áfram að tala og hlæja með sjálfum sér um stund, án þess að taka eftir að hinn var sofnaður en brátt kom svefninn líka yfir hann og hann seig niður á borðið og fór að hrjóta við hliðina á vini sínum. Þá læddist hobbitinn að þeim og áður en við var litið var yfirvörðurinn laus við lyklakippu sína en Bilbó á hlaupum eins hratt og hann þorði eftir göngunum í áttina að fangaklefunum. Lyklakippan var hinsvegar æði þung fyrir veikbyggða arma hans og um leið var hann sífellt með lífið í lúkunum. Þótt hringurinn gerði hann ósýnilegan, skall hátt og glamraði í lyklunum, og var hann skjálfandi á beinunum um að rekast á einhvern.
Fyrst opnaði hann fangadyr Balins og læsti þeim strax vandlega aftur, þegar dvergurinn var kominn út. Balinn varð steinhissa eins og þið getið ímyndað ykkur, en feginn var hann að komast úr þrengslunum. Hann vildi doka við, spyrja allskyns spurninga og fá að vita hvað Bilbó væri að bralla og allt um það.
„Til þess er enginn tími nú að fara neitt að rökræða um hlutina!“ sagði hobbitinn. „Fylgdu mér bara! Við verðum allir að halda saman og ekki hætta á það að missa hver af öðrum. Við verðum allir að komast sameiginlega undan eða enginn, og þetta er eina tækifærið. Ef upp kemst um okkur, má hamingjan vita, hvar konungurinn næst læsir ykkur inni, hlekkjaða bæði á höndum og fótum, býst ég við. Vertu því ekkert að þrefa og þvæla heldur hlýddu mér!“
Og þannig hélt Bilbó áfram frá einum dyrum til annarrar þar til þeir voru orðnir tólf sem fylgdu honum — enginn þeirra var þó til neinna stórræðanna nýstignir út úr myrkrinu og langri fangavist. Hjartað í Bilbó tók kipp í hvert skipti sem einhver þeirra rak sig á eða ræskti sig eða þeir voru að pískra eitthvað í myrkrinu. „Fjandans læti eru alltaf í þessum asnalegu dvergum!“ hugsaði hann með sjálfum sér. En allt fór þó vel og engir verðir urðu á leið þeirra. Það vildi einmitt svo vel til að þetta kvöld var haldin mikil hausthátíð í skóginum og þá einnig í höllinni fyrir ofan. Næstum allir kóngsins menn voru að skemmta sér.
Að lokum eftir mikið fum og fát komu þeir að svartholi Þorins langt niðri í djúpinu, en sem betur fer þó ekki mjög langt frá vínkjallaranum.
„Ótrúlegt!“ sagði Þorinn þegar Bilbó hvíslaði að honum að koma út og slást í vinahópinn. „Gandalfur hafði sannarlega rétt fyrir sér eins og venjulega! Þú ert sá langsamlega mesti snilldar innbrjótur sem hægt er að hugsa sér, og stendur þig einmitt best þegar mest liggur við. Við munum vissulega verða þér til eilífðar þjónustufúsir hvað sem í skerst hér eftir. En hvað er næst til ráða?“
Bilbó sá nú að hann komst ekki lengur hjá því að útskýra hugmynd sína eins og hann best gæti í stuttu máli. Hann var þó ekki viss um hvernig dvergarnir tækju áætlun hans. Ótti hans reyndist heldur ekki ástæðulaus, því að þeim leist hreint ekkert á blikuna og fóru hástöfum að malda í móinn, þrátt fyrir hættuna.
„Við verðum allir meiddir og marðir og sjálfsagt drukknaðir líka!“ nöldruðu þeir. „Við héldum að þú hefðir einhverja skynsamlega lausn, úr því að þú komst yfir lyklana. En þetta er alger fásinna!“
„Jæja, þið um það!“ sagði Bilbó miður sín og móðgaður. „Jæja, komið þá, ég skal fylgja ykkur aftur í notalegu fangaklefana ykkar, og loka ykkur tryggilega inni aftur svo þið getið setið þar í náðum og haft nægan tíma til að velta aftur upp betri lausnum — en hitt er ég hræddur um, að ég fái seint annað tækifæri til að ná lyklunum, jafnvel þó ég reyndi.“
Þetta dugði, svo þeir létu róast. Á endanum urðu þeir að sjálfsögðu að gera allt eins og Bilbó ætlaðist til, því að það var augljóslega vonlaust að þeir gætu ratað upp á efri hæðirnar og farið að berjast og brjótast út um hlið sem lokuðust af töfrum. Og það var síst vænlegra að halda áfram þessu nöldri niðri í göngunum þangað til þeir yrðu aftur gripnir. Þeir áttu því einskis annars úrkosta en skreiðast á eftir hobbitanum niður í neðsta kjallarann. Þeir fóru út um dyr og komu þar auga á varðliðsforingjann og ráðsmanninn hrjótandi, hamingjusama með sælunnar gleðisvip á andliti. Dúrvinjuvínið veitir sannarlega djúpan og skemmtilegan dúr. Annar svipur yrði á andliti yfirvarðliðans daginn eftir, enda þótt Bilbó, af einskærri góðmennsku læddist inn til hans og festi lyklakippuna aftur við belti hans, áður en þeir héldu áfram.
„Kannski gæti það bjargað honum út úr hluta af þeim vandræðum sem bíða hans,“ sagði herra Baggi við sjálfan sig. „Hann er ekkert slæmur náungi, og hefur komið vel fram við fangana. Nú þegar lyklakippan er óhreyfð, botna þeir ekkert í því hvað hefur gerst. Þeir halda þá sjálfsagt að einhverjum svartagaldri hafi verið beitt svo allir fangarnir gætu gengið í gegnum lokaðar dyr og horfið. Já horfið! En við verðum að hafa hraðar hendur, ef það dæmi á að geta gengið upp!“
Balni var skipað á vörð yfir foringjanum og ráðsmanninum til að vara hina við ef þeir rumskuðu. Hinir fóru allir niður í vínkjallarann að fellihurðunum. Þeir máttu engan tíma missa. Bilbó vissi að áður en langt um liði myndi fjöldi álfa koma niður til að hjálpa ráðsmanninum að koma tómu tunnunum gegnum dyrnar og út í vatnsrásina. Tunnurnar stóðu þarna þegar tilbúnar í röðum á miðju gólfinu og átti aðeins eftir að ýta þeim út. Sumt voru víntunnur en þær komu ekki að miklu gagni því að erfitt var að ná botninum úr þeim nema með miklum hávaða og engu auðveldara að festa botnana aftur í nema með díxilhöggum. En þar voru líka margar tunnur sem notaðar höfðu verið undir ýmsan annan varning svo sem smjör, epli og hvaðeina annað sem þurfti til hallar konungs.
Þeir fundu strax þrettán slíkar tunnur nógu stórar til að taka einn dverg. Sumar þeirra voru raunar í stærra lagi og þegar dvergarnir skriðu ofan í þær höfðu þeir mestar áhyggjur af hvað þeir myndu kastast og skella til inni í þeim og það þó Bilbó gerði allt sem hann gat til að troða hálmi og öðru stoppi til að búa sem þægilegast um þá í skyndi. Loks hafði tólf dvergum verið komið fyrir en af þeim var erfiðast að eiga við Þorin, sem velti sér og iðaði á alla kanta í sinni tunnu, urrandi eins og stór hundur í alltof litlum hundakofa. Síðastur kom svo Balinn af vaktinni og var með eilífðar múður út af því að það vantaði loftgöt, sagðist vera að kafna jafnvel áður en lokið var sett á. Bilbó hafði gert allt hvað hann gat til að stífla göt á hliðum tunnanna og festa lokin eins örugglega á og hægt væri, og nú stóð hann einn eftir, hlaupandi til og frá við að leggja síðustu hönd á innpökkunina og vonaði gegn öllum líkum að áætlunin tækist.
Ekki mátti það heldur tæpara standa. Aðeins um mínútu eða svo eftir að lok Balins hafði smollið í heyrðist ómur af röddum og sáust blaktandi ljós. Nokkrir álfar komu hlæjandi og rausandi niður í vínkjallarana og sungu hendingar úr gamansöngvum. Þeir komu úr glöðum fagnaði í einum salanna og vildu sem skjótast snúa aftur í gleðskapinn.
„Hvar er gamli Galíon ráðsmaður?“ sagði einn þeirra. „Ég sá hann ekki við borðið í nótt. Hann ætti að vera kominn til að segja okkur fyrir verkum.“
„Það væri ljótan ef sú letibykkja yrði of sein,“ sagði annar. „Mig langar ekkert til að dóla hérna niðri meðan söngurinn ómar uppi!“