Á meðan þeir sungu fann hobbitinn fara um sig heillun til fagurra muna af höndum görva af list og töfrum. Það var sem hann fyndi logandi og afbrýðisama ást, sem var þráin í hjörtum dverganna. Svo var eins og eitthvert Tókaeðli vaknaði innra með honum og hann var gripinn löngun til að fara og sjá háu fjöllin, heyra hvininn í furutrjánum og niðinn í fossunum og kanna hellana, mega handleika sverð í stað göngustafs. Honum varð litið út um ljórann. Stjörnurnar voru sem óðast að koma í ljós á myrkum himninum yfir trjátoppunum. Honum fannst þær minna á glitrandi gimsteina dverganna lýsandi í dimmum hellum. Skyndilega brá fyrir loga í skóginum handan Ár — sjálfsagt einhver bara að kveikja bál í skóginum — en hann ímyndaði sér, að rænandi dreki væri að lenda á kyrrlátri hæðinni og setja allt í bál og brand. Hann varð gripinn hrolli og jafnskjótt varð hann aftur hinn hversdagslegi hr. Baggi í Baggabotni undir Hól.
Hann stóð upp skjálfandi. Honum var minna í hug að sækja lampa en að látast sem hann ætlaði að sækja hann og fara þess í stað og fela sig á bak við bjórámuna í kjallaranum og koma ekki aftur fram fyrr en dvergarnir væru allir farnir burt. Þá varð hann þess var að söngurinn og tónarnir dóu út og þeir horfðu allir á hann gljáandi augum í myrkrinu.
„Hvert á að fara?“ spurði Þorinn og mátti heyra að hann hafði getið sér til um báða möguleikana í huga hobbitans.
„Ég ætlaði að fara og sækja svolítið ljós?“ sagði Bilbó afsakandi.
„En við viljum hafa skuggsýnt,“ sögðu Dvergarnir einum rómi! „Svartamyrkur til samsæris! Og enn líða margar stundir fram til dögunar.“
„Jájá, að sjálfsögðu!“ sagði Bilbó og ætlaði strax að setjast aftur. En í fátinu hitti hann ekki á kollinn sem hann hafði setið á heldur lenti á aringrindinni og skellti til skörungnum og kolaskóflunni svo glumdi við.
„Þeyþey!“ sagði Gandalfur. „Það er best að Þorinn hafi orðið!“ Og þannig hóf Þorinn máls.
„Kæri Gandalfur, Dvergar mínir og herra Baggi! Við komum hér saman í húsi vinar okkar og væntanlegs samsærismanns, hins ágæta og hugumdjarfa hobbita — megi hárin á tám hans halda áfram að vaxa! Þökk sé fyrir vín hans og öl!“ Hér þagnaði hann við sem snöggvast til að ná andanum og bíða eftir væntanlegum kurteislegum viðbrögðum hobbitans. En skjallið verkaði ekki vitund á vesalings Bilbó Bagga sem gerði ekki annað en bæra varirnar til að mótmæla því, að hann væri nokkuð hugdjarfur og enn síður vildi hann láta kalla sig samsærismann. En ekkert hljóð kom fram yfir varir hans, því að hann var svo kolruglaður að hann vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera. Svo að Þorinn hélt áfram:
„Við erum hér saman komnir til að ræða áætlun okkar, leiðir, aðferðir, stefnu og framkvæmd. Áður en dagur lýsir munum við leggja upp í leiðangurinn mikla, og úr þeirri löngu ferð má vera að sumir okkar snúi aldrei aftur, jafnvel engir (nema kannski vinur okkar og ráðgjafi, hinn ráðsnjalli vitringur Gandalfur). Þetta er hátíðleg stund. Markmið okkar, býst ég við að sé okkur öllum kunnugt. Þó er hugsanlegt að við þurfum lítillega að útskýra það fyrir hinum virðulega herra Bagga og fáeinum hinum yngri dvergum (þar á ég við Kjalar og Fjalar) hvað við höfum nákvæmlega í sigtinu — “
Þannig var ræðustíll Þorins. Hann var mikilsháttar dvergur. Hann hefði getað, ef hann fengi það, haldið áfram að masa í þessum dúr, endalaust þangað til allt loft væri úr honum, án þess að segja nokkuð sem allir hinir ekki vissu. En nú varð hann fyrir óþægilegri truflun. Vesalings Bilbó stóðst ekki lengur mátið. Við orðin að jafnvel engir myndu snúa aftur, var sem óstöðvandi neyðaróp risi upp innra með honum og áður en hann réði við nokkuð braust það út um barkann eins og eimpípa á járnbrautarlest sem er að koma út úr jarðgöngum. Dvergarnir hrukku svo við að þeir felldu borðið um koll. En Gandalfur sló blátt ljós á enda töfrastafsins og í leiftrunum frá því mátti sjá vesalings hobbitann liggjandi á hnjánum á arinmottunni, titrandi eins og bráðnandi búðingshlaup. Svo féll hann kylliflatur á gólfið og æpti í sífellu „sleginn eldingu, sleginn eldingu“. Og meira fengu þeir ekki langalengi upp úr honum. Svo þeir tóku hann og báru yfir á sófann í setustofunni, settu ölkollu við hlið hans og sneru síðan aftur til sinna kolsvörtu samsæra.
„Taugaveiklaður vesalingur,“ sagði Gandalfur um leið og þeir settust aftur. „Á vanda til að fá undarleg köst. Samt er hann einn þeirra bestu, já ég segi það, einn sá allra besti — getur orðið óður eins og dreki í sjálfheldu.“
Hafirðu einhvern tímann séð dreka í sjálfheldu, þá gerirðu þér að sjálfsögðu grein fyrir að það eru ekki nema skáldlegar ýkjur að ætla sér að líkja nokkrum hobbita við þau ósköp, jafnvel þó það hefði verið sjálfur langafabróðir Gamla Tóka, hinn voldugi Bolabrestur, sem var svo stórvaxinn (af hobbita að vera) að hann gat riðið stríðsfáki. Það var hann sem stýrði áhlaupinu gegn herjum dríslanna við Gramsfjall í Orustunni á Grænuvöllum og hjó höfuð konungs þeirra Golfhauss hreinlega af bolnum með trékylfu. Hausinn flaug hundrað metra um loftið og féll niður í kanínuholu. Þannig vannst orustan og til varð íþrótt sú sem við köllum Golf.
En nú var hinsvegar friðsamari afkomandi Bolabrests að rakna við í setustofunni. Eftir svolitla hvíld og vænan slurk af bjór skreið hann titrandi á beinunum að dyrum dagstofunnar. Og hvað skyldi hann hafa heyrt. Glóinn hafði orðið: „Uss!“ (Fyrirlitningarhljóð eitthvað í líkingu við þetta). „Haldiði að það sé nokkurt gagn í þessu viðrini? Það vantar ekki að Gandalfur lætur mikið af honum, hvað hann sé kröftugur, en eitt öskur eins og þetta á örlagastund, myndi vekja hvaða dreka sem er og allt hans lið, svo að þeir gætu drepið okkur alla. Mér heyrðist það líka miklu fremur vera skelfingaróp en kraftaöskur. Ég verð bara að segja, að ef ég hefði ekki séð merkið á dyrum hans, þá væri ég viss um að ég hefði farið húsavillt. Og að horfa upp á þennan ræfil, skjálfandi á beinunum á arinmottunni, þá leist mér ekkert á blikuna. Hann líkist meira einhverjum mangara en almennilegum innbrotsþjófi.“