Выбрать главу

„Ha, ha!“ var hrópað. „Hérna er gamli þrjóturinn með hausinn ofan í krús! Hann hefur verið hérna að halda sína eigin hátíð með vini sínum varðliðsforingjanum.“

„Skekið hann! Vekið hann!“ hrópuðu hinir óþolinmóðir.

En Galíon var síður en svo hrifinn af því að láta skekja sig og vekja og ekki batnaði það við að þeir hlógu að honum. „Þið komið alltof seint,“ nöldraði hann. „Hér látið þig mig bíða og bíða eftir ykkur, meðan þið sitjið uppi að sumbli, skemmtið ykkur og gleymið skylduverkum ykkar. Það er engin furða þótt ég sofni útaf í biðinni.“

„Nei, vissulega er það engin furða,“ svöruðu þeir, „þegar skýringarnar liggja hér á borðinu hjá þér í vínkönnunni! Svona lofaðu okkur nú að smakka á svefnlyfinu áður en við dettum líka út af! Engin þörf að vekja lyklapéturinn þarna. Hann virðist hafa fengið meira en sinn skammt eftir útlitinu að dæma.“

Svo drukku þeir einn hring og urðu skjótt afar kátir og galsafengnir. Þeir misstu þó ekki alveg stjórn á sér. „Hvað er nú þetta Galíon!“ æptu sumir, „þú hefur byrjað þína hátíð æði fljótt og drukkið vitið frá þér! Þú hefur sett hér nokkrar fullar tunnur í stað tómra, þær eru að minnsta kosti þyngri.“

„Hvaða vitleysa, haldið bara áfram með verkið!“ urraði ráðsmaðurinn. „Það er ekkert að marka þó svona hífaðir og hálffullir lyppingar þykist finna þyngdina meiri. Þetta eru allt tunnur sem eiga að fara og engar aðrar. Gerið eins og ég segi!“

„Jæjaþá, jæjaþá,“ svöruðu þeir og veltu tunnunum að opinu. „Það verður þá á þína ábyrgð ef fullum smjörtunnum og besta víni konungsins er varpað í ána, svo að Vatnabúar geti haldið veislu í því ókeypis!“

Veltum og veltum og vöggum vínámum og köggum. Tökum þennan tunnufans, tómar skulu þær stíga dans. Látum þær léttar gossa, niður flúðir og fossa, fljótandi hoppa og hossa á farleið til framandi lands.

Þessa vísu sungu þeir með fyrstu tunnunni og veltu síðan þeirri næstu að dimmu opinu og létu hana gossa fram af brúninni út í ískalt vatnið nokkrum fetum neðar. Sumar tunnurnar voru raunverulega tómar, aðrar með einum dvergi í hnipri, en allar duttu þær niður hver á eftir annarri og rákust saman með skellum og smellum. Það glumdi í þeim þegar þær komu niður á tunnum sem á undan voru komnar, skvompuðu í vatninu eða rákust utan í klettaveggi rásarinnar, hver um aðra þvera og hoppuðu og skoppuðu niður strauminn.

Þá allt í einu uppgötvaði Bilbó veika hlekkinn í allri áætlun sinni. Líkast til eruð þið fyrir löngu búin að sjá hann og byrjuð að hlæja að mistökum hans. Samt er ég ekki viss um að þið hefðuð staðið ykkur eins vel í stykkinu í hans sporum. Auðvitað var hann sjálfur ekki í neinni tunnu, enda enginn til að pakka honum niður, þó hann hefði haft hana. Og nú rann það upp fyrir honum að ekki var annað sýnt en að hann myndi missa af öllum vinum sínum í þetta skiptið (þeir voru næstum allir horfnir niður um dimmar fellidyrnar).

Hann væri þá sjálfur algjörlega einn og yfirgefinn og yrði víst að sitja eftir í felum sem eilífur innbrjótur í álfahellinum. Því að enda þótt hann slyppi út um efra hliðið í skyndi, voru harla litlar líkur á að hann gæti haft upp á dvergunum aftur. Hann rataði heldur ekki landleiðina út á nesið þangað sem tunnunum væri safnað saman. Líka hafði hann áhyggjur af því hvernig í ósköpunum færi þá fyrir dvergunum án hans, því að hann hafði ekki haft tíma til að segja þeim nema undan og ofan af öllu því sem hann hafði komist að, eða hvað hann hafði í hyggju þegar þeir væru allir komnir út úr skóginum.

Meðan allar þessar hugsanir hringluðu í huga hans, héldu kátir álfarnir áfram að syngja sína gleðisöngva við falldyrnar út að ánni. Sumir voru farnir að undirbúa að toga í kaðlana sem lyftu upp fallgrindunum við vatnshliðið til að hleypa tunnunum út, eftir að þær væru allar komnar á flot.

Látum fljóta um svalan seim, siglið nú til baka heim. Kveðjið falda konungs höll, kveðjið norræn bröttufjöll. Burt úr helli grettum, grám greiðið för und skógi hám, – og nú liggur leiðin hvert? Loftið undir vítt og bert. Framhjá sefi og framhjá reyr, framhjá bökkum líður þeyr. Í þokumóðu augum blínd ætli hún verði alveg týnd. Horfið upp um stjörnu stig, í straumi mættu þær spegla sig. Dreymið þegar dagur rís um dýrðarinnar paradís En þá er sveigt í suðurátt, þar sólin skín á himni hátt. Þangað sem allar þagna þrár og þrungna gullin tár Látið fljóta um svalan seim, siglið nú til baka heim. Kveðjið falda konungs höll kveðjið norræn bröttufjöll.

Nú voru þeir að velta síðustu tunnunni að falldyrunum! Í örvæntingu sinni og algeru ráðaleysi um hvað hann ætti til bragðs að taka, greip vesalings litli Bilbó til þess ráðs að ná taki á henni og láta sig gossa með henni þegar henni var ýtt fram af brúninni. Svo féll hún niður í vatnið, splass! niður í kuldann og dimmuna og auðvitað lenti hann undir henni.

Hann kom aftur úr kafi spúandi og frussandi og hélt traustataki í tunnukantinn eins og rotta, en hvað sem hann reyndi gat hann ekki klöngrast upp á tunnuna. Í hvert skipti sem hann reyndi það, snerist hún um koll og kaffærði hann aftur. Tunnan var raunverulega tóm og flaut létt sem korktappi á öldunum. Þó hann væri með hlustirnar fullar af vatni, heyrði hann enn til álfanna syngjandi í kjallaranum fyrir ofan. Þá var fellidyrunum skyndilega skellt aftur með dynk og raddirnar þögnuðu. Hann var í dimmum neðanjarðarfarvegi, fljótandi í ísköldu vatni, aleinn, því að ekki var treystandi á vini sem pakkað hafði verið niður í tunnur.

Brátt móaði fyrir grámabletti í stað myrkurs framundan. Hann heyrði ískrið í vatnshliðinu þegar byrjað var að hífa hliðgrindurnar upp og hann var allt í einu í miðri hringiðu innan um hoppandi og skoppandi tunnur sem þyrptust saman áður en þeim var sleppt undir bogann og út í opinn strauminn. Hann mátti standa í ströngu til að forðast árekstra og meiðsli, en loksins fór þessi hriktandi hrúga að leysast í sundur og tunnurnar að dreifast hver á eftir annarri undir steinbogann og síðan burtu. Þá sá hann að það hefði ekki verið hollt fyrir hann ef honum hefði tekist að klifra upp á tunnuna, því að svo var lágt undir brún hliðopsins að alls ófullnægjandi hefði verið jafnvel fyrir lítinn hobbita.

Út komust þeir og bárust með straumnum milli slútandi trjágreina á báðum bökkum. Bilbó reyndi að gera sér í hugarlund hvernig dvergunum liði og hvort mikið vatn hefði komist í tunnur þeirra. Sumar sem skoppuðu áfram við hlið hans sátu æði lágt í og taldi hann víst að í þeim sætu dvergarnir.