„Ég vona bara að ég hafi fest lokin nógu þétt á!“ sagði hann, en eftir það hafði hann meiri áhyggjur af sjálfum sér, svo hann gleymdi dvergunum. Honum tókst að halda höfðinu upp úr ánni en hríðskalf af kulda og var farinn að óttast að hann myndi deyja áður en úr rættist eða hvort hann ætti kannski að hætta á að sleppa taki á tunnunni og reyna að svamla upp að bakkanum.
En brátt vænkaðist hagur hans, þegar hvirfilstraumur bar margar tunnur upp að bakkanum á einum stað og þær stóðu fastar á einhverri falinni rót. Bilbó greip þá tækifærið og klöngraðist upp hliðina á sinni tunnu meðan hún studdist stöðug við aðra tunnu. Hann krafsaði sig upp eins og hálfdrukknuð rotta og lagðist endilangur á lokið til að halda jafnvægi eftir bestu getu. Vindurinn var kaldur en þó ekki eins napur og vatnið og hann vonaðist til að velta ekki út af, þegar þær færu aftur af stað.
Áður en langt um leið losnuðu tunnurnar og snerust og rugguðu með straumnum niður ána og út í aðalstrenginn. Þá varð hann aftur að hafa sig allan við að halda sér uppi, og tókst það einhvern veginn, þó ekki færi vel um hann. Sem betur fer var hann mjög léttur og þetta var auk þess óvenjulega stór og mikil áma, svolítið lek og búin að taka í sig dálítið vatn. Allt að einu var þetta einna líkast því að reyna að halda sér án beislis eða ístaða á bakinu á belgmiklum smáhesti sem var að fara að velta sér í grasinu.
Þannig bar herra Bagga fram með straumnum þar til trjágróðurinn á bökkunum fór að þynnast og hann fór að sjá til fölari himins inn á milli. Dimm kvíslin opnaðist skyndilega upp á gátt og mætti meginstraumi Skógár í stríðum streng niður frá stórhliði konungs. Við tók dimmur vatnsflötur sem þó var ekki lengur yfirskyggður og í streymandi yfirborðinu var sem dönsuðu og brotnuðu í ljósbroti endurspeglanir skýja og stjarna. Hraðstreym vötn Skógár sendu allan þennan flota af kössum og tunnum áfram undir norðurbakkann þar sem iðan hafði holað út svolítinn flóa eða breiða vík. Fjaran var grýtt undir rofabökkum en að austanverðu stóð fram svolítill höfði úr hörðu bergi. Þar, á grynningum í fjörunni, rak flestar tunnurnar að landi, þó sumar ræki lengra og festust við höfðann.
Á bakkanum var fólk á verði. Þeir notuðu krókstjaka til að raða tunnunum saman á grynningunum, töldu þær, bundu saman en létu þær svo bíða þar til morguns. Vesalings dvergarnir, mikið hlaut þeim að líða illa að mega dúsa þar. En Bilbó hafði það ekki sem verst núna. Hann stökk af sinni tunnu og óð í land, svo laumaðist hann í áttina að einhverjum húsum sem hann kom auga á nálægt bakkanum. Hann hafði ekki lengur neinar vöflur á því að fá sér kvöldmat óboðinn, ef tækifæri gafst, var orðinn svo vanur því úr höllinni, og nú var hann farinn að kynnast því af eigin reynslu hvernig það er þegar hungrið sverfur að. Svo engin matvendni réð lengur ferðinni né siðavandur áhugi matgæðings á því besta úr búrinu. Og þegar hann kom auga á bjarma af útibáli einhvers staðar inn á milli trjánna sótti hann strax í hlýjuna svona rennblautur og hrakinn eins og hann var með fötin köld og slímug loðandi við sig.
Óþarfi er að rekja nánar ævintýri hans um nóttina, því að nú nálgast lok austurferðarinnar gegnum skóginn og þar með fer að hefjast síðasta og mesta ævintýrið svo við skulum fara hratt yfir sögu. Vissulega kom töfrahringurinn honum nú að gagni sem áður, fyrst í stað, en svo urðu blaut fótsporin og slettuslóðin hvar sem hann fór eða settist, til að koma upp um hann. Ekki batnaði það heldur þegar hann byrjaði að hnerra og hvar sem hann reyndi að fela sig komu ægilegar hnerrasprengingar upp um hann, þó hann reyndi að bæla þær niður. Áður en við var litið komst allt í uppnám í þorpinu á árbakkanum, en Bilbó slapp þó inn í skóginn með brauðhleif og vínbelg og kjötböku sem hann stal. Það sem eftir var nætur varð hann að hafast við blautur eins og hann var og fjarri eldinum en best yljaði þá vínbelgurinn. Honum tókst jafnvel að sofna svolítið á þurru laufi þótt liðið væri langt fram á haust og orðið kalt í lofti.
Hann hrökk aftur upp við sérlega háan og glymjandi hnerra í sjálfum sér. Það var að birta af degi og mikið um að vera við ána. Þeir voru sem óðast að tengja tunnurnar saman í flota og brátt myndu flotálfarnir stýra flekanum niður til Vatnaborgar. Aftur hnerraði Bilbó. Hann var ekki lengur votur en var þó kalt inn í merg og bein. Hann skakklappaðist niður bakkann eins hratt og stirðir fæturnir gátu borið hann og tókst rétt á síðustu stundu að klöngrast út á tunnuflekann án þess að eftir honum væri tekið í öllum skarkalanum. Sem betur fer var ekkert sólskin til að birta óþægilegan skugga af honum og til blessunar hnerraði hann ekki aftur lengi vel.
Nú var stjakað sterklega burt frá eyrinni með botnstjökum. Álfarnir sem stóðu á grynningunum lyftu og ýttu. Tunnurnar voru nú allar tengdar saman og brakaði og glumdi í þeim.
„Þær eru furðulega þungar í sér núna,“ sagði einhver nöldurskjóðan. „Þær liggja alltof djúpt í — sumar hafa ekki verið tæmdar. Ef þær hefðu komið upp að bakkanum í dagsljósi, hefðum við átt að skoða í þær,“ sögðu þeir.
„Nei, það er enginn tími til þess!“ hrópaði flotarinn. „†tið mér bara frá!“
Og loks var lagt af stað, silandi hægt í fyrstu, þangað til þeir fóru framhjá klettahöfðanum þar sem fleiri álfar stóðu viðbúnir að ýta þeim frá með stjökum og svo hraðar og hraðar þangað til meginstraumurinn þreif þá og þeir flutu áfram niður í áttina að Vatninu.
Nú voru þeir sannarlega sloppnir úr dyflissu konungsins og burt úr skóginum, en þá var aðeins eftir að sjá, hvort þeir kæmu dauðir eða lifandi upp úr tunnunum.
X. KAFLI
Hlýjar viðtökur
Það birti og hlýnaði þegar kom fram á daginn og þeir flutu áfram eftir ánni. Bráðlega sveigði hún undir bratta fjallsöxl sem reis upp vinstra megin við þá. Þar, undir klettabelti sem minnti einna helst á fjallshamra, rann meginállinn í stríðum streng með bylgjum og boðaföllum. En skyndilega var það yfirstaðið og þeir voru komnir framhjá klettunum. Bakkarnir urðu lægri og á sama tíma fór trjánum fækkandi. Þá opnaðist fyrir Bilbó víðáttumikið útsýni.
Landið breiddi úr sér allt í kringum hann, nærsviðið var þanið út með árflaumnum sem dreifðist og sveimaði í hundruðum krókóttra ála eða hægðist í fenjum og tjörnum með ótal smáeyjum til allra hliða, en þó stöðugt með aflmikilli straumkvísl í miðjunni. Og þarna lengst í fjarska með dökkan kúfinn falinn í tættri skýjahettu gnæfði Fjallið yfir! Hann fékk þó ekki séð undirlöndin sem upp að því lágu í grenndinni í Norðaustri né uppblásnar auðnirnar allt í kring. Ekkert stóð upp úr nema fjallið þar sem það reis einmana og horfði yfir mýrafenin í áttina að skóginum. Fjallið eina! Bilbó var kominn langt að og hafði gengið í gegnum mörg ævintýri til þess að fá að sjá það, og nú leist honum ekki á blikuna.
Hann hlýddi á tal flotálfanna og úr orðum sem þeir létu falla dró hann saman ýmis upplýsingabrot. Hann komst að því að það væri einstæð heppni að hann skyldi svona í fyrsta skipti fá að sjá fjallið og það úr svo mikilli fjarlægð. Þótt fangavistin hefði verið óskemmtileg og stellingar hans óþægilegar (að ekki sé talað um vesalings dvergana þar undir honum í tunnunum) þá hafði hann verið heppnari en hann átti von á. Samræður flotálfanna snerust mest um viðskiptin sem fram fóru eftir vatnaleiðum, um aukna umferð eftir ánni eftir því sem vegasambandinu austan að Myrkviði hrakaði og gekk úr sér af notkunarleysi og um þræturnar milli Vatnamanna og Skógarálfa um viðhald á skipaleið Skógár og viðleguköntum hennar. Landið hafði tekið miklum stakkaskiptum og allt á hinn verri veg síðan dvergarnir bjuggu í Fjallinu en fólk var að mestu búið að gleyma þeim tímum nema sem óljósum og skuggalegum sögusögnum. Miklar breytingar höfðu jafnvel orðið á seinni árum eða frá því að Gandalfur hafði síðast fregnir af því. Í mikilli úrkomu með steypiregni höfðu stórflóð hlaupið í fljótin sem runnu til austurs og skollið á nokkrir jarðskjálftar (sem sumir kenndu drekanum um allt — og sendu honum kveðju með bölvi og heiftarsvip í átt til Fjallsins). Mýrarnar og fenin höfðu líka breiðst út í allar áttir. Vegaslóðar höfðu sokkið og fjöldi riddara og faranda sem ætluðu að komast leiðar sinnar sokkið í djúpar keldur. Jafnvel álfastígurinn gegnum skóginn sem dvergarnir höfðu fylgt samkvæmt ráðum Bjarnar Birnings, var nú orðinn vafasamur og fáfarinn við austurjaðar skógarins. Áin sjálf var nú orðin eina örugga samgönguleiðin út úr Myrkviði norðanverðum austur á sléttuna í skugga Fjallsins og fyrir fljótinu réð konungur Skógarálfanna.