Выбрать главу

Af öllu þessu mátti ráða að Bilbó hafði ekki verið svo mjög óheppinn, að hann skyldi þó rata á einu leiðina sem fær var. En líka hefði það verið honum nokkur hugarléttir, þar sem hann lá skjálfandi ofan á tunnunum, ef hann hefði vitað að Gandalfi höfðu nú, langt í fjarska, borist fregnir af ferðum þeirra og hafði svo miklar áhyggjur af þeim að hann hafði ákveðið að binda strax enda á önnur erindi sín (en út í þau förum við ekki í þessari sögu). Hann hafði þegar búið sig af stað til leitar að leiðangri Þorins. En um það hafði Bilbó ekki minnstu hugmynd.

Það eina sem hann vissi var, að þessi á virtist ætla að halda áfram endalaust og að hann var glorhungraður og kominn þar ofan í kaupið með afleitt nefkvef. Verst af öllu var þó að honum var ekkert um það gefið hvernig Fjallið eina grágretti sig á móti honum og ógnaði eftir því sem hann kom nær. En nokkru seinna tók áin hinsvegar suðlægari stefnu og Fjallið fjarlægðist aftur, meðan árbakkarnir urðu grýttari og klettóttari, og smám saman söfnuðust allar kvíslar í eina djúpa og þrönga rás sem æddi hvítfyssandi gegnum gljúfur.

Sólin var um það bil að setjast þegar Skógáin bar þá í nýjum sveig til austurs og út í Langavatn. Þar myndaðist víður ós með klettastólpum sem minntu á hlið til beggja handa en grýttar eyrar undir. — Langavatn! Bilbó hafði aldrei ímyndað sér að neitt vatn nema sjálft hafið gæti verið svo stórt. Það var svo breitt að hin gagnstæða strönd virtist ósköp smágerð og fjarlæg og svo langt var það, að norðurendi þess sem vísaði til Fjallsins eina var ekki sýnilegur. Bilbó vissi aðeins af kortum sem hann hafði séð, að lengst í norðri undir blikandi stjörnum Vagnsins myndi Hlaupá renna í vatnið norðan af Dal og ásamt með Skógánni mynduðu þær þessa voldugu uppistöðu, stöðuvatnið, þar sem áður hafði staðið djúpur hamradalur. Í suðurendanum fékk allt þetta volduga vatn loks framrás í háum fossum og streymdi hraðfleygt áfram til ókunnra landa. Í hljóðbærri kvöldkyrru mátti heyra fjarlægan fossniðinn.

Þeir þurftu ekki langt að róa út úr ósi Skógár til að koma að hinni undarlegu borg sem hann hafði heyrt álfana í kjallara konungs tala um. Hún stóð ekki á ströndinni, þó þar væru einnig nokkrir kofar og byggingar, — heldur úti í vatninu, þó varin fyrir straumkasti árinnar af klettanefi, en bak við það myndaðist kyrr flói. Voldug brú gerð úr timbri lá út þangað á gildum stólpum gerðum úr heilum viðarbolum og þar úti hafði borgin verið reist öll úr timbri, þessi iðandi starfsama borg. Hún var þó ekki borg Álfa, heldur reistu hana Menn, sem enn áræddu að búa hér í skugga hins fjarlæga drekafjalls. Þeir stunduðu enn með góðum árangri viðskipti með skipum upp eftir stórfljótinu úr Suðri, en þá þurfti að flytja varninginn landleiðina upp með fossunum til borgar þeirra.

En til forna, á velmektardögunum á Dal í norðri, höfðu borgarbúar verið vellauðugir og voldugir og þá sigldu heilu flotarnir um vatnið og árfarvegina, sumir hlaðnir gulli, aðrir með hópa stríðskappa. Þá voru háð stríð og hetjudáðir drýgðar sem nú voru orðnar einskærar sagnahefðir. Enn mátti sjá fúnandi rústir stærri borga við ströndina þegar sjatnaði í vatninu í þurrkum.

Enn rak fólk lítt minni til þess, þótt sumir héldu áfram að kveða fornar kviður um dvergakonungana undir Fjallinu, þá Þrór og Þráin af ætt Durins, eða um komu drekans og fall höfðingjanna af Dal. Sumar kviðurnar spáðu því líka að Þrór og Þráinn mundu aftur snúa einn góðan veðurdag og þá myndi gull aftur streyma sjálfrennandi í fljótunum út um fjallahliðin og allt landið yrði aftur ómandi af ungum söng og björtum hlátri. En þessar fögru sagnahefðir höfðu annars lítil sem engin áhrif á óumbreytanlegt daglegt líf þeirra.

Strax og tunnuflotinn kom í ljós fyrir höfðann var bátum róið til móts við hann út frá stólpum borgarinnar og flekaræðurunum heilsað með kveðjuhrópum. Þá var köðlum kastað og árar knúðar og bráðlega var flotanum mjakað út úr straumkastinu frá Skógá og hann tekinn í tog út fyrir háa klettahöfðann og inn á víkina við Vatnaborg. Þar var hann lagður við stjóra ekki langt frá brúartaglinu við ströndina. Síðan var til þess ætlast að kaupmenn úr suðurvegi kæmu og tækju sumar tunnurnar til baka en fylltu aðrar með varningi sem aftur skyldi róið með upp eftir fljótinu til Skógarálfanna. En nú varð nokkur bið á því og tunnurnar voru skildar eftir einar á floti meðan álfarnir af flekanum og bátsmennirnir héldu til veislu í Vatnaborg.

En þeim hefði brugðið í brún ef þeir hefðu getað fylgst með því sem var að gerast þar í fjörunni, eftir að þeir voru horfnir frá og skuggar nætur fallnir. Fyrst losaði Bilbó um eina tunnuna, stjakaði henni upp í fjöruna og opnaði hana. Stunur heyrðust að innan og út skreið dvergur nokkur allur úr lagi genginn. Blautur hálmur var í tjásulegu skeggi hans. Hann var svo sár og stirður, svo laminn og lemstraður að hann gat varla staðið á fótunum né vaðið í land úr grunnu fjöruvatninu, til þess eins að leggjast veinandi í fjöruna. Á sér hafði hann sérkennilegan sultarsvip og villigrimmd hunds sem hefði verið hlekkjaður og gleymst í hundakofa í heila viku. Þetta var sjálfur Þorinn, en hann var aðeins þekkjanlegur af gullkeðjunni og af litnum á óhreinni og snjáðri himinblárri hettu hans með sínum sölnaða silfurskúfi. Það leið meira að segja löng stund áður en hann gat yrt á hobbitann hvað þá sýnt honum viðeigandi kurteisi.

„Jæja, hvort ertu þá dauður eða lifandi?“ sagði Bilbó önugur yfir ókurteisinni. En það var ekki sanngjarnt, því að sjálfur hafði hann þó fengið heila máltíð fram yfir alla dvergana og auk þess getað liðkað bæði hendur og fætur, að maður ekki tali um að hann hafði nóg loft. Svo bætti hann við: „Heldurðu að þú sért enn í fangelsi eða viltu verða frjáls? Ef þú vilt fá eitthvað að borða og ef þú vilt endilega halda áfram þessu bjánalega ævintýri — þá er það þitt en ekki mitt mál — en þér væri nær að reyna að sveifla handleggjunum og nudda fæturna og reyna að hjálpa mér við að leysa hina út, meðan enn er tækifæri til þess!“

Auðvitað sá Þorinn að þetta var eina vitið, svo að eftir fáeinar stunur til viðbótar, staulaðist hann á fætur og rétti hobbitanum hjálparhönd eftir bestu getu. Þeir áttu fyrir höndum erfitt og andstyggilegt verk þarna svamlandi í ísköldu vatni í myrkrinu við að finna réttu tunnurnar. Með því að berja þær að utan og kalla, fundu þeir aðeins sex dverga svarafæra. Þeim var hleypt út og hjálpað í land og þar lögðust þeir líka fyrir endilangir, muldrandi og stynjandi. Þeir voru svo blautir og meiddir og krepptir að þeir gátu varla skilið að þeir væru lausir úr prísundinni né þakkað réttilega fyrir frelsunina.