Dvalinn og Balinn virtust verst farnir og var til einskis að biðja þá um að taka til hendi. Bifur og Bógur höfðu ekki kastast eins til í sínum tunnum og voru þurrari, en þeir lögðust líka niður aðgerðalausir. Fjalar og Kjalar sem voru ungir (af Dvergum að vera) og hafði líka verið komið betur fyrir með nógu stoppi í minni tunnum, komu hins vegar út næstum því brosandi út að eyrum með einni eða tveimur skrámum og stirðleika sem fljótt fór af.
„Ég vona bara að ég þurfi aldrei framar að finna lyktina af eplum!“ sagði Fjalar. „Mín tunna var full af eplum. Og það gerir mann brjálaðan að finna eplalyktina stöðugt á sama tíma og maður getur varla hreyft sig, er ískalt og glorhungraður. Ég gæti nú borðað hvað sem er í allri veröldinni — nema ekki epli!“
Með góðfúsri hjálp Fjalars og Kjalars tókst þeim Þorni og Bilbó að lokum að finna alla sem vantaði í hópinn. Vesalings fitukeppurinn hann Vambi var steinsofandi og meðvitundarlaus. Dóri, Nóri, Óri, Óinn og Glói voru gegnblautir og varla lífsmark með þeim. Það varð að bera þá hvern um sig og leggja þá bjargarlausa á ströndina.
„Jæja, hér erum við þá allir mættir!“ sagði Þorinn. „Og ég geri ráð fyrir að við stöndum í mikilli þakkarskuld bæði við heillastjörnu okkar og herra Bagga fyrir björgunina. Því verður ekki á móti mælt að hann á fulla kröfu á þakklæti, þó betra hefði verið ef hann hefði gert okkur ferðina þægilegri. En allt að einu — við erum þér allir ákaflega þjónustufúsir, herra Baggi. Vonandi verðum við af sjálfum okkur ennþá þakklátari þegar við höfum fengið að borða og förum að ná okkur eftir hnjaskið. En á meðan, hvað er næst á dagskrá?“
„Ætli það sé ekki Vatnaborg?“ sagði Bilbó. „Hvað annað ætti það líka að vera?“
Engin önnur hugmynd kom heldur upp. Svo að þeir Þorinn, Fjalar og Kjalar og hobbitinn héldu eftir fjörunni upp að stóru brúnni. Við aðganginn að henni var varðstöð, en verðirnir kærulausir á vaktinni, því að svo langt var um liðið síðan varðstaðan skipti nokkru máli. Þeir voru bestu vinir Skógarálfanna nema stundum skarst í odda milli þeirra vegna tímabundinna deilna um fljótatolla. Aðrar þjóðir voru langt í fjarska og yngra fólkið í borginni var jafnvel farið að draga opinberlega í efa að nokkur dreki hefðist við í Fjallinu og gerðu gys að gráskeggjum og öðrum gamlingjum sem þóttust á unga aldri hafa séð hann fljúga um himininn. Að öllu þessu athuguðu þurfti ekki að koma á óvart þótt verðirnir við brúartaglið væru að drekka og skemmta sér við eldinn í varðkofa sínum og heyrðu ekki höggin þegar dvergarnir voru að skríða úr skjóli né fótatak þessara fjögurra snuðrara. Þeim brá því heldur en ekki í brún þegar Þorinn Eikinskjaldi steig skyndilega inn úr dyrunum.
„Hver ert þú og hvað viltu?“ hrópuðu þeir, stukku á fætur og gripu til vopna sinna.
„Ég er Þorinn, sonur Þráins sonar Þrórs konungs undir Fjalli!“ sagði dvergurinn með þrumandi röddu og sýndist vera hinn mesti kappi, þrátt fyrir gauðrifin föt og upplitaða hettu. Gull glitti um háls honum og mitti. Augun voru dimm og djúp. „Ég er kominn aftur. Ég vil hitta Borgarstjóra ykkar!“
Úr því varð ægilegt uppnám. Sumir þeir fáráðustu hlupu úr varðstöðinni til að gá að því, hvort Fjallið yrði ekki að gulli á einni nóttu og árnar ummynduðust í streymandi glómálm. Varðliðsforinginn steig fram.
„Og hverjir eru þessir?“ spurði hann og benti á Fjalar og Kjalar og Bilbó.
„Tveir eru systursynir mínir,“ svaraði Þorinn. „Þeir eru Fjalar og Kjalar af Durinsætt eins og ég, hinn er herra Baggi sem hefur verið fylgisveinn okkar úr Vestrinu.“
„Ef þið farið með friði, skuluð þið tafarlaust leggja niður öll vopn!“ sagði foringinn.
„Við erum óvopnaðir,“ sagði Þorinn og það var raunar dagsatt, því að Skógarálfarnir höfðu tekið af þeim alla hnífa og þar á meðal líka hið mikla sverð Orkristuna. Bilbó hafði að vísu stutt sverð sitt, falið eins og venjulega undir klæðum en hafði ekki orð á því. „Við þörfnumst engra vopna, þegar við snúum loks við til heimahaga okkar eins og sagt hefur verið til forna. Enda gætum við ekki barist við svo marga. Færið okkur til Borgarstjórans!“
„En hann situr að veislu,“ svaraði varðliðsforinginn.
„Því meiri ástæða er til að færa okkur til hans,“ tók Fjalar fram í, en hann var orðinn leiður á þessum formsatriðum. „Við erum útslitnir og örþreyttir eftir langa ferð og með okkur eru einnig veikir félagar. Láttu þetta nú ganga og eyddu ekki fleiri orðum í það eða Borgarstjórinn kynni síðar að þurfa að eiga nokkur alvarleg orð í eyra við þig.“
„Komið þá með mér,“ sagði foringinn og fylgdi þeim við sjöunda mann yfir brúna gegnum hliðin og inn á markaðstorg borgarinnar. Það reyndist vera víð hringkví með kyrru vatni umkringd háum stólpum sem stóðu undir miklum byggingum og með löngum trébryggjum sem lágu í ótal þrepum og stigum niður að yfirborði vatnsins. Frá einni stórbyggingunni lýsti mikil ljósadýrð og heyrðist margraddaður kliður af mannamáli. Þeir gengu inn um dyrnar, fengu í fyrstu ofbirtu af skærum ljósunum og horfðu eftir langborðum með þéttum röðum veislugesta.
„Ég er Þorinn sonur Þráins sonar Þrórs konungs undir Fjalli! Ég er kominn aftur!“ hrópaði Þorinn með glymjandi röddu frá dyrunum, áður en varðliðsforinginn gat nokkuð sagt.
Allir þustu á fætur. Borgarstjórinn stökk samstundis upp úr sínu stóra forsæti. En engir voru þó jafn undrandi og flotræðarar álfanna sem sátu yst í salnum. Þeir olnboguðu sig fram í gegnum mannmergðina að borði Borgarstjórans og hrópuðu:
„Þetta eru fangar konungs okkar sem hafa sloppið úr haldi, reikandi flækingar sem gátu enga skýringu gefið á ferðum sínum, laumuðust í gegnum skóginn og réðust á okkar fólk!“
„Er það rétt?“ spurði Borgarstjórinn. Satt að segja fannst honum sjálfum sú skýring miklu líklegri heldur en að hér væri um að ræða endurkomu konungsins undir Fjalli, hann efaðist jafnvel um að nokkur slíkur konungur hefði nokkurn tímann verið til.
„Það er rétt að álfakonungurinn hamlaði för okkar og fangelsaði okkur saklausa, á heimferð okkar,“ svaraði Þorinn. „En hvorki lásar né slár fá hindrað þá heimkomu sem kveðið er um í fornum fræðum. Ekki er þessi borg vonandi heldur undir valdi Skógarálfa. Ég ávarpa sjálfan Borgarstjóra þessarar Mannaborgar vatnsins, ekki flotaræðara konungsins.“
Þá kom hik á Borgarstjórann og hann leit til skiptis á þá. Álfakonungurinn var mjög áhrifamikill á þessum slóðum og Borgarstjórinn vildi ekki efna til neins fjandskapar við hann. Þar fyrir utan hafði hann engan áhuga á gömlum söngvum, þar sem hann hugsaði mest um viðskipti og tolla, um vöruflutninga og gull, og því átti hann að þakka stöðu sína. En margir voru á annarri skoðun og því var skjótlega leyst úr málinu án hans atbeina. Þessar fréttir frá salardyrunum breiddust út eins og eldur í sinu um alla borgina. Hróp hófust upp jafnt innan og utan dyra. Fram á bryggjurnar þrömmuðu óteljandi hraðstígir fætur. Sumir fóru að syngja brot úr hinum gömlu söngvum um endurkomu Konungsins undir Fjalli og það hafði síst verri áhrif á þá, þótt það væri sonarsonur Þrórs en ekki Þrór sjálfur sem kominn var. Æ fleiri tóku undir sönginn þangað til hann kvað við hátt og snjallt yfir vatninu.