Þannig sungu þeir eða eitthvað í þessa átt, nema kviðan var auðvitað miklu miklu lengri og inn á milli laust upp fagnaðarópum auk þess sem hörpuslagarar og fiðlarar léku undir. Aldrei í minni hinna elstu afa og langafa, hafði þvílík spenna og ákafi gripið um sig í borginni. Skógarálfarnir sem þarna voru staddir undruðust það mjög og urðu smeykir. Þeir höfðu auðvitað ekki minnstu hugmynd um hvernig Þorinn hefði sloppið úr fangelsinu og datt í hug að kannski hefði konungi þeirra orðið á einhver mistök. En af Borgarstjóranum var það að segja að hann sá sér þann kost vænstan að gangast undir hin almennu fagnaðarlæti, að minnsta kosti í bili og láta sem hann tryði því að Þorinn væri sá sem hann þættist vera. Samkvæmt því lét hann honum eftir sitt eigið volduga forsæti og skipaði þeim Fjalari og Kjalari til heiðurssæta sitt hvorum megin við hann. Jafnvel Bilbó fékk pláss við háborðið en engra frekari skýringa var krafist á tilkomu hans — enda var hvergi í söngvum einu sinni minnst á hann einu orði — og það fórst líka fyrir í öllu þessu allsherjar uppnámi.
Brátt voru hinir dvergarnir líka færðir inn í borgina og upp hófust fagnaðarlæti sem áttu sér engan líka. Allir gengust þeir undir læknisskoðun og fengu mat og húsaskjól og var leikið með þá á höndum sér á innilegan og fullnægjandi hátt. Þeir Þorinn og félagar fengu stórt hús til yfirráða, bátar og ræðarar voru þeim innan handar og mannfjöldi mikill flykktist utan að þeim og söng söngva allan liðlangan daginn og ráku upp hrifningaróp ef nokkur dvergur svo mikið sem rak út nefið.
Sumir söngvanna voru gamlir, en aðrir alveg nýir af nálinni og fjölluðu af fullkomnu raunsæi og sannfæringarkrafti um skyndilegan dauðdaga drekans og um allan þann mikla flutning ríkra gjafa sem bærust niður fljótið til Vatnaborgar. Borgarstjórinn stóð hvað mest að baki þeim skáldskap og voru dvergarnir ekkert sérstaklega hrifnir af því, en á sama tíma voru þeir mjög ánægðir með sinn hag og fljótir að safna holdum og styrkjast. Raunar höfðu þeir fyllilega náð sér eftir svo sem eina viku og þá voru þeir farnir að búast glitklæðum hver af sínum lit með skeggin kembd og snurfusuð og gerðust æði stoltir í framgöngu. Útlit og framkoma Þorins var svo stórlát að engu var líkara en að hann hefði þegar unnið konungdæmi sitt aftur og Smeyginn dreki væri þegar höggvinn í spað.
Þá fór líka, eins og hann hafði áður spáð, að álit og hlýhugur dverganna til litla hobbitans fór vaxandi með hverjum deginum sem leið. Nú heyrðist þar í hópi hvorki stuna né hósti gegn honum. Þeir drukku skál hans og klöppuðu honum á bakið og gerðu einhver ósköp með hann. Ekki veitti honum heldur af, því að hann var sjálfur mjög niðurdreginn. Hann fékk ekki máð úr huga sér myndina af fjallinu né hugsunina um drekann hræðilega og auk þess var hann að drepast úr skelfilegu kvefi. Í þrjá daga gerði hann ekkert annað en hnerra og hósta og hann mátti ekki fara út. Og lengi þar á eftir varð hann að takmarka ræður sína í veislum við: „Tabba ybbbur kæflega fybir.“
Á meðan höfðu Skógarálfarnir á flekanum haldið aftur upp Skógána með flutning sinn og varð þá allt í uppnámi í konungshöllinni. Annars hef ég aldrei frétt til fullnustu hvað varð um varðliðsforingjann né ráðsmanninn. En ekki heyrði ég minnst á lyklakippu né tunnur meðan dvergarnir dvöldust í Vatnaborg og einnig skal tekið fram að Bilbó var þá svo varkár, að hann forðaðist að gera sig nokkurn tímann ósýnilegan með hringnum. Samt held ég að meira hafi verið getið í eyðurnar en látið var uppi, því að Bilbó var alltaf dálítið leyndardómsfullur. Svo mikið er víst að álfakonungurinn gat sér nú til um erindi dverganna eða hélt að hann vissi það og hugsaði með sjálfum sér:
„Ojæja! Við sjáum nú hvað setur! Engir fjársjóðir munu sleppa til baka gegnum Myrkvið án þess að ég komi þar eitthvað við sögu. En annars býst ég svo sem við að þeir fái allir hörmulegan endi, sem er alveg maklegt á þá!“ Svo mikið var víst að hann hafði enga trú á því að dvergarnir gætu nokkurn tímann barist við eða drepið dreka eins og Smeyginn. Hitt fannst honum miklu líklegra að þeir myndu reyna að brjótast inn og stela fjársjóðum frá honum eða eitthvað í þá átt — sem ber þess vitni að hann var vitur álfur og vitrari en mennirnir í borginni. Þó hafði hann ekki alveg rétt fyrir sér, eins og við munum sjá að lokum. Hann sendi njósnamenn af stað um strendur Langavatns og svo langt norður á bóginn í áttina að Fjallinu eins og þeir fengust til að fara. Svo beið hann átekta.
Að hálfum mánuði liðnum fór Þorinn að huga að brottför. Hann sá að ekki mætti lengur við svo búið standa. Hann yrði að notfæra sér rétta tímann til að leita sér fulltingis, meðan hrifningin væri enn í hámarki í borginni. Ekki væri vænlegt að láta allt koðna niður við endalausar tafir. Hann gekk á fund Borgarstjórans og borgarráðs hans og tjáði þeim að nú vildi hann og félagar hans hið bráðasta halda af stað í áttina til Fjallsins.
Þá varð Borgarstjórinn í fyrsta skipti steinhissa og eilítið hræddur, fór jafnvel að velta því fyrir sér, hvort Þorinn gæti raunverulega verið afkomandi gömlu konunganna. Hann hafði aldrei ímyndað sér að dvergarnir myndu í rauninni neitt þora að nálgast Smeyginn, heldur hélt hann að þeir væru bara svindlarar og komast myndi upp um þá fyrr eða síðar. En þar hafði hann auðvitað á röngu að standa. Þorinn var að sjálfsögðu réttborinn sonarsonur gamla konungsins undir Fjalli og aldrei er að vita hvað dvergur þorir að gera eða tekur upp á til að ná hefndum eða ná fram rétti sínum.
En í rauninni var Borgarstjóranum ósárt um þó að þeir færu. Það var fokdýrt að halda þeim uppi og við komu þeirra hafði allt borgarlífið farið úr böndum og snúist upp í endalaust hátíðarfrí svo öll viðskipti höfðu stöðvast. „Best að leyfa þeim að fara og heimsækja Smeygin og sjá hvernig hann tekur á móti þeim!“ hugsaði hann. „Ójá, víst er það skiljanlegt Þorinn Þráinssonur Þrórssonar,“ sagði hann upphátt, „að þú viljir fara og gera tilkall til ríkis þíns. Stundin er upp runnin, eins og gamlir kveða. Við munum uppfylla hverja ósk þína þér til atbeina og vænta þakklætis þíns fyrir þegar þú hefur aftur unnið konungdæmi þitt.“
Því bar svo til tíðinda dag einn síðla hausts, þegar kaldir vindar gnauðuðu og laufin voru sem óðast að falla, að þrjú langskip héldu á brott frá Vatnaborg með fjölda ræðara, dvergana og herra Bagga innanborðs ásamt margvíslegum vistum. Klyfjahestar og smáhestar höfðu áður verið sendir af stað landleiðina eftir krókóttum hliðarstígum til að mæta þeim á hinum fyrirfram ákveðna lendingarstað. Borgarstjórinn og allt borgarráðið stóð þar á viðhafnarþrepum ráðhússins sem náðu allt niður að sjónum og óskuðu þeim góðrar ferðar. Gríðarlegur mannsöfnuður söng á bryggjunum og fólk tók undir út um hartnær hvern glugga. Hvítum árunum var dýft taktfast í kaf og freyddi af áratogunum. Stefnan var tekin í norður eftir vatninu í síðasta áfanga hins mikla leiðangurs þeirra. Sá eini sem var algjörlega miður sín var vesalings Bilbó.