XI. KAFLI
Á þröskuldinum
Í tvo daga reru Þeir linnulaust upp eftir Langavatni og héldu þar á eftir viðstöðulaust upp eftir Hlaupá. Nú sáu þeir allir Fjallið eina, gnæfandi grettið og grátt, fyrir framan sig. Árstraumurinn var strangur svo þeim sóttist seint. Við lok þriðja dags, þegar þeir voru komnir þó nokkrar mílur upp eftir ánni, lögðu þeir að vinstri eða vestari bakkanum og stigu í land. Hér var þeim mætt af klyfjahestum með margvíslegum vistum og nauðsynjum og smáhestunum til eigin nota, en allt hafði það verið sent landleiðina á móti þeim. Þeir félagarnir klyfjuðu hesta sína sem mest þeir máttu en hitt skildu þeir eftir sem vistir í nausti, en engir af þeim sem höfðu fylgt þeim úr borginni voru fáanlegir til að verða eftir með þeim, þó ekki væri nema eina nótt svo að segja í skugga Fjallsins.
„Ekki þá fyrr en söngvarnir hafa ræst!“ sögðu þeir. Þegar komið var út í Villulöndin var auðveldara að trúa á drekann og allt tregara að trúa dvergunum. Í rauninni þurfti enga varðgæslu um vistirnar, því allt landið var auðnin tóm. Svo að fylgdarmennirnir yfirgáfu þá hið bráðasta og reru á fleygiferð aftur niður strauminn eða riðu eftir strandstígum, þó myrkrið væri þegar tekið að færast yfir.
Nóttin var köld og einmanaleg og þá misstu þeir móðinn. Daginn eftir héldu þeir af stað þó þeim væri alveg hætt að lítast á blikuna. Balinn og Bilbó fóru aftast með tvo til reiðar, þar sem þeir teymdu þunghlaðna klyfjahestana, hinir fóru framar og skyggndust um eftir fjárgötum, en þær voru hvergi sýnilegar. Þeir stefndu í Norðvest og skásniðu landið upp frá Hlaupá og nálguðust æ meir heljarmikinn fjallsrana, sem vísaði suður á bóginn í áttina að þeim.
Þetta var ósköp þreytandi ferðalag, þögult og laumulegt. Hér kvað við enginn hlátur, söngur né hörputónar og nú fór að sluma í stoltinu og vonunum sem lifnað höfðu í brjóstum þeirra, þegar hinir gömlu söngvar voru kyrjaðir við raust í borginni og á bökkum Langavatns. Nú þrömmuðu þeir áfram, daufir í dálkinn. Þeim var meira en ljóst að nú leið að lokum leiðangursins og hætt við að þeir biðu þar hörmulegan endi. Landið umhverfis þá varð æ líflausara og auðara, meðan Þorinn lýsti fyrir þeim hvernig allt hefði forðum verið grænt og frítt. Lítið var um gras og brátt sást þar hvorki kjarr né tré, nema ef það voru brotnir og kolugir stubbar sem aðeins minntu á það sem áður hafði verið. Þeir voru komnir á Drekaauðnirnar og það var liðið langt á árið.
Þó náðu þeir undirhlíðum Fjallsins án þess að nokkrar ógnir yrðu á vegi þeirra né ummerki um Drekann, utan auðnirnar sem hann hafði rótað upp kringum bæli sitt. Fjallið reis dimmt og þögult fyrir framan þá og gnæfði æ hærra yfir þeim. Þeir settu upp fyrstu búðir sínar vestan í suðurrananum, en hann endaði í dálitlum klettamúla sem kallaðist Hrafnaborg. Uppi á henni hafði eitt sinn staðið varðstöð, en þangað þorðu þeir ekki að klífa af ótta við að það væri of áberandi.
Áður en þeir hófu leit í vesturhlíðum Fjallsins að hinum huldu dyrum, sem þeir byggðu alla sína von á, sendi Þorinn af stað njósnaflokk til að kanna sjálfa suðurhlíð fjallsins þar sem aðalhliðið var. Til þeirrar ferðar valdi hann Balin, Fjalar og Kjalar og auk þess fór Bilbó með þeim. Þeir örkuðu áfram undir gráum og þöglum hamrahlíðum að rótum Hrafnaborgar. Þar hjá rann áin eftir að hafa tekið breiða bugðu um Dal út frá Fjallinu á leið sinni niður í Langavatn, straumhörð og með miklum nið. Bakkarnir voru berir og klettóttir, og bar hátt og bratt yfir strauminn og þegar þeir störðu þaðan yfir þrengslin, freyðandi og hvissandi í stórgrýtinu, gátu þeir séð inn í hinn víða dal sem tveir ranar Fjallsins umkringdu og stóðu þar gráar rústir fornra húsa, turna og múra.
„Þar liggur allt sem eftir er af Dal,“ sagði Balinn. „Fjallshlíðarnar sem áður voru skrýddar grænum skógum og allur hinn skjólvæni dalur svo blómlegur og unaðslegur áður fyrr þegar allar bjöllurnar klingdu í bænum.“ Hann virtist svo dapur og sár af reiði, að hann mátti vart mæla. Hann hafði verið einn af félögum Þorins daginn sem Drekinn kom.
Þeir þorðu ekki fyrir nokkurn mun að fylgja ánni eftir nær Hliðinu, heldur lögðu krók á leið sína út fyrir endann á suðurrananum, þangað til þeir fundu sér stað til að leynast bak við klett en þaðan blasti þó við dimmt hellisopið í hrikalegu klettabelti innst inni í vikinu milli fjallsrananna. Út úr því opi spratt áin Hlaupá en líka lagði út gufu og óhugnanlegan svartan reyk. Enga hreyfingu var að sjá í auðninni nema gufuna og vatnsrennslið og við og við flugu hjá svartar og óhugnanlegar krákur. Eina hljóðið sem heyrðist var niðurinn í grýttri ánni og einstaka skrækjandi krunk fuglanna. Það fór hrollur um Balin.
„Snúum strax við til baka!“ sagði hann. „Hér fáum við hvort sem er ekkert að gert! Mér líst heldur ekkert á þessar kolsvörtu krákur, mér finnst þær vera eins og sendiboðar og snuðrarar hins illa.“
„Drekinn er þá enn á lífi og hefst við í sölunum undir Fjallinu — eða ég ímynda mér það eftir reyknum að dæma,“ sagði hobbitinn.
„Það þarf að vísu ekkert að sanna,“ sagði Balinn, „en samt efast ég ekki um að þú hafir rétt fyrir þér. Hann gæti verið fjarverandi um skeið, eða legið á verði úti undir fjallshlíðinni. Þó hann hafi vikið sér frá, býst ég við að gufa og reykur kæmi eins út um hliðið, því að allir salir fyrir innan eru sjálfsagt á kafi í fúlli stybbunni.“
Þeir sneru aftur í þungum þönkum til búða sinna og skrækjandi krákurnar fylgdu þeim flögrandi eftir. Það var ekki lengra síðan en í júní að þeir sátu í góðu yfirlæti í fögrum bústað Elronds í Rofadal. Nú var komið fram um veturnætur en strax var eins og þær ánægjustundir hefðu horfið út í buskann fyrir mörgum árum. Hér stóðu þeir einir á þessum ógnarinnar auðnum án þess að eiga von á nokkurri hjálp. Þeir voru komnir á leiðarenda, en virtust fjær því en nokkru sinni að ljúka erindi sínu. Þeim var fallinn allur ketill í eld.
Þó undarlegt mætti virðast gerðist herra Baggi nú þeirra borubrattastur. Hann fékk uppdrátt Þorins oft að láni og rýndi í hann, braut heilann um rúnastafina og merkingu mánaletursins sem Elrond hafði komið auga á. Og nú gekk hann fremstur fram í því að dvergarnir skyldu tafarlaust hefja sína hættulegu leit í vesturhlíðunum eftir leynihurðinni. Þeir færðu þá búðir sínar yfir í langan dalskorning, miklu þrengri en stóru kvosina að sunnanverðu þar sem Fljótshliðið vissi út, en hér voru lágir hamrar utan í Fjallsrananum. Tveir þeirra stóðu hér vestur úr meginfjallinu í löngum klettóttum hryggjum sem lágu vestur á sléttuna. Hér í vesturhlíðinni voru færri ummerki um eyðandi fótspor drekans og mátti jafnvel finna þar dálitla beit fyrir hestana.
Úr þessum búðum í vesturhlíðinni, sem lágu allan daginn í skjóli við kletta og hamravegg þar til sólin fór að hníga handan Myrkviðar, hófu þeir leitina og unnu baki brotnu í hópum við að finna einhvern stíg upp í hlíðina. Ef nokkuð væri að marka kortið, ættu hinar leyndu dyr að standa einhvers staðar hátt yfir klettabeltinu í dalbotninum. En dag eftir dag sneru þeir aftur í búðir sínar án árangurs.