Выбрать главу

Þá duttu þeir allt í einu og óvænt ofan á það sem þeir höfðu verið að leita að. Það vildi svo til að dvergarnir Fjalar og Kjalar fóru dag nokkurn með hobbitanum niður í dalinn og réðust til uppgöngu í klungrið að sunnanverðu. Um hádegisbil var Bilbó að klöngrast framhjá stórum kletti sem stóð þar upp eins og strýta.

Þá blöstu allt í einu við augum hans grófhlaðin steinþrep. Það hljóp einhver móður í hann og dvergana og þeir stukku ákafir upp þrepin og þar tók við einstigi sem þeir týndu og fundu til skiptis en slóðin lá upp á sunnanverðan ranann, þangað til þeir komu inn á mjóan hjalla sem lá lækkandi í fláa langt norður með fjallshlíðinni. Þegar þeim varð litið niður sáu þeir að þeir voru einmitt fyrir ofan klettabeltið í botni dalsins og fyrir augu þeirra bar einmitt tjaldbúðirnar fyrir neðan. Þeir héldu áfram þögulir, studdu sig við klettavegginn á hægri hönd og fetuðu sig í einfaldri röð eftir hjallanum, þangað til veggurinn líkt og opnaðist og þeir komu inn í svolítið vik eða skoru með bröttum veggjum, með grasi í botninn, kyrrlátt og þögult. Inngangurinn að því sást ekki að neðan vegna slútandi kletta og þá ekki heldur úr fjarlægð vegna þess hve vikið var þröngt og leit aðeins út eins og dimm sprunga og ekkert meira. Ekki var hérna um neinn skúta að ræða enda opið upp úr, en innst í vikinu reis upp flatur veggur, og neðan til við jörð var hann sléttur og lóðréttur eins og verk steinhöggvara, en á honum sáust þó hvergi samskeyti né sprungur.

Engin merki voru þar um dyrastafi, þverstykki né þröskuld og heldur ekki um þverslá, loku eða skáargat. Þó voru þeir ekki í neinum vafa um að þeir hefðu loksins fundið dyrnar.

Þeir börðu á vegginn, þrýstu og ýttu á hann, þeir grátbændu hann um að opnast, fóru með brot úr særingarþulum en ekkert haggaðist. Loks þreyttust þeir á þessu og lögðust til hvíldar í grasinu undir klettaveggnum og um kvöldið hófu þeir langt klifur aftur niður.

Það ríkti spenna í búðunum um nóttina. Morguninn eftir ráðgerðu þeir að fara aftur á kreik. Aðeins Bógur og Vambi voru skildir eftir til að gæta hestanna og vistanna sem þeir höfðu flutt með sér frá ánni. Hinir fóru allir niður um dalinn og upp eftir hinum nýfundna stíg og síðan allir í halarófu út á þröngu sylluna. En þeir gátu ekki tekið með sér neina pinkla eða poka út á hana, því að hún var svo mjó og svimandi há og ofan af henni fimmtíu metra fall niður í grýtta urð fyrir neðan, en hver um sig hafði með sér væna kaðalhönk sem þeir vöfðu um mitti sér, og þannig komust þeir slysalaust í litla grösuga klettavikið.

Þar settu þeir nú upp þriðju búðir sínar og hífðu upp með köðlunum allar þær nauðsynjar sem þeir töldu sig þurfa. Niður létu þeir svo aftur síga suma hinna fimari dverga, svo sem Kjalar, til að bera fréttir eða skiptast á um vaktina fyrir neðan, meðan Bógur var hífður upp í efri búðirnar. Vambi var ófáanlegur til að fara upp, hvorki með festinni né upp göngustíginn.

„Ég er of feitur fyrir svona línudans,“ sagði hann. „Mig svimar bara og misstíg mig á skegginu á mér og þá yrðuð þið þrettán aftur. Og þessi tjösluðu reipi eru alltof veik til að þola mig.“ Sem betur fer var þetta þó ekki rétt, eins og þið munuð bráðum fá að heyra.

Á meðan fóru sumir þeirra að kanna betur sylluna handan við vikið og komust raunar að því að slóðin lægi hærra og hærra upp á fjallið. En þeir þorðu ekki að fara langt upp eftir henni, enda tilgangslaust. Þegar ofar kom ríkti algjör þögn, ekki einu sinni rofin af fuglakvaki né öðru hljóði nema vindinum sem gnauðaði í steinvörðum. Þeir félagar töluðu í hálfum hljóðum, hrópuðu aldrei neitt né sungu, því að hætta gat leynst bak við hvern klett. Hinir sem eftir sátu í vikinu voru uppteknir af því að reyna að leysa gátur dyranna en varð lítt ágengt. Þeir voru enn alltof ákafir til að nenna að huga neitt að rúnunum eða mánaletrinu, en reyndu stöðugt og hvíldarlaust að uppgötva hvar nákvæmlega á sléttum klettaveggnum dyrnar gætu verið faldar. Þeir höfðu tekið með sér haka og allskyns verkfæri frá Vatnaborg og reyndu í fyrstu að beita þeim. En þegar þeir hjuggu í steininn splundruðust sköftin og skeindu þá á handleggjum og stálhausarnir brotnuðu eða bognuðu sem blý. Þannig sáu þeir greinilega að engin námutækni kom hér að neinu gagni við þá töfra sem lokuðu dyrunum. Þeim brá líka mikið í brún og urðu dauðhræddir vegna hávaðans og bergmálsins sem kvað við.

Bilbó fannst ósköp þreytandi og einmanalegt að sitja þarna á þröskuldinum — það var að vísu enginn þröskuldur þar í eiginlegri merkingu, þótt þeir kölluðu litlu grastóna milli veggjarins og og brúnarinnar „þröskuld“ í gamni en minntust líka orða Bilbós forðum í óvænta boðinu í hobbitaholunni, að þeir þyrftu ekki annað þegar á Fjallið kæmi en sitja á þröskuldinum og bíða nógu lengi þangað til þeim dytti eitthvað í hug. Nú sátu þeir hér og brutu heilann einhver ósköp en datt ekkert í hug eða reikuðu stefnulaust um, en urðu aðeins þeim mun heimskari og hugmyndasnauðari.

Víst höfðu þeir orðið yfir sig hrifnir þegar stígurinn fannst, en nú misstu þeir enn allan móð — með hjartað í buxunum og þó vildu þeir ekki gefast upp né yfirgefa staðinn. Nú virtist hobbitinn heldur ekki vera neitt hugkvæmari en dvergarnir. Hann gerði ekki annað en halla bakinu upp að klettaveggnum og stara eitthvað út í vestrið gegnum vikið, út fyrir sylluna og vestur yfir alla víðáttuna að dimmum vegg Myrkviðs. Í fjarskanum þar fyrir handan þóttist hann jafnvel sjá móa fyrir Þokufjöllum svo ótrúlega lágsigldum og fjarlægum. Þegar dvergarnir spurðu hvað hann væri að gera, svaraði hann:

„Þið sögðuð að mitt hlutverk skyldi vera að sitja á dyrahellunni og hugsa,, að ég ekki tali um að komast inn, svo hérna sit ég og hugsa.“ En hræddur er ég um að þá stundina hafi hann ekki verið mikið að hugsa um, hvernig hann gæti leyst verk sitt af hendi, miklu frekar að allur hugur hans hafi legið handan hinnar bláu fjarlægðar og leitað kyrrlátra Vesturlanda, Hólsins og hobbitaholunnar sinnar undir honum.

Stór grá steinhella lá þarna á miðri grastónni og hann starði í þungum þönkum á hana og virti fyrir sér stóru sniglana sem skriðu um hana. Þeir voru með kuðungahúsin sín á bakinu og virtust una sér sérlega vel í þessu lukta viki með svölum klettaveggjunum. Þeir voru óvanalega stórir og skriðu hægt og skildu eftir sig slímuga slóð bæði á hellunni og klettaveggjunum.

„Á morgun hefst síðasta vika sumars,“ sagði Þorinn allt í einu upp úr eins manns hljóði.

„Og á eftir sumri fylgir vetur,“ bætti Bifur við.

„Og á eftir þessu ári fylgir annað,“ sagði Dvalinn, „og þá verða skeggin á okkur orðin síðari, án þess að nokkuð gerist hér, þá lafa þau fram af brúninni og niður í Dalinn. Og hvað skyldi sosum innbrjóturinn ætla að gera fyrir okkur? Væri honum nú ekki nær úr því að hann ræður yfir ósýnilega hringnum og ætti, eins og nú er ástatt að leggja sig sérstaklega fram, að laumast inn um Framhliðið og reyna að snuðra þar svolítið!“

Bilbó heyrði til dverganna — þeir sátu á klettum rétt yfir vikinu þar sem hann húkti — „Ó, hjálpi mér bara!“ sagði hann við sjálfan sig, „svona eru þeir þá farnir að hugsa um mig, einmitt það? Alltaf er það aumingja ég sem á að bjarga þeim út úr öllum erfiðleikum, að minnsta kosti eftir að vitkinn hvarf. Hvað á ég nú til bragðs að taka? Ég hefði svo sem getað sagt mér það sjálfur að þetta myndi allt enda með ósköpum fyrir mig. En hvernig gæti ég afborið það að fara aftur og sjá hinn ógæfusama Dalbæ, hvað þá reykjarmökkinn út úr hliðinu! ! !