Þá um kvöldið var hann ósköp aumur og gat varla sofnað. Daginn eftir dreifðust dvergarnir í allar áttir. Sumir fóru að liðka hestana fyrir neðan, aðrir einfaldlega ráfuðu fram og aftur um fjallshlíðina. En Bilbó sat allan daginn í grösuga vikinu og starði til skiptis í eymd sinni á steininn eða til vesturs út um þrönga rifuna. Hann hafði undarlega tilfinningu fyrir því að hann væri eins og byrjaður að bíða eftir einhverju. „Skyldi Gandalfur snúa óvænt aftur í dag?“ hugsaði hann með sér.
Hvenær sem hann leit upp sá hann móta fyrir fjarlægum Myrkviði. Þegar sólin vatt sér í vestrið sá hann eins og gula sólarslikju leggjast yfir alla skógarþekjuna eins og ljósið gripi með fingurgómunum í síðustu fölu laufin. Brátt sá hann glóandi logahnött sólarinnar hníga að sjónarrönd. Hann stóð upp og gekk fram í opið og varð þess allt í einu var að örmjór fölur og daufur nýmáni var að fikra sig yfir jarðröndina.
Á sama augnabliki heyrði hann eitthvert snark fyrir aftan sig. Þar á gráu steinhellunni í grasinu stóð feikna stór þröstur, næstum kolsvartur, földröfnótt bringan öll í svörtum deplum. Krakk! Hann hafði þrifið snígil í gogginn og barði kuðungnum við steininn líkt og hann væri að knýja dyra. Krakk! Krakk!.
Skyndilega rann upp ljós fyrir Bilbó. Hann rauk til, — hirti ekki um neinar hættur heldur stóð tæpt fremst á syllubrúninni og kallaði til dverganna með háværum hrópum og veifaði til þeirra. Þeir sem næstir voru komu veltandi niður klettana, eins hratt og þeir gátu eftir syllunni til hans og skildu ekki hver ósköpin í öllum heiminum gengju á. Hinir fyrir neðan æptu og báðu um að láta hífa sig upp, (nema Vambi auðvitað: hann var sofandi).
Bilbó flýtti sér að útskýra allt. Þeir steinþögnuðu: Hobbitinn stóð þar við gráu helluna og dvergarnir fylgdust óþolinmóðir með honum og veifuðu lafandi síðskeggjunum. Sólin hneig neðar og neðar, en um leið hnigu vonir þeirra. Hún sökk niður í roðagullið skýjabelti og hvarf. Dvergarnir tuldruðu, en Bilbó stóð næstum hreyfingarlaus. Mjóa skarðatunglið var líka við það að snerta sjónhringinn. Kvöldið var komið. Þá skyndilega, þegar von þeirra var alveg að dvína og deyja út, gerðist það að einn eldrauður sólargeisli slapp eins og fingur gegnum rifu á skýjunum. Ljósgeislinn féll beint inn um rifuna á vikinu og á sléttan klettavegginn. Gamli þrösturinn sem fylgst hafði með öllu ofan af háum kletti, með bólgnum augum og höfði hallandi undir flatt, gaf skyndilega frá sér háværa trillu. Það kvað við hátt brak. Bergflaga klofnaði frá veggnum og hrundi niður. Skyndilega opnaðist hola í hana um þrjú fet frá jörðu.
Skjálfandi af ótta við að þeir misstu af tækifærinu, þustu Dvergarnir að klettinum og ýttu, en árangurslaust.
„Lykilinn! Lykilinn!“ æpti Bilbó. „Hvar er Þorinn?“
Þorinn þusti að.
„Lykilinn!“ hrópaði Bilbó. „Komdu með lykilinn sem fylgdi kortinu! Reyndu það meðan enn er tími til!“
Í því steig Þorinn nær og dró upp lykilinn á hálskeðjunni. Hann stakk honum í gatið. Hann snerist og gekk að! Snapp! Geislinn slokknaði, sólin seig niður og tunglið var horfið. Kvöldið tók á ný völdin á himninum.
Nú sameinuðu þeir alla krafta sína til að ýta — og hægt og hægt lét klettaveggurinn undan. Langar og beinar skorur birtust á fletinum og gleikkuðu út. Það mátti fara að greina útlínur hurðar sem var um fimm fet á hæð og mátuleg fyrir þrjá á breiddina og hægt og hljóðlaust opnaðist hún inn. Þá var engu líkara en að myrkrið flæddi eins og gufa út úr opinu í fjallshlíðinni og hyldjúpt myrkur, þar sem ekkert varð séð með augunum, kæmi á móti þeim eins og gapandi gin sem lá inn og niður í bergið.
XII. KAFLI
Merkilegar upplýsingar
Dvergarnir stóðu nú þarna langalengi í gættinni, störðu inn í dimmuna og ráðslöguðu fram og aftur, þangað til Þorinn loks tók til máls:
„Nú er tími til kominn fyrir okkar mikilsmetna herra Bagga, sem hefur reynst okkur svo góður félagi á langri leið, hobbitann sem er svo fullur af hugrekki og þreki langt fram yfir það sem ætla mætti af hans líkamsstærð, og ef mér leyfist að bæta því við — hefur til að bera óvenjulega heppni langt fram yfir venjulegan skammt, — já, hvar var ég? jú, nú er kominn tími til fyrir hann að framkvæma loksins þá þjónustu sem varð þess ráðandi að hann var valinn til þátttöku í flokki okkar, að eins og ég segi — nú er kominn tími til fyrir hann að vinna til sinna verðlauna.“
Jæja, þið ættuð öll að vera farin að þekkja ræðustíl Þorins á mikilvægum tímamótum, svo ég læt þetta nú nægja, þó hann ætlaði að vísu að halda töluvert lengra áfram en þetta. Vissulega var hér komið að mikilvægum tímamótum, en Bilbó lét sér fátt um finnast. Því að hann var nú líka farinn að þekkja á Þorin og vissi mæta vel að hverju hann stefndi.
„Ef þú átt við og ætlar að segja að mér beri fyrstum að læðast inn í leyniganginn, Ó Þorinn Þráinsson Eikinskjaldi, mætti skegg þitt vaxa æ síðan,“ sagði hann súr á svip, „ljúktu því þá af og láttu því vera lokið! Kannski neita ég því. Ég hef þegar lent í tveimur meiriháttar vandræðum, sem tæplega fylgdu með í upprunalega samkomulaginu, svo ég held að ég eigi nú þegar inni hjá ykkur töluverð verðlaun. En „allt er þá þrennt er,“ hafði faðir minn að orðtaki og ég held að ég geti einhvern veginn ekki fengið mig til að neita ykkur um neitt. Kannski er ég nú líka farinn að treysta meira á heppnina en ég gerði í gamla daga,“ — þar átti hann við síðasta vor, áður en hann lagði af stað að heiman, en það virtist nú hafa verið fyrir heilmörgum öldum — „hvað um það, þá held ég bara að ég slái til og sé reiðubúinn að fara og gægjast inn svo illu sé best aflokið. En hver ætlar að koma með mér?“
Hann bjóst nú sosum ekki við að undir tæki heill kór sjálfboðaliða, svo hann varð heldur ekki fyrir neinum sérstökum vonbrigðum. Fjalar og Kjalar voru hreinlega ámátlegir þar sem þeir stóðu báðir á einum fæti, pass! en hinir reyndu ekki einu sinni að bjóða sig fram — nema gamli Balinn, vörðurinn, sem alltaf kunni svo vel við hobbitann. Hann kvaðst reiðubúinn að fylgja honum eftir inn fyrir, að minnsta kosti smáspöl og skyldi vera viðbúinn að kalla á hjálp ef á þyrfti að halda.
Það verður þó að segja dvergunum það til afsökunar, að þeir voru vissulega ákveðnir í að greiða Bilbó örlátlega fyrir þjónustu hans. Víst höfðu þeir tekið hann með sér til að framkvæma leiðindaverk og þeim fannst ekki nema sjálfsagt að hann ynni það ef hann gæti. En þeir hefðu allir verið reiðubúnir að leggja sig í líma til að bjarga honum úr vandræðum ef hann rataði í þau eins og þegar hann lenti í tröllahöndum í byrjun ævintýrisins, án þess að þeir hefðu þá enn nokkra ástæðu til að vera á nokkurn hátt skuldbundnir honum.
Þannig er það nú einu sinni. Dvergar eru engar hetjur, heldur út undir sig og hafa mikið álit á gildi peninga. Sumir eru brögðóttir og prettóttir og geta raunar verið mestu óhræsi. Aðrir eru það hinsvegar ekki, heldur heiðarlegir og góðir drengir eins og Þorinn og félagar hans, ef ekki eru gerðar of miklar kröfur til þeirra.